Boðsbréf til íslendinga

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Antiquarisk tidsskrift
Udgivet af Det Kongelige Nordiske Oldskrift-Selskab
1843-1845


Boðsbréf til íslendinga
Um fornrita-skýrslur og fornsögur


Það er sannreynt, að fornar frásagnir, fornkvæði og mart annað, sem haldizt hefir í manna minni lángt fram eptir öldum, og lýsir á margan hátt hugmyndum, átrunaði og lifnaðarháttum feðra vorra, er óðum að gleymast, og óttast má að það hverfí allt vonum bráðara, ef ekki er hirt að rita það upp í tíma og safna því sem enn er eptir, sem vera má að eigi sé all-lítið, ef vel er athugað. Margir einstakir menn hafa að sönnu safnað ymsu slíku, en söfn þeirra dreifast opt og týnast, þegar þeirra missir við, og verðr fyrirhöfn þeirra til einkis, þegar ekki er safnað á einn stað því sem margir draga saman, og þvínæst geymt og rannsakað af þeim mönnum, sem með alhuga ígrunda allt það, er viðvíkr þekkíngu fornaldarinnar og öllu athæfi feðra vorra.
  Í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hafa menn þegar safnað miklu, bæði af fornaldargripum og mörgu öðru, því sem geymzt hefir meðal manna og á einhvern hátt má skýra þekkíngu manna um framliðnar aldir; en því meira sem safnað er, því framar finna menn, að jafnvel það, sem í fyrsta áliti má virðast vettugis vert, og áðr hefir verið kallað eintómt hindrvitni og markleysa, gefr mönnum mikilvægar bendíngar og er til mikillar skýríngar, þegar allt kemr saman og hvað kemr á sinn stað á hinni margkvísluðu grein fornfræðanna.
  Hin konúnglega nefnd, sem stendr fyrir geymslu fornaldarleifanna, hefir hugleidt, hversu mikil nauðsyn væri að fá safnað skýrslum um allt það, sem á einhvern hátt getr frædt menn um hinar liðnu aldir - því síðari aldirnar standa fornöldinni nær en vèr, og gegnum þær eða frá þeim má opt rekja fram til fornaldarinnar - þannig, að það verði geymt í safni sér, og smámsaman auglýst á prenti, á þann hátt sem hentast þykir. Nefnd þessi hefir því borið upp við HANS HÁTIGN KONÚNGINN, að stofnsett yrði, með tilhlutan nefndarinnar og hins Konúnglega Norræna Fornfræða-Félags, slíkt skjalasafn, og hefir konúngr samþykkt það með allrahæstum úrskurðum 27. Aug. 1845 og 7. Febrúar 1846, samkvæmt uppástúngu nefndarinnar.
  Skjalasafn þetta er ætlað til að verði í tveim deildum:
  "I, FORN-NORRÆN OG ÍSLENZK DEILD; þar skal geyma í allskonar bréf og skjöl, eða afskriptir þeirra, sem merkileg eru, svo og íslenzk og forn-norræn rit, og ennframar söfn þau, sem snerta sögu og fornfræði Færeyja, Íslands og Grænlands."
  "II, FORNFRÆÐILEG HÉRAÐA-LÝSÍNGA DEILD; þar skal geyma skýrslur, lýsíngar, uppdrætti o. fl., sem snertir norrænar fornaldarleifar, og sérílagi héraðalýsíngar í Danaveldi, sömuleiðis myndir eða lýsíngar fornleifa, sem líkjast hinum norrænu".
  Skjalasafninu er og samtengt bókasafn Fornfræða-Félagsins.
  Til að stjórna skjalasafni þessu hefir konúngr skipað þriggja manna nefnd: ritara hins Konúnglega Norræna Fornfræða-Félags, etazráð C. C Rafn, einkum við hina fyrrnefndu deild; ritara hinnar Konúnglegu Fornleifa-Nefndar, etazráð C. J. Thomsen, einkum við hina síðarnefndu deild, og þaraðauki etazráð og leyndarskjalavörð Finn Magnússon; til skjalavarða (archivsekretera) við safn þetta hefir konúngr sett: við hina fyrri deild alþíngismann og stípendíar við safn Árna Magnússonar, Jón Sigurðsson, en við hina síðari J. B. Sorterúp, kennara í latínuskóla höfuðborgarinnar og Aðólf Strúnk, báða aðstoðarmenn forngripasafnsins á Kristjánsborg.
  Íslendíngar hafa að vísu miklu auðugra safn af ritum um fornöld allra Norðrlanda og Íslands sjálfs, en aðrar þjóðir á Norðrlöndum, og rit þeirra eru og munu verða aðaluppspretta þeirrar þekkíngar á trú og framferðum fornmanna, sem úr ritum verðr fengin; eru og þessi rit þaraðauki fullkomin fyrirmynd sagnaritunar og margsháttar fróðleiks, og hafa fyrir þá sök jafnan verið Íslandi og Íslendíngum til mikils sóma. En jafnvel þó mikið sé safnað í ritum þessum, þá er bæði, að mart í þeim þarf útskýríngar við, og hana eiga þeir menn, sem í landinu búa, hægast með að gefa (t. a. m. um örnefni o. fl.), enda er og mart af fornsögum og ymsum öðrum fróðleik enn við lýði meðal alþýðu á Íslandi, sem getr orðið til mikillar skýríngar sögunum og frædt menn um siðferði og háttu, átrúnað og allt ásigkomulag landsbúa fram eptir öldum, og gefið margar bendíngar til að þekkja siðu fornaldarinnar, þareð mart háttalag hennar hefir haldizt lengr við á Íslandi en annarstaðar. Íslendíngar eru og kunnir að því, að þeir elska fornöld sína, einsog maklegt er, og má því vænta, að þeir láti ekki sinn hluta eptir liggja, að láta í té það sem í þeirra valdi stendr, til þess að efla þann fróðleik, sem ávallt hefir verið þeim kærastr.
  Nefnd sú, sem áðr var getið, lætr nú gánga bréf til sérhvers héraðs í Danaveldi, og hefir mikla von um, að fá þær skýrslur sem kostr er á, og á þann hátt fullnægja skipun konúngsins og ná hinu mikilvæga augnamiði stiptunarinnar. Í hinu sama trausti lætr hún boðsbréf þetta gánga á Íslandi, og á viðlíkan hátt á Færeyjum og Grænlandi.
  Til þess að séð verði greinilega, hverra skýrslna vér einkum æskjum, munum vér nú í stuttu máli skýra frá hinum helztu atriðum þar að lútandi:
  Skýrslurnar greinast einkum í þrjá flokka: fyrst skjöl og skilríki, handrit eða bréf og þesskonar (fornrit); þarnæst skýrslur og lýsíngar á stöðum, örnefnum og þvíumlíku (staðalýsing); í þriðja lagi skýrslur um allt það, sem við víkr háttum og öðrum alþýðlegum siðum, leikum o. s. frv. á fyrri og síðari tímum (alþýðleg fornfrœði)
  FORNRIT. I hinum fyrsta flokki nefnum vér til, að vér æskjum að fá skýrslur um, hvar til sé handrit af fornsögum, gömul eða ný, um það, hvernig þau eru á sig komin, hvort þau eru á skinni eða pappír, hversu gömul þau muni vera, hverjar sögur þar sé á, og, ef vel er, sýnishorn þeirra afskrifað, ef þær eru merkilegar eða fásénar. Sömuleiðis um lögbækr fornar (Grágás, Járnsíðu, Jónsbók, og útlend lög, ef til eru). Á sama hátt um rímur, með tilgreindu nafni höfundarins, tölu rímnanna og upphafserindi. Þá um kvæðabækr, og kvæðasöfn eða syrpur, og einstök kvæði, meiri og minni, með sýnishorni þeirra (upphafserindi og erindatölu). Enn fremr um bréfabækr, máldagabækr, kirknabækr, dómabækr, alþíngisbækr, ættatölubækr og sérhver önnur rituð söfn. Sömuleiðis um bréf eða bréfasöfn einstakra manna, sem merkismenn hafa verið, og verðskulda að þeirra minníng sé á lopt haldið. Einnig um einstök skjöl, máldaga, jarðakaupabréf o. s. frv., bæði á skinni og pappír, með ártali þeirra og degi, og stuttu ágripi efnisins. Sé að eins til afskriptir, þarf að skýra frá, ef verðr, hvaðan þær sé sprottnar, og í hverra eign þær verið hafi. Ef eigendr slíkra rita vilja láta þau af hendi, eða óttast má að þau líði undir lok, eða þau sé skemmd og kölluð ólæsileg, verðr fúslega tekið við þeim til safnsins, en að öðrum kosti er óskanda, að borin verði umhyggja fyrir, að þau verði geymd í skjalasafni stiptsbókasafnsins eða öðrum óhultum stað á Íslandi sjálfu.
  STAÐALÝSÍNG. Í öðrum flokki nefnum vér til skýrslur um allt það, sem við kemr einstökum stöðum eða örnefnum á landinu, einkum þeim, sem til eru greind í sögunum eða í máldögum, eða sögur gánga frá að fornu eða nýju. Þar tilgreinum vér einkum skýrslur um forn bygðarlög eða bæi, hvar verið hafi að fornu, og hvenær og hvernig breyzt hafi, svo sjá megi eða sögur gángi frá, og hver merki til þess sjáist. Um forn héraðaskipti, eða sókna, o. s. frv., og hversu breyzt hafi. - Um eldsumbrot í jörðu, menjar þeirra, uppruna, stærð, örnefni og sögur um þau; þarmeð hraun, hvera, laugar, brennistein o. s. frv. - Um forna vegu, sem menn vita eða sögur gánga af. - Um Örnefni eða forvirki, garðlög o. fl., sem benda til jarðirkju, akurirkju, skóga, rauðasmíðis o. s. frv. að fornu. - Um forna þíngstaði eða samkomustaði, t. a. m. alþíng, héraðsþíng, leiðarþíng, einnig dómhrínga, lögréttur, o. s. frv. - Um forn kaupstaðastæði, eða búðastæði; hvar skipum hafi verið lagt upp í ár eða voga, hróf höfð, eða þesskonar, svo ráða megi af örnefnum eða öðru. - Um aflagðar kirkjur, bænhús o. s. frv., og hver merki sjáist til, eða örnefni þar af dregin; til þess heyrir og, þar sem einhver vottr er til, af örnefnum eða öðru, að verið hafi nokkur átrúnaðr eða dýrkan í heiðni eða í páfatrú (hof, hörgar, blót-steinar - dýrkun krossins helga o.s.frv.). - Um forn húsastæði, virki eða bæi, skála o.s. frv.; eða og hauga, vötn, brunna, fossa, hellra, steina, hvort heldr með letri eðr eigi. - Um forngripi eðr annað merkilegt, sem fundizt hefir á tilgreindum stöðum, eða enn eru til, hvort heldr er með letri eðr eigi (trjáskurðarverk í kirkjum eða húsum, líkneski, myndir, legsteinar eða grafarmörk, grafskriptir o. fl. þessk.). - Um embættismanna tal, þar sem uppgötvað verðr (t. a. m. prestatal). - Um jarðir, það sem uppgötvað verðr, hversu þær hafi gengið að eignum. Því nákvæmlegar og glögglegar sem skýrt er frá þessum atriðum, og einkum ef uppdrættir fylgdi, því meira fróðleiks mætti menn vænta af skýrslunum, en einkum ríðr á að skýrt sé nákvæmlega frá afstöðu hvers eins staðar, stærð hlutanna og lögun. Þar sem letr er, eða sögur um sérhvað eina sem viðvíkr þessu, sem nú var talið, eðr öðru sem þar á skylt við, er það mjög áríðanda að það sé ritað greinilega, og sem áreiðanlegast að orðið getr, án alls vibrauka; en þegar sögur greinir á, verðr að skýra frá hver sá ágreiníngr sé og hversu honum er varið.
  ALÞÝÐLEG FORNFRÆÐI. Þriðji flokkrinn er mjög yfirgripsmikill og margbrotinn, en einkum teljum vér þar til allar fornsögur um staði eða menn, sem gánga alþýðu á meðal, og lýsa aldarháttunum, hvort þær eru tengdar við einn ákveðinn stað eðr eigi; svo eru t. a. m. sögur um nafnfræga íslenzka menn á fyrri og síðari öldum (helga menn -; fjölkunnuga menn: Sæmund fróða, síra Eirek í Vogsósum o. fl.), álfasögur, draugasögur, útilegumanna-sögur, hinar svonefndu kerlíngasögur, æfintýri og sérhvað þesskonar, t.a.m. um goð, tröll, jötna, grílu, jólasveina, dísir, álfa eða huldufólk, nykra, sænaut, landvætti eða landdrauga, sjódrauga, illfiska, sjóskrímsli, vatnaskrímsli, útisetur (á krossgötum); um fé í jörðu, vafrloga, búrdrífu, óskastund og þvíumlíkt þvínæst gömul kvæði og ljóð, sem höfð eru til skemtunar úngum og gömlum, en ekki eru prentuð, og ekki skrifuð upp svo menn viti: svo eru ymsar rímur, fornkvæði, vikivakar, dansleikakvæði, söguljóð, vísur og kvæði um fugla og dýr, eða annað (grílukvæði, tóukvæði, krummakvæði o. s. frv.). Enn fremr þulur og barnavísur, sem tíðkanlegar eru. - Ef menn vita aldr eða höfunda kvæðanna, eða nokkrar sögur um það, yrði það að fylgja. Þá eru leikar, og öll aðferð og þulur eða formálar sem þar eru hafðir við, bæði meðal barna og fullorðinna. Þá allskonar forn átrúnaðr úr heiðni eðr úr pápiskri öld, þó nú sé kallað hjátrú, t. a. m. spásagnir, fyrirburðir, sjónir, aptrgaungur, draugar, svipir, vofur, fylgjur, sendíngar, útburðir, uppvakníngar, tilberar eða snakkar, heillanir, gandreiðir, flæðarmús, gjaldbuxur, glímugaldr, brýnugaldr, fornar særíngarþulur eða bænir, stafir, rúnir og rístíngar, sem hafðar hafa verið til forneskju, o. þessk. Um allt hvað trú hefir verið höfð á til læknínga. Um veðrmerki. Um dagsmörk, og hversu þau svari til klukkustunda. Nöfn á ymsu, á lopti, jörðu eða sjó, sem dregr nafn af fornum átrúnaði, eða er sprottið upp á Íslandi fyrr eða síðar, og á einhvern hátt er merkilegt og fáheyrt (stjarnanöfn - úlfr og gýll - lokasjóðr - baldrsbrá - freyjuhár - fryggjargras - álfabruni - tröllriða - pétrsbudda - óskabjörn o. m. fl.), svo og sögur um þetta, eða þulur ef til eru. Gátur, bæði í hendíngum og í óbundinni ræðu. Málshættir, sem ekki eru prentaðir. Búníngr bæði karla og kvenna, sem menn vita að verið hafi, með nöfnum og lýsíngu, og uppdráttum ef kostr er á. Verkfæri, sem brúkuð hafa verið, en eru nú aflögð, og lýsíng á þeim (vefstaðir o. s. frv.). Fáheyrð orð eða nöfn á hlutum, eða framburðr orða, sem fyrir kemr á stöku stöðum, með útskýríngu þeirra.
  Það biðjum vér alla þá, sem safna skýrslum þeim sem hér er beðið um, að hafa sér hugfast, að fella ekkert undan fyrir þá sök, að þeim virðist það fánýtt eða hégyljur einar, heldur tína eins til smátt sem stórt, því það er, eins og vér höfum áðr sagt, opt mikilvægt, þegar saman kemr, sem eitt sér er hégómi í fyrsta áliti. Það biðjum vér og að hugleidt sé, að brot eða einstök blöð af handritum, brot af kvæðum, þulum og hverju öðru, eru eins merkileg einsog þó heilt sé.
  Óskanda væri, að lög á vísum og kvæðum væri skrifuð upp með nótum, ef kostr er á, einnig nöfn, aldr og heimili þeirra, sem sérhvað eina er tekið eptir; sömuleiðis að hvað eina, sem er sérstaks efnis, væri ritað sér í lagi á blað, ef því yrði við komið, svo sem minnst blandaðist saman ýmisleg efni, og svo hægra yrði að hafa greinilega niðurröðun á safninu.
  Um sum af atriðum þeim, sem áðr eru talin (einkum í hinum öðrum flokki), eru til skýrslur, sem fyrrum hafa verið sendar fornleifa-nefndinni, og verða þær geymdar í safni þessu, og hagnýttar svo sem verðr, en þær eru hvorki svo yfirgripsmiklar sem þessar, sem hér er óskað, og þar að auki mun mart vera síðan orðið kunnara um það, sem þar er skýrt frá, svo að menn geta nú vænt að fá skýrslur þær auknar í mörgum atriðum.
  Það er á eingan hátt tilætlan vor, einsog þegar er lýst hér að framan, að leita neinum manni meinfánga rneð að safna skýrslum þessum, sem hér er beðið um, eða að rita þær. Vér leitum einúngis aðstoðar þeirra, sem hafa unan af að geyma allt það sem minnir á hið umliðna, og ekki vilja láta allt slíkt hverfa jafnóðum í gleymskunnar haf; þeirra, sem vita eins vel og vér, að ef ekki er hirt um að halda saman því, sem enn er eptir af slíku, sem hér er um beðið, mun það óðum týnast, eins og, því miðr, mart er áðr týnt og gleymt, sem mönnum væri hin mesta nytsemd og fróðleikr að, og margir mundu nú fegnir vilja óska að til væri.
  Vér ætlumst eigi heldr til, að allt þetta verði í einu ritað eða sent, heldr að menn safni því smámsaman, og fyrst og fremst því, sem nú er hættast við að gleymast muni, og er það einkum það, sem gamalt fólk kann eða man, en úngir skeyta eigi. Það er og eigi ætlun vor, að vér höfum talið hér upp allt það, sem oss væri þökk á að fræðast um, heldr er einúngis bent til atriðanna, og verðum vér að treysta því, að hver sá, sem styðja vill þetta fyrirtæki, muni sjálfr finna mart það, sem hér ef ekki nefnt, og skýra frá því eigi að síðr eða benda til þess, þó þess sé hér eigi beðið með beinum orðum. Vér vonum einnig, að sumir kunni að leggja fyrir sig að safna ymsu af því, sem hér er beðið um, bæði nær sér og fjær, og mælumst vér einkum til að þessir menn vildu þá, svo mjög sem kostr er á, skýra frá hverju atriði Á BLAÐI SÉRÍLAGÍ, svo að ýmisleg efni slengdist sem minnst saman, og svo hægra yrði að raða hverju á sinn stað í safninu.
  Sérhvað það, sem sent verðr, mun verða geymt og notað, og smámsaman auglýst á prenti eða getið um það í tímaritum Fornfræða-Félagsins (Antiquarisk Tidsskrift eða Annaler for nordisk Oldkyndighed og Historie), svo það útbreiðist þeim til verðskuldaðrar sæmdar, sem með alúð styrkja viðleitni vora.
  Það er sjálfsagt, að þess er einmitt óskað að skýrslurnar verði Á ÍSLENZKU, til þess að þær verði ekki úr lagi færðar. Þar sem svo stendr á, að menn vilja senda þær með póstum, má rita á þær "konúnglegt eyrindi", og senda þær með utanáskrípt: "Til hinnar Konúnglegu Fornleifa-Nefndar i Kaupmannahöfn. Kronprindsensgade Nr. 40".

Kaupmannahöfn 28. dag Aprílsmánaðar 1846.