Torfkirkjur á Íslandi

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif Dansk.gif


Torfkirkjur á Íslandi
eftir Carsten Lyngdrup Madsen
Íslensk þýðing Jon Julius Sandal
© 2014


Hefðbundinn íslenskur byggingarstíll og efnisnotkun á rætur að rekja til fyrstu landnámsmanna sem settust að á Íslandi á 9. öld. Þó að líklega hafi verið skógar á Íslandi á þessum tíma var þar mikill skortur á trévöru frá upphafi. Að hluta til vegna þess að tré á Íslandi verða aldrei sértaklega hávaxin, eru krókótt og ónothæf í timbur, en einnig vaxa tré hægt vegna veðurfars. Þess vegna gegnir rekaviður mikilvægu hlutverki í byggingasögu landsins frá upphafi. Í elstu löggjöf íslendinga eru nákvæm ákvæði um réttindi og söfnun á rekaviði, en íslendingasögurnar segja einnig frá siglingum til Noregs að sækja timbur til bygginga.

Það ætti því ekki að koma á óvart að farið var naumlega með trévöru og að aðrir efnisviðir hafi verið hagnýttir. Flestir bæir áttu jörð þar sem hægt var að skera torf. Torfið var ókeypis og innan seilingar. Torf hafði jafnframt ýmsa góða eiginleika fram yfir tré. Torfhús velta ekki um koll í óveðri og þykkir veggirnir einangruðu betur og héldu raka og kulda úti. En varanleiki torfsins var þó lakur. Á suðurlandinu héldu torfveggirnir ekki lengur enn 20-25 ár, en í þurrara loftslagi norðar héldu veggirnir í 50-70 ár. Þurfti því að skipta um torfveggi annað slagið.

Á Íslandi eru varðveittar seks endurgerðar torfkirkjur, sem að hluta eða öllu eru varðveittar í sinni upprunalegu mynd. Fjórar af kirkjunum eru úr Norðurlandi, en tvær á Suðurlandi.


   Víðimýrakirkja

Innst í Skagafirði á Norðulandi gefur að finna fallega torfkirkju. Það er skráð í eldri kirkjuannála að hér hafi verið kirkja árið 1318, en kirkja hefur sennilega verið á Víðimýri frá kristnitöku um ár 1000. Bærinn Víðimýri, þar sem kirkjan er, gegndi mikilvægu hlutverki í ættardeilum á 13. öld og er meðal annars sagt frá atburðum þessum í Sturlunga sögu. Núverandi kirkja er bygð 1834 af Jóni Samsonarsyni smiði og alþingismanni.

Fyrrverandi forseti Íslands og fornleifafræðingur, Kristján Eldjárn, segir í riti sínu Hundrað ár í Þjóðminjasafni að Víðimýrarkirkja sé "einn stílhreinasti og fegursti minjagripur íslenskrar gamallar byggingarlistar, sem til er."[1] Kirkjan er bygð úr rekavið með hliðarveggi úr torfi. Gaflarnir eru af timburstöfum en þakið tyrft. Ummál kirkjunar er 10,8 metrar í lengdina og 8,6 metrar í breiddina. Að innan er kirkjan klædd ómáluðu spjaldaþili. Kirkjan er tvískipt að innan með hálfvegg sem skilur skipið frá kórnum. Efsti hluti hálfveggsins er af tíu lóðréttum pílárum skornar í tré. Hluti af innanverðum munum koma úr eldri kirkju. Altaristaflan er dönsk frá árinu 1616 og lýsir þar síðasta náttverðinum. Klukkurnar í kirkjuturninum er frá 1630. Prédikunarstóllinn og ámálað mynstur hans eru úr eldri kirkju. Umhverfis kirkjuna er kirkjugarður og er garðurinn afmarkaður með torfvegg.

Víðimýrakirkja - (Carsten Lyngdrup Madsen, 2001)
  


   Árbæjarkirkja

Á Árbæjarsafni í Reykjavík finnast ýmis eldri hús. Meðal annars torfkirkja. Upphaflega var kirkjan í Skagafirði í nágrenni við Víðimýrakirkju. Kirkjan er bygð árið 1842, en torfkirkjan var rifin aftur árið 1896 þegar byggja átti nýja kirkja á staðnum. Byggður var bær á kirkjulóðinni, en þar sem timbur var dýrmæt vara, var timbrið endurnýtt í baðstofuna á bænum. Baðstofan var rifin 1959 og hið mesta af timbrinu var þá flutt til Reykjavíkur. Hér var kirkjan endurreist í sinni upphaflegu mynd á bygðasafninu og endurvígð haustið 1960. Upphaflegur arkitekt kirkjunnar var smiðurinn og alþingismaðurinn Jón Samsonarson, sá hinn sami sem bygði Víðimýrakirkju.

Svartmálaðir gaflar og krossað vindskeið kirkjunnar samræmist systurkirkjunni á Víðimýri. Líkt og aðrar tofkirkjur eru þykkir hliðarveggir úr torfi og þakið er tyrft. Að innanverðu er kirkjan klædd í tré frá gólfi í loft. Málaður og skorinn hálfveggur skilur kórinn og skipið. Þó að kirkjan er lítil hefur hún pláss fyrir tólf stutta trébekki, og sem í öðrum kirkjum mótmælendatrúar, er predikunarstóllinn í hægra horni skipsins.

Árbæjarkirkja - (Carsten Lyngdrup Madsen, 2001)
  


   Grafarkirkja

Grafarkirkja er staðsett á opnu svæði í austanverðum Skagafirði á Norðurlandi. Um það bil tvo kílómetra suður af Hofsósi. Kirkjan er talin til elstu húsa á Íslandi og er bygð á síðasta fjórðungi 17. aldar af Gísla Þorlákssyni Hólabiskupi (1657-1684). Bærinn Gröf þar sem kirkjan stendur er fæðingarstaður sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar (1614-1674). Eftir tilskipun frá Friðriki 5. Danakonungi var kirkjan lögð niður árið 1765. Kirkjan fór í niðurníðslu og var notuð sem skemma. Í byrjun 1950 eignaðist Þjóðminjasafnið kirkjuna og færði upp í upphaflega mynd. Kirkjan var endurvígð sem bænahús af biskupi Íslands árið 1953.

Kirkjan er hefðbundin lítil torfkirkja með hliðarveggi úr torfi og gafla úr tré. Að innan er kirkjan klædd í tré, og utan sem innan skreytt og útskorin í barokkstíl, þar á meðal altarið. Tréskurðurinn er að mestu eftir Guðmund Guðmundsson, en tréskurður hans er þekktur úr öðrum kirkjum. Grafarkirkja er í hringlaga kirkjugarði sem vitnar um forna byggingahefð og er garðurinn afmarkaður með eins metra háum torfvegg.

Grafarkirkja - (Carsten Lyngdrup Madsen, 2001)
  


   Saurbæjarkirkja

Saurbæjarkirkja er kirkjustaður í innstu sveit Eyjafjarðar á Norðurlandi, uþb. 25 km suður af Akureyri. Saurbær hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Eftir óljósum heimildum var hér klaustur í nokkra áratugi á síðasta fjórðungi 12. aldar. Á kaþólskum tíma var kirkjan helguð heilagri Cecelíu og heilögum Nikulási. Núverandi kirkja er bygð árið 1858 af séra Einari Thorlacius (1790-1870), en var lögð niður 50 árum seinna þegar kirkjusóknin var sameinuð Grundarþingum. Var þó prestsetur á Saurbæ fram til 1931. Í dag er kirkjan í umsjá Þjóðminjasafnsins. Kirkjan er smíðuð af Ólafi Briem timburmeistara, en hann var einnig yfirsmiður Hólakirkju í Eyjafirði.

Eftir nokkura ára hnignun, og miklar viðgerðir er kirkjan í dag falleg að horfa á. Hliðarveggirnir mælast neðst um tveir metrar og eru bygðir sem veggur utan á vegginn. Efnisviðurinn er steinn og torf. Gaflarnir eru klæddir svartmáluðum borðum með hvítmáluðum gluggum, hurð og gaflsperru. Á vinstri gafli hanga tvær kirkjuklukkur yfir hurðinni. Að innanverðu er kirkjan þiljuð í hólf og gólf. Saurbæjarkirkja er stærsta varðveitta torfkirkja á Íslandi og rúmar 60 manns í sæti.

Saurbæjarkirkja - (Carsten Lyngdrup Madsen, 2001)
  


   Hofskirkja

Suður af Öræfajökli í Austur-Skaftafellssýslu liggur Hofskirkja. Hofskirkja er yngst af hinum hefðbundnu torfkirkjum á Íslandi. Hof hefur verið kirkjustaður í meira enn 700 ár, og á stuttri æfi torfkirkjunnar, sérstaklega í þessum landshluta, hafa líklega margar kirkjur risið á þessum stað. Á kaþólskum tíma var kirkjan helguð heilögum Klemens. Núverandi kirkja er reist á árunum 1883-1885 af Páli Pálssyni smið. Árið 1954 kom Hofskirkja í umsjá Þjóðminjasafnsins og var þá kirkjan endurbygð. Kirkjan er ennþá sóknarkirkja Öræfinga.

Hofskirkja er 11,5 x 9 metrar. Hliðarveggirnir eru bygðir af steini og torfi. Þakið er tyrft og gaflarnir klæddir með máluðum borðum. Hálfveggur skilur kórinn og skipið. Kirkjan er nútímaleg að innanverðu og ekki í upprunalegum stíl. Kirkjugarðurinn er afmarkaður með torfvegg.

Hofskirkja - (Carsten Lyngdrup Madsen, 2001)
  


   Bænahúsið á Núpsstöðum

Á lítilli landræmu vestan við Lómagnúp á milli Vatnajökuls og hafsisns liggur lítil torfkirkja á Núpsstöðum. Núpsstaðarkirkja er minnsta torfkirkjan á Íslandi. Fyrstu heimildir um kirkju á Núpsstöðum eru frá 1340, en líklega hefur verið kirkjustaður hér lengur. Um aldarmótin 1600 var bygð ný kirkja sem á sama hátt og hin fyrri hrörnaði niður með árunum. Árið 1765 var kirkjan gefin upp, en gengdi þó áfram hlutverki sem bænahús. Árið 1930 tók Þjóðminjasafnið húsið í sína vörslu og var kirkjan lagfærð á árunum 1958-1960 og aftur seinna árið 1972. Haldið var grundvallagerð gömlu kirkjunnar, en veggir, þak og klæðning var skipt út.

Lítil byrta sleppur inn gegnum litla glugga kirkjunnar. Kirkjan er lítil og þröng og að innanverðu klædd í tré á veggjum og undir þaki, en gólfið er steingólf. Hluti muna kirkjunnar, þar á meðal 200 ára gamalt altari, hafa varðveist úr eldri kirkjunni. Kirkjunni er skipt með útskornum kórvegg og hefur pláss fyrir einn trébekk hvorum megin í kirkjunni. Múrveggur úr hrauni og steinum umkringir kirkjuna. Reyniviður og birkitré standa við austurgafl kirkjunnar.

Í Njálssögu segir frá draumi Flosa Þórðarsonar, að hann dreymi bergrisa einn sem stígi út úr fjallinu Lómagnúpi. Bergrisinn er klæddur geitarskinni og hefur járnstaf í hendi. Þess er svo getið í sögu Ólafs Tryggvasonar að bergrisi þessi hafi fælt í burtu sendimenn Haraldar Blátannar frá Íslandi. Bergrisinn prýðir skjaldamerki Íslands og er einn fjögurra landvætta sem ver landið illum öflum.

Núpsstaðarkirkja - (Carsten Lyngdrup Madsen, 2001)
  




Athugasemdir:

  1. Kristján Eldjárn: Hundrað ár í Þjóðminjasafni, Menningarsjóður 1962