Merkidagavísur

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Íslenskar þjóðvísur og kvæði

Íslenskar þjóð-sögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Merkidagavísur


Margar vísur hafa verið til um merkidaga, þar á meðal þessar:

Ef blika' er í heiði og bakkalaust
á blessaða Maríumessu,
mun þá verða mjög gott haust.
Maður, gáðu' vel að þessu.

Þá heiðríkt er og himin klár
á helga Pálumessu.
mun þá verða mjög gott ár.
Maður, gáðu' að þessu.

En ef þoka á Óðins kvon
allan himininn byrgir,
fjárskaða og fellis von
forsjáll bóndin syrgir.

Ef í heiði sólin sezt
á sjálfa kyndilmessu,
snjóa vænta máttu mest,
maður, upp frá þessu.

En ef glatt má sólskin sjá
á sjálfa kyndilmessu,
fróðir menn hafa frætt mig á,
frost og snjóar muni þá
í mánuði fjóra.
Maður, gáðu að þessu.-

Á Jónsmessu ef viðrar vott,
við því máttu kvíða -
þá mun verða þeigi gott
að þurkka heyin víða.

Hvelfi úr skýjum höstust regn
á helgum Maríudegi,
lengi síðan líður megn
á lofti á blautum vegi.

Nema ef áður væta var,
varla skal upp halda,
því dagar og veður dyljast þar,
sem dýr vill Guð veralda.

Marteinsdaginn merki ég, þó
myrkvist nótinn langa,
ef fer þá að koma frost með snjó,
frá eg það lengi ganga.

Þá ef hylur þykknið loft,
þíða en frostið eigi,
veðradimmur verður oft
veturinn frá þeim degi.

Sér þá úti sólskin glatt
og sýnist frostum gegni,
Marteinn segir, það merki hratt
meira af frosti' en regni.

Að jólahátiðin hefur þótt hinn merkasti tími í þessu sem öðru, sýna vísur þessar:

Hátíð jóla hygg þú að.
Hljóðar svo gamal texti:
Ársins gróða þýðir það,
ef þá er tungl í vexti.
En ef máninn er þá skerður,
önnur fylgir gáta:
Árið nýja oftast verður
allt í harðasta máta.

Um jólanóttina eru þessar vísur og eignaðar álfum:

Sé jólanótinn kyrr og klár,
mun Guð oss frjósamt gefa ár.
En sé vindur og úrfelli,
lítið mun grasið vaxa á velli.
Sunnanvindar sóttir bjóða,
senda úr norðri jarðargróða.
Vindur austan vistum eyðir,
vestan stórhöfðingja deyðir.

Um mánuðina þekki ég þessar fyrirboða- og spá vísur:

Ef ei þorri færrir fjúk,
frost eða hörkur neina,
kuldi sá þá kemur í búk;
karmenn þetta reyna.
Ef þig fýsir geta gætur
að gátum fyrri þjóða,
páska frostið fölna lætur
febrúaris gróða.

Ef Pétur í feikn og frosti særir,
ferna tíu með sér færir;
vorið þá ei víða nærir,
verða sauðir ei frábærir.

Martsíus þíðir oftast ís,
er það greint í versum.
Annars kæla verður vís,
ef vana bregður þessum.

Martsíus ef mjúkur er,
máttugt frost þá veðrið ber,
vindur, hríð og verðið hart
verður fram á sumrið bjart.

Þessi spakmæli eða stef eru ennfremmur um merkitíma og eignuð álfum:

Þurr skildi þorri, þeysöm góa, votur einmánuður, þá mun vel vora.
Trúðu aldrei vetrarþoku, þótt aðeins sé ein nótt til sumars.
Kvöldroðinn bætir. Morgunroðinn vætir.
Sjaldan er gýll fyrir góðu, nema úlfur á eftir renni og í fullu vestri séð.

Þá eru nefndar svonefndar imbruvikur merkitímar, því jafnan þykir viðra öðruvísi upp úr hverri imbruviku en á henni. Næsti sunnudagur og mánudagur þykja spá sömu veðuráttu, sem helzt til næstu imbruviku. Mikill berjavöxtur og marglitta í sjó boða harðan vetur. Sömuleiðins mikill sækuldi; eins hitt, ef mikla snjóa leggur á ófrosna jörð ok læki.

Of segja menn, að dýr viti þetta og annað veður í sig, þ.e. finni á sér, og sýnist mega kalla þá fyrirboðadýrvita til aðgreiningar frá öðru.