Æfintýri af Ajax keisarasyni

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Riddarasögur


Fjórar

Riddarasögur


Útgefnar

af

H. Erlendssyni og E. Þórðarsyni

Reykjavík 1852


Æfintýri af Ajax keisarasyni


Einn keisari rèð fyrir Rom, sá er Sýrus hèt; hann átti drottníngu þá, er Díonicía hèt. Hann átti þrjá sonu, hèt einn Phenix, annar Felix, þriðji Ajax. Hann setti þá tvo sonu sína í skola, Phenix og Felix, því hann unni þeim mikið. En Ajax unni hann litið, var hann þó foreldrum sínum hlýðinn, og vildi þeirra vilja í öllu gjöra, og mætti þó aungri blíðu af foreldrum sínum. Þar skal nú frá segja, að keisarinn fèkk mjög hættan sjúkdóm, hvern aungir lækna kunnu. En sem keisarinn sá, að sèr tók mjög að vaxa sjúkdómurinn, kallaði hann til sín syni sína, Phenix og Felix, og mælti: Eg hef feingið hættan kránkleika, sem einginn getur læknað, og fyrir því að eg hef ykkur heitt elskað og til sæmdar komið, ber ykkur til leita, ef þið kunnið nokkur ráð að fá, er mèr kynnu að hjálpa. Þeir bræður svara: þar þèr hafið gefið okkur orðlof til þessa og líka vegna yðar elsku, viljum vèr fúsir vera að framkvæma yðar vilja í öllu; viljum vèr sigla til annara landa, ef þar einhver ráð kynnu að finnast, sem ynnu bót á böli yðar. Bjuggust þeir so til ferðar með fríðu föruneyti. Þá gekk Ajax fyrir föður sinn og mælti: kæri faðir! viljið þèr ei gefa mèr orðlof að fara með bræðrum mínum? Keisarinn mælti: aldrei vildi eg þann dag lifa, að það vitnaðist þú værir minn son í framandi löndum, og hlyti eg þar af mikla skömm og háðúng að líða þín vegna, og þarftu mig ei þess að biðja. Ajax mælti: fyrir víst, minn ljúfi faðir, skal yður eingin smán að mèr verða, því móti yðar vilja skal eg ei reikna mig með bræðrum mínum í framandi löndum. Fèkk hann so um síðir orðlof af föður og móður; hèldu þeir síðan í haf og til annara landa. So skildu þeir, og fóru þeir Phenix og Felix sèr, en Ajax var sem villuráfandi sauður. Fer hann nú víða um lönd, og lèttir ei, fyr en hann kom að Indíalandi. Þegar hann kom þángað, frèttir hann, að sá voldugi kóngur, sem þar hafði stjórnað, var andaður, en dóttir hans lifði þar eptir sinn föður, og hafði ríkisstjórn; og hèt sú Flórentíana. Nú bar so til, að hann kemur þángað seint um kvöld, Ajax finnur garðsvörðinn,og spyr hann að mörgu, sem hann vildi, og helzt um læknisdóma. Garðvörðurinn sagðist víst til þeirra á vita, en þeim sè ei auðnáð. Ajax segir: minn vin, seg mèr, hversu sú lækning kann að fást. Garðvörðurinn segir: sú sama kóngsdóttir, sem á hèr ríkjum að stýra, hún á einn brunn fyrir ofan sæng sína; hver sem það vatn drekkur, verður heill af öllum sínum meinsemdum. En yfir það vatn kunna aungvir að komast, utan með stærsta penínga gjaldi; hèr til er hún so ríkilát, að aungvir fá við hana að tala, nema yppurstu menn, og það hygg eg þèr sè næst að fara so búinn. En ef nokkur finnst so djarfur, að leynt fari í brunninn, þá er þar einn reirvöndur yfir. Hver, sem vöndin snertir með hendi eða fæti, er jafnsnart fastur við hann. Ajax mælti: ef þú vilt mèr nokkuð liðsinni sýna, að komast þángað, sem brunnurinn er, vil eg þèr góðu launa. Garðvörðurinn mælti: verði eg uppvís um slíkt, verður það minn bani, og so þinn. Ajax mælti: aldrei skal yður fyrir það íllt ske, og verið óhræddir. Garðvörðurinn vísaði honum ná, hvar kóngsdóttir var. Nú sem hann kemur þar inn, sèr hann hún sefur, og leynist nú inn að brunninum, og nær vatninu, og sem hann er búinn að fylla ílátið, sem hann tók, þá snýr hann vendinum með lófanum, er hann jafnsnart við hann fastur. Finnur hann nú, að garðvörðurinn hefur honum satt sagt, sker hann nú laufið úr lófanum með skinninu, sem við reirinn var fast. En þá hann kippir að sèr lófanum, fèllu þrir blóðdropar niður á hægindið, þar sem hún svaf, en hann rekur hendina ofan í brunninn, og er hún jafnskjótt gróin. Hann fer nú ofan, so hún verður ei vör við, og veit ei af. Hann stendur litla stund frammi fyrir sænginni, segir hann þá við sjálfan sig: eg á ei miklu fyrir að fara, þó eg skemmti mèr við kóngsdóttur, og er annaðhvort, að mèr verður það til gæfu eða ógæfu. En víst verður mèr það til ánægju, og skal þar tilhætta, afklæðist síðan, og læðist so undir klæðin hjá kóngsdóttur, so hún veit ekkert af, og hefur hjá henni alla sína ánægju, og þóktist hann aldrei skemmtilegri stund lifað hafa. Eptir það snýr hann burt, so einginn veit nema garðvörðurinn, þakkar hann honum góða aðstóð, og launar eptir megni, og skilja við so búið. Ferðast nú sem leiðir liggja í sitt föðurland. En þá eru brædur hans heim komnir, og höfðu ekkert til lækningar feingið föður sínum. Og er hann kemur fyrir föður sinn, segir faðir hans við hann, að hann mundi lítið vita sèr til heilsubótar. Ajax mælti: ekki er það víst, minn ljúfi faðir, því so hljóðar hið fornkveðna, að „einginn veit, að hverju barni gagn verður.“ Síðan tekur hann upp flöskuna, og döggvar á hann, og þá hrynur utan af honum, sem hreistur, og varð hann heilbrigður. Síðan elskaði faðir hans hann yfrið mikið, sem og bræður hans. Nú er þar til að taka, að Flórentíana verður barns hafandi, og ól eitt sveinharn, þá tími var til kominn. Sem það frèttu hennar frændur og vinir, fèkk hún stórar átölur hèr fyrir, hvað hún gat ei aðgjört, og hana heitt ángraði, að hún gat ei ættfært son sinn. Hún hafði til sýnis laufið með skinninu við og blóðdropana, og reiknar frá þeim tíma, þá það kom, þá mundi hún við barninu tekið hafa. Síðan siglir hún úr landi með sínum beztu vinum og frændum, hugsandi sèr að leita og finna þann, sem faðir værí að barni sínu. Getur ei um ferðir þeirra, þó víða fari, til þess hún kemur til Róm, þar Sýrus keisari á fyrir að ráða. Setur hún þar sín tjöld á land; nú geingur Ajax til skipa og grunar ei, hver komin var. Kóngsdóttir kallar til hans, og biður hann að gánga í tjald sitt. Hann kemur og heilsar henni hæversklega: Hún tekur i hönd honum, og finnur örið, og spyr, hvernig hann hafi feingið það ör í lófanum. Hann segist ógjörla munu það, því hann hafi það mjög úngur feingið. Hún segir: kannske eg geti upplýst þig í því. Síðan tekur hún laufið upp úr knýtilskauta hjá sèr, ber laufið saman við örið í lófanum, og stendur allt heima, og mælti: illa hefur þú við mig skilizt seinast. Kóngsson leggur höfuð sitt i knè hennar, og segir það sè í hennar valdi. Hún gjörir sig nú mjög bista og reiða, so allir þeinktu hún mundi láta deyða hann. Síðan stóðu upp allir hennar frændur og vinir og biðja hana sinn dóm á leggja. Hún kvaðst það vilja, og tekur síðan í hönd þeim til samþykkis á hennar úrskurði, hverju hennar náfrændur lofuðu. Hon mælti: fyrst nú hefur so til tekizt í okkar viðskiptum, þykist eg fyrir vist vita, að mèr mun ei hærri upphefð hlotnast, skal eg taka hann til ektamanns og kóngs yfir allt Indíaland og til alls þess sóma, er eg má honum frekast veita. Að þessa kunni einginn að finna, því allir höfðu áður samþykkir orðið, að hún ein skyldi þessu ráða. Síðan varð Ajax kóngur í Indíalandi, og giptist frú Flórentíönu. Og elskuðust þau innilega alla æfi, og mátti hvorugt af öðru sjá, og lifðu saman með ánægju og gleði. Og lúkum vèr so þessu æfintýri.