Átvíti

Fra heimskringla.no
Hopp til: navigasjon, søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Átvíti


Aldrei má ólétt kona drekka vatn úr sama íláti sem jórturdýr hefur drukkið af, því að þá jórtrar barnið. Og er sagt, að því sé þannig farið með einstaka menn, sem hafa jórtrað.
   Aldrei má ólétt kona éta framan af tungu í kind, því að þá jarmar barn hennar. Eigi heldur eyra með annars marki, því að þá verður barnið þjófur. Sumir segja, að það verði hver sem gerir það. Ef ólétt kona étur ólánseyru, verður barnið kjöftugt og hún líka. Fleirri segja þó, að hver maður, sem gerir það, verði ólánsmaður.
   Ef maður sker bita frá sér, þegar maður étur, gerir maður rangt, og á þá fjandinn hann. Skal maður ætíð skera að sér.
   Enginn myndi dálkstirtlu öðrum bjóða, nema góð móðir barni sínu, ef hann vissi, hvað við ætti. Sumir segja þetta svo: Enginn skyldi sonarfisk frá sér gefa, sízt móðir barni sínu, ef hann veit, hvað við liggur, sagði álfkona, er kom þar að, sem móðir mataði barn sitt þunnildum. En sonarfisk segja menn innan í þunnildisbeinum, angildinu eða eyrugganum. Enda var það gömul trú, að hausfiskur eða dálksstirtlufiskurinn séu hollastir, og dálksstirtlan hafi 6 eða 7 náttúrur, og þunnildið sé sömuleiðis gott; píkustirtla og þykkildi óhollari. Því varð svo karlinum, sem át þykkildin og píkustirtlurnar úr fiski sínum, og lét kerling sína fá aðeins dálkstirtlurnar og þunnildin, að hann veslaðist og dó, en kerling lifði góðu lífi.
   Hjón nokkur héldu niðursetubarn og áttu annað barn sjálf, ámóta að aldri. Niðursetning gáfu þau dálka og þunnildi, en sínu barni þykkildin tóm. En svo fór, að þeirra barn varð óhraust og lítilsiglt, en niðursetningurinn varð mikill og merkur maður.
   Aldrei má standa á stöku við matarborð, því stöku tölurnar eru óheillatölur, einkum 7, 9, 13. Þegar einhver þessara talna verður við borð, eða hvar sem menn safnast saman, er það fyrirburður um það, að einhver þessara manna sé feigur, eða einhver hætta og ófarnaður bíði þar eins eða fleirri; því hefur sá siður verið í mörgum löndum að fjölga eða fækka um einn, svo að eigi stæði á vondri tölu, hvar sem hún kemur fyrir. Margir hafa þó mestan ímugust á tölunni 13 við borð. Þorðvarður læknir Kjerúlf þótti í öllu merkur maður og hafði á móti hindurvitnatrú. En eigi stóðst hann reiðari en ef borið var á borð fyrir 13 manns. Einu sinni sem oftar var margt fólk borðsett í stofu undir baðstofulofti þar að Ormarsstöðum. Han kastaði tölu á borðsáhöldin, sótroðnaði og gekk brott til konu sinnar og ávítaði hana fyrir það að breytta út af boði sínu og borðsetja 13 manns. Kom hann eigi að borðinu í það sinn, og sást misþykkja á honum.
   Ef ólétt kona étur mikið af illa verkuðum sævarmat, líkist fóstrið mjög þeim dýrum, sem fæðan er af, og jafnvel fleirum. Af því varð líka konu fiskimanns nokkurs. Þau lifðu mest á sjávarfangi og því oft illa verkuðu. Þau eignuðust nokkur börn, sem öll urðu vansköpuð, með fiskihaus, fuglshaus eða hundshaus. Þessi óburðir dóu líka skjótt. Höfðu börnin jafnan verið tekin frá henni, svo að hún fékk eigi að sjá þau. Þó komst hún fullkomlega að þessu að lokum, og spurði vitra menn, hvað ylli ósköpum þessum. Þeir sögðu fiskfæðuna valda og réðu hjónunum til að flytja í sveit. Gerðu þau það, eignuðust þau mörg börn og öll rétt sköpuð. Náskyld þessari kreddu er sú, er sannreynd þykir, að fóstur hvers dýrs líkist mest því, er auga móðurinnar hvíla mest á, þegar getnaður verður og jafnvel alltaf, meðan móðirin gengur með. Hvít jörð á brundtíð orsakar flest hvít lömb, en auð jörð mislit.