Jómsvíkinga saga

Fra heimskringla.no
Revisjon per 3. des. 2019 kl. 10:53 av August (diskusjon | bidrag)
(diff) ← Eldre revisjon | Nåværende revisjon (diff) | Nyere revisjon → (diff)
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Original.gif Islandsk.gif Norsk.gif Dansk.gif Svensk.gif
Original.gif Dansk.gif
Dansk.gif
Dansk.gif


Jómsvíkinga saga


Ólafur Halldórsson
bjó til prentunar


1. KAPÍTULI

Gormur [1] hét konungur er réð fyrir Danmörku, er kallaður var hinn barnlausi; hann var ríkur konungur og vinsæll við sína menn. Hann hafði þá lengi fyrir landinu ráðið er þetta var tíðenda.
   Tveir menn eru nefndir, þeir er voru í hirð konungsins; hét annar Hallvarður, en annar Hávarður. [2]
   Arnfinnur hét jarl er þá var í Saxlandi og ríki hélt af Karlamagnúsi konungi. Þeir voru góðir vinir og Gormur konungur; höfðu verið fyrr í víkingu báðir samt. Jarlinn átti systur fríða, og svo ber til, að hann lagði á hana þýðu [3] meiri en skyldi; síðan gekk hún með barni, en það var þó mjög leynt. Hann sendi hana í burt með trúnaðarmönnum og bað þá eigi fyrr við skiljast en þeir vissi, hvað af yrði barninu. Svo gera þeir; koma fram þar sem konungurinn Gormur réð fyrir, nema stað við skóg þann er Myrkviður heitir og létu barnið koma undir viðarrætur, en þeir forðuðu sér í skóginn og dvöldust þar.
   Þess er við getið, að það ber saman þetta sama haust, að Gormur konungur fór á skóg og hirð hans öll í allgóðu veðri, og fóru að dýrum, aldini og fuglum allan þann dag og skemmtu sér svo. En um kveldið, þá fer konungur heim og öll hirðin, nema þeir tveir bræður, Hallvarður og Hávarður; þeir dvöldust eftir á skóginum og gengu síðan víða um merkur að skemmta sér. En fyrir myrkurs sakir, þá fátu [4] þeir eigi heim og snéru þá leið sinni til sjóvar og þóttust vita, að þeir mundu feta heim ef þeir fylgdi sjóvarströndu, þvíað borg konungsins var skammt frá sjó, er mörkin gekk fram allt að sjó.
   Og þá er þeir gengu um sjóvarsanda og að melum nokkurum, þá heyra þeir barns grát, og gengu þagat og vissu eigi hví sæta mundi. Þeir fundu þar sveinbarn; það var lagt undir viðarrætur og knýttur knútur mikill í enninu á silkidregli er það hafði um höfuðið. Þar var í örtugar [5] gull. Barnið var vafið í guðvefjar pelli. Þeir taka upp barnið og hafa heim með sér og koma svo heim, er konungur sat yfir drykkjuborðum og hirðin}, og saka sig {um það er þeir höfðu} eigi gáð að fylgja konungi heim, en konungur svaraði og kvaðst þeim eigi reiður mundu fyrir þetta.
   Og nú sögðu þeir konungi hvað gerzt hafði til tíðenda í för þeirra, en konungur beiddist að sjá sveininn og lét sér færa. Konunginum leizt vel á sveininn og mælti: "Sjá mun vera stórra manna og er betra fundinn en eigi," og lét síðan sveininn vatni ausa og nafn gefa og kallaði Knút. En það var fyrir þá sök er fingurgullið hafði knýtt verið í enni sveininum þá er hann fannst, og tók konungur þar nafn af, það er hann gaf sveininum. Hann fékk honum og fóstru þá er vel var fingið og kallaði sinn son og gerði vel við hann og unni honum mikið.
   Og nú er á leið æfi konungsins Gorms og hann var gamall orðinn, þá tók hann sótt þá er honum vann að fullu. Og áður en hann andaðist, þá bauð hann þangað til sín vinum sínum og frændum er hann þóttist sjá, hversu fara mundi um hans mátt. Hann beiddi þá þess, að hann skyldi ráða hverjum sverja skyldi land og þegna eftir hans dag, og vildi hann til þess fá þeirra leyfi, {en hann} kvaðst Knúti gefa vilja allt sitt ríki og alla þá hluti er hann væri þá meiri maður en áður eftir sinn dag. Og nú fyrir sakir vinsælda hans og hann var sínum mönnum ástfólginn, þá játtu þeir þessu, að konungur skyldi ráða, og fór nú þetta fram.
   Og eftir það lætur konungur líf sitt.
   Nú tekur Knútur við landi og þegnum og öllu því ríki er Gormur hafði átt, og er vinsæll við sína menn.
   {Knútr fóst}raði son Sigurðar {orms í auga og gaf honum na}fn sitt og kallaði Hörða-Knút. [6] En son Hörða-Knúts var Gormur er kallaður var Gormur hinn gamli eða hinn ríki.


2. KAPÍTULI

Haraldur er nefndur jarl einn er réð fyrir Hollsetulandi; [1] hann var kallaður Klakk-Haraldur. Hann var vitur maður. Hann átti sér dóttur eina er Þyri er nefnd; hún var allra kvenna vitrust og réð drauma betur en aðrir menn. Hún var og fríð sjónum.
   Þar þóttist jarl eiga öll landráð er dóttir hans var, og lét hann hana öllum hlutum ráða með sér, og unni hann henni afar mikið.
   Og nú er Gormur var frumvaxta orðinn og hann hafði tekið við konungdómi, þá fór hann úr landi og ætlaði það ráð fyrir sér að biðja dóttur Haralds jarls; og ef hann vildi eigi gifta honum konuna, þá hugði hann að jarl mundi verða að þola honum her.
   Og nú er þau Haraldur jarl og dóttir hans Þyri spyrja til fara Gorms konungs og hans fyrirætlan, þá senda þau menn í móti honum og bjóða honum til veizlu virðilegrar, og það þiggur hann, og situr hann þar nú að málum sínum með vegsemd. Og er hann hefir upp borið sín örendi fyrir jarl, þá veitir hann þau annsvör, að hún skyldi sjálf fyrir ráða, "þvíað hún er miklu vitrari en eg." Og nú er konungur skorar þetta mál við hana sjálfa, þá svarar hún svo:
   "Eigi mun þetta ráðast þessu sinni, og skaltu nú heim fara að svo búnu með góðum gjöfum og virðilegum, og ef þér er mikið um ráðahag við mig, þá skaltu brállega er þú kemur heim láta gera eitt hús svo nokkoro mikið að þér sé skaplegt að hvíla í. Þar skal húsið sett er eigi hafi fyrr hús verið gert. En þar skaltu sofa í vetrarnátt hina fyrstu og þrjár nætur í samt, og mundu glöggt eftir ef þig dreymir nokkvað og send síðan menn á minn fund, að þeir segi mér drauma þína ef nokkorir eru, og mun eg þá að kveða fyrir þeim, hvort þú skalt fá þetta ráð eða eigi. Nú þarftu eigi að vitja ráðahags þessa ef þig dreymir ekki."
   Og eftir þessa viðræðu þeirra, þá er Gormur konungur skamma stund á þessi veizlu og býst heim og er títt að reyna þessa vitru hennar og tilskipan, og fer hann nú heim með mikilli sæmd og virðilegum gjöfum. Og er hann er heim kominn, þá fer hann svo með öllu sem hún hafði honum ráð til kennt: lét nú gera húsið og gengur síðan í þetta hús, svo sem fyrir var mælt. Hann lét vera úti hjá húsinu þrjú hundruð manna {alvop}naðra og bað þá vaka og halda vörð, og kömur í hug að vera muni svik. Og nú leggst hann niður í rekkju þá er gör var í húsinu og sofnar, og eftir það dreymir hann. Og þar sefur hann þrjár nætur í húsinu.
   Og nú eftir þetta sendir konungur menn sína {og á fund Haralds} jarls og Þyri dóttur hans og lætur segja henni drauma sína. Og er þeir komu á fund jarls og dóttur hans, þá var þeim þar vel fagnað; og síðan bera þeir upp drauma konungs fyrir dóttur jarls. Og er hún hafði heyrt draumana, þá mælti hún: "Nú skulu þér hér vera svo lengi sem þér vilið sjálfir. En þér megið svo segja konungi yðrum, að eg mun ganga með honum."
   Og er þeir koma heim, þá segja þeir konungi þessi {tíðendi}. Konungur verður við þetta léttúðigr og kátur.
   Og brátt eftir þetta býst {konungur heiman með} miklu liði að vitja þessa mála og brullaups {síns, og ferst honum vel, þar til sem hann kemur til} Hollsetulands. Haraldur jarl hafði frétt til ferða hans, og lætur ‹Þyri› [2] gera dýrlega veizlu og mikinn} fagnað í móti honum, og tekst nú ráðahagur þeirra í milli og miklar ástir. En það er haft að skemmtan að veizlunni, að Gormur konungar segir drauma sína, en hún réð þá eftir.
   Konungur segir svo, að hann dreymdi vetrarnátt hina fyrstu og þrjár nætur þær er hann svaf í húsinu. Það dreymdi hann að hann þóttist úti staddur vera og sjá yfir allt ríki sitt; hann sá að sjórinn féll út frá landi svo langt að hann mátti hvergi auga yfir reka, og svo mikil varð fjaran að þurr voru öll eyjasundin og firðir. En eftir þessi tíðendi, þá sá hann að eyxn þrír hvítir gingu upp úr sænum og runnu á land upp þar nær sem hann var og bitu af allt gras að snöggu þar er þeir komu að. Og eftir það þá gingu þeir á braut.
   Sá var annar draumur er þessum er mjög áþekkur, að honum þykir enn sem þrír eyxn gingi upp úr sænum; þeir voru rauðir að lit og hyrndir mjög. Þeir bitu enn gras af jörðunni, jafnt sem hinir fyrri. Og er þeir höfðu þar verið nökkverja hríð, þá gingu þeir enn aftur í sæinn.
   Enn dreymdi hann hinn þriðja draum, og var sá enn þessum líkur. Enn þóttist konungurinn sjá þrjá eyxn ganga upp úr sjónum; þeir voru allir svartir að lit og miklu mest hyrndir, og voru enn nokkora hríð og fóru hina sömu leið í braut og gingu aftur í sjóinn. Og eftir það þóttist hann heyra brest svo mikinn að hann hugði að heyra mundi um alla Danmörk, og sá hann að það varð af sjóvarganginum, er hann gekk að landinu. "En nú vil eg, drottning," segir hann, "attú ráðir draumana til skemmtunar mönnum og lýsir svo yfir viturleik þínum."
   Hún mæltist eigi undan og ræður draumana. Og tók hún fyrst að skipa þeim draumnum er fyrst var og sagði svo:
   "Þar er eyxn gingu upp úr sænum á land hvítir að lit, þar munu vera vetur þrír miklir, og mun falla snær svo mikill að árferð mun af taka um alla Danmörk. En þar er þér þótti ganga upp úr sænum aðrir þrír eyxn og voru þeir rauðir, þar munu koma aðrir þrír vetur snælitlir, og þó eigi litlir, fyrir því að þér þótti eyxninir bíta gras af jörðunni. En þar er hinir þrír eyxn gingu upp úr sæ svartir að lit, þar munu koma hinir þriðju þrír vetur. Þeir munu vera svo illir, að það munu allir um mæla, að engi myni slíka, og það svarta óáran mun koma og nauð yfir landið, að trautt munu dæmi til finnast. En það er þér þótti eyxninir mjög vera hyrndir, þar munu margir menn verða þess hornungar er eigu. En það er þeir gingu aftur allir í sæinn sem að höfðu komið, eyxninir, og þú heyrðir brest mikinn er særinn féll á land, það mun vera fyrir ófriði stóreflismanna, og munu þeir hér finnast í Danmörku og eiga hér bardaga og orrostur stórar. Þess er mér og vonir, að þeir menn sé þér nánir sumir að frændsemi, er við verða staddir við þenna ófrið. Og ef þig hefði þetta dreymt hina fyrstu nátt, er síðast var í drauminum, þá myndi ófriðurinn fram koma á þínum dögum. En nú mun ekki til saka, og eigi hefða eg gingið með þér ef þig hefði svo dreymt sem áður gat eg. En við mun eg gert geta öllum þessum draumum er þig hefir [3] dreymt fyrir hallærinu."
   Og nú eftir veizlu þessa, þá byrja þau ferð sína, Gormur konungur og Þyri drottning, heim til Danmerkur og létu hlaða mörg skip af korni og annarri gæzku og flytja svo ár í Danmörk, og á hverjum misserum þaðan frá, allt til þess hallæris er hún hafði fyrir sagt.
   Og þá er það hallæri kömur, þá sakar þau alls ekki, fyrir viðbúnaðar sakir, og þá menn er í nánd þeim voru í Danmörku, þvíað þau miðluðu þaðan mikil gæði öllum landsmönnum sínum. Og þótti Þyri vitrust kona komið hafa í Danmörk og var kölluð Danmarkarbót.
   Þau Gormur konungur og Þyri áttu tvo sonu, og hét Knútur hinn ellri, en Haraldur hinn yngri. Þeir voru báðir efnilegir menn, og þótti Knútur hinn vitrari í æsku þeirra, og hann var fyrir flestum mönnum um vænleik og atgervi og um allar íþróttir þær er þá voru frammi hafðar í þann tíma. Hann var hvítur á hárslit og hverjum manni gervilegri. Hann óx upp með jarlinum Klakk-Haraldi afa sínum, og fóstraði hann Knút og unni honum mikið. Hann var og vinsæll í sínum upprunum. En Haraldur var fæddur heima með hirð föður síns. Hann var þeirra bræðra mjög miklu yngri, og var snemmendis ýgur og æfur og illur viðskiptis, og varð hann fyrir því óvinsæll í sínum upprunum.
   Það er nú sagt eitthvert sinn, að Gormur konungur sendir menn til fundar við Harald jarl mág sinn þeirra örenda að bjóða honum til jólaveizlu með sér. Jarl tók því vel og hét að fara um veturinn til veizlunnar. Og eftir það fara aftur konungs menn og segja svo konunginum, að jarls var von til veizlunnar.
   Og er að því kom er jarl skyldi heiman búast, þá valdi hann sér slíkt föruneyti sem hann vildi til veizlunnar. En það er eigi sagt hversu fjölmennur hann fór.
   Þeir fara nú ferðar sinnar þar til er þeir koma að Limafirði. Þá sá þeir þar standa eik eina, þá er þeim þótti mjög með kynlegu móti vera: Þar voru vaxin á epli heldur smá, en þau voru græn og blómguð, en undir eikinni, þar lágu önnur epli; þau voru bæði forn og stór. Þeir undrast þetta mjög, og segir jarl að honum þykir þetta undur mikið, er græn voru eplin í þann tíma missera, sem þá var, þvíað þeirra sá stað hjá eikinni er um sumarið höfðu vaxið - "og munu vér hverfa aftur," segir jarl, "og fara eigi lengra."
   Og það er nú frá sagt að hann hverfur nú aftur og allt föruneyti hans og fóru þar til er þeir komu heim, og sat jarl þau misseri heima með hirð sinni um kyrrt.
   Nú þykir konungi kynlegt er jarl kom eigi, og ætlaði þó að nokkorar nauðsynjar mundi fyrir standa.
   Nú er kyrrt um hríð, og það sumar.
   Og er annar vetur kemur, þá sendir konungur enn menn sína til Hollsetulands að bjóða jarli mági sínum til jólaveizlu jafnt sem hið fyrra sinn, og þarf nú eigi að lengja sögu um það mál, að jarl heitur förinni enn, og fara sendimenn nú heim og segja konungi svo búið.
   Og nú kemur þar misserum er jarl fer heiman með föruneyti sitt og fara nú enn þar til er þeir koma til Limafjarðar og voru nú á skip komnir og ætluðu nú yfir fjörðinn að fara. En það er frá sagt, að í för voru með þeim hundar blauðir, [4] og lágu hvelpar í hundunum. En er þeir voru á skip komnir, þá þótti jarli sem gæi [5] hvelparnir í greyhundunum, [6] en hundarnir þögðu. Þetta þótti jarli og öllum þeim hið mesta býsn, og lézt eigi vildu fram halda förinni og hurfu nú aftur og fóru heim og voru heima þau jól.
   Nú fer því fram, þar til er kemur hinn þriði vetur. Og enn sendir konungur menn að bjóða jarli til jólaveizlu, og heitur hann enn förinni, og fara sendimenn aftur og segja konungi svo búið.
   Enn býst jarl heiman; og þá er að því er komið, fer hann með föruneyti sitt og fara enn þar til er þeir koma til Limafjarðar, og fórst þeim vel og komu yfir fjörðinn, og var þá framorðið dags, og ætluðu að vera þar við fjörðinn um nóttina.
   Og síðan bar sýn fyrir þá, er þeim þótti eigi einskis um vert: Þeir sá boða rísa í innanverðum firði, en annar í utanverðum, og gekk hvor í móti öðrum. En boðarnir voru miklir og gerði af ókyrrleik mikinn; og þeir féllu saman og mættust, og varð brestur hár, og það fylgdi því, að þeim þótti blóðgan gera sjóinn af. Þá mælti jarl: "Þetta eru stórbýsn," segir hann, "og skulu vér nú aftur hverfa, og vil eg eigi fara til veizlunnar."
   Nú gera þeir svo: fara heim, og sat jarl heima þau jól.
   En í öðru lagi, þá varð konungur reiður mjög er jarl hafði öngu sinni þekkzt hans heimboð, en hann vissi eigi hvað til hafði haldið, er hann kom eigi. Og nú um veturinn, þá ætlaði Gormur konungur að herja upp á Harald jarl mág sinn, - þótti hann mjög hafa drabbað í móti sínu virðilegu boði, er hann hafði ekki sinn komið, þá er á var kveðið, og þótti honum jarl svívirðan sig hafa mjög í þessu.
   Og þessarar fyrirætlanar Gorms konungs verður Þyri drottning vör, og taldi ofan þessa fyrirætlan - "og samir þér eigi," segir hún, "að gera honum ófrið fyrir vorar sakir og tengda ykkarra, og liggja hér til miklu betri úrráð um þetta mál."
   Og nú af fyrirtölum drottningar, þá sefast konungur nakkvað svo og eyðist herförin. Síðan var það ráðs tekið, að Gormur konungur sendir menn sína eftir jarli og vildi vita hverju um sætti, er jarl hafði eigi komið, og hafði drottning það ráð til gefið, að þeir skyldu finnast fyrst mágarnir og talast við og sjá þá hvað við sig væri.
   Og nú koma sendimenn konungs á fund jarls og bera fram konungs örendi og bregzt jarl nú við skjótt og fer á konungs fund með virðilegt föruneyti.
   Konungur tekur nú vel að hófi [7] við mági sínum.
   Eftir það ganga þeir konungur og jarl í málstofu, og er þeir voru þar komnir, þá spyr konungur jarl:
   "Hví sætti það," segir hann, "er þú komt öngu sinni er eg bauð þér til mín og svívirðir mig svo og mitt boð?"
   Jarl svarar og kvaðst eigi til svívirðingar við hann gert hafa, þótt hann kæmi ekki sinn til veizlunnar, heldur kvað hann þar aðra hluti til halda. - Segir síðan konungi undrin þau er þeir höfðu séð og nú var áður frá sagt. Og síðan kveðst jarl skýra mundu fyrir konunginum ef hann vildi vita hvað hann ætlaði, hvað er tákna mundi eða fyrirbenda þessi hin miklu undur. En konungurinn játar því. Jarl mælti:
   "Þar mun eg þá til taka er vér sám eikina með grænum eplum og smám. En forn epli og stór lágu hjá niðri. En það hygg eg vera munu fyrir siðaskipti því er koma mun á þessi lönd, og mun sá siður vera með meiri blóma og jarteina þau hin fögru epli. En sá siður er hingað til hefir verið mun tákna hin fornu epli er niðri lágu á jörðu og mundu þar fúna og verða að dusti einu, svo mun og þessi siður niður leggjast þá er hinn gengur yfir löndin, og mun þá verða að öngu og hverfa allt sem myrkur fyrir ljósi.
   Annað undur var það er vér heyrðum hvelpana geyja í greyhundunum. Það hygg eg fyrir því munu vera að þeir menn er yngri eru að aldri munu taka mál fyrir munn hinum ellrum mönnum og gerast svo hvatvísir, og er mikil von að þeir hafi eigi minni hlut ráðanna, þóað hinir ellri sé oft ráðgari, og hygg eg að þeir myni enn ókomnir vera í heiminn, er eg mæla þetta til, þvíað hvelpar þeir gó er eigi voru komnir í heiminn. En greyhundarnir sjálfir þögðu.
   Það var hið þriðja undur er vér sám boðana rísast í móti, annan úr innanverðum firði, en annan úr utanverðum, og mættust miðfirðis, og féll hvor í kverk öðrum, en særinn varð blóðugur af ókyrrleik þeim er þeir görðu. Það hygg eg vera munu fyrir missætti stóreflismanna hér innan lands, og munu þar af gerast stórir bardagar og mikil styrjöld, og er mikil von að þar verði nökkverr afspringur af þessum ófriði á Limafirði, þar sem þessi býsn bar fyrir oss, er nú hefi eg sögð."
   Konungi skildust vel orð jarls og þótti hann vera stórvitur. Og þar eftir gaf hann honum grið og frið, og rann nú konunginum reiði við mág sinn. En það er sagt, áður en þeir gingi í málstofuna, konungur og jarl, að Gormur konungur hefði setta menn til að bera vopn á jarl, er honum þótti sem órækt ein hefði til gingið og ofmetnaður, er hann hafði eigi farið til veizlunnar né einu sinni er hann hafði boðið honum, og þóttist hann þá vita mundu, er þeir hefði tekizt að orðum mágar. En nú þótti konungi sakir til, þótt hann hefði eigi komið.
   Og nú ganga þeir í braut af stefnunni, konungur og jarl, og nú eftir það var jarl þar með honum nokkora hríð í mikilli sæmd, en síðan skildust þeir mágar sáttir og góðir vinir, og þá jarl góðar gjafir af konunginum áður en hann færi í braut, og fer hann nú með föruneyti sitt þar til er hann kemur heim.
   En eigi miklu síðar, þá fór Haraldur jarl suður á lönd og kom í Saxland [8] og tók við kristni og kom aldri síðan til ríkis síns, en gaf {fóstra sínum Knúti og frænda allt ríki sitt, og tók nú Knútur við Hollsetulandi og öllu því ríki er átt hafði Haraldur jarl}. [9]


3. KAPÍTULI

Nú er þar til máls að taka er þeir eru feðgar, Haraldur og Gormur konungur, að þeir urðu ósamþykkir þegar er Haraldur hafði nokkurn kraft [1] aldursins. Þá tók Gormur konungur það ráð, að hann fékk honum skip nokkur og leysti hann svo í braut.
   Haraldur var hvern vetur í Danmörku og hafði þar þá friðland.
   Og er því hafði fram farið um hríð, þá er það sagt, að Haraldur beiddi þess Gorm konung föður sinn að hann skyldi fá honum slíkar eigur og ríki til eignar og forráða sem Klakk-Haraldur afi hans hafði fingið Knúti. En það fékk hann eigi af föður sínum, er hann beiddi.
   Þaðan frá er það sagt að óþokki mikill lagðist á í milli þeirra bræðra, Knúts og Haralds, og þótti Haraldi þeirra görr mikill mun í hvívetna og grunaði að eigi mundi síðar minni.
   Þess er og við getið eitt hvert sinn, að eitt haust kom Haraldur eigi til Danmerkur sem hann átti vanda til, að hafa þar vetursetu, og hafði hann herjað um sumarið í austurlönd. En í annarri sögn er þess getið að Gormur konungur sendir menn til Hollsetulands að bjóða Knúti syni ‹sínum› til sín að jólum.
   Og nú er að því kom, þá fer Knútur heiman og hans föruneyti, og hafði hann þrjú skip. En svo hafði hann til ætlað um ferðina, að hann kom í Limafjörð atfangsdag jóla og síð dagsins.
   Og það sama kveld kömur þar Haraldur bróðir hans með níu skipum eða tíu; hann var kominn úr Eystra-Salti, og hafði hann þar legið í víking um sumarið. Nú verður Haraldur var við að þar var Knútur fyrir bróðir hans þrem skipum, og minnist nú á þokka þann allan er gerzt hafði milli þeirra bræðra. Og biður nú menn sína herklæðast og brjóta upp vopn sín, - "og skal nú," segir hann, "til skarar skríða með okkur Knúti bróður mínum." Knútur verður og var við tiltekju Haralds bróður síns og fyrirætlan, og vill hann verjast, þótt þeir hefði lið minna. Taka þeir vopn sín og búast til varnar, og eggjar Knútur lið sitt.
   Nú leggur Haraldur að þeim öllum megin, og lýstur þegar í bardaga með þeim bræðrum. En það var jafnt jólaaftan sjálfan er þeir börðust. En svo lýkur bardaganum að Knútur fellur þar og allt lið hans, eða nær því, þvíað Haraldur neytti þess er hann hafði lið miklu meira.
   Eftir þessi tíðendi fara þeir Haraldur þar til er þeir komu í stöðvar Gorms konungs síð um aftan, og gingu þeir alvopnaðir til konungsbæjar. Og er það sumra manna sögn þeirra er fróðir eru, að Haraldur leitaði sér ráðs og þóttist eigi vita allgerla hversu hann skyldi að orkast, að segja föður sínum þessi tíðendi, fyrir þá sök, að Gormur konungur hafði þess heit strengt, að hann skyldi þess manns bani verða, er honum segði líflát Knúts sonar síns.
   Haraldur sendir nú fóstbróður sinn þann er Haukur er nefndur á fund Þyri móður sinnar og bar henni til orð, að hún fingi það ráð nakkvað til gefið, er hann gæti ráðið úr þessum vanda. Litlu síðar kemur Haraldur sjálfur á fund móður sinnar og segir henni þessi tíðendi og leitar ráða við hana. En hún réð honum það ráð að hann skyldi sjálfur fara á fund föður síns og segja honum þau tíðendi, að haukar tveir höfðu barizt, [2] og væri annar alhvítur, en annar grár, og væri þó báðir gersimar; en svo lyki með þeim að hinn hvíti fingi bana og þætti það skaði mikill.
   Og nú eftir þetta gengur Haraldur í braut til liðs síns.
   Og vonu bráðara fer hann til hallar föður síns, þar sem hann drakk inni með hirð sinni, og var konungurinn undir borðum og hirðin. Síðan gengur Haraldur inn fyrir föður sinn í höllina og segir honum síðan í frá haukunum, svo sem móðir hans hafði honum ráð til kennt, og lauk svo málinu að - "nú er dauður," segir hann, "hinn hvíti haukurinn." Og er hann hafði það mælt, þá kvað hann úti annað orð, [3] og fór þá enn á fund móður sinnar.
   Þess er eigi getið hvar hann hafði herbergi um náttina og lið hans.
   En Gormur konungur réð ekki í þetta, svo að menn fyndi, er son hans hafði sagt honum. En konungur drakk meðan honum sýndist, og fór síðan að sofa.
   En um náttina eftir er menn voru úr höll farnir til svefns, þá fer Þyri drottning til með menn sína og lét ofan taka allan hallarbúning. En síðan lét hún tjalda í staðinn blám reflum, þar til er altjölduð var höllin. Fyrir því gerði hún svo, að það var hygginna manna ráð í þann tíma, þá er harmsögur komu að eyrum mönnum, að segja eigi með orðum, og gera þá á þann veg sem nú lét hún gera.
   Gormur hinn gamli reis síðan upp þann morgin og gekk í hásæti sitt og settist niður og ætlaði að taka til drykkju og leit á hallarveggina og búninginn er hann gekk utan eftir höllinni og þar nú í hásæti sem áður var frá sagt. Þyri sat í öðru hásæti [4] hjá konunginum.
   Konungur tók þá til orða og mælti: "Þú munt þessu ráðið hafa, Þyri," sagði hann, "er höllin er á þessa leið búin."
   "Fyrir því þyki þér það líklegra herra?" segir hún.
   ‹"Því," sagði konungur, "að þú vill svo segja mér fall Knúts sonar míns."
   "Þú segir mér nú," sagði drottning.›
   Gormur konungur hafði staðið upp fyrir hásætinu er þau tóku þetta að ræða. En nú settist hann niður hart og svaraði öngu og hné upp að hallarvegginum og lét þá líf sitt. En síðan er konungur þaðan í braut borinn og færður til graftrar, og var haugur orpinn eftir hann að ráði Þyri drottningar. [5]
   Og nú eftir þetta sendir hún orð Haraldi syni sínum, að hann skyldi heim fara með öllu liði sínu og drekka erfi eftir föður sinn. Nú gerði hann svo, og verður erfið bæði gott og virðilegt.
   Og nú hér eftir tekur Haraldur við landi og þegnum og því ríki öllu er faðir hans hafði átt, og síðan þingaði hann við landsmenn, og tóku Danir hann til konungs yfir það ríki allt er Gormur konungur faðir hans hafði átt, og situr síðan nokkura vetur í friði og stýrir ríki sínu með vegsemd og gildum sóma; er harðráður og gildur höfðingi og vinsæll.


4. KAPÍTULI

Sá maður er nefndur til sögunnar er Hákon hét og var son Sigurðar Hlaðajarls; hann átti heimili í Noregi og svo kynferði. Hann þóttist eiga ríki í Noregi að vera jarl yfir fjórum fylkjum. Og í þenna tíma réð fyrir Noregi Haraldur gráfeldur og móðir hans, Gunnhildur, er kölluð var konungamóðir, og létu þau Hákon eigi ráða eða ná öllu ríki sínu, en hann vildi eigi hafa nema hann réði öllu, og fer hann fyrir það í burtu úr landi með miklu liði, og hafði hann tíu skip úr Noregi. Síðan lagðist hann í víking og herjaði víða of sumarið. En um haustið þá kom hann í Danmörk með skipum sínum og liði og mælti til vinfengis við Danakonung og beiddist að hafa þar friðland í hans ríki og vera þar um veturinn. Haraldur konungur tók því einkar vel og bauð honum til hirðvistar með sér við hálft hundrað manna. Hákon þekktist það; fór hann til konungs með þetta lið, en vistaði annað lið sitt þar í Danmörk.
   Það er og frá sagt, að Knútur Gormsson átti son eftir sig, þann er Haraldur hét og var kallaður Gull-Haraldur. Hann kom eigi mörgum náttum síðar við Danmörk og hafði tíu skip. Hann hafði herjað víða um lönd og fingið mikið fé og ætlaði sér vist um veturinn með Haraldi Gormssyni, frænda sínum, og hafa þar friðland.
   Haraldur konungur tekur vel við frænda sínum og nafna, býður honum heim til sín við jafnmarga menn sem Hákon hafði áður þangað haft, og það sama þekktist Haraldur.
   Og eru þeir Hákon og Gull-Haraldur þar báðir þann vetur í allmikilli virðingu af Danakonungi.
   En þá er jól komu um veturinn, þá var þar enn meir vönduð veizla en þess í milli, bæði fyrir drykkjar sakir og annarra tilfanga og fjölmennis er þá var enn þangað boðið að jólum.
   Frá því er sagt, að það var haft að ölmálum og teiti manna á milli, hvort nokkur konungur á norðurlönd mundi meiri rausn hafa í sínum veizlum, og stórmennsku, en Haraldur Gormsson, og urðu allir á eitt sáttir, að engi konungur væri slíkur of alla norðurhálfu heims og þar allt sem dönsk tunga gingi.
   En maður var sá þar innan hirðar er ekki fannst um og átti öngan hlut í hjali þessu. En þar var Hákon jarl Sigurðarson. En svo er sem mælt er, að mörg eru konungs eyru, og var konunginum sagt brátt, að Hákon hefði ekki til lagt honum til virðingar, þá er menn urðu á eitt sáttir.
   En eftir það þá er náttin er af liðin, þá heimti Haraldur Gormsson á mál Hákon jarl og Gull-Harald, og gingu þeir þrír á málstefnu.
   Og er þeir voru þar komnir, þá skorar konungur til við Hákon, hvort hann hefði það mælt, að hann væri eigi mestur konungur á norðurlöndum, fyrir því að honum var svo sagt.
   Jarl svarar: "Hvorki gerða eg að, herra," segir hann, "þá er aðrir áköfuðust mest á þetta, og átta eg í öngan hlut, og þykjumst eg saklaus um þetta."
   "Þá vil eg þetta vita," segir konungur, "hvattú færir til þess er þér þykir þetta eigi sem öðrum mönnum."
   "Vant verður oss, herra," segir jarl, "of slíkt að ræða; en aldri má mér sá þykja meiri maður er annar situr yfir sköttum hans, og hafi svo lengi fram farið, og hafi sá eigi ríki til að heimta, er á."
   Þá þagnaði konungur nokkura stund og tekur til orða og mælti: "Eg hefi nú íhugað, attú hefir satt mælt og fundið til um þetta. En eigi þarf þig að kalla hinn vitrasta jarl og hinn mesta minn vin, ef eigi fær þú það ráð er dugi við Harald gráfeld Gunnhildarson, þvíað eg veit attú mælir þetta til hans." [1]
   Jarl segir: "Þvíað einu eykst þín virðing við heimboð þetta við mig og Gull-Harald frænda þinn, ef þú þykir nú meiri konungur héðan frá en áður, og tökum nú allir samt það ráð er oss sýnist efnilegt og allra vor vegur aukist við."
   "Settu nú ráðið," segir konungur, "og neyt nú þess er þú ert ráðugur maður kallaður og vitur."
   Hákon segir: "Ef það skal mitt vera að setja ráðið, þá er nú hugað," segir hann. "Þá skal senda menn úr landi á einu skipi, svo að það sé vel skipað, til fundar við Harald gráfeld, og segið svo að þér bjóðið honum hingað með fullri virðing og eigi með miklu liði til vegsemdar boðs, og lát svo segja honum, að það er áður stendur á meðal ykkars máls meguð ið [2] sjálfir sættast á, þá er ið finnist. Það skaltu og fylgja láta orðsendingunni," segir hann, "attú ætlar að biðja Gunnhildar móður hans, en eg kann skaplyndi hennar að því, þótt hún sé nakkvað aldri orpin, að hún mun þá mesta stund á leggja að fýsa son sinn fararinnar, ef þetta liggur við, þvíað lengi hefir hún þótt nökkvat vergjörn. En vér skulum vera í öllum viðurbúnaði með þér, en þú skalt það til leggja með Gull-Haraldi frænda þínum, attú skalt honum unna hálfs Noregs, en hálfs mér, ef við getum Harald gráfeld af lífi tekinn, svo attú sér eigi við með þína menn. En eg heit þér því í móti, og við Gull-Haraldur báðir, attú skalt þá skatta hafa af Noregi sem nú mun eg til inna, að við munum út reiða ef okkart verður landið: hundrað marka gulls og sex tigu hauka. Þá miklumst vér allir af, ef að þessu gingi, sem nú hefi eg ráð til gefið."
   Haraldur konungur segir: "Þetta ráð sýnist mér eigi óvænlegt, og skal þetta vera og fram ganga, ef svo vildi til takast."
   Gull-Haraldur lét sér og þetta líka forkunnar vel, sem nú var til skipað, og nú gingu þeir af þessi málstefnu.
   Og lét Haraldur konungur nú skip búa vonu bráðara. Það var snekkja ein mikil. Þar lét hann á vera sex tigu manna. Og síðan fóru þeir leiðar sinnar þá er þeir voru til þess búnir, og ferst þeim vel, og hitta þeir Harald konung gráfeld í Noregi og báru upp örendi þessi fyrir hann, sem fyrir þá voru lögð, og gátu fyrir Gunnhildi um bónorðið, að Haraldur konungur Gormsson mundi biðja hennar. Og er hún heyrði þetta, þá fór sem hann gat, að hún fýsti Harald son sinn ferðarinnar, "og er einsætt," segir hún, "að dvala ekki förinni, þvíað eg mun hafa landráð meðan, og vættir mig að það sé nokkur hlít slíka stund. En skunda að förinni sem föng eru á."
   Eftir það fara sendimenn Haralds Gormssonar aftur, og ferst þeim vel, og segja konungi að þangað er von Haralds gráfeldar.


5. KAPÍTULI

Síðan [1] settu þeir fram skip sín Hákon og Gull-Haraldur, og svo stýrði [2] Haraldur Gormsson þá til, að þeir höfðu alls sex tigu skipa, og lágu á vatni albúnir sem til bardaga og ætluðu að taka við Haraldi gráfeld, ef hann kæmi. Hann varð og eigi þinglogi, [3] og hafði tvö skip mikil og fjögur hundruð manna, og vissi sér einskis ótta vonir.
   Þeir hittust á Limafirði, þar sem heitir að Hálsi.
   Hákon segir að hann lézt eigi vildu þar mörgum skipum að leggja, er lítils þyrfti við - "og er það sannast að segja, að mér verður vandi mjög mikill við Harald gráfeld fyrir frændsimis sökum. En eg ann þér þessa sigurs afarvel." Það er og frá sagt, að Haraldur lét að eggjast og átti við sér slægra um, þar er Hákon var.
   Og eftir þetta, þá leggur Gull-Haraldur að nafna sínum [4] og lét æpa heróp, og skall nú bardagi á þeim, þvíað þeir vissu sér einskis ótta vonir, og verja sig þó vel og drengilega. Hákon jarl lét ekki verða vart við sig um bardaga þeirra nafnanna og það lið er eftir var með honum.
   Og er Haraldur konungur gráfeldur var í þessum mannháska og varð þá þess var, að eigi var allt svikalaust, og þóttist þá vita hversu fara mundi leikurinn, þá mælti hann:
   "Það hlægir mig nú," segir hann, "að eg sé það, nafni, að sigur þinn mun eigi langur vera, þóttú fellir mig, fyrir því að eg veit, að þetta eru ráð Hákonar jarls er hér fara nú fram, og hér kemur hann þegar á hendur þér er eg em dauður og drepur þig á fætur oss og hefnir vor svo."
   Og nú er það sagt, að Haraldur konungur gráfeldur fellur þar í bardaganum og mestur hluti liðs hans, og lauk svo um hans æfi. [5]
   Og þegar er Hákon jarl veit þessi tíðendi, þá gerir hann atróður harðan, þá er þeir Gull-Haraldur voru sízt viður búnir, og býður liði Haralds þá kosti, hvort þeir vildi heldur berjast við hann eða selja honum fram Gull-Harald, og lézt vilja hefna Haralds gráfeldar frænda síns. Þeir kjósa það að berjast eigi við Hákon, þvíað þeir vissu að Haraldur konungur Gormsson vildi að Gull-Haraldur væri drepinn, og hafði það verið í undirmálum með þeim Hákoni, sem nú var bert. Er nú síðan Gull-Haraldur höndum tekinn og leiddur í mörk í braut og hengdur.
   Og nú fer Hákon jarl á fund Haralds Gormssonar og selur honum einsköpun fyrir þetta, er hann hafði drepið Gull-Harald frænda hans, en þó var þetta hégómi einn, fyrir því að þetta var beggja þeirra ráð reyndar. En Haraldur konungur gerir það á hendur Hákoni, að hann skal skyldur til að fara til Danmerkur um sinn og bjóða út leiðangri um allan Noreg til liðs við sig, þá er hann þykist liðs þarfi [6] vera, en fara jafnan sjálfur þá er hann sendir honum orð og hann vildi hans ráðuneyti hafa. Hann skyldi og gjalda skatta þá alla er fyrr var í frá sagt.
   Og áður en þeir Hákon skiljast, þá tekur hann gull það er átt hafði Gull-Haraldur, og þar hafði hann nafn af tekið, er hann var Gull-Haraldur kallaður. Það gull hafði hann flutt af suðurlöndum. Það var svo mikið, að tvær kistur voru fullar af gulli, svo að eigi máttu tveir menn meira knýja. Og nú tekur jarl upp þetta fé allt að herfangi og geldur Haraldi konungi af því fé þriggja vetra skatt fyrir fram, og kveðst eigi mundu í öðru sinni betur til fær en nú. Haraldur konungur tekur því vel, og skiljast þeir Hákon nú, og fer hann í braut úr Danmörku, þar til er hann kömur til Noregs. Og kemur nú þegar á fund Gunnhildar konungamóður og segir henni svo, að hann hefði hefnt Haralds gráfeldar sonar hennar og drepið Gull-Harald, og það með að hann kveður Harald Gormsson vilja einkum að hún færi úr landi með veglegu föruneyti, og kvaðst vilja samfarar við hana. En þeir höfðu gör þessi ráð reyndar með sér áður en þeir skildi, Haraldur og Hákon, og það með, ef hún gingi í þessa snöru og kæmi til Danmerkur, þá höfðu þeir menn til setta að drepa hana þegar.
   Nú lýsir hér yfir því er margir mæltu, að hún þótti nokkuð vergjörn, og fór hún nú úr landi með þrjú skip, og voru sex tigir manna á hverju. Hún fer nú þar til er hún kömur til Danmerkur.
   Og nú er það spyrst, að Gunnhildur er við land komin, lætur Haraldur aka vögnum í mót henni og liði hennar, og er hún þegar sett í einn virðilegan vagn, og sögðu menn henni, að dýrleg veizla var búin í móti henni að konungs.
   Þeir óku með hana um daginn.
   Og um kveldið er myrkt var orðið, þá komu þeir eigi að höll konungs, heldur var hitt, að eitt fen mikið varð fyrir þeim, og tóku þeir Gunnhildi höndum og hófu hana úr vagninum og breyttu nokk{uð} - - - [7] stór{an að hálsi} - - - [8] {að höfði henni, köstuðu} [9] síðan út á fenið og drekktu henni þar, og lét hún svo líf sitt, - og heitir þar síðan Gunnhildarmýrr. Braut fóru þeir eftir það og komu heim um kveldið og segja konungi svo búið, hvað er þá hefir í görzt.
   Konungur segir: "Þá hafi þér vel gert," segir hann; "hefir hún nú þann sóma er eg hugða henni."
   Og nú sitja þeir Haraldur konungur og Hákon jarl {nokkura} vetur í góðum friði, og er nú friður milli landanna, Noregs og Danmerkur, og vinátta þeirra einkar góð, og sendi Hákon jarl Haraldi konungi ein misseri sex tigu hauka, og lét að honum þótti betra að gjalda heldur upp á einu ári, en eigi á hverju ári.


6. KAPÍTULI

Í þann tíma ræður fyrir Saxlandi og Peitulöndum Ótta keisari, er kallaður var Ótta hinn rauði, og jarlar hans tveir; annar hét Urguþrjótur en annar Brimiskjarr.
   Þess er við getið að einhverjum jólum, að keisarinn Ótta strengdi þess heit, að hann skyldi fara til Danmerkur þrjú sumur í samt ef þess þyrfti við og kristna alla Danmörk, ef hann mætti því fram koma.
   Og eftir þessa heitstrenging samnar keisarinn liði til þessarar ferðar.
   Og þá er Haraldur Gormsson spyr þetta og verður var þess, að keisarinn hefir allmikinn liðsafla, þá sendir hann til Noregs þegar sex tigu manna á einni snekkju til fundar við Hákon jarl og bauð þeim svo að segja jarli, að hann mundi aldregi meir þurfa en þá, að hann byði út leiðangri of allan Noreg og færi að veita honum lið. Sendimenn konungs fóru og fram komu og segja jarli orðsending konungs, og fara síðan aftur. Hákon jarl víkst við skjótt við þetta mál og þykir nauðsyn á vera, að eigi verði þau endimi í að menn sé kúgaðir {til kristni í} Danmörku eða á öðrum norðurlöndum og megi eigi halda háttum og átrúnaði sinna foreldra. Hann samnar nú liði nakkvað af bráðungu, og mundi meira hafa ef allur væri leiðangurinn og væri lengra tóm til gefið.
   Jarl fer þegar úr landi er hann er búinn og hafði hundrað skipa. En um sumarið síðar, þá komu menn úr {Noregi þrír} með mikið lið til móts við Hákon jarl.
   Nú fer Hákon jarl ferðar sinnar og tekst greitt. Og er hann kömur við Danmörk, þá spyr Haraldur konungur og verður harla feginn, og fer þegar í móti {honum og býður honum nú til} [1] sín með fullri ölværð og gerði veizlu {virðilega í móti honum og öllu hans liði. Og nú bera þeir Haraldur konungur og Hákon jarl saman ráð} sín, [2] og taka þeir það ráð, að þeir fara í móti Óttu keisara með svo miklu liði sem þeir fá mest saman dregið um alla Danmörk, og eru þeir mestir höfðingjar fyrir því liði, Haraldur konungur og Hákon jarl.
   Og fara þeir nú þar til er þeir finna keisarann. Þeir finnast á sæ, og slær þar þegar í bardaga með þeim, og verður þar hin snarpasta atlaga. Þeir berjast allan dag í gegnum, og fellur mikið lið af hvorum tveggjum, og þó fleira af keisaranum.
   Og er nátta tók, þá settu þeir þriggja nátta grið á millum sín og lögðu að landi og bjuggust við hvorirtveggju.
   Og er þrjár nætur liðu, þá gingu saman fylkingar þeirra Óttu keisara ok Haralds konungs og Hákonar jarls, og berjast nú á landi, og gengur keisaranum nú þungt bardaginn, og féll miklu fleira hans lið of daginn.
   Og þar kömur að hann leggur á flótta undan með lið sitt.
   Ótta keisari var á hesti um daginn, og er nú sagt að þeir sækja ofan að skipunum, og keisarinn ríður fram að sjónum og hefir í hendi spjót eitt mikið, gullrekið og alblóðugt; og síðan stingur hann spjótinu í sæinn og nefnir síðan guð almáttkan í vitni og mælti síðan: "Í annað sinni þá er eg kem til Danmerkur, þá skal vera annað hvort að eg skal kristnað fá Danmörk eða ella láta hér lífið." [3]
   Eftir þetta ganga þeir Ótta keisari á skip sín og fer hann nú heim til Saxlands. En Hákon jarl er eftir með Haraldi konungi og réð honum mörg viturleg ráð.
   Og nú létu þeir gera það mannvirki er víðfrægt er og kallað er Danavirki, en það var gert milli Ægisdura og Slésmunna, um þvert landið milli sjóva.
   Síðan fer Hákon jarl til Noregs.
   Og áður en þeir skildist, þá mælti hann við konung: "Svo er nú farið herra, að vér þykkjumst eigi lagi á koma að gera yður greiða um skattana sem vér vildim, fyrir sakir starfs þessa hins mikla og fékostnaðar er vér höfum fyrir yðrar sakir. En fyrir hotvetna fram vilju vér gjalda yður skattana þá er þessu léttir af oss." Konungur svarar og biður hann ráða, og þykjast menn þó finna að konunginum þykja nökkvers til seinir skattarnir. Skildu þeir nú við svo búið, og fer Hákon heim í land sitt og þykist nú unnið hafa mikinn sigur.
   Og eru nú kyrr tíðendi bæði í Noregi og Danmörku þrjá vetur.
   Og á þessum þrem vetrum lét Ótta keisari samna liði og fær ógrynni liðs.
   Og er þessir vetur liðu, þá fer hann til Danmerkur með þenna hinn mikla her og jarlar tveir með honum, Urguþrjótur og Brimiskjarr.
   En þá er Haraldur konungur spyr þetta, þá sendir hann menn á fund Hákonar jarls jafnmarga sem hið fyrra sinn, og sendir honum þau orð, að hann þykist aldregi meir hafa þurft hans liðveizlu og fjölmennis en þá. Hákon jarl skipaðist brátt við orðsending Haralds konungs og þykir vera nauðsynjamál, og fer þegar er hann var búinn, {og hefir hann} nú hvergi minna lið en hið fyrra sinni og kemur við Danmörk og fer þegar {við hinn tólfta} mann á fund Haralds konungs, og varð konungurinn honum stórum feginn og kveður hann vel hafa vikizt við sína nauðsyn, - "og skal nú senda menn í móti liði þínu öllu og fari það hingað til veizlu, og kann eg hvers yðvars þökk."
   "Við skulum enn innast orð við áður," segir jarl, "en þetta sé að gert. Mig áttu heimilan til fylgdar við þig og ráðagerðar og það lið sem nú hefi eg, þessa tólf menn, en eigi fleira lið, nema eg vilja, þvíað eg hefi komið áður of sinnsakar með leiðangur að veita þér lið sem við áttum mælt með okkur fyrir öndverðu."
   "Satt er þetta," sagði Haraldur konungur, "er þú mælir. En þess vætti eg attú munir þetta lið láta mér að gagni koma er þú hefir hingað haft fyrir sakar vináttu okkarrar."
   "Þess verð eg ráðandi við menn mína," segir Hákon, "að þeir þykjast skyldir til fylgdar við mig að verja mitt land og ríki. En þess þykjast þeir eigi skyldir að verja Danmörk eða annað konungs ríki og leggja síður sínar við spjótsoddum, en taka ekki í mót í gæðum eða virðingum."
   "Hvað skal eg til vinna við þig," segir Haraldur konungur, "eða menn þína, að ér komið mér nú að liði er eg þarf mest, þvíað það hefi eg sannspurt, að eg mun við ofurefli eiga að skipta fyrir sakir fjölmennis keisarans."
   Jarl svarar: "Einn er hlutur skoraður til þess," segir hann, "að því er vér urðum ásáttir, eg og mínir menn: Sá hlutur ef þú gefur upp alla skatta af Noregi, þá er ógoldnir eru, og svo skaltu gefa upp vandlega, að aldregi síðan verði Noregur skattgildur undir þig. En ef þú vilt eigi þetta er nú er til mælt, þá mun lið þetta allt fara aftur er mér hefir hingað fylgt, nema eg sjálfur skal vera hér og veita þér með þessum tólf mönnum er nú eru hér komnir, þvíað allt skal eg það enda, er við urðum á sáttir."
   "Það er satt um að ræða," segir konungur, "að alla menn byrgir þú inni fyrir vitsmuna sakir og ráða, og eru mér nú gervir tveir vandræða kostir, svo að mér þykir hvorgi góður."
   "Sé þú vandlega á kostina," segir jarl. "En svo sýnist mér sem þér myndi að öngu haldi skatturinn koma af Noregi ef þú lætur lífið hér í Danmörku."
   "Skjótt skal kjósa," segir konungur, "að því sem nú er máli komið að þú veitir mér með allt lið þitt sem þú hefir framarst drengskap til, og muntu þá öðlast það er þú mælir til."
   Og eftir þetta, þá voru menn sendir þegar í mót öllu liði jarls, að þangað skyldi koma á eina stefnu, og eigu þeir að þessu hannsöl og binda fastmælum sín í milli, og nú taka þeir veizlu dýrlega að Danakonungs, og fara nú síðan í móti keisaranum með allan her þann er þeir fingu til. Haraldur konungur fer með skipaliði til Ægisdyra. En Hákon jarl fer með sinn her til Slésdura öðru megin landsins.
   Ótta keisari spyr þetta, að Hákon jarl er kominn í Danmörk að berjast í móti honum. Hann tekur þá það ráð, að hann sendir jarla sína, [4] Urguþrjót og Brimiskjarr, til Noregs. Þeir höfðu tólf kugga hlaðna af mönnum og vopnum þeirra örenda að kristna Noreg, meðan Hákon jarl væri í brautu.


7. KAPÍTULI

Nú er fyrst að segja frá keisaranum og þeim hinum mikla her er hann hafði, að þeir ganga á land upp, þá er þeir koma við Danmörk, og sjá Danavirki og þykir eigi vera auðvelligt að sækja, ef varnarmenn eru fyrir, og hverfa frá og ofan til skipa sinna og ganga á skip út.
   Og í því bili finnast þeir Haraldur konungur og Ótta keisari, og slær þar þegar í bardaga. Þeir berjast á skipum, og fellur margt manna af hvorumtveggja, og fá hvorigir sigrað aðra með öllu, og skilja við það. Síðan leggur keisari skipaher sinn þar sem heitir Slésdyr, og er þar fyrir Hákon jarl með sitt lið. Þar tekst og þegar atlaga með þeim keisara og jarli, og verður hið harðasta él, og fellur þá keisara þyngra bardaginn, og lætur hann þar margt lið. Og svo lýkur, að hann flýr undan með lið sitt og þykir fast fyrir vera og kemur það í hug, að hann mun verða að leita sér ráðs um, hvernig helzt má að orka.
   Svo er sagt, þá er keisari leggur skip sín til lægis, að þeir mæta skipaliði nokkuru, það voru fimm skip, og voru öll langskip stór. Keisari spurði hvað sá maður héti er forráð hafði skipa þeirra og liðs. Sá svarar og læzt Óli heita að nafni. Þá spurði keisari, hvort hann væri kristinn maður eða eigi. Óli svaraði og lézt við kristni tekið hafa vestur á Írlandi, og býður hann sig til liðveizlu við keisara, ef hann þykist þurfa meira liðsafla en áður hefir hann. Keisari kveðst það gjarna vilja, og kveðst kunna honum mikla þökk fyrir - "og lízt mér gæfusamlega á þig," segir hann.
   Óli réðst í lið með honum og hefir þrjú hundruð manna, og er það lið hið hvatlegsta, og ber þó sá af öllum, er fyrir liðinu réð.
   Nú eftir þetta leita þeir ráðs, keisari og menn hans, fyrir því að það vandræði var komið að höndum þeim, að þeir voru farnir að vistum, en hitt í öðru lagi, að allur fénaður sá er þeim megin Danavirkis var, sem þeir voru staddir, var á braut rekinn vandlega allur og fengu þeir því ekki náð, og sýndist hyggnum mönnum að tvö vandræði væri á: annað hvort að hverfa frá við svo búið, eða drepa reiðskjóta sína til matar, og sýndizt mönnum hvottveggi kosturinn illur þeirra.
   Nú fær keisara þetta mikillar áhyggju, og orkar á Óla til atkvæðis og úrráða um þetta mál og bað hann fá það nokkuð ráð er gegndi.
   Óli svarar og kveðst hafa á ráðagerðum sínum ‹metnað› og vildi það hafa láta að nokkuru er hann legði til, og yrði allir á eitt sáttir, eða {ella kveðst} hann eigi mundu eitt orð til leggja.
   Þar kemur nú máli, að allir gerðu að því róm að hafa það ráð er Óli legði til. Þá mælti hann:
   "Það er þá ráð mitt," segir hann, "að vér gangim allir í einn stað er á Krist trúum og heitim á allsvaldanda guð, skapara allra hluta, {sex dægra} föstu, að hann gefi oss sigur, og vér þurfim eigi að drepa hross til {matar} oss. Þá vil eg það ráð annað til gefa," segir hann, "að vér farim í dag á merkur og skóga, þá er oss eru nálægstir, og skal hver maður höggva sér byrði af þeim viði er oss þykir von að eldnæmstur sé, og skulu vér þann við allan bera að virkinu og sjám þá enn síðan hvað í gerist."
   Þetta ráð sýnist þeim vænlegt, er Óli hefir til lagt, og fara nú þannig með sem hann gaf ráð til.
   Þar var þannig til farið, er virkið var, að díki mikið var grafið þeim megin sem þeir voru. Það var tíu faðma breitt, en níu faðma djúpt. En nokkuru mjórra þar er kastalar stóðu yfir uppi. En þeir voru svo settir, að kastali stóð yfir hverju hundraði faðma á virkinu uppi.
   Annan dag eftir er þeir höfðu viðinn dregið að virkinu, þá höfðust þeir það að, að þeir gerðu brúar stórar yfir díkið, svo að brú var gör gagnvert hverjum kastala, og gerðu stokka undir, svo að allt tók sá umbúnaður að virkinu. Og þann sama dag tóku þeir öll vatnkeröld þau er þeir höfðu og drápu úr botninn annan og létu síðan koma þar í innan lokarspánu þurra og aðra spánu þá er þeir telgdu til þess er fullir voru verplarnir af spánunum. Síðan láta þeir koma eld í spánuna, og eftir það skjóta þeir aftur botnunum í verplana og láta opna ofan, til þess að þar lysti í vindi.
   Nú og í annan stað, þá taka þeir og slá eldi í viðuna þá er þeir höfðu dregna að virkinu. En veðri var þannig farið, að á var sunnanvindur hvass og þurrt veður og stóð að virkinu.
   Nú taka þeir verplana og skjóta þeim út á díkið, og síðan lýstur vindinum ofan í holið verplanna og keyrir út að virkinu og svo innundir virkið. En þetta var um kveldið, er þessum umbúnaði var lokið.
   Nú er svo frá sagt, þá er nátta tók, að eldurinn tók að leika vatnkeröldin og viðinn, og því næst laust logunum upp í kastalana og því næst í virkið, og síðan brann hvað að öðru, þvíað virkið var mest af viðum gert. Svo lauk máli, að á þeirri nátt brann upp allt Danavirki með köstulum og sá engi merki eftir né örmol, og unnu það vatnkeröldin er eldinn báru að virkinu. En þá er morgna tók, þá gerði á mikið regn, svo að menn mundu trautt slíkt vatnfall úr himni komið hafa og slökkti þann eld vandlega, svo að menn máttu þá þegar fara yfir usla þann hinn mikla. Og ef það slokknaði eigi við regnið, þá var eigi vænt að þar mundi mega yfir komast bráðfengis.
   Og nú er þeir Haraldur konungur og Hákon jarl sá á þetta allt jafnsaman, þá slær ótta nokkurum í skap þeim og síðan flýja þeir undan til skipa sinna. En þeir keisari gingu yfir brúarnar, þar er þeir höfðu gert yfir díkið, þvíað þaðan hafði eldinn frá lagðan, þá er virkið brann, og ganga þeir nú yfir þann usla, og var nú allur kaldur orðinn og slokkinn, og höfðu þeir nú fastað fjögur dægur til liðs sér við almáttkan guð.
   Og á hinu fimmta dægri sækja þeir þangað frá virkinu, sem þeir höfðu fyrir verið, Danakonungur og Hákon jarl. Og þá er þeir komu þar, þá skorti þá eigi kvikfé, og fingu þeir sér nú ærnar vistir, þvíað þangað hafði rekið verið féið til skjóls undan herinum þeirra keisara, og hafa þeir nú ærna gnótt vista, og spara þeir ekki mjög fé Dana og eru góðir blóðöx‹ar›. [1] Nú lofa þeir guð fyrir þenna sigur hinn fagra, og þótti keisara vel hafa dugað ráð Óla, og spyr nú eftir, hvaðan Óli væri að kynferði, eða hverju landi hann væri.
   Óli svarar: "Ekki mun eg lengur dyljast fyrir þér," segir hann. "Eg heiti Ólafur, og em eg kynjaður úr Noregi, en Tryggvi hét faðir minn."
   Það er nú frá sagt, að þeir Ótta keisari og Ólafur sóttu eftir þeim Haraldi konungi og Hákoni jarli. Og allir þeir saman áttu þrjá bardaga á meginlandi, og varð þar mikið mannfall, og flýðu þeir undan loks, þeir Haraldur konungur og Hákon jarl. En þeir keisari og Ólafur sóttu eftir um landið. Og hvar sem þeir fóru, þá var það boðið þeim mönnum öllum, er þeir fingu höndum tekið, að annað hvort skyldi, að þar mundi hver [2] þegar vera drepinn, eða ella skyldi taka trú og skírn, og kuru margir það er betur gegndi, að taka trú og skírn. En þeir menn et eigi vildu undir ganga, þá létu búkarlar eigi mjög rjúka á þeim tólf mánuðum hinum næstum, þvíað þeir keisari brenndu byggðina og þorpin og eyddu svo fyrir þeim öllum, er eigi vildu trúna taka, en drepa þá jafnan sjálfa.
   Ótta keisari og Ólafur Tryggvason vinna nú mikinn sigur og fagran á þessum tólf mánuðum, þvíað nú heldur ekki við þeim. En þeir flýja undan ávallt, Haraldur konungar og Hákon jarl, og þykjast nú finna það og sjá, að minni og minni er ávallt þeirra afli, svo sem meiri hlutur og meiri er kristnaður í landinu.
   Og nú hafa þeir Haraldur konungur og Hákon jarl stefnu og ráðagerð með sér, hvað til skyldi taka, og þykir nú taka að þröngva að sér mjög: hafa flýið í braut frá eignum sínum og skipum og fjárhlutum {og} megu nú sjá það, að þeir fá eigi náð skipunum, þvíað þeir keisari hafa þar yfirsókn, og sýnist nú rállegast að svo vöxnu máli sem var, að senda menn á fund Óttu keisara og Ólafs Tryggvasonar.
   Nú eru menn sendir á fund keisara og bera upp örendi Danakonungs og Hákonar jarls. Keisari tekur því vel og lætur þeim kost griða ef þeir vilja trú taka, og sendir þeim þau orð í móti, að þeir skyldu þing eiga allir saman, og fara þeir nú aftur, sendimenn Haralds konungs og Hákonar jarls, og segja þeim svo búið.
   Eftir það koma þeir nú allir á þing, og hefir það fjölmennst þing verið í Danakonungs veldi á þeirra dögum. Þá gengur á þingið byskup sá er var með keisara, er Poppa er nefndur, og telur þar trú fyrir þeim á þinginu, vel og orðfærlega, og talar hann langt örendi og snjallt.
   Haraldur konungur hefir orð fyrir þeim Hákoni og svarar þá er hann hafði heyrða töluna: "Ekki er til þess að ætla," segir hann, "að eg muna skipast við orð ein saman, nema það fylgi, að eg sjá jartegnir nokkurar, að þessum sið fylgir meiri máttar, er þér boðið, en þeirri trú er vér höfum áður." En þetta var þó ráð Hákonar jarls, þótt konungur bæri upp, þvíað hann vildi hotvetna annars heldur en ganga undir trúna.
   Byskup svarar þessu máli á þessa leið: "Eigi skal það að skorta," segir hann, "að reyna skal kraft þessar trúarinnar. Nú skal taka járn glóanda, en eg mun áður syngja messu og færa fórn almáttkum guði, en síðan mun eg ganga yfir glóanda járn, í trausti heilagrar þrenningar, níu fet, og ef guð hlífir mér við bruna, svo að minn líkami sé alheill og óbrunninn, þá skulu þér allir játast undir rétta trú."
   Og nú játa þeir því Haraldur konungur og Hákon jarl og allir þeirra menn, ef hann gingi yfir járn glóanda, svo að hann brynni eigi, að þá mundi þeir verða við trúnni að taka.
   Nú fer þetta fram, að byskup syngur messu, og eftir messuna, þá gengur hann til þessar raunar, treystur þá með holdi og blóði almáttigs guðs, og var í öllum byskups skrúða, þá er hann trað járnin. En guð hlífði honum svo að hvergi var brunaflekkur á hans líkama, og hvergi var á runnið á klæði hans.
   En er Danakonungur sér þessi stórtíðendi, þá tekur hann þegar trú og skírn og allir hans menn, og þykir konunginum mikils um vert þessa jartegn; og nú er skírður allur Danaher í þessi rennu.
   Hákon jarl er alltrauður undir trúna að ganga og þykir vera harður á annað borð; ræður þó það af loksins, að hann er skírður, og beiðir sér síðan fararleyfis og vill hvata heim. En því máli kömur svo, að Hákon verður því að heita keisara, að hann skyldi kristnað fá Noreg ef hann mætti, eða flýja frá ríki sínu ella.
   Og eftir það fer Hákon í braut og þangað sem skip hans voru, og fer síðan þar til er hann kömur heim í Noreg.
   Nú tekst síðan vinfengi mikið með þeim Haraldi konungi og Óttu keisara, og fara nú báðir til einnar veizlu, þeirrar er konungur veitir. Ólafur fer og þangað með þeim. Og áður en þeir skiljast, Ótta [3] keisari og Haraldur konungur, þá heitur Danakonungur því, að allir hans menn skyldu trú taka, þeir er hann mætti orðum við koma, og það endi hann. En Ótta keisari fer heim til Saxlands til ríkis síns og bauð Ólafi með sér að fara. En Ólafur lézt fús að fara í austurveg, og svo gerði hann, og skildust þeir þar, Ótta keisari og Ólafur, í Danmörku, og vorust góðir vinir jafnan síðan.
   Nú er að segja frá því er gerðist í ferð Hákonar jarls, þá er hann fór heim til Noregs, að hann kom við Gautland, og þegar er hann kömur þar, þá herjar hann og gerir upprásir. En sendir aftur presta alla og kennimenn þá er keisari hafði fingið honum til föruneytis og að skíra menn í Noregi. Nú vill Hákon ekki að þeir fari lengur með honum.
   Og nú er hann herjar, þá spyr hann til hofs eins, þess er mest var í Gautlandi meðan þar var heiðið. Í því hofi var hundrað goða, og {var helgað Þór} hofið. Hákon tekur fé það allt er þar var inni, en þeir menn er varðveittu hofið og bólstaðinn flýðu undan, en sumir voru drepnir. En Hákon fór aftur til skipa sinna með féið og brennir og bælir allt það er fyrir honum varð á þeirri leið, og hafði fingið ógrynni fjár er hann kom til skipa.
   Og á þessu méli, er Hákon svarfaðist þar um á Gautlandi, þá spyr Óttar jarl er réð fyrir miklum hluta Gautlands, og bregður hann við skjótt, og dregur hann að allan landher í móti Hákoni jarli og fer með mikið lið að honum, og lýstur þar þegar í bardaga með þeim, og verður Hákon borinn ofurliði af landher þeim er að dreif, og lauk svo að hann flýr undan með lið sitt og fer til Noregs.
   Eftir það kveður Óttar jarl þings og mælti þeim málum á þinginu, að Hákon jarl skyldi heita vargur í véum, fyrir því að hann kvað engi mann verri verk unnið hafa, er Hákon hafði brotið hið æðsta hof í Gautlandi og unnið margt annað illt, og öngvir menn vissu dæmi til slíks, og hvargi er hann fór eða kom, þá skyldi hann þetta nafn hafa.
   Og er þetta er tíðenda, þá spyrja þeir jarlarnir Urguþrjótur og Brimiskjarr, er fyrr var getið í þessu máli, til fara Hákonar jarls, og svo hvað hann hafðist að, og þykir hann fara lítt friðsamlega, og vilja þeir eigi bíða hans þaðan. Og flýja þeir nú úr landi með öll skip sín og voru öll hlaðin af mönnum, og vildu þeir gjarna eigi finna Hákon jarl.
   En þá er jarl kom í land austan í Víkina og spurði þegar hvað þeir jarlarnir höfðu að sýst meðan, að þeir höfðu kristnað alla Víkina norður til Líðandisness. Og verður jarl við æfur og reiður mjög, og sendir þegar orð um alla Víkina, að öngum skyldi hlýða að halda á þessum sið, svo að eigi mundi hver stórvíti fyrir taka af honum.
   Og er þetta spurðist, þá flýði hver undan er kristni vildi halda, en sumir gingu aftur til heiðni og villu þeirrar er þeir höfðu áður, fyrir sakir ofríki jarlsins. En jarlinn Hákon kastar þá trúnni og skírninni og gerðist þá hinn mesti guðníðingur og blótmaður, svo að aldregi hafði hann meir blótað en þá.
   Og situr Hákon nú of kyrrt í landinu og ræður nú einn fyrir öllum Noregi og geldur aldregi síðan skatta Haraldi konungi Gormssyni, og er mjög í rénan þeirra vingan.
   Haraldur konungur býður nú út leiðangri af allri Danmörku og fer nú til Noregs með óflýjanda her á hendur Hákoni jarli. Og þá er hann var kominn norður um Líðandisnes í það ríki er undan var horfið hans skattgjöfum. Og síðan herjar hann og lætur geisa eld og járn yfir land hvar sem hann fór og gerir aleyðu í Noregi í Sogni allt með sjó norður til Staðar, nema fimm bæi í Læradal. Og síðan fregn hann samnaðinn, hvar Þrændir í Noregi, Naumdælir, Raumdælir, Háleygir, að hver er vígur maður er, þá er kominn í einn stað með Hákoni jarli til varnar, og hefir hann svo mikinn liðsafla, að ófært er að berjast í móti með útlendum her.
   Nú ræðst Haraldur konungur um við sína spekimenn; konungurinn lá þá í Sólundum og heitaðist að fara út til Íslands að herja og hefna níðs þess er allir landsmenn höfðu gert um konunginn Harald fyrir rán það er Byrgir [4] bryti hafði tekið fé íslenzkra manna að ólögum, en konungurinn vildi eigi rétta ránið, þá er hann var þess beðinn.
   Á þessa lund var sett níðið:


1.
Þá er sparn á mó mörnar
morðkunnur Haraldur sunnan,
varð þá Vinda myrðir
vax eitt í ham faxa;
en bergstofu Byrgir
böndum rækur í landi,
það sá öld, ‹í› jöldu
óríkur fyrir líki. [5]


En Eyjólfur Valgerðarson orti vísu þessa, þá er húskarl hans hafði selda öxi sína og tekið í móti grán feld einn, og þá hafði spurzt út hingað ósættin Haralds konungs.
   Og nú kvað Eyjólfur vísu þessa:


2.
Selit maður vopn við verði;
verði dynur ef má sverða;
verðum Hrópts að herða
hljóð, eigum slög rjóða.
Vér skulum Gorms að gömlu
Gandvíkur þoku landi,
hörð er von að verði
vopnhríð, sonar bíða. [6]


Haraldur konungur tók það ráð sem von var, er margir spakir menn véltu umb, sem bezt gegndi: vendi nú aftur suður til Danmerkur, og heldur hann nú ríki sínu til dauðadags með fullum veg og sóma. En Hákon jarl sköttum og Noregi.


8. KAPÍTULI

Nú hefst upp annar þáttur sögunnar, sá er fyrr hefir verið en þetta væri fram komið, og má eigi einum munni allt senn segja.
   Maður er nefndur Tóki; hann var í Danmörku í héraði því er á Fjóni heitir. Þórvör hét kona hans. Hann hefir átt [1] þrjá sonu barna er hér eru nefndir til sögunnar. Áki hét hinn elzti son hans, en Pálnir sá er þar var næst að aldri. En hinn yngsti hét Fjölnir. ‹Hann var frilluson.› [2]
   Tóki faðir þeirra hefir þá verið gamall að aldri er þetta var.
   Og eitt hvert haust um veturnáttaskeið, þá tók hann sótt og andaðist úr sóttinni. Eigi liðu og langar stundir áður Þórvör tók sótt og andaðist, kona Tóka, og ber þá fjárhluti alla undir þá Áka og Pálni, því að þeir áttu arf að taka eftir föður sinn og móður.
   Og er svo var komið, þá spurði Fjölnir eftir bræður sína, hvað þeir ætlaði honum af fénu. Þeir svara og kveðast honum mundu miðla þriðjung af lausafénu, en ekki af löndum, og þóttust þeir þó gera hans hlut góðan. En hann mælti til þriðjungs alls fjár.
   Svo er frá Fjölni sagt, að hann væri vitur maður og ráðugur og illgjarn. En þeir bræður Fjölnis kváðu hann eigi meira fé mundu hafa en þeir höfðu boðið honum. En Fjölnir lætur sér það illa líka, og fer hann nú við svo búið í braut með þenna fjárhlut og fer á fund Haralds konungs, og gerist hann nú hirðmaður konungs og ráðgjafi.
   Svo er frá sagt um Áka Tókason að engi maður þótti þvílíkur í Danaveldi sem hann í þann tíma, sá er eigi bæri tignarnafn. Hann lá hvert sumar í hernaði og hafði nær jafnan sigur þar sem hann hélt til.
   Fjölnir segir svo Haraldi konungi, að hann mundi eigi þykja einn konungur yfir Danmörku meðan Áki Tókason væri uppi, bróðir hans. Og svo gat hann um talið fyrir konunginum loks, að eigi gerist óhætt með þeim Áka og Haraldi konungi. En Áki átti friðland og gott vinfengi við Óttar jarl á Gautlandi.
   Og fór hann þangað eitt hvert sinn að heimboði til Óttars jarls og hafði tvö skip; annað var dreki góður og mikill, en annað snekkja. Hann hafði á þeim skipum hundrað manna, og voru allir vel búnir að klæðum og vopnum.
   Ekki er getið að þar gerðist einkum til tíðenda um ferð þeirra, og þá Áki góðar gjafir af jarlinum áður en þeir skildist. Og fór hann síðan heim til Danmerkur.
   Nú er að segja frá Haraldi konungi, þá er hann fregn að Áki var farinn til boðsins. En það var fyrir þá sök, að Áki var svo mikils virður af landsmönnum, að engi var sú veizla stefnd innan lands, að eigi væri Áka boðið til eigi síður en konunginum, og þá Áki góðar gjafir að hverri veizlu. Og svo gerðist mikið um vinsæld hans, að hann var nær eigi minna virður af alþýðu en sjálfur konungurinn, og það hafði hann úr hvers manns eigu sem hann vildi.
   En það bjó mest undir ferð Áka til Gautlands, að hann bað dóttur jarlsins, og var því máli vel svarað.
   Nú kemur hér máli, að Áki fer heimleiðis og hafði tvö skip sem áður var sagt. Og er konungurinn verður var þess, þá lætur hann fram setja tíu skip, og lætur hann þar á ganga fjögur hundruð manna og bað þá fara og sæta því er Áki færi aftur frá boðinu, og taka hann af lífi og allt föruneyti hans, ef svo vildi til takast.
   Þeir fóru síðan og héldu njósnir til um ferðir Áka, og var það hægt, fyrir því að hann vissi sér enskis ótta vonir.
   Og er nú svo frá sagt, þá er Áki kömur við Sjóland í Danmörku, að þeir Áki hafa tjöld á landi og ugga þá ekki að sér. En þar koma konungs menn að þeim með her á óvart, þann er áður var getið, og létu þegar drífa vopn á þá og felldu á þá tjöldin, er þeir voru ekki viður búnir, og lýkur þar svo með þeim, að Áki fellur og allt lið hans.
   Og eftir þetta þá fara þeir aftur þar til er þeir koma á fund Haralds konungs og segja honum það er unnið var, að Áki var látinn og allt lið hans, og lét konungurinn vel yfir því, og lézt þess vænta, að hann mundi vera mega einn konungur yfir Danmörku fyrir Áka sökum.
   Þeir konungsmenn er drápu Áka og lið hans taka vopn þeirra öll og fjárhlut og höfðu með sér að herfangi, og færðu þeir féið allt Haraldi konungi og þar með skip þau er Áki hafði átt, drekann og snekkjuna, og leggur konungur nú sína eign á fé þetta allt.
   Það er nú sagt, að Fjölni bróður Áka þótti nú ofraðar vel um stillt og þóttist nú hafa goldið honum það er hann náði eigi fénu, því er hann þóttist eiga að taka eftir föður sinn.
   Nú spyrjast þessi tíðendi heim á Fjón, og spyr Pálnir bróðir hans, og þykir honum svo mikið, að hann leggst í rekkju af, og var það mest fyrir því, að honum þóttu ósýnar hefndirnar við þann sem um var að eiga reyndar, er konungur var sjálfur.
   Sá maður er nefndur til sögunnar er Sigurður hét, fóstbróðir þeirra bræðra; hann var vitur maður og auðigur að fé. Pálnir leitaði ráða við hann hvernig hann skyldi með fara. Sigurður svarar og kveðst það mundu helzt til ráðs leggja við hann, að hann mundi biðja konu til handa honum, þeirrar er honum væri mikill sómi í ef hann gæti.
   Pálnir svarar og spurði eftir hvar sú kona væri.
   "Eg mun fara til Gautlands," segir Sigurður, "og biðja til handa þér Ingibjargar dóttur Óttars jarls."
   "Það uggi eg," segir hann Pálnir, "að eg muna eigi geta þessa konu, en víst ætla eg að það mundi vænst til umbóta minna harma, ef eg gæta þenna ráðakost."
   Nú slítur þar hjali, og býst Sigurður til þessar ferðar og hefir eitt skip og sex tigu manna, og fer síðan þar til er hann kömur til Gautlands, og tekur Óttar jarl vel við honum. Sigurður lýsir brátt yfir örendum sínum og biður dóttur jarls, Ingibjargar, til handa Pálni Tókasyni og kallar hann vera hvergi óframar í öngan stað en Áka bróður hans og kveður eigi skorta fjárhluti á Fjóni, en sagði bana Pálna við liggja fyrir harms sökum, áður hann færi þessa ferð, og kvað þetta helzt mundu til umbóta hans harms, ef hann fingi þetta ráð.
   Jarl svarar vel að hófi þessu máli og kvað þó verða á að líta vandlega á slík mál, að ráðum væri sett, en rasa eigi fyrir ráð fram, og lét sér þó þykja líklegt fyrir sakir Áka vinar síns og bróður hans, að hann mundi vera góðs kostar verður.
   Eigi kunnu vér að segja hve lengi þeir kníuðu þetta mál. En svo lýkur málinu, að það er sagt að Óttar jarl heitur Pálni Ingibjörgu dóttur sinni.
   "Svo er til farið, herra," segir Sigurður, "að Pálnir mun eigi til fær verða að sækja hingað veizluna til yðvar fyrir vanmætti og harmi. En hann skortir eigi eignir til né stórmennsku að búa þar {veizluna á Fjó}ni, og vildu vér af því þess beiða fyrir nauðsynja sakir, að ér sækið þangað {veizluna} með yðvart lið, svo nökkuru mart sem þér vilið sjálfir."
   Og þessu heitur jarl.
   Síðan fer Sigurður heim og segir Pálni þessi tíðendi.
   Nú léttist honum við þetta mikið, og búa þeir nú veizluna að öllu í móti jarli, og spara nú ekki til að hún væri sem virðilegust á alla vega.
   Og er að nefndum degi kom, þeim er boðsmenn skyldu koma, þá varð jarl eigi þinglogi, og mikið lið með honum. Og er þá drukkið veglegt brullaup, og eru þau bæði leidd í eina sæing, Pálnir og Ingibjörg.
   Svo er sagt að hún sofnar brátt er hún kömur í rekkju. Þá dreymir hana, og er hún vaknar, segir hún Pálni drauminn: "Það dreymdi mig," segir hún, "að eg þóttumst hér stödd vera á þessum bæ sem nú em eg. En eg þóttumst uppi eiga vef, en það var línvefur. Hann var grár að lit. Mér þótti kljáður vera vefurinn, og var eg að og vafk, og var lítið á ofið að því er mér þótti. Og þá er eg sló vefinn, þá féll af einn kléinn af miðjum vefnum á bak og tók eg upp. En þá sá eg að kljár þeir voru ekki nema mannahöfuð ein, og er eg hafða upp tekið þetta höfuðið er af hafði slitnað, þá hélt eg á og hugða eg að og kennda eg höfuðið. [3]
   Nú spyr Pálnir eftir hvert höfuðið væri. En hún svarar og kvað vera höfuð Haralds konungs Gormssonar.
   "Betra er dreymt en eigi," segir Pálnir.
   "Og svo þyki mér og," segir hún Ingibjörg.
   Sitja þau nú að brullaupi slíka stund er þeim þótti fallið.
   Og eftir það fer Óttar jarl heim til Gautlands með góðum gjöfum og virðilegum.
   En samfarar þeirra eru góðar og hægjar og miklar ástir, og höfðu skamma hríð ásamt verið áður en þau eigu son einn, og er þeim sveini nafn gefið og kallaður Pálnatóki. Hann vex þar upp heima á Fjóni og er þegar snemmendis bæði vitur og vinsæll. Öngum manni var hann líkari í sinni lýzku en Áka föðurbróður sínum.
   Og skammar stundir liðu frá því er Pálnatóki var af hinum mesta barnsaldri, þá tekur Pálnir faðir hans sótt, og af þeirri sótt lætur hann líf sitt. En Pálnatóki tekur þar fjárhlut allan fyrir að ráða með móður sinni.
   Það er frá honum sagt, að hann liggur í hernaði á sumrum, og herjar hann víða um lönd þegar hann má það fyrir aldurs sökum.
   Eitt hvert sumar er þess við getið að hann liggur enn í víkingu og hefir þá tólf skip; þau voru vel skipuð. Og þá er þetta er tíðenda, þá ræður fyrir Bretlandi [4] jarl sá er Stefnir hét. Hann átti sér dóttur þá er Ólöf hét. Hún var vitur kona og vinsæl, og var það góður kostur, svo að stórum bar.
   Það er sagt, að Pálnatóki kömur þar við land skipum sínum og ætlaði að herja á ríki Stefnis jarls. Og er það spyrst, þá tekur Ólöf það til ráðs með Birni hinum brezka - hann var fóstbróðir hennar og var mjög í ráðagjörð með henni - að bjóða Pálnatóka heim til veizlu og mikillar vegsemdar, og ætti hann hér heldur friðland og herjaði eigi. Og þetta þekkist Pálnatóki og allt lið hans, og fóru til veizlunnar.
   Og að þeirri veizlu biður Pálnatóki dóttur jarls sér til handa, og verður honum þetta mál auðsótt, og er honum konunni heitið og þar næst föstnuð, og sat hún eigi lengur í festum en svo, að þá var þegar drukkið brullaup þeirra að þessi veizlu. Og það var til lagt þar með, að Pálnatóka var jarlsnafn gefið og hálft ríki Stefnis jarls, ef hann vildi þar staðfestast. En hann átti þar allt að hafa eftir hans dag, þvíað Ólöf var erfingi hans ein.
   Pálnatóki er þar eftir á Bretlandi það er eftir er sumarsins og svo um veturinn. En of vorið, þá lýsir Pálnatóki jarl því, að hann mun fara heim til Danmerkur. Og áður hann færi þaðan um sumarið, þá mælti hann við Björn hinn brezka: "Nú vil eg, Björn," segir hann, "attú sér hér eftir með Stefni mági mínum og sér að landráðum með honum fyrir mína hönd, þvíað hann tekur nú að eldast mjög, en eigi óvænt að eg koma eigi allbrálliga aftur; og ef það dvelst að eg koma eigi hingað, og missi jarls við, þá vil eg attú varðveitir allt ríkið, þar til er eg kem aftur."
   Og eftir þetta fer Pálnatóki í braut þaðan með Ólöfu konu sína og ferst honum vel og kömur nú heim á Fjón í Danmörk og er nú heima of hríð.
   Og þykir hann nú annar mestur maður í Danmörku og ríkastur og bezt að viti búinn, þegar er konunginn líður sjálfan.
   Það er nú frá sagt, að konungurinn fer yfir landið og þiggur veizlur að vinum sínum. Pálnatóki gerir dýrlega veizlu í móti konunginum og fer síðan og býður honum, og það þekkist hann og fer til veizlunnar með mikið lið.
   Og síðan lýstur á illviðri fyrir þeim, og koma þeir of kveldið til búanda eins, þess er Atli hét, og var hann kallaður Atli hinn svarti. Hann var maður félítill, og tók hann við konunginum með allri ölværð. Dóttir hans gekk of beina of kveldið, og hét hún Æsa og var kölluð Saumæsa; hún var mikil kona vexti og drengileg. Konungi leizt vel á hana og mælti við föður hennar: "Það er satt að ræða, að beini má varla verða betri en hér er í frammi hafður við oss, af þér búandi, og lætur þú nú einn hlut verða undan dreginn við oss, og er dóttir þín Æsa og gás hennar." En búandi svarar og kvað það ekki hans vera að leggja slíka konu að sér sem var dóttir hans. En konungur kvað honum mikillar vináttu von í móti, ef hann gerði þetta eftir hans vilja.
   Og þar lendir þessi viðræðu þeirra og viðurhjali, að Haraldur konungur rekkur [5] hjá dóttur búanda um náttina.
   En of daginn eftir, þá léttir af veðrinu, og býst konungur snemmendis í braut frá Atla. Og áður en þeir skiljast, gefur konungur honum góðar gjafir og sæmir hann svo og dóttur hans.
   Og eftir þetta fer konungur ferðar sinnar, þar til er hann kömur til veizlunnar þeirrar er áður var getið. Konungur var lengi á veizlu þessi, og veitir Pálnatóki með miklum ríkdómi. Og þá er konungur fer í braut af veizlunni, þá gefur Pálnatóki honum góðar gjafir og virðilegar. Konungur tekur því og vel.
   En um veturinn eftir er á leið upp, þá var það fundið af mönnum, að Saumæsa dóttir búanda tók að þróast og digrast og mundi vera ólétt. Eftir það ræddi faðir hennar við hana eina saman og spyr eftir hver vanheilsu hennar mundi valda. En hún segir að engi maður var þar annar í tigi til nema Haraldur konungur. "En þó hefi eg öngum manni þorað þetta að segja nema þér einum."
   "Já," segir hann; "því æ betur skal eg þig virða sem þú hefir göfgara mann að þér lagðan."
   Og nú líða stundir fram þar til er hún verður léttari, og fæðir hún sveinbarn, og er þeim sveini nafn gefið og kallaður Sveinn, og var hann kenndur við móður sína og kallaður Saumæsuson. [6]
   Og nú ber svo til, að sumar hið þriðja eftir þetta, að Haraldur konungur skyldi enn sækja veizlu þangað á Fjón. Og er konungur kömur þar til veizlunnar, þá ræðir Pálnatóki við Æsu, þvíað hún var þar komin með son sinn, þann er hún eignaði Haraldi konungi og sér: "Nú skaltu," kvað Pálnatóki, "ganga fyrir konunginn djarflega í það mund er hann situr yfir drykkju og gerast bermælt við hann um þá hluti er þér þykir varða. Þú skalt og leiða sveininn eftir þér og mæla síðan þessum orðum við konunginn, að eg leiði hér eftir mér einn svein, og kalla eg þar öngan mann annan í tigi til að eiga þenna svein með mér en þig, Haraldur konungur. En hversu sem konungur svarar þínu máli, þá vertu djarfmælt. En eg mun vera nær staddur og taka undir með þér og styðja málið þitt."
   Hún gerir svo sem hann ræður henni, og gengur hún nú fyrir konunginn Harald og leiðir sveininn með sér og mælir þessum sömum orðum sem í munn henni voru lögð af Pálnatóka. Konungur svarar brátt, þá er hún hafði mælt þessum orðum og spyr eftir, hver þessi kona væri, er svo mikla dirfð hafði við konunginn, að slíkt þorði upp að bera, og spyr hana að nafni. En hún kveðst Æsa heita og vera eins búanda dóttir þar í Danmörku. Konungur segir: "Firna djörf kona ertu og heimsk," segir hann, "og dirfðu þig eigi að mæla slíkt oftar ef þú vilt ómeidd vera."
   Pálnatóki segir þá: "Því mun hún þetta mæla, herra," segir hann, "að henni mun þykja mikil nauðsyn til bera, og er hún engi skyndikona né púta, heldur er hún góð kona og ráðvönd, þótt hún sé lítillar ættar eða kynferðar, þá hyggju vér hana þó satt eitt upp bera."
   Konungur mælti: "Eigi varði oss þess af yður, Pálnatóki, að ér munduð þetta mál þannig tengja til vor sem nú reynist."
   "Svo skal og vera," segir Pálnatóki, "að eg mun þetta ekki ræsa á hendur yður, herra, [7] en svo mun eg til sveinsins gera í alla staði sem hann sé þinn einkason. En nú skulu við láta falla þessa ræðu að sinni."
   Og brátt eftir þetta býst konungur í braut af veizlunni. Pálnatóki gefur konunginum gjafir, [8] en hann vill eigi við taka né þiggja. En Fjölnir var þá með Haraldi konungi, er getið var fyrr í sögunni, er var föðurbróðir Pálnatóka; hann bað konunginn taka við gjöfum þessum hinum virðilegum og gera sig eigi svo beran í þessu máli, að svívirða svo hinn mesta höfðingja að vilja eigi þiggja hinn mesta sómahlut af honum, þar er hann var áður hinn kærsti hans vin. Og nú fær hann svo um talið fyrir konunginum, að hann þiggur gjafirnar og tekur við. En þó þakkar hann ekki, og var auðfynt að konunginum hafði mjög mislíkað er Pálnatóki hafði honum eignað sveininn.
   Og við þetta skilja þeir, að allfátt var um með þeim; og aldregi kom þeirra vingan í samt lag síðan. Fór konungur heimleiðis með sína menn, en Pálnatóki tekur Svein Haraldsson heim til sín og Æsu móður hans, fyrir því að þá var við misst Atla hins svarta föður Æsu og upp gert féið nálega allt.
   Nú vex Sveinn þar upp á Fjóni með Pálnatóka, og gerði hann svo vel við sveininn sem hann væri hans son og hélt honum til virðingar í öllum hlutum. Hann unni honum og mikið.
   Þess er nú við getið að Pálnatóki á son við konu sinni Ólöfu, og er hann fæddur litlu síðar en konungur fór í braut af veizlunni; sá sveinn var kallaðut Áki. Hann var þar upp fæddur heima með feður sínum, og várust þeir Sveinn Haraldsson fóstbræður. Og þar fæddist Sveinn upp þar til er hann var fimmtán vetra gamall að aldri.


9. KAPÍTULI

En nú er þessi hinn ungi maður er svo aldurs kominn, þá vill nú fóstri hans Pálnatóki senda hann á fund föður síns Haralds konungs, og gerir hann með honum tuttugu menn frálega og ræður honum það, að hann skyli ganga inn í höllina fyrir konung föður sinn og segjast vera hans son, hvort er honum þætti betur eða verr, og beiða hann þess, að hann gingi við frændsemi við hann.
   Svo gerir hann nú sem við hann er mælt, og er ekki sagt frá förum hans fyrr en hann kömur í höllina fyrir Harald konung föður sinn og mælir þeim orðum öllum er fyrir hann voru lögð. Og er því var lokið, þá annsvarar konungurinn:
   "Það þykjumst eg finna og skilja á orðtaki þínu," segir hann, "að eigi mun logið vera til móðernis þíns, af því að mér sýnist attú munir vera hinn mesti skiptingur og afglapi og eigi ólíkur Saumæsu móður þinni."
   Þá svarar Sveinn: "Ef þú vilt eigi ganga við frændsimi við mig, þá vil eg þess beiða af yður, að ér fáið oss þrjú skip úr landi og lið með, og er það eigi ofmikið tillag við oss, fyrir því að eg veit víst attú ert faðir minn. En Pálnatóki fóstri minn mun að vísu fá mér jafnmikið lið, og svo skip eigi smæri en þú fær oss."
   Konungur svarar: "Þess væntir mig attú sér vel þessu á braut kaupandi, sem nú mælir þú til, og komir þú aldri síðan mér í augsýn."
   Það er nú í frá sagt, að Haraldur konungur fær Sveini þrjú skip og hundrað manna, og hvorttveggja lítt vandað, skipin og liðið. Og eftir það ræðst Sveinn í braut þaðan og fer þar til er hann kömur heim til fundar við fóstra sinn Pálnatóka og segir honum allt út, hversu orð fóru með þeim feðgum. Pálnatóki svarar:
   "Slíks var þar að von," segir hann, "og eigi betra."
   Síðan fær Pálnatóki Sveini góð skip þrjú og hundrað manna, og var það lið mjög vandað. Og síðan gefur hann ráð til hversu hann skal hátta; og áður en þeir skiljast, mælti Pálnatóki við hann:
   "Nú muntu freista að leggjast í hernað í sumar með lið þetta er nú hefir þú fingið. En það ráð vil eg til gefa með þér, attú farir ekki lengra fyrst í braut en svo attú herja hér í Danmörku á ríki föður þíns, það er honum er nökkvat í fjarska, og vinn þar slíkt allt illt sem þú mátt: far herskildi yfir og brenn allt og bæl svo sem þú mátt við komast og lát því ganga í allt sumar, en kom til mín að vetri og haf þá hérvist og bæli og lið þitt."
   Og síðan skiljast þeir fóstrar, og fer Sveinn í braut með lið sitt og fer jafnt með öllu sem honum var ráðið af hendi fóstra síns, og gerir hann mikið illvirki á ríki konungsins föður síns, og gerist eigi góður kurr í búandkörlum þeim er fyrir verða hans ófriði og ágangi, þvíað hvorki sparir hann við þá eld né járn.
   Nú spyrst þetta brátt og kömur til eyrna konunginum, og þykir honum því illa varið er hann hefir fingið honum afla til slíks ófriðar og ágangs, og kveðst ætla að honum mundi bregða í móðurkyn sitt um þessi endimi er hann tók til.
   Nú líður af sumar þetta. Og er að vetri kömur, þá fer Sveinn heimleiðis, þar til er hann kömur á Fjón til Pálnatóka fóstra síns, og hefir fingið mikils fjár um sumarið.
   Og áður en þeir komust heim, þá fingu þeir storm mikinn og ofviðri, og braut öll skipin þau er faðir hans hafði fengið honum, og lið það allt, er þar hafði á verið, týndist. En síðan sigldi Sveinn heim á Fjón sem honum var sagt, og var hann þar of veturinn í góðu yfirlæti og lið hans, það er eftir var.


10. KAPÍTULI

Nú er frá því að segja þá er voraði, þá kömur enn Pálnatóki að máli við fóstra sinn og bað hann enn fara á fund Haralds konungs föður síns og beiða hann þess, að hann fingi honum sex skip og þar lið með, svo að þau væri skipuð fullri skipan, - "en þú hygg að því vandlega, attú mæl til hversvetna illa þess er þú beiðir hann, og ver djarfmæltur í alla staði."
   Og nú fór Sveinn og kemur á fund föður síns og mælti til sex skipa við hann og liðs þar með og mælti til alls illa, svo sem Pálnatóki hafði ráðið honum. En konungurinn Haraldur segir:
   "Til ills eins þótti mér þú hafa það lið er eg fékk þér í fyrra sumar, og ertu furðu djarfur maður, er þú þorir enn að mæla til liðs við mig, slíka illsku sem þú hefir áður af þér sýnda."
   Sveinn segir: "Eigi mun eg héðan fyrri í braut fara en þér fáið oss slíkt sem vér krefjum. En ef það náist eigi, þá mun Pálnatóki fóstri minn fá mér lið, og mun eg þá herja á menn þína sjálfs, og skal eg ekki af spara að vinna á þeim svo illt sem eg hefi föng á."
   Nú mælti konungur: "Hafðu sex skip og tvö hundruð manna," segir hann, "og kom aldri síðan mér í augsýn."
   Og nú fer Sveinn í braut við svo búið og á fund Pálnatóka fóstra síns og segir honum allt sem fór með þeim feðgum. Og enn fær Pálnatóki honum jafnmikið lið sem faðir hans fékk honum. Og nú ræður Pálnatóki honum enn ráð, og hefir Sveinn nú tólf skip og fjögur hundruð manna.
   Og áður en þeir skiljast fóstrar, þá mælti Pálnatóki:
   "Nú skaltu fara og herja og eigi þar sem fyrra sumar, en þó skaltu enn á þá Danina herja, og rek nú þeim mun harðara hernaðinn en fyrra sumar sem nú hefir þú liðsaflann bæði meira og betra en þá, og hefst nú aldregi af höndum þeim sumarlangt. En að vetri farðu heim hingað á Fjón og ver þá hér með mér."
   Og nú skiljast þeir fóstrar að sinni, og fer Sveinn og lið hans herskildi yfir landið víða. Hann herjar bæði um Sjóland og Halland, og svo er hann ákafur of sumarið, að svo má að kveða, að hann herji nátt með degi, og hefst hann aldregi úr Danakonungs veldi það sumar. Hann drap margan mann, og mörg héruð brenndi hann um sumarið.
   Þessi tíðendi spyrjast víða, að ófriður er mikill í landinu. En þó lætur konungur þetta hjá sér líða, þóað umræða verði fyrir honum, og lætur fara fram sem auðið er.
   Og nú of haustið er á líður, fer Sveinn heim á Fjón til Pálnatóka fóstra síns og týnir nú öngu liði sínu í heimförinni sem hið fyrra sumarið. Og er hann nú með fóstra sínum um veturinn og lið hans allt.


11. KAPÍTULI

Enn er svo um vorið, að Pálnatóki kömur að máli við fóstra sinn og mælti við hann: "Nú skaltu búa skip þín öll og fara síðan á fund föður þíns með öllu liði þínu albúnu. Þú skalt ganga fyrir hann og mæla að hann leggi til við þig tólf skip og öll skipuð af mönnum, og ef það fæst eigi af honum, þá bjóttú honum bardaga þegar í stað með því liði sem þá hefir þú, og haf aldregi verið grimmari í orðum við hann en nú."
   Nú gerir Sveinn svo sem Pálnatóki ræður honum, og fer með öllu liði sínu þar til er hann hittir Harald konung föður sinn og krefur hann þess er fóstri hans réð honum. Og er því var lokið, þá svarar konungurinn:
   "Þú ert maður svo djarfur," segir hann, "að eg veit trautt þinn maka, er þú þorir að koma á minn fund, þvíattú ert bæði víkingur og þjófur, og það hygg eg attú sér einn hinn versti maður að hvevetna því er þú mátt sjálfur ráða. Og eigi þarftu til þess að ætla, að eg ganga við frændsemi við yður, þvíað eg veit víst attú ert ekki minnar ættar."
   Sveinn segir: "Að vísu em eg þinn son," segir hann, "og sönn er okkur frændsemi, en þó skal eg ekki þér þyrma í engan stað, og ef þú lætur eigi gangast það er eg kref þig, þá skal nú reyna með okkur, og skulu við nú berjast þegar í stað, og skaltu hvergi fá undan hokrað."
   Konungurinn svarar: "Vandræðamaður ertu," segir hann, "og þannig hefir þú nakkvað skaplyndi sem þú mynir vera nokkorra eigi allsmárra manna, og mundu hafa verða það er þú beiðir, og far síðan braut úr mínu ríki og til annarra landa og kom hér aldri síðan meðan mitt líf er."
   Nú ræðst Sveinn í braut með fjögur skip og tuttugu. Hann fer þar til er hann kömur heim á Fjón til Pálnatóka fóstra síns, og voru öll skip hans vel skipuð. Pálnatóki tekur vel við fóstra sínum - "og þyki mér þú vel hafa þau tillög," segir hann, "er eg legg fyrir þig, og skulu við nú ráða um báðir samt, hvað okkur sýnist rállegast. Nú skaltu fara í sumar, og skal þér nú frjáls vera öll Danmörk til hernaðarins, nema hér á Fjóni er eg á friðland. Hér skaltu nú og hafa friðland."
   Og nú er þetta er tíðast, þá er Sveinn átján vetra gamall.
   Pálnatóki lýsir yfir því, að hann ætlast að fara úr landi um sumarið og til Bretlands að hitta Stefni jarl mág sinn, og lézt hafa mundu tólf skip, - "en þú Sveinn," segir hann, "far svo nú með öllu sem eg gef ráð til, en eg mun vitja þín er á líður sumarið með mikið lið, því að mig grunar að nú mun görr her á hendur þér í sumar, og mun konungur eigi þola þér lengur attú gangir á hans ríki, og mun eg þá veita þér lið. En þú hygg að því vandlega, attú flý eigi undan, þó að liðið sé að þér gert, og halt upp bardaga við þá, þó að liðsmunur sé nokkur."
   Nú skiljast þeir Pálnatóki og Sveinn, og fer sína leið hvor þeirra, og fara þeir nú báðir senn, og ræðst Pálnatóki til Bretlands. En Sveinn tekur nú það ráð sem honum var til kennt: herjar nú á nýjaleik á ríki föður síns nátt með degi og fer víða yfir landið, og flýja landsmenn undan og á fund konungsins og þykjast illa leiknir verða og segja honum til vandræða sinna og biðja að hann taki nakkvað skjótt úrráð.
   Og nú þykir konunginum eigi vera mega svo búið, og þykist þá lengur hafa setið Sveini þann hlut er hann mundi eigi öðrum þola. Lætur hann nú búa síðan fimm tigi skipa og fer sjálfur með því liði og ætlar að drepa Svein og allt lið hans.
   Og er á líður haustið, þá hittast þeir Haraldur konungur og Sveinn við aftan síð við Borgundarhólm, svo að hvorir sjá aðra. En þá var þó svo kveldað, að þá var eigi vígljóst, og leggja þeir skip sín í lægi.
   En um daginn eftir, þá berjast þeir allan dag til nætur, og þá eru hroðin tíu skip Haralds konungs, en tólf af Sveini, og lifir enn hvortveggi þeirra, og leggur Sveinn nú skip sín inn í vogsbotninn um kveldið. En þeir Haraldur konungur tengja saman skip sín um þveran voginn fyrir utan og leggja stafn við stafn, og búa svo umb, að Sveinn væri inni tepptur í voginum, og ætla að hann skyldi eigi út koma skipunum, þótt hann vildi við það leita.
   En um morgininn ætla þeir að leggja að þeim og drepa af þeim hvert mannsbarn og taka Svein af lífi.
   Og það sama kveld er til slíkra stórtíðenda horfist, þá kömur Pálnatóki vestan af Bretlandi og verður þá landfastur það sama kveld við Danmörk og hafði fjögur skip og tuttugu. Hann leggur undir nesið öðru megin og tjaldar þar um skip sín. Og er því var lokið, þá gengur Pálnatóki af skipi einn saman á land upp og hefir örvamél [1] á baki.
   Það ber að móti umb, að Haraldur konungur gengur á land upp og menn með honum. Þeir gingu í skóg og gerðu þar eld fyrir sér og bakast þar við. Þeir sitja á lág einni allir saman, en þá er myrkt orðið af nótt er þetta er.
   Pálnatóki gengur upp til merkurinnar og gagnvert þar sem konungur bakast við eldinn og stendur þat of hríð.
   En konungurinn í annan stað bakast við eldinn og bakar bringspöluna á sér og er kastað undir hann klæðum, og stendur hann á knjánum og ölbogunum og lýtur hann niður mjög við, er hann bakast við eldinn. Hann bakar og við axlirnar, og ber þá upp við mjög stjölinn konungs.
   Pálnatóki heyrði görla mál þeirra, og þar kennir hann görla mál Fjölnis föðurbróður síns.
   Og nú leggur hann ör á streng og skýtur hann til konungsins, og er svo sagt af flestum fræðimönnum, að örin flýgur beint í rassinn konunginum og eftir honum endilöngum og kom fram í munninn, og fellur konungurinn þegar á jörð niður örendur, sem von var. En förunautar hans sjá hvað í hafði gerzt og þótti þetta öllum vera hið mesta býsn.
   Þá tekur Fjölnir til orða og kvað þann mann hafa sótt hið mesta óhapp er þetta verk hafði unnið og fyrir ráðið - "og er þetta hið mesta fádæmi, þannig sem atburður hefir orðið umb." "En hvað skulu vér nú til táðs taka?" sögðu þeir. En allir mátu við Fjölni, fyrir því að hann var þeirra vitrastur og mest virður.
   Það er nú frá sagt að Fjölnir gengur að þangað er konungurinn liggur og tekur í braut örina, þaðan sem hún hafði staðar numið, og hirðir hana svo búna sem þá var hún. En örin var auðkennd, þvíað hún var gulli reyrð. Síðan mælti Fjölnir við þá menn er þar voru við staddir: "Það legg eg helzt til ráða," segir hann, "að vér hafim mjög allir eina frásögn um þenna atburð, og þyki mér eigi annað vera frá segjanda en hann hafi skotinn verið í bardaganum um daginn áður, og verður oss það mest skemmd og svívirða er við höfum verið staddir þenna atburð með slíkum undrum sem orðið hefir, að gera þetta augljóst fyrir alþýðu manns."
   Og síðan bundu þeir þetta fastmælum með sér og héldu þessu allir um frásögn, sem þeir höfðu nú samið með sér.
   En Pálnatóki fór til skipa sinna fyrst eftir verkið og kallaði síðan með sér tuttugu menn og lézt fara vildu að finna Svein fósra sinn.
   Og nú fara þeir frá skipunum og umb nesið þvert og hittast þeir þar um nóttina og ræða með sér, hvað þeir skyldi til ráða taka; kveðst Pálnatóki þau orð hafa spurð frá Haraldi konungi, að hann mundi þeim atgöngu ætla að veita þegar er vígljóst væri um morguninn. En þó skal eg enda það er eg hét þér, þars eg em nú til kominn, að eg skal veita þér allt slíkt er eg má, og eitt skal yfir okkur ganga."
   Engi maður vissi það enn af liði þeirra Sveins og Pálnatóka, að konungurinn væri líflátinn, nema hann sjálfur, Pálnatóki, og lætur hann sem ekki hafi í gerzt til tíðenda, og segir hann þetta engum manni að svo búnu. Sveinn tekur til orða og mælti við fóstra sinn: "Þess vil eg biðja, fóstri," segir hann, "attú leitir ráðs nökkurs þess er oss megi hlýða, þar sem nú er komið." Pálnatóki segir: "Ekki skulu við seint til ráða taka: Vér munum hér ganga á skip með yður og síðan skulu vér leggja þau úr tengslum og binda akkeri fyrir barð hverju skipi. Vér skulum og hafa skriðljós undir tjöldum, þvíað nú er náttmyrkur á. Síðan skulu vér róa út á flotann konungsins sem harðast, og er mér leitt að Haraldur konungur kvíi oss hér í vogsbotninum á morgin og drepi oss."
   Nú taka þeir þessa umbúð sem Pálnatóki gaf ráð til og röru að sem harðast út á þveran flotann. En þetta varð á þá leið, að þar drekktust þrjár snekkjur fyrir atróðri þeirra, og komust þeir einir menn á land er syndir voru. En þeir Pálnatóki og Sveinn röru út eftir í það sama hlið öllum sínum skipum, allt þar til er þeir koma að flota þeim er Pálnatóki átti og hann hafði þangað haft.
   Og þegar um morguninn er vígljóst var orðið, þá leggja þeir að þeim konungs mönnunum, og þá spurðu þeir þau tíðendi, að konungurinn var látinn. Síðan mælti Pálnatóki: "Þá munu við gera yður tvo kosti; takið hvorn er þér vilið: annað hvort að þér skuluð halda upp bardaga við okkur og berjast, og hafi þeir gagn er auðið er. En hinn er annar kostur, að þeir menn allir er verið hafa með Haraldi konungi skulu sverja nú Sveini fóstra mínum land og þegna og taka hann til konungs yfir alla Danmörk."
   Nú bera þeir saman ráð sín konungs menninir og verða gervallir á það sáttir að taka Svein til konungs, en berjast eigi. Og síðan ganga þeir til Pálnatóka og segja honum hvað þeir kuru af, og fór það nú fram, að þeir allir er þar voru við svörðu Sveini land og þegna.
   Síðan fara þeir Pálnatóki og Sveinn báðir samt of alla Danmörk. Og hvar sem þeir komu, þá lætur Pálnatóki kveðja húsþings, og er Sveinn til konungs tekinn um alla Danmörk áður en þeir létti. Og um allt Danakonungs veldi. [2]
   Og eftir það er Sveinn er konungur orðinn, þótti þá honum það skylt, sem öllum öðrum konungum, að erfa föður sinn fyrir hinar þriðju veturnætur. Hann ætlar nú þegar að hafa þessa veizlu og fresta því ekki lengur. Hann býður fyrstum Pálnatóka fóstra sínum til erfis þess og þeim Fjónbyggjum, vinum hans og frændum. En Pálnatóki svarar því svo, að hann lézt eigi lagi mundu á koma fyrir þær veturnætur er næstar voru, að koma til boðsins. "Er það komið til eyrna mér," segir hann, "er mér þykir stórtíðendum sæta, að Stefnir mágur minn Bretlands jarl sé andaður, og verð eg þangað að fara nauðsynlega, þvíað eg á að hafa það ríki eftir hans dag."
   Og er Pálnatóki þykist eigi koma mega til erfisins, þá eyddist nú erfisgerðin fyrir konunginum, fyrir því að hann vill fyrir hotvetna fram að fóstri hans sé að boðinu.


12. KAPÍTULI
Frá Pálnatóka

Pálnatóki fer nú úr landi í braut of haustið með skipalið sitt. Og áður en hann færi, þá setur hann þar til eftir Áka son sinn að ráða búum sínum þar á Fjóni og öllu því er hann átti þar og bað honum virkta við konunginn Svein áður þeir skildi, og hét konungur því Pálnatóka, að hann skyldi veita Áka hina beztu umsjá, og það sama endi hann.
   Síðan réðst Pálnatóki í braut og fer þar til er hann kömur til Bretlands og tekur við ríki því er Stefnir mágur hans hafði átt og Björn hinn brezki, og liðu af þau misseri hin næstu.
   Og um sumarið eftir, þá sendir Sveinn konungur orð til Bretlands, að Pálnatóki skyldi koma þangað að boði hans og svo mikið lið með honum sem hann vildi haft hafa, og vill konungur nú erfa föður sinn. Þeir voru tólf saman sendimenn konungsins, og var nær að því komið er Pálnatóki skyldi þaðan búast. Hann svarar og biður konung þökk hafa fyrir boð sitt. "En þannig er nú til farið, að á mér liggur þyngd nokkur, og þykjumst eg eigi fær vera að svo búnu. Það fylgir og að eg á hér miklu meiri fjölskyldi umb að vera en eg mega frá fara að svo búnu þessi misseri."
   Hann telst nú undan um förina á alla vega, og fara þeir við það heim konungsmenn og segja honum svo búið. Og er þeir voru í braut farnir, þá hvarf af Pálnatóka þyngd öll.
   Og nú lætur konungurinn líða það haust erfisgerðina, og líður af sá vetur og það sumar.
   Og nú var svo komið, að Sveinn mátti eigi þykja gildur konungur ef hann skyldi eigi erfa föður sinn fyrir hinar þriðju veturnætur, og vill konungur nú að vísu eigi láta undan bera. Hann sendir nú [1] enn hina sömu tólf menn á fund Pálnatóka fóstra síns að bjóða honum enn sem fyrr til boðsins, og lézt nú mundu leggja reiði á hann mikla ef hann færi eigi. En Pálnatóki svarar þeim sendimönnum konungsins og biður þá heim fara og segja svo konunginum að hann búist svo við að öllu um veizluna sem framast hefir hann föng á, að hún verði sem veglegust. En hann kveðst koma mundu til erfisins það haust.
   Nú fara þeir heim sendimenn konungs og segja honum sín örendalok, að Pálnatóka var þangað von, og býst hann nú við boðinu konungur, og allt það er til skyldi fá, skyldi verða að öllu sem veglegast, bæði fyrir tilfanga sakir og fjölmennis, og er nú allt albúið að boðinu og boðsmenn eru komnir. Þá var Pálnatóki eigi kominn, og leið á daginn mjög, og þar kömur að menn gingu til drykkju um kveldið, og er mönnum skipað í sæti í höllinni.
   Þá er það sagt að konungur lætur liggja rúm á hinn óæðra bekk í öndvegi og hundrað manna utar frá, og vættir þangað Pálnatóka fóstra síns til þess rúms og hans föruneytis. Og er þeim þykir seinkast um kvámu Pálnatóka, þá taka menn þar til drykkju.
   En nú verður að segja frá Pálnatóka, að hann býst heiman og Björn hinn brezki með honum, og hafa þeir þrjú skip úr landi og hundrað manna; þar var hálft hvors í því liði, Danir og Bretar. Þeir fara síðan þar til er þeir koma við Danmörk. Og það sama kveld koma þeir í þær stöðvar er átti Sveinn konungur, og leggja þeir skip sín í lægi þar er þeim þótti aðdjúpast vera. Þá var allgott veður á um kveldið. Þannig búa þeir um skipin, að þeir snúa framstöfnum frá landi og leggja árar allar í hömlur, að þeim skyldi sem skjótast til að taka ef þeir þyrfti bráðungar við.
   Og síðan ganga þeir á land upp og fara leiðar sinnar þar til er þeir koma til konungsins, og sitja menn þá við drykkju er þeir koma þar, og er þetta hið fyrsta kveld veizlunnar. Nú gengur Pálnatóki inn í höllina og þar þeir allir eftir honum. Hann gengur innar eftir höllinni og fyrir konunginn ‹og kveður konunginn vel›; konungur tekur og vel hans máli og vísar honum til sætis og öllum þeim.
   Og sitja þeir nú við drykkju og eru kátir vel. Og er þeir hafa drukkið of hríð, þá er þess við getið, að Fjölnir víkur að konunginum og talar við hann nokkura hríð hljótt. Konungurinn brá lit við og gerir rauðan á að sjá og þrútinn. En maður er nefndur Arnoddur; hann var kertasveinn konungs, og stendur hann frammi fyrir borði hans. Honum selur Fjölnir í hönd eitt skeyti og mælti að hann skyldi bera það fyrir hvern mann er í væri höllinni, allt þar til er nokkur kannaðist við að ætti það sama skeyti. Og eftir því gerir Arnoddur, sem Fjölnir mælti fyrir.
   Nú gengur hann fyrst innar eftir höllinni frá hásæti konungsins og ber þessa ör fyrir hvern mann, og kannast engi við að eigi. Þar kömur enn er hann fer utar eftir höllinni hinum óæðra megin, þar til er hann kömur fyrir Pálnatóka og spyr hann eftir hvort hann kenni örina. Pálnatóki svarar: "Fyrir hví muna eg eigi kenna skeyti mitt? Sel mér," segir hann, "þvíað eg á það." Þá skorti eigi hljóð [2] í höllinni, og hlýddu menn til þegar er nokkur varð til að eigna sér örina.
   Og nú tekur konungurinn til orða og mælti: "Þú Pálnatóki," segir hann; "hvar skildist þú við þetta skeyti næsta sinni?"
   Pálnatóki svarar: "Oft hefi eg þér eftirlátur verið, fóstri, og ef þér þykir það þinn vegur meiri að eg segja þér það í allmiklu fjölmenni heldur en svo að færi sé hjá, þá skal það veita þér. Eg skildumst við hana á bogastrengnum, konungur," segir hann, "þá er eg skaut í rassinn föður þínum og eftir honum endilöngum, svoað út kom ‹í› munninn."
   "Standið upp allir," segir konungur, "og hafið hendur á þeim Pálnatóka og förunautum hans og drepið þá alla, fyrir því að nú er niður slegið allri vináttu milli okkar Pálnatóka og öllum góða þeim er með okkur hefir verið."
   Og nú spretta upp allir menn í höllinni, og gerist nú eigi allt alkyrra. Pálnatóki fær brugðið sverði sínu og lætur sér það verða fyrst á vegi, að hann höggur til Fjölnis frænda síns og klýfur hann í herðar niður. En svo á Pálnatóki sér marga vini innan hirðar, að engi vildi vopn á hann bera, og komust þeir út allir úr höllinni, nema einn maður brezkur af liði Bjarnar. Pálnatóki mælti þá er þeir voru út komnir og sagt var að saknað var eins manns af liði Bjarnar og segir að eigi var minna að von en svo, "og föru vér nú ofan sem skjótast til skipa vorra, fyrir því að nú er engi annar á görr."
   Björn svarar: "Eigi mundir þú svo renna frá þínum manni," segir hann, "ef þú ættir minn hlut, og eigi skal eg heldur og," segir hann. Og snýr hann nú inn aftur þegar í höllina, og er hann kömur inn, þá kasta þeir hinum brezka manni yfir höfuð sér og höfðu nær í sundur rifinn, svo mátti að kveða. Og þá verður Björn var við og fær tekið hann og fleygir honum upp á bak sér og hleypur út síðan.
   Og fara þeir nú ofan til skipa sinna, og gerði Björn þetta mest til ágætis sér, en vita þóttist hann að maður mundi dauður vera, og svo varð, að maðurinn lézt, og hafði Björn hann með sér, og hljópu nú út á skip sín, og féllu þegar við árar. En þá var á niðmyrkur mikið um náttina og logn, og komast þeir svo undan þeir Pálnatóki og Björn og nema hvergi staðar, áður en þeir koma heim til Bretlands. En konungurinn fer nú heim til hallarinnar og allt liðið með honum, og fá nú ekki að gert það er þeir vildu, og undu við hið versta. Taka þeir nú síðan og drekka erfið, en eftir það fer hver heim þaðan til sinna heimkynna.


13. KAPÍTULI
Lát Ólafar

Það er nú sagt, að hið næsta sumar eftir, þá tekur Ólöf sótt, kona Pálnatóka, og leiðir hana sú sótt til bana. En eftir andlát hennar, þá unir Pálnatóki eigi á Bretlandi, og setur hann þá til ríkis þess að varðveita Björn hinn brezka. En hann býr nú úr landi þrjá tigu skipa og ætlar nú að leggjast í víking og hernað. Hann fer úr landi þegar er ferð hans er búin, og herjar hann það sumar til Skotlands og Írlands og aflar sér mikils fjár og ágætis í herförunum.
   Hann hefir nú þessa íðn tólf sumur í samt, og verður honum bæði gott til fjár og virðingar. En þá er þetta er tíðast, að hann er í herförunum, þá fer hann eitthvert sumar til Vindlands og ætlar að herja þar, og hefir þá við fingið tíu skip og hefir þá fjóra tigu skipa.
   En í þann tíma réð þar fyrir konungur sá er Brúizláfur hét, og hugði hann illt til hernaðarins, fyrir því að honum var sagt frá Pálnatóka, að hann hafði nær ávallt sigar, þar sem hann herjaði, og var hann ágæztur víkinga í það mund, og þótti hann vera hverjum manni vitrari og ráðgari, og gengur þungt við hann flestum.
   Og vonu bráðara, þá er Pálnatóki kömur þar við land og Búrizláfur hefir spurt til hans og hvað hann ætlaðist fyrir, þá sendir konungur menn sína á fund hans og ‹býður› Pálnatóka til sín og lézt vildu eiga við hann frið og vinfengi; það lét hann og fylgja þessu heimboði, að hann bauð að gefa honum eitt fylki eða ríki af landi sínu, þar er heitir að Jómi, til þess að hann skyldi þar staðfestast, og mundi hann þetta ríki gefa honum einkum til þess að hann skyldi þá vera skyldbundinn til að verja land og ríki með konunginum. Og þetta þiggur Pálnatóki og allir hans menn, að því er sagt er.
   Og þar lætur hann gera brálliga í sínu ríki sævarborg eina mikla og ramgjörva, þá er Jómsborg er kölluð síðan. Þar lætur hann og gera höfn þá uppi í borginni að liggja máttu í þrjú ‹hundruð› langskip senn, svo að þau voru öll læst innan borgar. Þar var umb búið með mikilli vélfimni er í var lagt inn í höfnina, og þar var sem dyr væri gervar, en steinbogi mikill yfir uppi. En fyrir durunum voru járnhurðir og læstar innan úr höfninni. En á steinboganum uppi var görr kastali einn mikill og þar valslöngur í. Sumur hlutur borgarinnar stóð út á sæinn, og eru þær kallaðar sæborgir er svo eru görvar og af því var innan borgar höfnin.


14. KAPÍTULI
Lög Jómsvíkinga

Nú eftir þetta, þá setur Pálnatóki lög við hygginna manna ráð þar í Jómsborg til þess að þar skyldi gerast meiri afli en þá var enn orðinn. "Þangað skyldi engi maður ráðast til föruneytis við Pálnatóka sá er ellri væri en fimmtugur að aldri og engi yngri en átján vetra gamall; þar á meðal skyldu allir vera að aldrinum.
   Alls engi maður skyldi sá þar vera er rynni fyrir jafnvíglegum manni sér jafnbúnum.
   Hver maður er þangað réðst í þeirra föruneyti skyldi því heita fastlega, að hver þeirra skyldi hefna annars sem mötunauts síns eða bróður síns.
   Og alls engi skyldi þar róg kveykja á milli manna. Svo og þótt þangað spyrðist tíðendi, þá skyldi engi maður svo hvatvís vera að þau skyldi segja, þvíað Pálnatóki skyldi þar fyrst tíðendi segja.
   Og sá er fundinn yrði að þessu, er nú var upp tínt, og af brygði þessum lögum, þá skyldi sá þegar rækur og rekinn úr lögum þeirra.
   Svo og þóað við væri tekið við þeim manni er vegið hafði bróður eða föður þess manns er þar var áður fyrir, eða nokkurn allskyldan hans frænda, og kæmi það upp síðan er við honum væri tekið, þá skyldi Pálnatóki það dæma.
   Alls engi maður skyldi þar konu hafa innan borgar, og engi skyldi á braut vera þaðan þrem nóttum lengur úr borginni, nema Pálnatóka ráð væri til og leyfi.
   Allt það er þeir fingi í herförum, þá skyldi til stanga bera meira hlut og minna, og allt það er fémætt væri. Og ef það reyndist á hendur nokkurum, að eigi hefði svo gert, þá skyldi hann í braut fara úr borginni, hvort sem til hans kæmi meira eða minna.
   Engi maður skyldi þar æðruorð mæla né kvíða, hvegi óvænt sem þeim hyrfði.
   Engi hlut skyldi þann að bera með þeim innan borgar, er eigi skyldi Pálnatóki því öllu setja og ráða eftir því sem hann vildi.
   Ekki skyldi því ráða frændsemi eða vinfengi, þó að menn vildi þangað ráðast, þeir er eigi voru í þessum lögum. Og þó að þeir menn er fyrir voru bæði þeim þannig, er eigi voru til felldir þessara laga, þá skyldi þeim það ekki tjá.
   Og sitja þeir nú í borginni við þetta í góðum friði og halda vel lög sín. Þeir fara hvert sumar úr borginni og herja á ýmsi lönd og fá sér ágætis mikils, og þykja vera hinir mestu hermenn, og öngvir þóttu vera nálega þeirra jafningjar í þenna tíma. Og eru nú kallaðir Jómsvíkingar héðan í frá allar stundir.


15. KAPÍTULI
Frá Sveini konungi og Áka

Nú er að segja frá Sveini konungi, að hann lætur sér verða á alla vega sem bezt til Áka, sonar Pálnatóka, svo sem þeirra vinátta hefði jafnan góð verið. Og þó að þar hefði á orðið nokkur drúpur [1] með þeim, þá lét konungurinn Áka ekki þess gjalda, og virðir hann mikils þeirra fóstbræðralag.
   Og er Áki á Fjóni og ræður þar fyrir sem faðir hans hafði hann til settan og fyrr var sagt.


16. KAPÍTULI
Frá sonum Véseta

Sá maður er nefndur til sögunnar er heitið hefir Véseti; hann ræður fyrir fylki því er heitir í Borgundarhólmi. Kona hans hét Hildigunnur. Þau áttu sér þrjú börn, þau er getið verður við söguna. Og hefir heitið son þeirra Búi er kallaður var Búi hinn digri, en annar hét Sigurður er kallaður var Sigurður kápa; dóttir þeirra hét Þórgunna; hún hafði þá gift verið fyrir nokkurum vetrum þá er þetta var. Sveinn konungur bað hennar til handa Áka syni Pálnatóka, og var hún gift honum.
   Og brátt er þau höfðu saman gingið, þá áttu þau Áki sér son er Vagn er nefndur.
   En þá er þetta er tíðast, þá ræður fyrir Sjólöndum jarl sá er nefndur er Haraldur og var kallaður Strút-Haraldur; en það bar til þess, að hann átti hött einn þann er strútur var á mikill. Hann var af brenndu gulli görr og svo mikill, að hann stóð tíu merkur gulls; og þaðan af fékk hann það nafn, að hann var kallaður Strút-Haraldur. Ingigerður hefir heitið kona jarls. Þrjú voru börn þeirra, þau er hér eru nefnd í þessi sögu: Sigvaldi hefir heitið son þeirra, en annar Þorkell og var kallaður Þorkell hinn hávi, en dóttir þeirra hét Tófa.
   Áki son Pálnatóka býr á Fjóni með vegsemd mikilli og tign, og vex Vagn þar upp heima með feður sínum, þar til er hann er nokkurra vetra gamall. En það er frá honum sagt, þegar er nakkvað má marka skaplyndi hans, að hann var meiri vandræðamaður í sínum skapsmunum en allir menn aðrir, þeir er þar höfðu upp vaxið. Svo var hann og í allri lýzku og í öllu sínu athæfi að trautt þótti mega um tæla. Og er það frá sagt, að Vagn er stundum þá heima fæddur sem þangað til hafði verið, en stundum er hann í Borgundarhólmi með Véseta afa sínum, og er það fyrir því, að nær þykjast hvorigir ráði mega við hann koma eða festa hendur á honum, svo þykir hann vera ódæll. Við Búa er hann bezt allra sinna frænda, og það hefir hann nökkvi helzt er Búi mælir fyrir honum, fyrir því að hann var honum skapfelldastur. En að öngu hafði hann það er frændur hans mæltu, ef honum sýndist annan veg, hvað sem það var. Hann var allra manna vænstur og fríðastur sjónum og hinn mesti atgörvismaður og bráðgörr um hotvetna.
   Búi móðurbróðir hans var maður óorðasamur og heldur hljóður oftast og skapmikill. Hann var maður svo sterkur, að menn vissu ógerla afl hans. Búi var ekki vænleiksmaður, en þó var hann vörpulegur og mikilúðlegur og garpur hinn mesti í alla staði.
   Sigurður kápa bróðir hans var maður vænn og kurteis og liðmannlegur og þó enn raunæfur viðureignar og heldur fámálugur.
   En frá Sigvalda syni Strút-Haralds er það að segja, að hann er maður nefljótur og fölleitur; hann var eygður manna bezt; hár var hann vexti og allsnöfurmannlegur. Þorkell bróðir hans var allra manna hæstur; hann var sterkur maður og forvitri, og svo var hvortveggi þeirra bræðra.


17. KAPÍTULI

Það er nú frá sagt, að þeir Sigvaldi bræður búa skip tvö úr landi og ætla til Jómsborgar og vilja vita ef við þeim væri tekið, og spyrja ráðs Harald jarl föður sinn, hversu ráðlegt honum sýndist það, að þeir réðist til liðs með þeim Jómsvíkingum. En hann svarar og kallar það ráðlegt, að þeir færi þangað og aflaði sér svo ágætis og virðingar, "og er nú mál að ið reynið ykkur bræður hvort ið eruð nokkuð að mönnum." Þeir beiða hann fjártillaga til fararinnar og svo vista, en hann svaraði og kvað þá annað tveggja gera skyldu, að þeir færi þess kostar úr landi í braut, að þeir fengi sér sjálfir vistir og annað það er þeir þyrfti að hafa, eða færi hvergi elligar og sæti um kyrrt.
   Nú fara þeir eigi að síður, þó að Haraldur jarl faðir þeirra vildi ekki til leggja. Þeir hafa tvö skip og hundrað manna; þeir vönduðu það lið sem mest og fóru síðan þar til er þeir komu til Borgundarhólms og þóttust þurfa að afla sér vista og fjár nokkurs kostar. Og taka þeir nú það ráð, að þeir gera þar upprásir og ræntu og taka upp bú Véseta eitt, það er auðgast var, og ræntu hann því fé öllu og báru ofan til skipa sinna. Og fara þeir nú í braut leiðar sinnar, og er nú ekki að segja frá förum þeirra fyrr en þeir koma til Jómsborgar. Þeir leggja utan að borgarhliðinu. En Pálnatóki gekk ávallt með miklu liði fram í kastalann þann er görr var yfir sundinu, og var hann því vanur að mæla þaðan við þá menn er komu til borgarinnar.
   Og nú er hann verður var við kvámu þeirra Sigvalda, þá gerir Pálnatóki enn sem hann var vanur: geingur upp í kastalann með miklu liði og spyr þaðan hver fyrir liði því réði og skipum, er þá var þar komið. [1] Sigvaldi svarar honum: "Hér ráða fyrir," sagði hann, "bræður tveir, synir Strút-Haralds jarls, og heiti eg Sigvaldi, en bróðir minn heitir Þorkell. En það er örendi okkart hingað, að við vildim ráðast til liðs með yður við þeim mönnum er yður þykja nýtandi vera í voru liði."
   Pálnatóki svarar vel um þetta mál, og leitar þó ráðs undir Jómsvíkinga félaga sína og kvað sér kunnigt vera kynferði þeirra og segir að þeir voru vel bornir. En Jómsvíkingar báðu Pálnatóka fyrir sjá sem honum sýnist og kalla það sitt ráð sem hann vill.
   En nú eftir þetta, þá er lokið upp Jómsborg, og nú róa þeir Sigvaldi í borgina upp. Og er þeir voru þar komnir, þá skal reyna lið þeirra eftir því sem lög þeirra standa til Jómsvíkinga. Og nú fer það sama fram, að til er reynt um lið þeirra, hvort þeir þykja til hafa vaskleik og karlmennsku að ganga í lið með Jómsvíkingum og undir þau lög öll er þar voru sett.
   En svo gengur sú raun, að helmingur liðs þeirra er í lög tekinn af þeim Jómsvíkingum, en helminginn senda þeir aftur.
   Nú er tekið við Sigvalda og Þorkatli bróður hans og hálfu hundraði manna með þeim, og eru þeir nú leiddir í lög með þeim Jómsvíkingum, og ganga öngvir hærra í mannvirðingu af Pálnatóka en þeir bræður, og stendur þar nú svo búið um hríð.


18. KAPÍTULI
Frá Véseta

Nú verður þar til máls að taka er Véseti er, að hann er ræntur einu búi sínu því er auðgast var, og kömur þetta nú brátt til eyrna Véseta, og tekur hann það til ráðs í fyrstunni, að hann setur aftur sonu sína að geysingum öllum og yfirgangi, en fer sjálfur á fund Sveins konungs og segir honum til hvað títt var um þá Haralds sonu, og hversu þeir höfðu ræntan hann og tekið upp bú hans það er hann átti eitt hvert auðgast.
   Konungur svarar: "Það ráð legg eg til með þér," segir hann, "attú skalt nú vera láta fyrst kyrrt. En eg mun senda orð Strút-Haraldi og vita ef hann vili gjalda upp fé fyrir sonu sína, svo attú sér haldinn af, og vil eg attú látir þér það vel líka."
   Nú fer Véseti heim við svo búið, en Sveinn konungur sendir þegar menn eftir Haraldi jarli og bað hann koma á sinn fund. Jarl leggst eigi förna undir höfuð og fer þar til er hann kemur til konungs, og er þar tekið við honum vel. Nú spyr konungur eftir Harald jarl, hvað hann vissi til hvern auvisla [1] synir hans hefði görvan Véseta. Hann kveðst ógörla vita. Konungurinn segir honum að þeir höfðu tekið upp bú hans eitt, það er mest var, og beiddi hann þess, að hann skyldi bæta fyrir þá fjárhlutum og væri síðan kyrrt. En jarl svarar og kveðst ófengið enn hafa þess fjárins er hann mundi bæta fyrir það, þótt ungmenni tæki naut eða sauði til matar sér.
   Konungur mælti: "Þá muntu fara heim við svo búið," segir konungurinn, "og hefi eg nú sagt yður vilja minn. En nú mun eg þó svo fyrir mæla, attú ábyrgist þig nú sjálfur við sonum Véseta og svo fé þitt, og mun eg nú eiga að öngan hlut, þar er þú vill það ekki hafa er eg legg til með þér, og viltu það einu hafa er þér sýnist, og varir mig að þessu muni vera misráðið."
   Haraldur jarl svarar og kveðst sjálfur mundu vera í ábyrgð um það, en lézt ekki mundu það við hann meta, - "og em eg stórum óhræddur við Véseta og sonu hans."
   Og nú eftir þetta fer Haraldur jarl heim, og er ekki getið um ferð hans, að néeitt yrði til tíðenda.


19. KAPÍTULI
Frá Búa digra

Það er nú að segja þessu næst, að Véseti og synir hans frétta viðræðu þeirra Haralds jarls og Sveins konungs, og svo hverjar lyktir á féllu þeirra tal, svo og það er jarl hafði mælt að skilnaði, áður en þeir konungur skildist.
   Nú ætla þeir ráð fyrir sér, Véseta synir. Það er þeirra tiltekja, að þeir búa skip þrjú, þau er öll voru stór, og hafa þar með tvö hundruð manna, og búa það lið sem bezt megu þeir; fara síðan þar til er þeir koma á Sjóland og taka þar upp þau þrjú bú Haralds jarls er auðgust voru þeirra er hann átti. Og eftir það fara þeir heim synir Véseta með þetta hið mikla fengi er þeir hafa nú aflað.
   Og nú koma brátt þessi örendi fyrir jarlinn Strút-Harald, að hann var ræntur og tekin upp þrjú hans bú, þau er auðgust voru. Kemur nú í hug hvað konungurinn hafði spáð honum. Hann gerir nú þegar menn á fund konungsins, ef hann vildi nú hlut í eiga að sætta þá, og kveðst nú vilja gjarna hans umb dæmi. En konungur svarar nú þessu, að - "nú skal Haraldur jarl hafa ráð sín hin góðu, en nú mun eg ekki láta til mín taka, þvíað hann vildi ekki mín ráð við hafa, þá er við ræddum þetta mál, og var þá umb minna að dæma en nú er, og hafi hann nú sjálfur einræði sitt, en eg mun mér öngu af skipta."
   Nú fara sendimenn jarls heim aftur og segja honum svör konungsins.
   "Vér munum þá verða taka til vorra ráða," segir jarl, "ef konungurinn vill sitja kyrr hjá málunum."
   Haraldur jarl fær sér nú tíu skip og býr sem bezt að mönnum og vopnum, og fer síðan með þessu liði allt þar til er þeir koma í Borgundarhólm, og þar hlaupa þeir á land upp og taka upp þrjú bú fyrir Véseta, þau er eigi voru verri en þau er synir Véseta höfðu upp tekið fyrir ‹Haraldi jarli›.
   Haraldur jarl vendir nú aftur til Sjólanda með þetta fé og þykist nú vel hafa hefnt sín í þessi ferð.
   Svo er nú sagt að eigi líður langt héðan, áður en þetta spyr Véseti: fjárskaða þennan allan er orðinn var, og tekur hann það ráð, að hann fer þegar á fund Sveins konungs, og tekur hann vel við honum. Síðan ræðir Véseti mál sitt fyrir konunginum og tjár á þessa leið: "Það muntu spurt hafa, herra," segir hann, "að þungt hefir á lagzt með okkur Strút-Haraldi jarli of hríð, og varir mig að ófriður myni af gerast sjálfra landsmanna í milli ef þér eigið öngan hlut í með oss, og kann vera að verra sé síðar en nú, svo komið sem er, þvíað yðrir menn eru hvorirtveggju, herra."
   Konungur svarar á þessa lund: "Eg mun bráðlega fara til þings þess er heitir Íseyrarþing, [1] og mun eg boða þangað Haraldi jarli, og skulu þið þar sættast með tillögu góðra manna og voru umbdæmi, og mun sá nú jarli hinn bezti að vér setim máli þessu eftir því er oss líkar, allra helzt er oss þykir þú vel fara með þínu máli."
   Og eftir þetta fer Véseti heim, og liðu nú svo fram stundir, þar til er Sveinn konungur og hans föruneyti búast til þingsins.
   Sveinn konungur hefir fimm tigu skipa, og því svo mikið lið, að hann vill einn skipa í milli þeirra um allt það sem í er orðið með þeim.
   Haraldur jarl átti skammt að fara til þingsins, og hefir hann eigi meir en tuttugu skip. Véseti fer og til þingsins og hefir þrjú ein skip. Það er og sagt, að synir hans voru eigi í ferð með honum, þeir Búi digri og Sigurður kápa.
   Og nú er konungur og jarl og Véseti voru komnir á þingið, þá setur Véseti tjöld sín niðri við sjó hjá sundi því er að gengur þingstöðinni. En Strút-Haraldur jarl hafði tjaldað upp frá stund þá. En þar á milli setur konungur sínar herbúðir.
   Og er á leið kveldið, þá sá þeir þaðan af þinginu fara frá heimili Haralds jarls tíu skip. Og er þeir nálgast þangað, þá leggja þeir menn í lægi skip sín, og síðan ganga þeir menn á land upp frá skipum með sveit sína. Þeir snara þegar á þingið.
   Nú eru þessir menn brátt kenndir, að þar eru komnir þeir synir Véseta, Búi og Sigurður. Búi hinn digri var þá búinn mjög ítarlega að klæðum, fyrir því að hann var þá í klæðum þeim er Haraldur jarl átti. En sá búnaður var svo fémikill, að til komu tuttugu merkur gulls. Þeir hafa og tekið upp fyrir jarli tvær gullkistur og svo mjög hlaðnar af gulli, að í hvorri kistunni voru tíu hundruð marka gulls. Hatt jarls hafði Búi digri á höfði sér, þann er til komu tíu merkur gulls.
   Þeir ganga nú á þingið, bræður, alvopnaðir og með fylktu liði og snarplegu. Og er þeir voru þar komnir, þá tekur Búi til orða og kveður sér hljóðs. Og er hljótt var orðið, þá mælti hann til jarlsins Strút-Haralds: "Hitt er nú ráð, jarl," segir hann, "ef þú ber nokkur kennsl á gripi þessa er nú muntu sjá á oss skína, attú sæk nú til óraglega ef þú þorir og sé nokkur dáð í þér, fyrir því að lengi hefir þú stórt bergt [2] við oss frændur. Em eg nú og albúinn að berjast við þig, ef nokkurt er mannsmót í þér."
   Sveinn konungur heyrir orð Búa, og þykist það sjá að hann fær eigi haldið sinni tign ef hann lætur þá berjast þar á þinginu og gingi eigi á milli þeirra, er hann hafði svo mikið af tekið, að þeir skyldu þar sættast á þinginu, og tekur konungurinn nú það ráð, að hann gengur á milli þeirra og lætur þá eigi ná að berjast, og kömur þar nú því máli loks við atgöngu konungsins og afla, að nú verða hvorirtveggju því að játa, að konungurinn skipi einn á millum þeirra, eftir því sem hann vill. En það skorar Búi í sættina, að hann læzt aldrigi mundu lausar láta gullkisturnar þær er hann hafði fingið af jarli og önga gripi hans, en bað konunginn ráða öðru sem hann vildi.
   Konungur svarar: "Þú Búi," segir hann, "stór verður þú oss. Nú hafðu þitt mál um gullkisturnar, en jarl svo mikið fé annað, að hann þykist haldinn af. En lausa verður þú að láta, Búi digri," segir hann, "gripi jarls, þá er þú hefir tekið, og gera honum eigi þá hneisu eða svívirðu að hann nái eigi tignarklæðum sínum."
   Svo lýkur, að konungur verður að ráða, og fer Búi af klæðunum.
   Nú hélt konungurinn af því mest til þessa um, að gripir jarls raknaði, að það þótti jarli sér mest svívirðing ef hann skyldi eigi ná að hafa gripi sína. Og nú verða þeir á það sáttir að konungur skyldi þannig skipa með þeim sem nú hafði hann ákveðið um gripina, og gera og slíkt of annað sem þá sýndist honum jöfnuður milli þeirra.
   Og síðan lýkur konungur upp gerðinni og fer þaðan að málinu, sem hann hafði áður sagt á von umb, að Búi skal þegar láta lausa gripina jarls, en hafa sjálfur gullkisturnar báðar til heilla sátta við jarl. Þeir skulu og aftur gjalda bú þau er upp voru tekin fyrir Strút-Haraldi jarli. - "En hann skal það leggja í móti yður til sæmdar að gifta Tófu dóttur sína Sigurði kápu, og skulu henni heiman fylgja þessi fé, og skal eigi öðruvís aftur gjalda upptöku búanna en þeir taka það undir sjálfum sér."
   Því gerði konungurinn þannig sættina, að honum þótti þetta vænst til að um heilt mætti gróa með þeim og sættin mætti lengst haldast með þeim, ef mægðin tækist. Þessu taka þeir vel feðgar, og leggur Véseti til við Sigurð þriðjung alls fjár síns. Og þykir Sigurði hið vænsta of kvonfang þetta er honum er ætlað, og sættast þeir nú að þessu og fara þegar af þinginu til Strút-Haralds jarls, og skal þá vera þegar brullaup þeirra Sigurðar.
   Þangað fer sjálfur konungurinn til þeirrar veizlu og Véseti og synir hans, sem líklegt var. Og er nú drukkið brullaup þeirra Sigurðar og Tófu með mikilli tign og virðu.
   Og eftir boðið fer konungur heim, sæmdur með gjöfum, og aðrir boðsmenn. Véseti fer nú og heim og synir hans til Borgundarhólms, og er Tófa þar í för með þeim, jarls dóttir.
   Og er nú kyrrt of hríð og friður góður allra manna í millum.


20. KAPÍTULI
Búi digri fer til Jómsvíkinga

Nú hafa þeir bræður skamma hríð heima verið með föður sínum, áður en Búi digri lýsir yfir því er honum bjó í skapi, að hann ætlast að fara til Jómsborgar að leita sér frægðar og ágætis. Sigurður bróðir hans vill og fara með honum, þótt hann sé nýkvongaður, og nú búast þeir heiman bræðurnir og hafa tvö skip og hundrað manna, og vilja gera sem líkast því er gerðu synir Strút-Haralds fyrr, þeir Sigvaldi og Þorkell. Fara síðan þar til er þeir komu til Jómsborgar og leggja þegar utan að steinboganum og að hafnardurunum.
   Og er höfðingjar í borginni verða varir við kvámu þeirra, þá ganga þeir höfðingjarnir, Pálnatóki og Sigvaldi og Þorkell hávi, fram á steinbogann, og kenna þeir Sigvaldi mennina þá er fyrir skipunum réðu. Og nú tekur Búi til orða og segir að hann vill þangað ráðast til liðs með þeim Jómsvíkingum og þeir bræður með allt lið sitt, ef Pálnatóki vildi við þeim taka.
   En Sigvaldi tekur til orða: "Hversu hafi þér faðir minn, Strút-Haraldur jarl, sett málum yðrum," segir hann, "áður en þér færið úr landinu?"
   Búi svarar: "Það er löng saga," {segir hann,} "að segja frá vorum viðskiptum. En þau urðu lok á, að Sveinn konungur hefir skipað öllum málum með oss, og má eg nú eigi það upp inna í skömmu máli, er vér höfum saman átt, en sáttir eru vér nú."
   Nú mælti Pálnatóki við félaga sína, Jómsvíkinga: "Vili þér til hætta," segir hann, "hvort þessir menn segja satt eða eigi? En allfúss væra eg til þeirra," segir hann, "fyrir því að þess vættir mig að fáir myni hér slíkir vera fyrir í voru liði sem þeir eru."
   Þeir svara honum Jómsvíkingar: "Vér viljum attú takir þessa menn í lög með þér og oss, ef þér sýnist það. En ef þeir hlutir nokkurir koma upp síðar umb hagi þeirra er vér vitum nú eigi, þá skal það sem allt annað á þínu umdæmi."
   Og nú eftir þetta, þá er upp lokið Jómsborg, og leggja þeir Búi skipunum inn í höfnina, og er síðan reynt lið þeirra, og hljótast af því liði átta tigir manna, en fjórir tigir fara aftur heim til Danmerkur.
   Nú er frá því að segja að þeir eru nú í borginni allir samt höfðingjar þeir er áður voru nefndir og þessir er nú eru til komnir, og vorust góðir vinir. Þeir herja nú hvert sumar eftir annað á ýmsi lönd og fá sér bæði fjár og mikillar frægðar. Og þó að eigi sé hér í þessari frásögn frá þeim stórvirkjum sagt, sem þeir unnu, þá er það þó alsagt, að eigi er sýnt að verið hafi meiri hetjur eða garpar en þeir Jómsvíkingar, og hyggju vér að varla hafi fingist þeirra jamningjar. En þeir eru hvern vetur í Jómsborg í kyrrðum.


21. KAPÍTULI
Frá Vagni Ákasyni

Þar er nú til að taka er Vagn er Ákason. Hann vex nú upp heima með föður sínum á Fjóni, en stundum með Véseta afa sínum. Hann er maður svo óeirinn í sínum uppruna, að það er helzt sagt til marks um hans skaplyndi, að þá er hann var níu vetra gamall, þá hafði hann drepið þrjá menn. Hann er nú heima þar til er hann er tólf vetra gamall, og er þá svo komið að menn þóttust trautt mega umb hræfa hans skaplyndi og ofsa. Hann gerist og svo illgerðasamur að öngu vætta vildi hann eira.
   Og nú þykjast hans frændur eigi vita hvað úr skyldi ráða þessu vandræði.
   Og nú er það ráð tekið, að Áki faðir hans fær honum hálft hundrað manna og þar með eitt langskip. En annað lið jafnmikið fær honum Véseti afi hans og þar með annað langskip, og er engi maður sá er honum fylgir eldri en tvítugur að aldri og engi æri [1] en átján vetra gamall, nema Vagn sjálfur. Hann var tólf vetra gamall. Hann biður sér ekki fleira fá en nú var frá sagt: hundrað liðs og tvö langskip, og lézt einskis fleira við þurfa; kvaðst sjálfur mundu fá sér vistir og það annað er þeir þyrfti að hafa.


22. KAPÍTULI

Nú réðst Vagn heiman með lið þetta hið vænlega og þurfu þeir nú þegar að afla sér vistar, og verður Vagn ekki mjög örþrifráði, þótt hann væri ungur að aldri: Hann fer nú í fyrstu og rekur hernað fyrir endilanga Danmörk og höggur sér strandhögg ósparlega svo sem hann þarf. Hann rænir bæði klæðum og vopnum, og svo lýkur nú, að hann skortir hvorki vopn né herklæði né vistir, áður hann sigldi í braut úr Danaveldi, og lætur hann þá Danina fá sér slíka hluti. Allt hefir hann nú ærið það er þeir þurfu að hafa með þessum tveimur skipum.
   Nú fer hann þar til er hann kemur til Jómsborgar; það var snemma umb morguninn í sólarupprás. Þeir Vagn leggja nú þegar skipunum utan að steinboganum. En þeir höfðingjar borgarinnar, Pálnatóki og Sigvaldi, Þorkell og Búi og Sigurður, þegar er þeir verða við lið varir, þá fara þeir í kastalann sem þeir voru vanir, og spyrja síðan eftir, hverir þar væri komnir. Vagn spyr í móti hvort Pálnatóki væri í kastalanum. Hann svarar og segir að sá væri maðurinn kominn til tals við hann, er svo heiti. - "Eða hverir eru þessir menn," segir hann, "er svo láta ríkmannlega?"
   Vagn segir: "Ekki skal eg leyna þig heiti mínu. Eg heiti Vagn," segir hann, "og em eg son Áka á Fjóni og náfrændi yðvarr, og em eg því hér kominn að eg vilda ráðast til liðs með yður, fyrir því að ekki þótta eg nú dæll heima meir en svo, og þóttust frændur mínir nú ærið hafa, þótt eg færa nú í brott þaðan."
   Pálnatóki svarar: "Þyki þér ráðið, frændi" segir hann, "að þú munt hér þykja hægur viðskiptis ef menn megu heima trautt eða eigi um tæla?"
   Vagn svarar: "Logið er að mér, frændi," segir hann , "ef þú getur eigi temprað svo mitt skaplyndi að eg mega vera í samsæti með vöskum mönnum, og muntu vilja gera vorn sóma, þar er vér erum komnir á yðvarn fund."
   Þá ræðir Pálnatóki við Jómsvíkinga; "Hvort þykir yður ráðlegra," segir hann, "að vér takim við þeim Vagni frænda eða eigi?"
   Þá annsvarar Búi digri: "Það er mitt ráð," segir hann, "og er hann við mig bezt sinna frænda, að vér takim aldregi við honum, og hann komi hér aldregi innan borgar."
   ‹Þá mælti Pálnatóki til Vagns:› "Við þér vilja menn rísa hér innan borgar, frændi," segir hann, "og jafnt frændur þínir, þeir er öll deili vita á þér."
   Vagn svarar: "Hvort verða þeir menn berir að því," segir hann, "er þar standa hjá þér, að þeir vilja eigi við mér taka? En þó væri mér þess eigi von af Búa frænda mínum, að hann mundi í þessu ber gerazt."
   "Þar em eg þó saður [1] að því," segir Búi, "að eg fýsi ekki að við yður sé tekið, heldur let eg þess, en þó vil eg að Pálnatóki ráði."
   "En hvað leggja þeir til synir Strút-Haralds jarls?" segir Vagn; "það vil eg vita."
   "Hafa skulu við til þess einörð," segir Sigvaldi, "að við vildim attú kæmir hér aldregi í vorn flokk."
   Nú spyr Pálnatóki og mælti: "Hversu gamall maður ertu, frændi?" segir hann.
   "Ekki mun eg ljúga til þess," segir hann; "eg em tólf vetra gamall," segir hann.
   "Já," segir Pálnatóki; "þá mælir þú ólög við oss, frændi," segir hann, "þar er þú ert miklu æri maður að aldri en svo að vér hafim hér lögtekna í Jómsborg að vera í sveit með oss, og bítur það fyrir, og máttu af því eigi vera með oss."
   Vagn svarar: "Eg mun ekki til þess halda, frændi," segir hann, "að þú brjótir lög þín. En þá eru þau sízt brotin ef eg em sem einn átján vetra eða ellri."
   "Heill svo attú halt ekki lengur á þessu, frændi," segir Pálnatóki; "eg mun heldur senda þig vestur til Bretlands á fund Bjarnar hins brezka, og fyrir sakir vorrar frændsemi, þá gef eg þér upp hálft ríkið til eignar og stjórnar þar á Bretlandi."
   "Vel þyki mér þetta boðið, frændi," segir Vagn, "en þó vil eg eigi þetta er nú býður þú."
   "Hvað viltu þá, frændi," segir hann, "er þú vilt eigi slíka hluti sem nú býð eg þér, þvíað nú þykjumst eg vel bjóða?"
   Nú svarar Vagn: "Eigi vil eg þetta heldur en áður," segir hann, "og er þetta þó vel boðið og frændsamlega."
   Pálnatóki mælti: "Hvar ætlar þú til, frændi," segir hann, "með ofsa þinn og framgang, er þú vilt eigi þiggja slíka hluti?"
   "Þess skulu þér nú vísir verða, Jómsvíkingar," ‹segir Vagn,› "hvað mér býr í skapi. Eg vil bjóða Sigvalda syni Strút-Haralds jarls að við eigim leik saman og berjumst við jafnmart lið. Hafi hann tvö skip úr borginni og hundrað liðs og reynim síðan með oss, hvorir undan skulu láta öðrum og hvorir meira hlut skulu hafa í voru viðskipti. Og skal þetta mál binda með oss, og ef svo kann að verða að {þeir láti sigrast og renn}i undan, þá skulu þér skyldir að taka við oss og göra oss {lögtekna hér í} Jómsborg. En ef vér eigum slíkan hlut máls sem nú ætla eg þeim Sigvalda, þá skulu vér í brott fara, og eru þér þá lausir þessa máls. En eigi býð eg yður með minna kappi en svo, að Sigvaldi jarlsson berist við oss ef hann þorir og sé hann óragur karlmaður og hafi heldur manns hjarta en berkykvendis." [2]
   Nú svarar Pálnatóki: "Hér lýstur í endimi," segir hann "hvað þessi hinn ungi maður tekur til, og máttu þar til heyra, Sigvaldi," segir hann, "hversu mjög hann vandar boð að þér, þóttú sér jarlsson, og það þyki mér hvergi óvænna attú komir í fulla raun af þessum frænda mínum áður en þér skilið. En við það er svo er fast að skafið og fárlega, þá verður þú trautt hæfur maður af ef þú freistar eigi við þá, fyrir því að miklu er um mælt meira en þú megir undan víkjast. Og er það til að ér leggið að þeim og gerið þeim þá hina fyrstu hríð að þeir kunni hóf sín. En ef svo ber til að Vagn frændi vor verði eigi svo sigursæll sem hann er stórorður og gangi honum þyngra, þá vil eg þar mikinn varnað á bjóða, að engi maður beri vopn á hann, fyrir því að þeim mun þungt falla er það hendir, og leitt mun oss að sjá á ef hann er hart leikinn eða honum nakkvað til meins gert, þótt hann þyki trautt hvers barns leika vera. [3] En þó varir mig að nú sé gör skírsla til, hvílíkur þú ert, Sigvaldi, í framgöngu, þótt frændi minn sé ungur að aldri."


23. KAPÍTULI

Nú eftir þetta búast þeir Sigvaldi úr borginni tveim skipum til móts við Vagn. Og þegar er þeir hittast, þá leggja þeir saman randir og berjast. Og er svo frá sagt, að Vagn og félagar hans veita þeim Sigvalda hina snörpustu grjóthríð svo þegar, að þeir mega ekki annað en hlífa sér og forða, og hafa þeir þó ýrið að vinna, svo eru þeir ákafir hinir ungu menn. Og þegar er grjótið fættist, [1] þá láta þeir eigi lengi þurfa að bíða höggvopna, og hafa þeir þá höggorrustu og berjast með sverðum allhreystimannlega.
   En svo kom of síðir því máli, að Sigvaldi létti undan og flýr inn til landsins og vildi fá grjót. En þeir Vagn leggja eftir þeim, og finnast þeir nú á landi, og verður Sigvaldi nú við að hrökkva, hvort hann vill eða eigi, og verður þar nú með þeim önnur atlaga. Og er þeirra bardagi nú miklu ákafari og snarpari en hið fyrra sinn.
   Og er það nú frá sagt, að þeim Sigvalda veitti sjá hríðin þungt. Þeir Pálnatóki eru nú staddir í kastalanum borgarinnar og sjá þaðan til hversu þessi leikur fer með þeim Sigvalda.
   Nú sækja þeir Vagn að fast, svoað þeir Sigvaldi hopa undan á hæli og hans félagar, allt þar til er þeir koma að borginni, en hún var læst og lukt, og máttu þar eigi inn komast í borgina. Og varð nú við að snúast og veita vörn eða gefast upp ella.
   Og nú sér Pálnatóki og þeir Jómsvíkingar að nú mun tveimur um skipta: annað hvort að Vagn mun fá yfir komið Sigvalda og lið hans, eða hitt ella að þeir munu verða að lúka upp borginni og komist hann svo undan með fjörvi, þvíað hann má nú eigi undan flýja og eigi mun hann viljað hafa, slíkur maður sem hann var.
   Hér kemur máli, að Pálnatóki biður upp lúka borginni, - "og hefir þú Sigvaldi," segir hann, "trautt þinn maka við að eiga þar er sjá er frændi vor, og er nú mál að létta þessum leik, þvíað reynt er nú til fulls ykkat viðurskipti, og megu þér nú þekkja hvílíkur hvor ykkar er. Og er það mitt ráð," segir Pálnatóki, "ef yður sýnist svo, að vér takim við þessum hinum unga manni og liði hans, þótt hann sé nökkvi yngri að aldri en svo sem í lögum vorum er mælt. Og hlær mér þess hugur," segir hann, "of einn jafngamlan hér í voru liði, að né einn fái fang af honum, og er góð von á um slíka menn síðar, að slíkir láti sér eigi allt í augu vaxa."
   Nú gera þeir eftir því sem Pálnatóki mælti fyrir, og er nú upp lokið Jómsborg og slitið bardaganum með þeim. Og er nú Vagn í lög tekinn og allir hans menn.
   Í bardaga þeirra Vagns og Sigvalda er sagt að fallið hafi af Sigvalda þrír tigir manna og jafnmargt lið af Vagni. En þó hafði Vagn einn virðing þeirra beggja af þessum fundi. Margir menn voru og sárir orðnir í bardaganum af hvorstveggja liði.
   Nú er Vagn þar í Jómsborg með vild og samþykki allra höfðingja, þvíað svo stóðu lög þeirra til, að allir skyldu að einu ráði, þegar er þar kæmi, þótt áður hefði nakkvað um svarfað.
   Vagn er sagt að svo gerist spakur maður og siðugur þar í Jómsborg, að engi maður var þar spakari né lystugari en Vagn Ákason né kunni betur allan sinn riddaraskap en hann. Hann fer úr landi hvert sumar og stýrir skipi og leggst í hernað, og var engi þeirra Jómsvíkinga meiri kempa en hann í framgöngu.
   Því fer nú fram þrjú sumur í samt, frá því er hann kom í lið með þeim Jómsvíkingum, að þeir liggja úti hvert sumar á herskipum og hafa jafnan sigur, en um vetrunum eru þeir heima í Jómsborg. Og er þeirra nú víða getið um veröldina.


24. KAPÍTULI
Andlát Pálnatóka

Þess er nú við getið hið þriðja sumarið þá er á leið um haustið, að Pálnatóki tekur sótt, og er Vagn þá fimmtán vetra gamall er þetta er. Nú er þegar boðið konunginum Búrizláfi til borgarinnar, þvíað Pálnatóka segir svo hugur um sitt sóttarfar sem þessi sótt myni hann til bana leiða. Og er konungurinn kemur á fund Pálnatóka, þá ræðir hann svo:
   "Það er hugboð mitt, herra," segir hann, "að eg muna eigi fleiri sóttir taka, og má það og eigi ólíklegt þykja fyrir aldurs sakir. En það er ráð mitt," segir hann, "og tillag með yður, að maður sé finginn annar í stað minn, og sé sá höfðingi í borginni að skipa þeim málum er eg hefi áður fyrir setið, og hafist þeir hér við í borginni Jómsvíkingar og hafi þeir enn landvörn fyrir þér sem vér höfum áður gört, og þyki mér sem Sigvalda myni fæst til skorta af þeim sem til er að ganga mér í hömlu [1] um ráðagerðir og dæma hér um mál manna, bæði fyrir vizku sakir og ráðspeki, og mun yður þó þykja nokkur hvatvísi í því er eg mun nú mæla fyrir yður, að eg get þess, - en eigi veit eg það -, að alla skorti nakkvað að því sem eg hefi verið."
   Konungur svarar þá: "Oft hafa oss þín ráð vel gefizt," segir hann, "og skal þetta enn hafa er þú hefir til lagt, og mun oss það öllum bezt gegna, en það er ugganda, að nú myni eigi lengi þín við njóta eða þinna ráða, og er oss að skyldara að hafa hið síðarsta. Og skulu standa öll hin fornu lög þau er Pálnatóki hefir sett við hygginna manna ráð hér í Jómsborg."
   Svo er sagt að Sigvaldi var þess ekki einkar trauður, og gengur hann undir þetta, er á hendur honum var lagt, með ráði Búrizláfs konungs og Pálnatóka.
   Og nú eftir þetta, þá gefur Pálnatóki Vagni frænda sínum hálft Bretlands ríki til eignar og forráða með Birni hinum brezka, og síðan bað hann Vagni frænda sínum virkta á alla vega við þá Jómsvíkinga og einkum við konunginn og fór um það mörgum orðum og snjöllum og sýndi það í þessu, að honum var mikil ástúð á Vagni frænda sínum, og það annað að honum þótti miklu skipta að þeir gerði vel til Vagns.
   Og litlu eftir þetta andast Pálnatóki, og þykir það öllum hinn mesti skaði.
   Og lýkur þar frásögn um einn hinn bezta dreng.


25. KAPÍTULI
Sigvaldi tekur við lagastjórn

Nú eftir fráfall Pálnatóka, þá tekur Sigvaldi að stýra lögum þeirra Jómsvíkinga. Og er hann hafði eigi lengi þessu stjórnað, þá er það frá sagt, að nökkvað breyttist háttur laganna í borginni, og verða lögin haldin eigi með jafnmikilli freku sem þá er Pálnatóki stýrði. Gerist svo brátt, að þaðra eru konur í borginni tveim nóttum saman eða þrem. Svo og eru menn í brott úr borginni lengrum en lög stóðu til. Og verða nú í borginni stundum áverkar með mönnum og einstaka víg.


26. KAPÍTULI
Frá Sigvalda

Og nú er þetta er tíðenda, þá fer Sigvaldi úr borginni og til fundar við Búrizláf konung. En konungurinn átti sér dætur þrjár, þær er nefndar eru til sögunnar, og hét Ástríður hin elzta og var allfríð sjónum og hin vitrasta, en sú er næst var henni að aldri hét Gunnhildur, en Geira hin yngsta; hennar fékk Ólafur Tryggvason.
   Og er Sigvaldi er kominn á fund konungsins, þá býður hann honum tvo kosti: annað hvort að hann lézt eigi vera mundu í Jómsborg, eða ella gæfi hann honum Ástríði dóttur sína.
   Konungur svaraði honum: "Það hafða eg ætlað fyrir mér," segir hann, "að eg munda hana þeim manni gefa er tignari væri fyrir nafns sakir en þú ert. En þó væri mér þess þörf attú færir eigi í brott úr borginni, og skulu vér ráða um þetta öll saman, hvað oss þyki ráðlegast af að hafa."
   Síðan hitti konungurinn Ástríði dóttur sína og spyr hana hversu henni væri að skapi þessi ráðahagur, að hún væri gift Sigvalda, "og vil eg," segir hann, "að við setim ráðið sem viturlegast, að Sigvaldi fari eigi brott úr borginni eða Jómsvíkingar, þvíað eg þarf þeirra mjög til landvarnar með mér."
   Ástríður svarar feður sínum: "Þér satt til að segja, faðir," segir hún, "þá vilda eg Sigvalda aldregi eiga, en þó skaltu honum eigi frá hnekkja, og þó á þá leið sem eg mun fyrir segja: Hann skal það vinna til ráðahags þessa, að koma af landinu öllum sköttum þeim er vér höfum hingað til goldið Danakonungi, áður en hann komi mér á arm. Hinn er annar kostur, að hann fái hingað komið Sveini Danakonungi, svo attú eigir vald á honum."
   Og eftir þetta ber konungurinn upp þetta mál fyrir Sigvalda, er þau mæltu til, og binda þau þetta síðan fastmælum með sér, og skal fram komið vera fyrir hin þriðju jól. En ef Sigvaldi kemur eigi þessu fram sem nú var skilið með þeim, þá skulu mál þeirra öll vera laus.
   Sigvaldi fer nú heim eftir þetta til Jómsborgar.
   Og á hinu sama vori fer hann með þrjú skip og þrjú hundruð manna þaðan úr Jómsborg. Hann fer til þess er hann kemur á Sjóland og hittir þar menn að máli og hefir fréttir til, að Sveinn konungur tekur veizlur skammt þaðan á land upp. Og nú er hann þykist glögglega spurt hafa til fara konungsins, þá leggur hann skip sín við nes eitt, þar er hvergi voru skip í nánd; en það var skammt frá bænum þar er konungurinn tók veizlu og drakk með sex hundruð manna.
   Þeir Sigvaldi snúa skipum sínum og láta framstafna horfa frá landi og tengja saman hvert skip af stafni annars, og leggja þeir árar allar í háreiðar. [1] Síðan sendi Sigvaldi tuttugu menn skilríkja til fundar við Svein konung og mælti að þeir skyldi það segja konungi, að hann vildi hitta hann að nauðsynjum, og það annað, að hann væri svo sjúkur, að hann væri nálega að bana kominn; - "það skulu þér og segja konunginum, að þar liggi honum nálega við allt ráð og líf."
   Og nú fara sendimenn til bæjarins og ganga í höll fyrir konunginn. Og sá er foringi þeirra var ber upp öll þessi erendi er þeir voru með sendir. Og er konungurinn heyrði þessi tíðendi, þá fer konungurinn þegar ofan til sjóvar og með honum þau sex hundruð manna er þar voru að veizlunni til fundar við Sigvalda. En þá er Sigvaldi verður þessa var að konungurinn var þangað á för, þá er það sagt að hann er á því skipinu er first var landi, og liggur hann nú í rekkju og gerist allmáttlítill. Hann mælti nú við sína menn: "Þá er þrír tigir manna eru út gingnir á það skip er næst er landinu, þá skulu þér hleypa út bryggju af landi og á skip út og mæla svo, að menn sökkvi eigi skipum undir oss og troðist eigi svo ákaft, og get eg að konungurinn myni ganga í fyrsta lagi. En þá er tuttugu menn eru komnir á miðskipið, þá skal kippa af þeirri bryggjunni er á það liggur skipið. ‹En þá er konungur kömur á hið yzta skipið með tíunda mann, þá skal taka af bryggjuna milli skipanna.›" [2]
   Nú er svo frá sagt, að konungurinn kemur þar með lið sitt og spyr að Sigvalda, en honum er sagt að hann mátti lítið, - "og liggur hann á yzta skipinu," - og gengur hann síðan á það skip er næst er landi og hvert af öðru, þar til er hann kömur á skip Sigvalda. Menn ganga og eftir honum, en Sigvalda lið fer svo með öllu sem hann hafði ráð til gefið.
   Og nú er konungurinn er kominn á skip það er Sigvaldi liggur á, með hinn tíunda mann, þá spurði konungurinn ef Sigvaldi hefði mál sitt, en honum er sagt að hann hefir mál sitt, og er þó máttur sem minnstur. "Síðan gengur konungur að þar er Sigvaldi liggur og lýtur að honum niður og spyr, ef hann mætti nema orð hans, eða hver tíðendi hann kynni honum að segja, þau er honum lægi svo stórt við að þeir fyndist, sem Sigvaldi hafði honum orð um send.
   "Lúttu nú að mér líttað, herra," segir hann Sigvaldi; "þá muntu heldur mega nema mál mitt, þvíað eg em nú lágmæltur."
   Og er konungur lýtur að honum niður, þá tók Sigvaldi hendi annarri um herðar konunginum, en annarri undir hönd honum, og er hann nú eigi allmeginlaus, og heldur hann nú eigi alllaust konunginum. Og í því byli, [3] þá kallar Sigvaldi að öllum skipverjum, að þeir skyldu falla við árar allar sem tíðast, og svo gera þeir og röru nú í brott sem þeir máttu. En þessi sex hundruð manna standa eftir á landi og sjá á.
   Og nú tekur konungur til orða og mælti: "Hvað er nú, Sigvaldi," segir hann; "viltu svíkja mig nú, eða hvað er fyrir ætlað? Eg þykjumst nú sjá," segir hann, "að tíðendum mun sæta. En það má eg eigi vita, til hvers koma mun þessi tiltekja."
   Sigvaldi svarar konunginum og mælti svo: "Eigi mun eg svíkja yður, herra, en fara verði þér nú með oss til Jómsborgar, og veita skulu vér yður það allt til virðingar sem vér megum, og allir yðrir menn, þeir er nú fylgja yður, skulu velkomnir með oss, og munu þér þá vita til hvers hvatki kemur, er þér komið þar til þeirrar veizlu er vér höfum yður búið, og skaltu þar einn fyrir öllu ráða; en vér skulum allir, sem skylt er, til þín lúta og veita þér alla sæmd þá er vér megum."
   "Það munu vér nú þekkjast," segir konungur, "úr því sem að ráða er."
   Þeir fara nú þar til er þeir koma til Jómsborgar, og þjónar Sigvaldi konunginum, sem vert var, og gera nú Jómsvíkingar í móti honum hina beztu veizlu og kallast allir hans menn vera. En Sigvaldi segir nú konunginum hver sök til er, er hann hafði konunginn úr landi hafðan, að hann lézt beðið hafa konu til handa honum, dóttur Búrizláfs konungs - "og þeirrar meyjar er eg vissa vænsta vera og bezt um sig, og tókumst eg það á hendur fyrir vináttu sakir við yður, herra, að því er mér sýnist, og vilda eg eigi attú misstir hins bezta kvonfangs."
   Því gat Sigvaldi nú við komið, að allir Jómsvíkingar sönnuðu þetta með honum. Konungurinn spurði hvað mærin héti. "Sú mær heitir Gunnhildur," segir Sigvaldi, "er eg hefi beðið þér til handa. En mér er föstnuð önnur dóttir hans, sú er Ástríður heitir, og er þó Gunnhildur fyrir hversvetna sakir framar, sem vera á. En þú, konungur, skalt hér vera að veizlu í Jómsborg, en eg skal fara á fund Búrizláfs konungs og vitja málanna fyrir hönd okkra beggja, og muntu nú verða mér að trúa til málanna þinna allra, og skulu vér yður og vel gefast."
   Nú eftir þetta fer Sigvaldi á fund Búrizláfs konungs með hundrað manna, og er góð veizla og vegsamleg ger honum í móti. Og er þeir konungur ræðast við, þá lézt Sigvaldi nú kominn til ráða við Ástríði og kvaðst nú því hafa á leið komið, sem til var mælt, að Sveinn Danakonungur var nú kominn til Jómsborgar og þeir áttu nú við hann alls kosti að gera við hann slíkt af sínu tilstilli og vitru sem þeir vildi, og bað þá konunginn og Ástríði gera sem þeim sýndist ráðlegast og viturlegast.
   Þau ræddu nú um og leituðu nú ráða undir Sigvalda, bæði konungurinn og dóttir hans Ástríður, hvað honum sýndist ráðlegast um þetta mál, er til konungs tók Sveins.
   Sigvaldi svarar: "Hugað hefi eg eitthvert ráðið um þetta málið," segir hann; "eg vil attú gefir Sveini konungi dóttur þína Gunnhildi og gerir hingaðför hans virðulega, en hann vinni það til ráðahags að hann gefi þér upp áður alla skatta þá er þú hefir áður átt honum að gjalda hingað til, og mun eg ganga með þeim málum ykkar í milli, og mun eg svo þeim málum fylgt geta, að þetta mun fram ganga sem nú hefi eg fyrir yður rætt."
   Nú eftir þessa viðræðu þeirra, þá fer Sigvaldi aftur með lið sitt, hundrað manna, þar til er hann hittir Svein konung, og spyr konungur brátt eftir hversu honum hefði málin gingið.
   "Það er nú á yðru valdi, herra," segir hann. "Hvernveg er þess?" segir konungur.
   "Það þá," segir Sigvaldi, "ef þú vilt það til vinna að gefa upp áður skattana Búrizláfi konungi, áður en hann gifti þér dóttur sína. Máttu og á það líta, herra," segir "Sigvaldi, "að þitt er allt eftir hans dag, og er þetta þinn vegur meiri, attú eigir þann mág að undir öngan sé skattgildur, þvíað þeir þykja ávallt konungarnir minni er skattana gjalda, en hinir er eigi gjalda."
   Og nú telur Sigvaldi um fyrir Sveini konungi á marga vega, að honum skyldi þetta sýnast, og skorti hann hvorki til vit né orðfæri. Svo kömur þessu máli, að Sveini konungi sýnist þetta ráð, er Sigvaldi lagði til, og er honum títt til að þessi ráðahagur tækist, og er nú þetta ráðið og kveðið á brullaupsstefnu, og skulu bæði vera senn brullaupin.
   Og er að því kömur, þá fara þeir allir til boðsins Jómsvíkingar, og er þar Sveinn konungur í för með þeim, og var þar hin ríkulegsta veizla að hvívetna, svo að þeir menn er þá voru uppi mundu eigi að veglegra boð hefði verið í Vindlandi en þetta.
   Það er nú frá sagt hinn fyrsta aftan er menn sitja að brullaupi, að brúðirnar falda sítt, svo að ógerla má sjá þeirra yfirlit. En um morguninn eftir, þá eru þær vel kátar og skupla þá ekki.
   Og nú hyggur Sveinn konungur vandlega að yfirlitum þeirra systra, þvíað hann hafði hvoriga fyrr séna en að því boði, og hafði hann það eina til er Sigvaldi hafði honum frá sagt þeirra vænleik og kurteisi systranna. Og er nú sagt að Sveini konungi lízt allra bezt á þá konuna er Sigvaldi átti [4] og sýndist sú vera vænni og kurteisari en sín kona, og þykir Sigvaldi eigi {til loks} hafa hið sanna frá sagt. Og finnur nú Sveinn konungar að mikið stendur undan við hann í vinfenginu af hendi Sigvalda, og sér konungurinn nú með viturra manna ráði bragð hans allt, og drepur þó huldu á fyrir alþýðu manns, og nýtir það af allt sér til sæmdar og virðingar sem nú er í boði, þannig sem komið er málinu. Á hann nú og að taka Vindland að þriðjungi eftir daga Búrizláfs konungs.
   Nú eftir þetta er slitið veizlunni. Fer nú Sveinn konungur í brott með Gunnhildi konu sína og hefir þaðan þrjá tigu skipa og fer með mikið lið í brott og margar gersimar. En Sigvaldi fer til Jómsborgar með konu sína Ástríði.
   Og gangast nú mjög úr stað lögin þeirra frá því sem þau voru sett fyrir öndverðu af Pálnatóka og öðrum vitrum mönnum, og finna þeir það nú Jómsvíkingar, og eru þó nú allir samt þar í borginni of stundar sakir, og eru frægir mjög.


27. KAPÍTULI
Heitstrengingar Jómsvíkinga

Eigi eftir þetta miklu, er nú var frá sagt, þá spyrjast tíðendi mikil úr Danmörku, að Strút-Haraldur jarl er andaður, faðir þeirra Sigvalda og Þorkels, en Hemingur bróðir þeirra er ungur að aldri þá er þetta er tíðenda, og þykist Sveinn konungur skyldur til að gera erfi eftir Strút-Harald jarl, ef synir hans hinir ellri kæmi eigi til, þvíað Hemingur þótti þá enn ungur til að ráða fyrir veizlunni.
   Nú sendir hann orð þeim bræðrum til Jómsborgar, að þeir Sigvaldi og Þorkell kæmi til erfisins og hittist þar og gerði allir samt veizlu og hefði tilskipan á, að hún yrði sem virðilegust eftir þvílíkan höfðingja sem var faðir þeirra Strút-Haraldur jarl. En þeir bræður sendu þegar konunginum þau orð í móti, að þeir kóðust koma mundu og mæltu að konungur skyldi allt láta til búa það er til veizlunnar þyrfti að hafa, en þeir kváðust til mundu fá og báðu hann taka öll tilföng af eigu þeirri er átt hafði Strút-Haraldur.
   Þetta sýndist flestum mönnum óráðlegt, að þeir færi þangað, og grunuðu að vinátta þeirra Sveins konungs og Sigvalda mundi vera heldur grunn, og þeirra allra saman Jómsvíkinga, þannig sem farið hafði fyrr með þeim viðurskiptin, þótt þeir léti þá hvorirtveggju skyldilega [1] við aðra; en Sigvaldi og Þorkell hávi vilja ekki annað en fara sem þeir höfðu heitið. En Jómsvíkingar vilja og eigi eftir vera, og vilja þeir allir fylgja þeim Sigvalda til boðsins.
   Og er að því kömur, þá fara þeir úr Jómsborg með miklu liði. Þeir hafa sjö tigu skipa annars hundraðs.
   {Þeir fara} nú þar til er þeir koma á Sjóland, þar sem Haraldur jarl hafði fyrir ráðið, og var Sveinn konungur þar fyrir og hafði búa látið erfið, svo að þá var albúið. Og er þetta um veturnáttaskeið. Þar er hinn mesti mannfjöldi og hin bezta veizla, og drekka þeir Jómsvíkingar ákaflega hið fyrsta kveldið, og fær á þá mjög drykkurinn.
   Og nú er því fer fram um hríð, þá finnur Sveinn konungur það, að þeir gerast nálega allir dauðdrukknir með þeima hætti, að þeir gerast málgir mjög og kátir og þykir lítið fyrir mörgu það að tala er ella væri eigi örvæna að undan liði. Og nú er konungur finnur þetta, þá tók hann til orða og mælti:
   "Hér er nú glaumur mikill og fjölmenni," segir hann, "og vilda eg nú til þess mæla að ér tækið upp nokkura gleði nýja til skemmtunar mönnum, og það er lengi væri síðan að minnum haft og mikils væri um vert"
   Sigvaldi svarar konunginum og mælti: "Það þykir oss vera upphaflegast," segir hann, "og von að bezt myni verða fyrir séð um gleðina, að ér hefið fyrst, herra, þvíað vér eigum allir til yðvar að lúta, og vilju vér því allir samþykkjast sem þér vilið vera láta um gleðina eða upp taka."
   Konungur svarar: "Það veit eg menn gert hafa jafnan", segir hann, "að dýrlegum veizlum og samkundum, og þar er mannval hefir gott saman komið, að menn hafa fram haft heitstrengingar sér til skemmtunar og ágætis, og em eg þess fús að vér freistim nú þess gamans, fyrir því að eg þykjumst það sjá, svo miklu sem þér eruð nú ágætari, Jómsvíkingar, um alla norðurhálfu heimsins en allir menn aðrir, þá er það og auðvitað að það mun með meira móti er þér vilið til hafa tekið í slíkri skemmtan, og mun það enn fara eftir öðru, að þér eruð nú meiri fyrir yður en aðrir menn, og það líklegt að menn myni lengi þá hluti að minnum hafa, enda skal eg eigi undan draga að hefja þetta gaman: Þess strengi eg heit," segir konungurinn, "að eg skal eltan hafa úr ríki sínu Aðalráð konung áður liðnar sé hinar þriðju veturnætur, eða hafa felldan hann ella og náð svo ríkinu. Og nú áttu, Sigvaldi," segir konungur, "og mæltu eigi minna um en eg."
   Sigvaldi svarar: "Svo skal vera, herra," segir hann, "að um skal nokkuð mæla. Þess strengi eg heit," segir Sigvaldi, "að eg skal herja í Noreg fyrir hinar þriðju veturnætur með því liði er eg fæ til og hafa eltan Hákon jarl úr landi eða drepið hann ella; að þriðja kosti skal eg þar eftir liggja."
   Þá mælti Sveinn konungur: "Nú fer vel að," segir hann, "og er þessa vel heitstrengt ef þú efnir þetta, og eigi er þetta lítilmannlegt, og ver hálfu að heilli attú hafir þetta mælt, og efn þetta nú vel og drengilega, er þér hafið nú um mælt. Nú er þar til að taka er þú ert, Þorkell hinn hávi," segir konungur, "hvers þú vill heitstrengja, og er einsætt að láta verða stórmannlega."
   Þorkell svarar: "Hugað hefi eg mína heitstrenging, herra," segir hann. "Þess strengi eg heit," segir Þorkell, "að eg mun fylgja Sigvalda bróður mínum og flýja eigi fyrr en eg séig [2] á skutstafn skipi hans. En ef hann berst á landi, þá strengi eg þess heit, að eg skal eigi flýja meðan hann er í fylkingu og eg mega sjá merki hans fyrir mér."
   "Vel er þetta mælt," segir Sveinn konungur, "og muntu það að vísu efna, ertu svo góður drengur. - Búi digri," segir konungur; "nú áttu, og vitu vér attú munt nokkurnig mikilmannlega um mæla."
   "Þess strengi ‹eg› heit þá," segir Búi, "að eg skal fylgja Sigvalda í för þessa, svo sem mér endist karlmennska til og drengskapur, og flýja eigi fyrr en færri standa upp en fallnir eru, og halda þó við meðan Sigvaldi vill."
   "Svo fór sem vér gátum," segir konungur, "að mikilmannlega mundi verða um mælt af þinni hendi. En nú áttu, Sigurður kápa," segir konungur, "að mæla umb enn nökkvað eftir hönd Búa bróður þíns."
   "Skjót er heitstrenging mín, herra," segir Sigurður. "Þess strengi eg heit að eg mun fylgja Búa bróður mínum og flýja eigi fyrr en hann er líflátinn, ef þess verður auðið."
   "Slíks var þar von," segir konungur, "attú mundir því vilja að fylgja sem bróðir þinn. - En nú áttu, Vagn Ákason," segir konungur, "og er oss þar mikið um að heyra hvers þú sttengir heit, þvíað ér langfeðgar eruð garpar miklir og afætur." [3]
   Vagn svarar og mælti: "Þess strengi eg heit," segir Vagn, "að eg skal fylgja Sigvalda í för þessa og Búa frænda mínum og halda við meðan Búi vill, ef hann er lífs, og það læt eg fylgja," segir hann, "minni heitstrenging, ef eg kem í Noreg, að eg skal komið hafa í rekkju Ingibjargar dóttur Þorkels leiru í Vík austur ón [4] hans ráði og allra frænda hennar, áður en eg koma heim aftur í Danmörk."
   "Nú fór sem mig varði," segir konungur, "og ertu fyrir flestum mönnum þeim er vér vitum of allan vaskleik og kurteisi"
   Það er sagt að Björn hinn brezki var þar í liði þeirra Jómsvíkinga, og var einkum félagi Vagns Ákasonar, þvíað þeir áttu Bretland báðir samt, síðan er Pálnatóki andaðist. Og nú mælti konungur: "Hvers strengir þú heit, Björn hinn brezki?" segir honungur.
   "Þess strengi eg heit," segir Björn, "að eg mun fylgja Vagni fóstra mínum sem eg hefi vit til og drengskap."
   Og nú eftir þetta slítur tali þeirra, og fara menn að sofa vonu bráðara, og fer Sigvaldi í rekkju hjá konu sinni Ástríði, og sofnar hann fast brátt, er hann kom í rekkjuna. En Ástríður kona hans vakir, og vekur hún hann Sigvalda, þá er hann hefir sofið mjög lengi svo, og spyr ef hann myni heitstrenging sína, þá er verið hafði um kveldið. En hann svarar og kveðst eigi muna að hann hefði heitstrengt né eins um kveldið.
   Hún mælti: "Eigi mun þér að því verða," segir Ástríður, "að því er eg get til, og muntu bæði við þurfa vit og ráðagerð."
   "Hvað skal nú þá til ráðs taka?" segir Sigvaldi. "Þú ert vitur ávallt, og muntu nú kunna nokkur góð ráð til að gefa."
   Hún svarar: "Eg veit eigi nú," segir hún, "hvert það ráð sé, er gott er. En til skal þó nakkvað leggja: Þá er þú kömur til drykkju á morgin, þá vertu glaður og kátur, þvíað Sveinn konungur mun muna heitstrengingar yðrar, að því er eg get til. Og þá er konungur ræðir umb við þig, þá skaltu honum þessu svara, að "öl er annar maður, og munda eg sýnu minna hafa af tekið ef eg væra ódrukkinn." En síðan skaltu spyrja konunginn, hvað hann mun vilja til leggja, attú getir efnt heitstrenging þína, og tak síðan glaðan á við konunginn og lát sem þú þykist þar allt eiga er konungurinn er, fyrir því að hann þykist nú hafa stilltan þig mjög í þessu, og spyr hversu mörg skip hann myni fá þér til fararinnar, ef þú reipast við að fara. [5] Og ef hann tekur þessu vænlega og kveður þó ekki á umb, hversu mörg skip hann mun til leggja með þér, þá skaltu skora við hann fast, að hann kveði þegar á hvað hann mun til leggja, og seg attú munt margra þurfa, fyrir því að Hákon jarl hefir mikinn afla. En fyrir því skaltu svo skjótt að gála [6] um þetta og skora fast við konunginn," segir hún, "að eg hygg að honum myni nú minnst fyrir þykja að heita þér liðinu og leggja skipin til með þér, meðan hann veit eigi víst hvort förin tekst eða eigi. En þá er förin er ráðin, þá get eg þig lítið af honum fá um liðið, ef hann hefir eigi áður heitið, fyrir því að hvorgan ykkarn Hákonar jarls mun hann spara til að hljóti óförna og þykja þá bezt að báðir hlyti."
   Það er nú frá sagt, að Sigvaldi gerir svo sem Ástríður réð honum.
   Og þá er þeir taka til drykkju of daginn eftir, þá er Sigvaldi hinn kátasti og fær margt til gamans. Og nú innir konungur til umb heitstrengingar þeirra, er verið höfðu um aftaninn, og þykir konunginum nú umb hið vænsta og þykist mjög hafa í vaðhorni upp komið við Sigvalda [7] og alla þá saman Jómsvíkinga. En Sigvaldi svarar konunginum og mælti slíkum orðum öllum sem Ástríður hafði fyrir hann lagt og fréttir nú eftir hvað konungurinn vill til leggja með honum.
   En þar kömur að konungur mælir svo, að hann kveðst ætla þá er Sigvaldi er búinn til þeirrar farar, að hann mundi til leggja með honum tuttugu skip.
   Sigvaldi svarar: "Þetta tillag er gott," segir hann, "af einhverjum ríkjum bónda, en ekki er þetta konunglegt tillag, slíkur höfðingi sem þú ert."
   Þá svarar Sveinn konungur og var nakkvað brúnölfi [8] og spurði Sigvalda: "Hversu mikils mundir þú þykjast við þurfa," segir hann, "ef þú hefðir lið eftir því sem þú vildir?"
   "Skjótt er það að segja," segir Sigvaldi; "beint sex tigu skipa, þeirra er öll sé stór og vel skipuð. En eg mun þó fá í staðinn eigi færri skip, eða þaðan af fleiri, og munu þau vera smærri, fyrir því að eigi má vita hvort öll koma aftur skipin yður, og er það ósýnna að svo beri til."
   Nú svarar konungur: "Búin skulu öll skipin, Sigvaldi, þá er þú ert búinn til fararinnar," segir konungur. "Ráð þú til að heldur; eg skal til fá þetta er þú beiddir."
   "Þá er vel við orðið, herra," segir Sigvaldi, "og vegsamlega, sem von var að yður, og látið þá nú vel efnt verða sem nú hafi þér heitið, fyrir því að nú skal fara þegar er boði þessu er lokið, er nú sitju vér að, og fá þú nú öll skipin svo að eigi verði sein að, [9] en eg mun lið til fá og við báðir samt."
   Og nú drepur úr hljóð fyrst úr konunginum, og verður honum staður á, og mælti þó vonu bráðara: "Svo skal vera, Sigvaldi," segir konungur, "sem þú mælir til, en þó hefir þetta skjótara að borizt en eg hugða, og varði mig trautt að svo skjótt mundi á þjóta sem nú er."
   Þá mælti Ástríður kona Sigvalda: "Eigi er yður þess von," segir hún, "að þér munið mjög sigrast á Hákoni jarli ef ér dvalið ferðinni, svo að hann spyri og megi við búast lengi, ef þér fáið nú ósigur, og er þetta eitt ráðið," segir hún, "að bregða við sem skjótast og láta enga fara fréttina fyrir, og komið þér jarli á óvart."
   Það er nú sagt að þeir láta ráðna vera ferðina þegar veizlunni er slitið, og skipa þar nú til alls að erfinu og hafa ætlan á um ferðina.
   Svo er sagt að Tófa dóttir Strút-Haralds jarls tekur til orða og mælti við Sigurð bónda sinn: "Þú munt nú fara," segir hún, "sem þú hefir ætlað; en þess vil eg þig biðja," segir hún, "attú fylgir sem bezt Búa bræður þínum og leif eftir þig orðstír sem beztan, en eg mun þín bíða, svo að engi maður skal koma í mína rekkju meðan eg spyr þig heilan og lífs. En menn eru þeir tveir, Búi," segir hún, "er eg vil þér gefa til farar þessarrar, þvíað þú hefir allar stundir vel til mín verið. Annar heitir Hávarður og er kallaður Hávarður höggvandi, en annar heitir Áslákur og er kallaður Áslákur hólmskalli. En því gaf eg þér þessa menn að mér er við þig vel, og ekki skal óeinurð við það hafa, að miklu heldur vilda eg þér hafa gefin verið en þeim er nú á eg; en þó mun það nú svo búið vera verða."
   Búi þiggur mennina að henni og biður hana hafa þökk fyrir og gefur þegar Áslák Vagni frænda sínum til fylgdar. En Hávarður var með honum sjálfum.
   Nú slítur boðinu, og búa þeir nú lið sitt Jómsvíkingar þaðan frá veizlunni. Og er þeir eru búnir, þá fara þeir úr landinu og hafa hundrað stórskipa. En þeir höfðu þangað haft úr Jómsborg til veizlunnar sjö tigu annars hundraðs, og voru í því tali mörg smá skip.


28. KAPÍTULI
Frá herferð Jómsvíkinga til Noregs

Nú fara þeir ferðar sinnar og gefur þeim vel byri og taka Víkina í Noregi. Þeir koma að síð aftans. Og þegar um nóttina héldu þeir til býjarins í Túnsbergi og komu þar með öllu liðinu um miðnættis skeið.
   Sá maður er nefndur til sögunnar er Ögmundur hét og var kallaður Ögmundur hvíti; hann var lendur maður Hákonar jarls, ungur að aldri og virður mikils af Hákoni jarli. Hann hefir mest forráð býjarins í Túnsbergi, þá er þessi tíðendi eru.
   Og nú er herinn er kominn í bæinn, þá tóku þeir upp nálega allan bæinn og drápu þar margt manna; tóku síðan allt það er þeir máttu í fjárhlutum og fóru eigi þörfsamlega. [1] En þeir er fyrir voru vöknuðu eigi við góðan draum, og áttu margir þegar við höggum að taka og vopnagangi.
   Ögmundur hvíti vaknar og sem aðrir menn við þenna ófrið, og þeir er sváfu næstir honum í herbergi. Nú tekur hann það ráð og þeir með honum, að þeir flýja undan í eitt loft, það er þeim þótti sem lengst mundi verjast mega, þvíað engi voru föng á að komast mætti til skógarins. Og er þeir Jómsvíkingar verða þessa varir, þá drífa þeir að loftinu og höggva loftið í ákafa.
   Og nú sjá þeir Ögmundur að þeir munu eigi fá varizt; miklu er her þessi harðfengri og ákafari, er þar er kominn.
   Það er sagt að Ögmundur hvíti tekur það ráðs, að hann hleypur úr loftinu ofan og á strætið og kömur standandi niður. En Vagn Ákason var þar nær staddur, er hann kom niður, og höggur þegar til hans Ögmundar, og hjó á hönd honum fyrir ofan úlflið, og hefir Vagn eftir höndina, en Ögmundur komst í skóg í braut. Gullhringar hafði fylgt hendinni, og tekur Vagn hann upp og hefir.
   En Ögmundur er hann kömur í skóginn, þá nemur hann staðar þar er hann má heyra mál þeirra, og vill vita ef hann fái það skilt af orðum þeirra hverir þar eru komnir, þvíað hann veit eigi áður og þykir vera heldur til [2] ófróðlegt ef hann kann ekki frá segja, ef hann hittir aðra menn enn, slík víti sem hann hafði á sér tekið. Hann verður nú þess var af orðum þeirra og ákalli, að þar eru komnir Jómsvíkingar, og svo veit hann nú hver á honum hefir unnið sjálfum. Og nú eftir þetta, þá fer hann leiðar sinnar á skóga í brott og merkur, og það er nú frá sagt, að hann liggur úti sex dægur á mörkum, áður en hann kömur til byggða.
   En þegar er Ögmundur finnur byggðir og menn, þá hefir hann greiða allan þann er þarf, þvíað margir menn vissu deili á honum, og var hann vel um sig og vinsæll maður. Og fer hann nú þar til er hann spyr hvar jarl er á veizlum, og sækir hann nú á hans fund. Jarl hefir þá tekið veizlu á þeim bæ er heitir á Skugga, og sá maður er Erlingur nefndur er veizluna hélt; hann var lendur maður. Jarl var þar með hundrað manna á veizlunni, og þar var Eiríkur sonur hans með honum.
   Svo er sagt að Ögmundur hvíti kömur þar síð aftan dags og gengur þegar inn í höllina og fyrir jarl og kveður hann vel. Jarl tekur kveðju hans, og er hann spurður almæltra tíðenda. En hann svarar Ögmundur:
   "Lítil eru enn tíðendi undir förum mínum," segir hann, "en gerast mætti að tíðendum eigi alllitlum."
   "Hvatta?" segir jarl.
   "Þatta!" segir Ögmundur, "að eg kann að segja yður hersögu, að mikill her er kominn í landið austur í Víkina og með hinum mesta ófriði og styrjöld, og það sama ætla eg þeim í skapi búa, að halda slíku fram."
   Jarl mælti: "Hvað veit eg," segir hann, "hvort menn munu aldregi hætta fyrr lygisögum í landinu en nokkur hangir uppi fyrir."
   Eiríkur svarar og mælti: "Eigi er svo á slíku að taka, faðir," segir hann; "ekki er þessi lygimaður, er nú segir frá."
   Jarl mælti: "Veiztu það mjög gerla, frændi," segir hann, "hver þessi maður er, og væri það líklegt, fyrir því er þú fylgir máli hans?"
   "Það ætla eg að eg vita nokkuð til," segir Eiríkur, "eigi síður en þú, faðir, að ætlan þinni: Það hygg eg að hér sé kominn Ögmundur hvíti, lendur maður þinn, og hefir hann oss oft betur fagnað en vér fögnum honum nú."
   "Eigi kennda eg hann," segir jarl. "Gangi hann enn hingað til máls við mig."
   Nú gerir Ögmundur þegar er honum komu orð jarls, þá gengur hann enn fyrir hann. Síðan spyr jarl: "Hver Ögmundur ertu?" segir hann. En hann segir honum öll deili á, svo að hann má við kannast.
   Þá mælti jarl: "Veit eg," segir hann, "attú munt sanna sögu segja ef þú ert þe{ssi} maður. En seg mér," segir jarl, "hver ræður fyrir her þessum hinum mikla?" "Sigvaldi heitir {sá," segir Ögmundur,} "er fyrir herliðinu ræður. En nefnda heyrða eg í herinum bæði Búa og {Vagn og hefi eg} þess nokkur merki á sjálfum mér að eg lýg þetta eigi." Og bregður {síðan upp hendinni og} sýnir jarli handarstúfinn.
   Jarl mælti þá: "Hart ertu leikinn," segir hann, {"og sár}lega. En hvort vissir þú það hver þér veitti þann geig?"
   "Réð eg {að líken}dum, jarl," segir hann, "af því er þeir mæltu, þá er sá tók upp hringinn er fylgt hafði hendinni: "Fénaði þér nú, Vagn Ákason." sögðu þeir, og þóttumst eg þaðan af vita að hann {mundi á mér} hafa unnið, og það kannaða eg af," segir hann, "að sá her mundi kallaður vera {Jómsvíkingar}."
   "Sannfróður muntu of það vera," segir jarl, "af þeim mönnum sem þú heyrðir nefnda í liðinu. {En það er þó sa}tt að segja, að þenna munda eg sízt kjósa herinn;" segir jarl, "þótt eg ætta um {alla að} velja, og mun nú bæði við þurfa vit og harðfengi; svo segir mér {hugur} umb."


29. KAPÍTULI
Frá Hákoni jarli

Nú sendir jarl þegar menn norður á Hlaðir til Sveins sonar síns að segja honum hersöguna, og sendir honum orð til að hann samnaði liði um allan Þrándheim af sinni tilsýslu og kveðja upp alla þá menn er mikils eru verðir [1] og svo hina er minna háttar eru, og sé búið hvert skip það þaðan, það er nokkur vöxtur er að.
   En Guðbrandur hvíti var þar með jarli, er hann unni mest.
   Og fer jarl nú þegar af veizlunni með því liði er hann fékk þar. Hann fer þar til er hann kömur ofan í Raumsdali, og síðan samnar hann liði um Norðmæri. En hann sendir Erling suður um Rogaland að segja tíðendin og samna þar {liði;} sendi jarl Erling þegar suður þá þangað, áður hann færi frá veizlunni, og sendir hann orð öllum vinum sínum, þeim er í landinu voru og öllum þeim er nokkur tilkvæmd var að, að þeir skyldu allir til hans koma með því liði er þeir fingi til. Og jamvel sendi jarl þeim mönnum orð, er hann var missáttur við, að þeir skyldu og koma á hans fund, og kveðst sættast {mundu} við hvern mann þeirra er sóttu á hans fund því sinni og veitti honum lið.
   Eiríkur fer norður í Naumudal, [2] son Hákonar jarls, í móti Sveini bræður sínum, og samnar liði sem hann má allt um eyjarnar hið ytra.
   Það er sagt þá er Eiríkur siglir suður eftir Hamrasundum, að þar koma í móti honum {skip; það voru herskip}, [3] og ræður sá maður fyrir liðinu er Þorkell hét og var kallaður Þorkell miðlangur; hann er rauður víkingur og í missætti við Hákon jarl. Þeir brjóta þegar upp vopn sín, víkingarnir, og ætla að leggja að þeim Eiríki. Þeir hafa þrjú skip. En þá er Eiríkur sér það, þá mælti hann við Þorkel miðlang:
   "Ef þú vill berjast við oss," segir hann, "þá skulu vér búnir þess. En þó sæi eg hér betra ráð til."
   "Hvert er það?" segir Þorkell.
   "Óskaplegt sýnist mér," segir Eiríkur, "að vér berimst sjálfir Noregsmenn, þvíað nú mætti vera að fingist {aðrir nær aukvisarnir. En} [4] ef þú vilt koma á fund föður míns með lið þitt og viltu veita honum slíkt sem þú ert til fær, þá munu þið sættast, og mun það þá eigi verða torsótt af föður míns hendi."
   En Þorkell svarar: "Þenna kost vil eg ef þú bizt í því, Eiríkur, að mér akist þetta eigi í tauma er þú segir, þá er eg hitti föður þinn."
   "Eg skal það annast," segir Eiríkur.
   Og nú ræðst Þorkell miðlangur með sveit sína til liðs með Eiríki.
   Og brátt eftir þetta finnast þeir bræðurnir, Eiríkur og Sveinn, og fara þeir nú til þess staðar er þeir höfðu ákveðið með sér, Hákon og Eiríkur, áður en þeir skildist. Og síðan hittast þeir þar allir feðgar, Hákon og Eiríkur og Sveinn, í þeim stað sem þeir höfðu mælt mót með sér og allur herinn skyldi hittast og saman koma. En það var á Sunnmæri við ey þá er heitir Höð, og kemur þar mart lendra manna. Þeir höfðu feðgar alls þrjú hundruð skipa, og voru mörg ekki allstór. Þeir liggja þar á vogi þeim er Hjörungavogur heitir og bera nú saman ráð sín, og liggja þar á voginum öllum flotanum.


30. KAPÍTULI

En nú er að segja frá þeim Jómsvíkingum. Þeir fara nú sunnan fyrir landið ófriðsamlega: herja þar og ræna sem þeir koma við. Þeir höggva strandhögg stór og drepa margt manna, og víða er það er þeir brenna býi að köldum kolum, og fara með herskildi allt sunnan fyrir landið. Og flýr hotvetna undan herinum, það er spyr til og undan má komast.
   Og nú fara þeir þar til er þeir koma fyrir sund það er kallað er Úlfasund, og eru þeir þá komnir að Stað. Og er það frá sagt, að hvorigir spyrja til annarra glöggt, Hákon jarl eða Jómsvíkingar.
   Og nú sigla þeir Jómsvíkingar sunnan fyrir Stað sex vikur sævar og fara þar til er þeir koma í höfn þá er heitir í Hereyjum og leggja þar í höfnina allan flotann sinn.
   Og er þeir eru þar komnir, þá þykjast þeir þurfa að nýju að fá sér vista, og er það sagt að Vagn Ákason fer á skeið sinni til eyjar þeirrar er Höð heitir, og veit Vagn eigi að jarl liggur þar í voginum skammt frá eyjunni. Vagn liggur við eyna, og ganga þeir upp og ætla að fá sér strandhögg, ef það ber að hendi.
   Og nú ber svo að, að þeir finna mann einn að máli; sá rekur fyrir sér kýr þrjár og geitur. Vagn spyr þann mann að nafni. Sá svarar og kveðst Úlfur heita. Þá mælti Vagn við sína menn: "Takið ér nú kýrnar og geiturnar og höggvið út á skip vort, og svo og ef ér finnið hér fleira fé."
   "Hver er þessi maður," segir hann Úlfur, "er fyrir liðinu ræður á þessu skipi?"
   "Þessi heitir Vagn og er Ákason."
   "Svo þætti mér nú," segir hann Úlfur, "sem vera mundi nú stærri slátrarefni og nú eigi allfjarri yður komin, að því er ér ætlið nú til Jómsvíkingar, en höggva niður kýr mínar eða geitur."
   "Segðu oss ef þú veizt nakkvað til ferða Hákonar jarls," segir Vagn; "og ef þú kannt oss nakkvað það að segja með sannindum, að vér vitim hvar hann er, þá muntu undan koma bæði kúm þínum og geitum, - eða hver eru tíðendi oss að segja? Hvað veiztu til Hákonar jarls?"
   Úlfur svarar: "Hér lá hann í gærkveld síð einskipa fyrir innan eyna Höð á Hjörungavogi, og munu þér þegar fá drepið hann er þér vilið, þvíað hann bíður þar manna sinna."
   "Þá skaltu," segir Vagn, "hafa keypt í frið fé þitt allt, og gakk nú á skip með oss og seg oss leið til jarls."
   "Svo hæfir eigi," segir Úlfur, "og vil eg víst eigi berjast í móti jarli, og samir það eigi, en segja mun eg yður leið þar til er þér hittið inn í voginn ef þér vilið. Og ef eg fer með yður á skip út, þá vil eg það mælt eiga að eg sjá þá látinn vera í friði er þér séið yfir það, að ér hittið í voginn."
   Nú gengur Úlfur út á skip með þeim. En það er snemma dags, og fara þeir Vagn þegar í Hereyjar sem tíðast og segja Sigvalda og öllum Jómsvíkingum þessi tíðendi er Úlfur sagði þeim.


31. KAPÍTULI

Nú taka þeir Jómsvíkingar að búast við að öllu sem þeir mundi þá að þeir skyldi fara til hins harðasta bardaga og vilja vera við öllu um búnir, þótt Úlfur taki auðvellega á. Og er þeir eru albúnir, þá veita þeir atróður að voginum.
   Það er sagt að Úlf grunar um nokkuð, að þeim myni fleiri sýnast skipin í voginum en svo sem hann hafði sagt þeim. Og þegar er þeir sá fram koma skipin, þá hleypur Úlfur útbyrðis og þegar á kaf og ætlar að leggjast til lands og vildi eigi bíða þess er þeir launaði honum sitt starf. Og er Vagn sér þetta, þá vill hann að vísu launa honum ettir verðleikum; grípur upp síðan eitt spjót og sendir eftir honum, og kemur spjótið beint á hann miðjan, og lézt hann þar.
   Nú róa þeir Sigvaldi og allir Jómsvíkingar inn í voginn og sjá þá að skipaður var vogurinn allt frá þeim í brott af herskipum. Þeir fylkja nú þegar liði sínu öllu. En í öðrum stað, þá sá þeir jarlarnir, Hákon og synir hans, hvar þeir eru komnir Jómsvíkingar, og taka þegar skip sín úr tengslum og ætla til hverir hverjum skulu í móti berjast.
   En svo er hér frá sagt að í austur horfi botninn á Hjörungavogi en mynnið í vestur. Þar standa og út á voginum steinar þrír þeir er heita Hjörungar, og er einn þeirra nokkuru mestur, og er við þá steina vogurinn kenndur. En sker liggur inn á voginum miðjum, og er jafnlangt til lands á alla vega frá skerinu, bæði inn á vogsbotninn og út tveim megin gagnvert. En ey liggur sú fyrir norðan voginn, er heitir Prímsigð, en Harund [1] liggur fyrir sunnan voginn, og þar inn frá er Harundarfjörður.
   Nú er frá því að segja að þeir Jómsvíkingar skipa þannog í fylkingar skipum sínum sem nú mun hér sagt: Sigvaldi leggur skip sitt í miðja fylkingina, en Þorkell hávi bróðir hans leggur þar skip sitt næst honum. En Búi digri og Sigurður kápa bróðir hans, þeir leggja skip sín út í fylkingararminn annan, en Vagn Ákason og Björn hinn brezki skipa annan arm.
   En þeir Hákon jarl ætla fyrir sér í öðru lagi, hverir berjast skulu í móti þessum köppum af þeirra liði. Og skipa þeir svo til í flestum stöðum að þrír voru ætlaðir í móti einum þeirra. Nú munu vér þar fyrst til taka að segja frá þeirra tilskipan, að ætla Svein Hákonarson í móti Sigvalda, en þrem mönnum var skipað í móti Þorkatli háva, bróður Sigvalda, og var þar Yrja-Skeggi einn, en annar Sigurður steiklingur norðan af Hálogalandi, þriði Þórir er kallaður var hjörtur. Ætlaðir voru enn tveir menninir með Sveini Hákonarsyni í móti Sigvalda, þeir er eigi var áður getið: Guðbrandur úr Dölum og Styrkár af Gimsum.
   Í móti Búa var ætlaður Þorkell miðlangur [2] og annar Hallsteinn kerlingabani af Fjölum - og hinn þriði Þorkell leira; hann var lendur maður jarls. En á mót Sigurði kápu bróður Búa voru þeir feðgar Ármóður úr Önundarfirði og Árni son hans. En í mót Vagni Ákasyni var ætlaður Eiríkur jarl Hákonarson og annar Erlingur af Skugga. Hinn þriði Ögmundur hvíti, og sá hinn sami átti að gjalda Vagni handarhöggið sem fyrr var sagt.
   Á mót Birni hinum brezka var ætlaður Einar litli lendur maður, annar Hávarður uppsjá, þriði Hallvarður af Flyðrunesi bróðir Hávarðar. En Hákon sjálfur skal leika laus við svo, og vera öngum ætlaður einkum í móti, og skal hann styðja allar saman fylkingarnar og ráða fyrir liðinu.
   Það er frá sagt að fjórir menn íslenzkir hafi verið með þeim feðgum Hákoni og Eiríki, þeir er nefndir eru. Þar er til nefndur Einar er þá var kallaður Skjaldmeyjar-Einar; hann var skáld jarls og hafði þá lítinn sóma af jarli hjá því sem verið hafði. Einar hafði það mjög í máli að hann mundi hlaupa úr flokki jarlsins Hákonar og til Sigvalda, og síðan kveður hann vísu:


3.
Gerða eg veig of virða
víðis illrar tíðar,
það vann eg meðan aðrir,
ör Váfaðar, sváfu.
Komkað eg þess þar er þótti
þingseturs fé betra,
meiður sparir hodd við hróðri,
hverr, en skáldið verra. [3]


- enda skal eg að vísu til Sigvalda," segir hann; "eigi mun hann minna sóma gera til mín en jarl gerir."
   Hann hleypur síðan utan af skipi Hákonar jarls og á bryggjurnar og gerir á sér brautfús sem mestan, en hleypur eigi skelegglega í brott og vill sjá hvernog jarl brygði við. Og er hann kömur á bryggjurnar, þá verður honum enn vísa á munni og kveður til Sigvalda:


4.
Sækjum jarl þanns auka
úlfs verð þorir sverðum,
hlöðum við borð á barða
baugskjöldum Sigvalda;
drepur eigi sá sveigir
sárlinns er gram finnum,
rönd berum út á andra
Endils, við mér hendi. [4]


Og nú finnur Hákon jarl að Skjaldmeyjar-Einar er nú í brottbúningi, og nú kallar jarl á hann og biður hann ganga þangað til máls við sig, og hann gerir svo. Síðan tekur jarl skálir góðar, þær er hann átti; þær voru görvar af brenndu silfri og gylldar allar. En þar fylgdu tvö met, annað af gulli, en annað af silfri. Á hvorutveggju metinu var gert sem væri líkneskja, og hétu það hlótar, en það voru reyndar hlutir sem mönnum var títt að hafa, og fylgdi þessu náttúra mikil, og til þess alls er jarli þótti skipta, þá hafði hann þessa hluti. Jarl var því vanur að leggja hluti þessa í skálirnar og kvað á hvað hvor skyldi merkja fyrir honum, og ávallt er vel gingu hlutir og sá kom upp er hann vildi, þá var sá ókyrr hluturinn í skálinni er það merkti er hann vildi að yrði og breylti [5] sá hluturinn nokkuð svo í skálinni, að glamm það varð af. En þessar gersimar gefur jarl Einari, og verður hann við þetta kátur og glaður og sezt nú aftur að brottförinni og fer ekki á fund Sigvalda.
   Og af þessu fær Einar nafn, og er síðan kallaður Einar skálaglamm.
   Sá maður var þar annar íslenzkur er hét Vigfús son Víga-Glúms, þriði Þórður er kallaður var örvahönd, fjórði Þorleifur er kallaður var skúma; hann var son Þorkels hins auðga vestan úr Dýrafirði úr Alviðru.
   Það er sagt frá Þorleifi að hann fær sér í skógi klumbu [6] eina mikla eða hálfróteldi [7] það, og fer síðan þangað er matsveinar hafa elda og matbúa, og svíður klumbuna utan alla nokkuð svo, og hefir hana í hendi sér og fer á fund Eiríks Hákonarsonar, - og gengar Eiríkur þá ofan til skips, og er þar þá í för með honum Einar skálaglamm, og þá slæst Þorleifur í för með þeim. Og er Eiríkur sér hann, þá mælti hann: "Hvað skal þér, Þorleifur," segir hann, "klumba sú hin mikla er þú hefir í hendi?" En Þorleifur svarar honum á þá leið:


5.
Hefi eg í hendi
til höfuðs gerfa
beinbrot Búa,
böl Sigvalda,
vá víkinga,
vörn Hákonar;
sjá skal vera
ef vér lifum
eikikylfa
óþörf Dönum.


Og nú fara þeir þar á skip fjórir íslenzkir menn með Eiríki: Þorleifur skúma og Einar skálaglamm, Vigfús Vígaglúmsson og Þórður örvahönd.


32. KAPÍTULI

Nú eftir þetta leggjast að fylkingar með þeirri tilskipan sem nú var tjáð og sagt. Og er Hákon jarl í fylkingu með Sveini syni sínum að efla hann í móti Sigvalda, og tekst nú hinn harðasti bardagi millum fylkinganna, og er hvorigum sóknar að frýja né framgöngu. Og er það sagt að að jöfnu gengur með þeim Sigvalda og þeim feðgum, svo að hvorigir láta undan síga sín skip.
   En þá er svo ‹er› komið, þá geta þeir Hákon jarl að líta að Búi hefir á gört mikinn bug á fylkingu þeirra, þar sem hann var, hinn nörðra arminn, og höfðu þeir er við hann börðust látið síga skipin undan, og þótti þeim sem betra mundi firr honum. En hann gengur þó á{vallt} eftir eigi að síður, og verður hann þeim stórhöggur og fá þeir illt af honum, og er hann mannskæður í bardaganum. Jarl getur að líta, að mjög var jafnleiki í með þeim Eiríki og Vagni að svo búnu, og eru þeir í fylkingararminum syðra. Og nú leggur Eiríkur frá þaðan skip sitt það er hann er á sjálfur, og Sveinn bróðir hans öðru skipi, og fara þeir nú bræðurnir og leggja nú að Búa og berjast við hann og geta rétta fylking sína og eigi betur. En Hákon jarl berst við Sigvalda meðan.
   En þá er Eiríkur kemur aftur í fylkingararminn syðra, þá hefir Vagn á gört mikinn bug á liði Eiríks og hafa látið undan sígast, og þá hafa sundur skila orðið skipin Eiríks, og hafa þeir Vagn gingið þar í gegnum fylkingina og lagt svo fast að þeim. Og nú verður Eiríkur reiður mjög er hann sér þetta, og leggur nú Járnbarðann að harðfenglega að skeiðinni þeirri er Vagn stýrði, og stinga þeir nú saman stöfnum og berjast þeir nú af nýju, og hefir eigi verið snarpari orrostan en nú er.
   Og það er nú frá sagt, að Vagn og Áslákur hólmskalli hlaupa af skeið sinni og á Járnbarðann Eiríks, og gengur síðan með sínu borði hvor þeirra, og höggur Áslákur hólmskalli á tvær hendur, svo má að kveða. Og svo Vagn hið sama. Og svo ryðjast þeir nú umb, að allt hrökkur liðið fyrir.
   Eiríkur sér það, að þessir menn eru svo óvægnir og óðir að eigi mun lengi hlýða svo búið, og mun þurfa sem bráðast að leita ráða í. Áslákur er maður sköllóttur, að því er sagt er, og hefir öngan hjálm á höfði: etur fram berum skallanum um daginn. Og er heiðviðri á og bjart veðrið og varmt, og fara margir menn af klæðum fyrir hita sakir og hafa ekki nema herklæðin ein. Og nú eggjar Eiríkur menn sína í móti þeim, og ráða þeir í móti Ásláki hólmskalla og bera vopn á hann, höggva í höfuð honum bæði með sverðum og öxum, og þótti þeim sem honum mundi eigi annað geigvænlegra, þars hann hafði beran skallann fyrir. En þó er svo frá sagt, að vopnin hrjóta af upp af skallanum Ásláks, hvort sem þeir færa í höfuð honum sverð eða öxar, og beit ekki á, og hrýtur úr skallanum við höggin. Og nú er þeir sjá að hann gengur fram hart, hvatki er þeir hafa að, og ryðst hann um hið sama: [1] höggur á báðar hendur bæði títt og hart og stórt og fellir margan mann.
   Það er nú frá sagt, að Vigfús son Víga-Glúms tekur það fangaráðs, að hann þrífur upp nefsteðja einn mikinn er þar lá fram á þiljum á Járnbarðanum, og þar hafði Vigfús áður hnoðið við sverðshjölt sín er losnað höfðu, og færir síðan steðjann í höfuð Ásláki hólmskalla, svo að þegar sökkur steðjanefið. En við því átti hann eigi gert, og fellur hann niður þegar dauður.
   En Vagn gengur með borði öðru og ryðst umb hið harðasta: höggur á tvær hendur og veitir mörgum manni skaða. Og er því fer fram, þá hleypur Þorleifur skúma í móti Vagni og lýstur til hans með kylfunni, og kömur höggið á hjálminn uppi, og springur fyrir þó undir, svo varð höggið mikið, og hallast hann við og stakar nær að honum Þorleifi við. Og jafnt í því er hann stakaði, þá stakk hann sverðinu til hans Þorleifs, og síðan stiklar hann út af Járnbarðanum og kömur niður standandi í skeið sína sjálfs. Og hefir engi verið snarpari í atsókninni en nú var hann og allir hans menn. En svo höfðu þeir Hólmskalli þó ruddan Járnbarðann fyrir Eiríki, að hann lét mennina þangað ganga á af öðrum skipum, þar til er hann var alskipaður, og þótti honum eigi annað hlýða mega.
   Og tekst nú enn hin harðasta atlaga með þeim Vagni.
   Og því næst sjá þeir Eiríkur að Hákon faðir hans og fylking hans var komin að landi, og verður nú á hvíld nokkur á bardaganum.


33. KAPÍTULI

Nú hittast þeir feðgar allir saman og talast við. Þá mælti Hákon jarl: "Það þykjumst eg sjá," segir hann, "að mjög rekur á oss að hallast bardaginn, og var hvortveggja þegar, að eg hugða til þess verst að berjast við þessa menn, enda reynist mér svo, að mér þykja öngvir vera þessum mönnum líkir, að eigi sé þessir menn verri viðureignar, og það kann eg sjá, að oss mun eigi svo búið hlýða ef eigi er ráðs leitað. Og skuluð ér nú vera eftir með herinum, þvíað óvarlegt er að höfðingjarnir allir fari frá liðinu, ef þeir leggja að, Jómsvíkingar, og er þess aldregi örvænt. En eg mun ganga á land upp með nokkura menn og sjá þá enn hvað í gerist," segir Hákon jarl.


34. KAPÍTULI

Og nú fer jarl á land upp með nokkura menn og fer norður í eyna Prímsigð, en þar var mörk mikil í eyjunni. Síðan gengur hann í rjóður eitt er í mörkinni var, og leggst jarl þar niður á knébeð og biðst fyrir, og horfir þó í norður, og mæltist nú fyrir sem honum þótti vænlegast.
   Og þar kömur nú bænarorðum hans, að hann skorar á fulltrúa sinn, Þorgerði Hörðatröll. En hún daufheyrðist við bæn jarls, og þykist hann það finna að hún mun honum reið orðin, og býður hann henni nú að þiggja af sér ýmsa hluti í blótskap, og vill hún ekki þiggja, og þykir honum allóvænt horfa málið.
   Og þar kömur því máli loks að hann býður fram mannblót, en hún vill það ekki þiggja er hann býður henni í mannblótum.
   Nú þykir jarli óvænkast sitt mál, ef hann fær eigi sefað hana. Tekur nú og eykur boðið við hana, og þar kömur máli, að hann býður henni alla menn aðra, nema sjálfan sig og sonu sína Eirík og Svein. En jarl átti son þann er Erlingur hét og var sjö vetra gamall og hinn efnilegsti maður. En það verður nú of síðir, að Þorgerður þiggur af honum og kýs nú Erling son jarls.
   Og nú er jarli þykja heyrðar vera bænir sínar og áheit, þá þykir honum vænkast umb, og lætur síðan taka sveininn og fær hann í hendur Skofta kark þræli sínum, og veitir hann sveininum fjörlöst með þeima hætti sem Hákon var vanur og hann kenndi honum ráð til.
   Nú eftir þetta fer jarl til skipa sinna og eggjar nú lið sitt allt að nýju - "og veit eg nú víst" segir hann, "að vér munum sigrast á þeim Jómsvíkingum, og gangið nú fram að betur, þvíað nú hefi eg heitið til sigurs oss á þær systur báðar, Þorgerði og Irpu, og munu þær eigi bregðast mér nú heldur en fyrr."
   Og nú hefir hvíld verið á bardaganum meðan jarl var í brautu, og hafa þó enn hvorirtveggju búizt við orrostunni sem vænlegast þótti, meðan þessi dvöl var.
   Nú eftir þetta gengur jarl á skip, og leggjast þeir nú að öðru sinni. Og er jarl nú í móti Sigvalda, og gengur nú fram hið harðasta í trausti Hörðabrúðar og Irpu.
   Og nú tekur veðrið að ylgjast í norðrið og dregur upp ský dökkt og dimmt með hafinu og gengur upp með öllu skjótt. En það var í það mund dags er tók út eyktina. [1] Og dregur nú yfir skýið skjótt og fylgir þegar él, og þótti þeim sem þangað væri bæði eldingar og reiðarþrumur. Þeir allir Jómsvíkingar áttu að vega í gegn élinu. En þetta él var svo með miklum býsnum og veðrið það er fylgdi, að ekki máttu sumir menn betur en fá staðizt.
   Og nú er menn höfðu áður um daginn farið af klæðunum fyrir hita sökum, en nú var veðrið nakkvað öðru vís, og tekur þeim nú að gnolla. Og er þó svo að þeir sækja bardagann frýjulaust.
   Það er sagt að Hávarður höggvandi, förunautur Búa, sér fyrstur manna hvar Hörðabrúður er í liði Hákonar jarls, og margir sjá það ófreskir menn, og svo þeir er eigi voru ófreskir, og það sjá þeir með, þá er líttað linaði élinu, að ör fló að því er þeim þótti af hverjum fingri flagðsins, og varð ávallt maður fyrir svo að bana fékk af. Og nú segja þeir Sigvalda og öðrum sínum félögum.
   Og nú tekur Sigvaldi til orða og mælti, þvíað þeir Hákon sóttu þá bardagann sem þeir máttu er élinu laust á og meðan það hélst:
   "Eigi þyki mér," segir Sigvaldi, "sem vér eigim hér við menn að berjast í dag, heldur við hin verstu tröll, og mun það þykja nokkuð mannvandara að ganga vel í móti tröllunum, og er þó einsætt að menn herðist við sem bezt."
   Það er nú í frá sagt jarlinum Hákoni, að þá er hann finnur að élinu latar og eigi var jafnákaft sem verið hafði, þá hét hann enn á Þorgerði ákaflega og systur hennar Irpu, og telur hann það til við hana og þær, hversu mikið hann hefir til unnið, er hann hefir blótað syni sínum til sigurs sér. Og nú rökkur að élinu annað sinni. Og í þessu élinu öndverðu, þá sér Hávarður höggvandi að tvær konur eru á skipi Hákonar jarls og hafa eitt atferli báðar, jafnt sem hann hafði fyrr séð til annarrar.
   Og nú tekur Sigvaldi til orða og mælti: "Nú vil eg brott flýja," segir hann, "og geri svo allir mínir menn, og er nú því verr en fyrr, þá er eg gat umb þetta, að vér berjumst nú við tvö flögðin, en þá var eitt, enda skal nú eigi lengur við haldast. Enda er það til kostar, að eigi flýju vér fyrir mönnunum þótt vér haldim undan. Ekki strengdu vér þess heit að berjast við tröll."
   Og nú snýr Sigvaldi undan skipi sínu og kallar á þá Vagn og Búa, að þeir skyldu undan flýja sem harðast.
   Og nú í því bili er Sigvaldi hafði frá flotanum leyst skip sitt og hann kallar á þá Búa og Vagn, þá hleypur Þorkell miðlangur af skipi sínu og á skipið Búa og höggur þegar til Búa, og ber þetta nú allbráðum. Hann höggur af honum vörina og hökuna alla niður í gegnum, svo að það féll þegar niður í skipið, og fuku tennurnar úr Búa við höggvið það er hann fékk.
   Þá mælti Búi er hann fékk sárið: "Versna mun hinni dönsku þykja að kyssa oss," segir hann, "í Borgundarhólmi, þótt vér kæmim enn þangað þessu næst."
   Búi höggur í mót til Þorkels, en hált var á skipinu er blóðugt var, og fellur hann Þorkell í skjaldrimina [2] er hann vildi forða sér við högginu, og kömur nú höggið á hann miðjan Þorkel, og höggur Búi hann í sundur í tvo hluti út við skipsborðið. [3]
   Og þegar eftir þetta, þá tekur Búi gullkistur sínar í sína hönd hvora og hleypur síðan fyrir borð með kisturnar báðar, og kömur hvorki upp síðan svo að menn sæi, kistarnar né hann.
   Það segja sumir menn, þá er Búi sté upp á borðið og ætlaði að ganga fyrir borð, sem hann gerði síðan, að hann hafi mælt þessum orðum: "Fyrir borð allir Búa liðar," segir hann, og þá þegar stígur hann fyrir borðið.
   Nú er þar til að taka er Sigvaldi dregst út frá flotanum og gáir eigi þess er Búi er fyrir borð ginginn, og kallar nú á þá Vagn og Búa, að þeir skyldi flýja sem hann. En Vagn svarar honum og kvað vísu:


6.
Sigvaldi hefir setta
sjálfa oss und kylfu,
en fárhugaður fnauði
fór heim til Danmarkar;
hyggur í faðm að falla
fljótt vinkonu [4] sinni,
en fyrir borð hið breiða
Búi gekk með hugrekki." [5]


Það er sagt að Sigvalda var orðið kalt í élinu og hleypur hann til ára og vill láta orna sér, en annar maður sezt við stjórnina. Og er Vagn hafði kveðið vísuna og hann sér Sigvalda, þá fleygir hann spjóti til hans og ætlaði að hann sæti enn við stjórnina, en Sigvaldi var þá þó við árar, og hlaut sendingina sá er stýrði. Og þá er Vagn fleygði af hendi spjótinu, þá mælti hann til Sigvalda, að hann skyldi fara manna armastur.
   En Þorkell hávi, bróðir Sigvalda, fer í brott þegar er Sigvaldi var farinn og hafði sex skip, og svá Sigurður kápa, þvíað Búi bróðir hans var þá fyrir borð ginginn, og var þá ekki hans að bíða; og þykist nú hvortveggi þeirra hafa efnt sína heitstrenging, Þorkels og Sigurðar, og fara þeir nú allir þar til er þeir koma heim til Danmerkur, og höfðu í brott með sér fjögur skip og tuttugu. En allt það er af komst þeim skipum er eftir voru, þá hlaupa þeir allir upp á skeiðina Vagns og verjast þar allir saman hið hvatlegsta, allt þar til er myrkva tók. En þá sleit bardaganum, og stóðu þá enn upp mjög margir menn á skeiðinni Vagns, og varð þeim Hákoni jarli dagfátt til að leita um skipin, hvað lífvænt væri eða lífs, og létu vörðu á halda um nóttina, að engi maður skyldi komast af skipunum þeirra um nóttina, Jómsvíkinga, og tóku frá ræðin öll frá skipunum.
   Og er þetta var að gört, þá róa þeir Hákon jarl til lands og skjóta yfir sig tjöldum [6] og þykjast nú eiga sigri að hrósa. Nú síðan vega þeir haglkornin og reyna svo ágæti þeirra systra, Þorgerðar og Irpu, og þykir vel reynast. Og er það frá sagt að eyri [7] vægi eitthvert haglkornið, og vágu þeir í skálum.
   Og nú eftir þetta, þá eru bundin sár manna, og vaka þeir of nóttina, Hákon jarl sjálfur og Guðbrandur úr Dölum.


35. KAPÍTULI
Frá Vagni

Nú er að segja frá þeim Vagni og Birni hinum brezka að þeir ræða um með sér hvað þeir skulu til ráða taka -"og er annað tveggja til," segir Vagn, "að vera hér á skipunum þar til er dagar og láta þá taka oss hér höndum, og er sá ókörlegur. En hinn er annar, að leggja til lands og gera þeim það íllt er vér megum, og leita síðan að koma oss undan að forða oss."
   Það ráða þeir nú úr allir saman, að þeir taka siglutréið og fara af skipinu og flytjast þar á, og eru saman átta tigir manna, og flytjast á trjánum í myrkrinu og vildu til landsins flytjast, og komast í sker eitt og þóttust þá komnir á meginland. Og voru þá farnir margir menninir mjög, og þar létu tíu menn líf sitt um náttina, þeir er sárir voru, en sjö tigir lifðu eftir, og voru þó margir raunmjög þrekaðir.
   Og verður nú ekki farið lengra.
   Eru þar of nóttina.
   Það er nú og frá sagt, þá er Sigvaldi hafði undan flýið, að þá tók af élið og eldingar og reiðarþrumur allar og varð eftir það veðrið kyrrt og kalt. Og svo er nú og um nóttina er þeir Vagn eru í skerinu, þar til er dagur er og allt til þess er ljóst er orðið.
   Það er sagt þá er skammt er til dags, að þeir menn jarls eru þá enn að, að binda sár sín, og hafa að verið alla nóttina frá því er þeir lögðu að landi, og olli það því, að fjöldi manna var sár orðinn, en þó höfðu þeir nú lokið mjög svo. En nú eftir þetta, þá heyra þeir að strengur gellur útá skipi og flýgur ör af skipi því er Búi hefir á verið og kömur undir hönd honum Guðbrandi frænda jarls, svo að hann þarf eigi fleira, og er hann þegar dauður. Og þykir jarli og öllum þeim þetta vera hinn mesti skaði, og taka þeir að búa of lík hans svo sem þeim sýnist, þvíað þar voru engi önnur efni að.
   Þess er og við getið að maður einn stóð hjá tjaldsdurunum. Og þá er Eiríkur gekk inn í tjaldið, þá spyr Eiríkur: "Hví stendur þú hér," segir hann, "eða hví ertu þannig yfirlits sem þú sér að bana kominn, eða hvort ertu sár, Þorleifur?" segir hann.
   "Eigi munda eg vita," segir hann, "að blóðrefillinn Vagns Ákasonar kæmi við mig í gær líttað, þá er eg laust hann kylfuhöggið."
   Jarl mælti þá: "Illa hefir þinn faðir þá haldið [1] út á landinu," segir hann, "ef þú skalt nú deyja."
   Þetta heyrði Einar skálaglamm, er jarl mælti. Þá verður honum Einari vísa á munni:


7.
Það kvað jarl að æri
unnviggs fyrir haf sunnan,
þá er á seima særi
sárelda spjör váru:
öllungis hefir illa,
eybaugs, ef skalt deyja,
vér hyggjum það viggja
valdur, þinn faðir haldið. [2]


Og nú fellur Þorleifur skúma niður dauður eftir þetta.
   Og þegar er ljóst var orðið um morguninn, þá fara þeir jarl að kanna skipin og koma á það skip er Búi hafði átt og vildu allra helzt verða varir við hver skotið hefði um nóttina, og þótti þeim sá maður ills verður vera. Og er þeir koma á skipið, þá finna þeir þar einn mann þann er íendur [3] var og litlu meir. En þar var Hávarður höggvandi, er verið hafði fylgdarmaður Búa. En hann var þó sár mjög, svo að fæturnir báðir voru höggnir undan honum fyrir neðan kné.
   En þeir Sveinn Hákonarson og Þorkell leira ganga þangað að honum; og er þeir koma þar, þá spurði Hávarður: "Hvernig er, sveinar," segir hann, "hvort kom héðan nokkur sending af skipinu í nótt þangað á land til yðvar eða engi?"
   Þeir svara: "Kom að vísu," segja þeir; "eða hvort hefir þú því valdið?"
   "Ekki er þess að dylja," segir hann, "að eg senda yður, eða hvort varð nokkurum manni mein að er örin nam staðar?"
   Þeir svara: "Bana fékk sá af," segja þeir, "er fyrir varð."
   "Vel er þá," segir hann, "eða hver varð fyrir maðurinn?"
   "Guðbrandur hvíti," segja þeir.
   "Já," segir hann; "þess varð nú eigi auðið er eg vildag helzt. Jarli hafða eg ætlað, en þó skal nú vel yfir láta er nokkur varð fyrir sá er yður þótti skaði að."
   "Eigi er á að líta," segir Þorkell leira; "drepum þenna hund sem skjótast," - og höggur síðan til hans; og þegar hlaupa til aðrir og bera vopn á hann og saxa hann þar til er hann hefir bana. Spurt höfðu þeir hann áður að nafni, og sagði hann til sín hið sanna.
   Og nú fara þeir síðan til lands inn er þeir höfðu þetta að gört og sögðu jarli deili á hvern þeir höfðu drepið; sögðu það eigi meðalfárbauta [4] vera, að það eitt kváðust þeir á finna á hans orðum að eigi mundi skaplyndi um bæta.
   Nú eftir þetta sjá þeir hvar menninir eru á skerinu mjög margir saman, og biður jarl nú fara eftir þeim og taka þá höndum görvalla og færa sér, og lézt hann vildu ráða fyrir lífi þeirra. Nú gingu menn jarls á eitt skip og röru út til skersins, og var þar bæði um þá menn er fyrir voru, að fáir voru vel liðfærir, bæði fyrir sára sakir og kulda, enda er ekki frá því sagt að né einn maður verðist. Voru þeir nú allir þar hannteknir af jarlsmönnum og fluttir til lands á fund jarls, og voru þeir þá saman sjö tigir manna. Og eftir þetta lét jarl leiða þá á land upp, Vagn og hans félaga, og eru nú reknar hendur þeirra á bak aftur og bundinn hver hjá öðrum með einum streng og eigi þyrmsamlega. [5] En jarl og hans menn brjóta upp vistir og setjast til matar, og ætlar jarl þá í ærnu tómi um daginn að höggva þessa menn alla, Jómsvíkinga, og þeir höfðu nú höndum á komið.
   Og áður þeir settist til matar, þá voru skip þeirra Jómsvíkinga flutt að landi og svo fjárhlutur, og var féið til stanga borið, og skipti Hákon jarl og hans lið fénu með sér görvöllu og svo vopnum þeirra, og þykjast þeir nú alls kostar hafa unninn mikinn sigur, er þeir hafa féið allt, en hönlað þá Jómsvíkinga, en elta suma í brott, en það þó mestur hluti er drepinn er. Og gambra þeir nú hið mesta.
   Og nú er þeir jarl eru mettir, þá ganga þeir út úr herbúðunum og fara þangað til er þeir eru bandingjarnir. Og er það sagt að Þorkell leira væri til ætlaður að höggva þá alla.
   Þeir hafa áður orð við þá Jómsvíkinga og spyrja hvort þeir væri menn svo harðir sem frá þeim var sagt. En þeir Jómsvíkingar svara þeim öngu um þetta, svoað hér sé frá sagt.


36. KAPÍTULI
Jómsvíkingar voru drepnir

Frá því er nú að segja þessu næst, að nú eru menn leystir úr strengnum nokkurir þeir er sárir eru mjög. En þeir Skofti karkur og aðrir þrælar hafa varðveitta þá og halda strengnum. En nú er menninir voru leystir, þá gera þeir það að þrælarnir, að þeir snúa vöndu í hár þeim Jómsvíkingum. Og eru nú leiddir fram fyrst sárir menn með þessum búningi, og gengur Þorkell síðan að þeim og höggur höfuð af hverjum þeirra, og mælti síðan við félaga sína og spyr ef honum hefði nakkvað brugðið við þessa sýslu svoað þeir fyndi það, "þvíað það er mál manna," segir hann, "að öllum mönnum bregði við ef þrjá menn höggva hvern eftir annan."
   En Hákon jarl svarar honum: "Ekki sjá vér þér brugðið hafa við þetta," segir jarl; "en þó sýndist mér þér áður brugðið."
   Nú er leiddur úr strengnum hinn fjórði maður og snúinn vöndur í hár þeim og leiddur til þangað er Þorkell hjó þá. Þessi maður er enn sár mjög. Og er hann kömur þar, þá mælti Þorkell við hann áður hann veitti honum tilræði, og spurði hversu hann hygði til bana síns. En hann svarar: "Gott hygg eg til bana míns," segir hann; "það mun mér verða sem mínum föður, að eg mun deyja."
   Og nú eftir þetta, þá höggur Þorkell höfuð af þessum manni, og lauk svo hans æfi.


37. KAPÍTULI

Nú er leystur úr strengnum hinn fimmti maður og leiddur þangað; og er hann kömur þar, þá segir Þorkell leira: "Hvern veg er þér um [1] {að deyja?"
   Hann svarar: "Eigi man eg lög vor Jómsvíkinga ef eg hygg íllt til eða kvíða eg við bana mínum eða mæla eg æðruorð, þvíað eitt sinn skal hver deyja."
   Og nú höggur Þorkell þennan mann.
   Og nú ætla þeir Hákon jarl og Þorkell að spyrja hvern þeirra áður þeir sé höggnir, hvern veg þeir hygði til banans, og reyna svo liðið, hvort svo hart væri sem sagt var, og þykir reynt ef engi þeirra mælir æðruorð þegar þeir sjá banann opinn fyrir sér, að svo mörgum mönnum sem þar voru handteknir, þá þótti þeim sem eigi mundi margt slíkt að harðfengi, og mundi þá vera sem sagt var. En í öðru lagi þá þótti þeim gaman að heyra á orð þeirra, hvort sem upp kæmi.
   Og nú er hinn sjötti maður tekinn úr strenginum og snúinn vöndur í hár honum og búinn til höggs. Og er svo var komið, þá spyr Þorkell hversu gott hann hyggi ‹til› dauða. Hann svarar: "Mér þykir gott að deyja," segir hann, "við orðstír góðan; en þér er skömm að lífi þínu, þvíað þú munt lifa við skömm og klæki meðan þú lifir."
   Eigi líka Þorkatli orð þessa manns, og lætur honum skammt til þess að hann höggur höfuð af honum, og er honum eigi forvitni á hans tali lengra.
   Síðan er leiddur til höggs hinn sjöundi maður, og spyr Þorkell hann hversu gott hann hygði til dauðans. "Eg hygg allgott," sagði hann, "og þyki mér vel til bera. En það vilda eg að þú veittir mér, að þú hyggir sem skjótast af mér höfuðið, en eg helda á einum tigilknífi, þvíað vér Jómsvíkingar höfum oft rætt um það, hvort maður vissi nokkuð þá er af færi höfuðið, ef maður væri sem skjótast högginn, og nú skal það til marks, að eg mun fram vísa knífinum ef eg veit nokkuð frá mér, ellegar mun hann falla þegar niður úr hendi mér. En þú lát það eigi að skorta, er þú skalt að vinna, að þú högg höfuðið svo skjótt af mér, að það megi reynt verða fyrir þá sök."
   Og nú höggur Þorkell svo að þegar fauk höfuðið af bolnum, en knífurinn féll á jörð niður, sem líklegt var.
   Síðan var þangað leiddur hinn áttundi maður, og spyr Þorkell hins sama.
   "Gott hygg eg til," sagði ‹hann›.
   Og nú snúa þeir vönd í hár honum. Og er honum þótti sem skammt mundi að bíða höggsins, þá mælti hann: "Hrútur," sagði hann.
   Þorkell stöðvar höggið og spurði hví hann mælti slíkt.
   "Því," segir hann, "að þó mun eigi ofskipað með ánum, þeim sem þér nefnduð í gær jarlsmenn, þá er þér fenguð sárin." [2]
   "Manna armastur," sagði Þorkell, "slíkt mælandi," - og höggur hann þegar, og lætur hann líf sitt.
   Nú var leystur ‹hinn› níundi maður úr strengnum, og spyr Þorkell: "Hvað er sannast, félagi," segir hann; "hversu gott hyggur þú til að deyja?"
   "Gott hygg eg til að deyja sem allir vorir félagar, þeir sem hér láta nú líf sitt. En það vilda eg að þú veittir mér að eg sé eigi þannveg leiddur til höggs sem sauður, heldur vil eg sitja fyrir, og vil eg að þú gangir að mér framan og höggir í andlit mér, og hygg að vandlega hvort eg blöskra nokkuð við, þvíað vér höfum oft um rætt, Jómsvíkingar, hvort maður mundi nokkuð bregða sér við, ef höggið væri í andlit honum."
   Þorkell gerir sem hann bað. Hann situr nú fyrir, en Þorkell höggur framan í andlit honum. Svo er sagt að þeir sæi hann ekki blöskra við, nema þá er dauði færðist í augu honum, þá dregur saman augun, sem oft kann verða þá er menn andast.
   Og eftir þetta var leystur hinn tíundi maður úr strengnum og til höggs leiddur, og spyr Þorkell enn hins sama.
   "Til þess hygg eg einkar gott," segir hann; "en það vilda eg að þú veittir mér að þú látir dvöl á að höggva mig, að eg nái áður að bjarga brókum mínum."
   "Það skal veita þér," segir Þorkell; "en þó sé ‹eg› þér ekki það skipta, hvort þú gerir þetta, en þó skaltu ráða."
   Sjá maður var vænn yfirlits og mikill vexti.
   Og er hann hafði það gjört sem hann vildi, þá tekur hann til orða, og hefir eigi upp kippt brókunum og hélt á félaga [3] sínum: "Það er þó satt," segir hann, "að margt verður annan veg en maðurinn ætlar fyrir sér, þvíað það hafða eg ætlað að þessi félagi [4] minn skyldi nær koma Þóru Skagadóttur, konu jarls, og skyldi hún hann fóstra og í rekkju hafa hjá sér," - og hristir hann við nokkuð svo er hann mælti þetta, og kippir síðan upp brókunum.
   En jarl tekur til orða: "Höggvi þenna sem skjótast," segir hann, "þvíað sjá maður hefir lengi íllt haft í hug sér, og hefir nú sjálfur bert gjört."
   Og nú högg‹ur› Þorkell af þessum manni höfuð, og lauk svo hans æfi. [5]
   Þessu næst var maðr leiddur úr strengnum og til höggs. Hann var ungur maður og hærður vel, svo að það lá á herðum honum niðri og gult sem silki. Þorkell spyr enn hvern veg hann hygði til að láta lífið. En hann svarar: "Lifað hefi eg hið fegursta," segir hann, "og þeir hafa nú látið lífið fyrir skömmu, að mér þykir lítið í veitt að lifa lengur, og eiga þó eigi meira kost en nú á eg. En þó vil eg að þú veitir mér það, að eigi leiði þrælar mig til höggs, og vilda eg að sá nokkur leiddi mig er eigi væri verri maður en þú, og hygg þó að, að óvandfenginn sé þér í mót," segir hann; "það er og annað, að eg er svo vandur að hári mínu að eg vil að sá maður haldi hárinu fram af höfðinu meðan eg er högginn og hnykki skjótt höfðinu af bolnum, svo að hárið verði eigi blóðugt, en þú högg af mér höfuðið svo skjótt að þetta megi svo verða sem eg hefi til ætlað."
   Og það er sagt að einn hirðmaður yrði til, jarls, að halda honum, og þykir eigi þurfa að snúa vönd í hár honum er hárið var svo mikið, og tekur hann hirðmaðurinn og vefur um hönd sér og heldur svo báðum höndum undir höggið, en Þorkell} reiðir [6] að sverðið {og ætlar} að veita honum það tilræði er hann bað, að höggva hann hart og skjótt, og höggur hann til. {En} þessi hinn ungi maður, er hann heyrir hvininn af högginu, þá hnykkir hann hart höfðinu og {ber} þar þannig til, að sá hlýtur höggið er honum hélt, og höggur Þorkell af honum hirðmanninum hendurnar báðar í olbogabótum. En hann sprettur upp hinn ungi maður og bregður á gamanmál {og} mælti: "Hver á sveina," segir hann. "hendur í hári mér?"
   Hákon jarl tekur þá til orða og mælti: "Stórófarar gerast nú," segir hann, "of menn þessa er eftir eru í strengnum, og taki sem skjótast og drepi, og hefir hann þó miklu slysi á oss komið; og er einsætt að þeir sé drepnir allir sem skjótast er eftir eru, þvíað miklu eru menn þessi óðindælli [7] en vér fáim við þeim séð, og hafa eigi ofsögur verið frá sagðar þeirra garpskap og herði."
   Eiríkur tók nú til orða og svarar föður sínum: "Vita vilju vér nú, faðir," segir hann, "hverir menninir sé, áður drepnir sé allir, - eða hvað heitir þú hinn ungi maður?" segir Eiríkur.
   "Sveinn heiti eg að nafni," segir hann.
   "Hvers son ertu, Sveinn," segir Eiríkur, "eða hvert er kynferði þitt?"
   "Búi digri hét faðir minn," segir hann, "og var Vésetason úr Borgundarhólmi, og em eg danskur að kyni"
   "Hversu gamall maður ertu?" segir Eiríkur.
   "Ef eg líð yfir þenna veturinn," segir hann, "þá em eg átján vetra gamall að aldri."
   "En þú skalt og yfir líða veturinn," segir Eirikur, "ef vér megum ráða, og skal þig eigi drepa."
   Og tekur Eiríkur hann nú í frið og lætur hann nú vera í sveit með sér og sínum mönnum.
   Og er Hákon jarl sér þetta, þá tekur hann til orða og mælti: "Eigi veit eg nú," segir hann, "hversu þú ætlar til ef þú vilt þenna manninn undan þiggja er oss hefir svo mikla skömm og háðung görva, sem þessi hinn ungi maður er vér höfum verst af hlotið. En þó kann eg eigi það sjá, að eg muna sækja eftir manninum í hendur þér, og muntu nú ráða verða að sinni."
   Og nú verður svo búið að vera sem Eiríkur vill.
   Og nú mælti Hákon jarl við Þorkel leiru: "Högg enn mennina sýslega," segir hann.
   Eiríkur svarar: "Eigi skal nú höggva mennina," segir hann, "fyrr en eg hefi áður haft orð við þá, og vil eg vita hver hvergi sé."


38. KAPÍTULI
Er Vagni voru grið gefin

Þá er maður enn leystur úr strenginum á því mélinu, [1] og hefir strengurinn brugðizt líttað of fót honum, svoað festi nokkuð. Þessi maður er mikill vexti og vænn, ungur að aldri og hinn vasklegsti. Þorkell spyr hann hversu hann hygði til að deyja: "Gott hygg eg til þess," segir hann, "ef eg gæta áður enda heitstrenging mína."
   Eiríkur jarl mælti: "Hvert er nafn þitt," segir hann, "eða hver er sú heitstrenging þín er þú vildir áður einkum að fram kæmi áður en þú létir líf þitt?"
   Hann svarar: "Vagn heiti eg," segir hann, "og em eg son Áka Pálnatókasonar af Fjóni. Svo er mér til kennt."
   "Hvers strengdir þú heit, Vagn" segir Eiríkur, "þess er þér kveðst þá þykja gott að deyja, ef hún væri fram komin og efnd, eftir því sem þú vildir?"
   "Þess strengda eg heit," segir Vagn, "að eg skylda kominn í rekkju Ingibjargar dóttur Þorkels leiru ón hans ráði og allra hennar frænda, ef eg kæmag í Noreg, og [2] þyki mér nú {mikið að skorta um mitt} mál ef {eg skal þessu eigi fram koma áður en eg deyjag."
   "Eg} skal að því gera," {segir Þorkell, "að þú skalt} þeirri heitstrenging {eigi fram koma áður," - og hleypur} að honum fram Vagn{i og} höggur til {hans báðum höndum, en Björn hinn brezki fóstri Vagns spyrnti til} hans {fæti sínum} og hratt honum {hart} frá {sér og undan högginu flötum fyrir fætur Þorkatli af láginni, svo spyrnti} hann honum hart; {hjó} Þorkell yfir hann, {en sverðið kemur á strenginn er Vagn var bundinn með og} bítur {hann í sundur, en} Vagn verður {laus, en ekki sár. Þorkell steyptist við er hann missti manns}ins, og fellur hann, {en sverðið} hrýtur úr höndum honum í brott. En Vagn liggur eigi lengi, þótt Björn {hefði} hrundið {honum}, og sprettur hann á fæt{ur og tekur þ}egar sverðið er Þorkell hafði haft og höggur Þorkel leiru {banahögg}, svo að þegar lét hann {sitt líf}.
   Þá mælti Vagn: "Nú hefi eg {efnda aðra heit}strenging mína," segir hann," {og uni eg nú} við þegar sýnu betur en áður."
   Hákon jarl mælti: "{Láti} þér hann eigi lengi {leika lausan við," segir hann, "og} drepið sem skjótast, fyrir því að hann hefir {oss} mikinn skaða gört."
   "Eigi skal hann fyrr vera drep{inn en} eg sjálfur," segir Eiríkur, "og vil eg Vagn {un}dan þiggja."
   Hákon jarl mælti: "Eigi þurfu vér {nú} til að hlutast," segir hann, "þvíað einn viltu {nú} ráða, Eiríkur frændi."
   "{Gott er mann}kaupið í Vagni, {faðir}," segir Eiríkur, "{og sýnist mér því vel keypt}, þótt við {takim} Vagn {í virðingar og metnað} er Þorkell leira {hefir hafð}ar, og komi {hann í stað hans. Átti Þorkell þess af von, sem nú hlaut hann, þvíað nú kemur að því sem oft er mælt, að spá er spaks geta, en þú sátt þegar í dag feigðina á honum."
   Og nú tekur Eiríkur Vagn í sitt vald, og er honum nú við öngu hætt.
   Og þá mælti Vagn: "Því að eins þyki mér betra að þiggja grið að þér, Eiríkur," segir} hann, "ef þeim öllum {eru grið gefin er eftir} eru {vorra félaga, elligar munu vér fara allir sömu förina félagar."
   Eiríkur svarar}: "Eg vil enn hafa {orð við þessa félaga þína, en þó fyrirtek eg eigi það er þú beiðir}."
   Nú gengur Eiríkur að þar {er var} Björn hinn brezki {og spyr hver hann væri eða} hvað hann héti, {en hann svarar} og kveðst Björn heita. {Eiríkur jarl mælti: "Ertu sá Björn} hinn brezki er bezt sóttir eftir förunaut þínum í höllina Sveins {konungs}?"
   "Eigi veit eg það," segir Björn, "að eg s{ækta} bezt eftir. En þó kom eg þaðan {mann}inum einum."
   "Hvað {áttir þú að oss að sækja}," segir Eiríkur, "{gamall maður, er þú hefir farið hingað, eða hvað r}ak þig til farar {þessarar}, mann sköllóttan og hvítan {sem} máskára, [3] og er það þó sannast að öll strá vildu oss stangað {hafa} Noregsmenn, er jafnvel fóruð ér hingað, er komnir eruð af {fótum} fram fyrir aldurs sökum, að berjast við oss, eða hvort viltu þiggja líf af mér," segir Eiríkur, "{þvíað eigi} þyki mér að þér veganda, svo gömlum manni?"
   Björn svarar: "Þiggja vil eg líf að þér, Eiríkur," segir hann, "{við þann} kost ef Vagn fóstri minn er undan leystur og allir vorir menn, þeir er eftir eru."
   Eiríkur mælti: "{Það skal yður} veitt vera og öllum," segir hann, "ef eg má ráða, sem eg skal ráða."
   Og nú gengur Eiríkur [4] {fyrir föður sinn og biður hann þess, að þeir hafi allir grið, Jómsvíkingar, er eftir eru; og það veitir jarl honum.
   Og nú eru þeir allir leystir, Jómsvíkingar, og þeim tryggðir veittar og í frið teknir. Og nú er þannveg til skipað af þeim Hákoni jarli og Eiríki, að Björn hinn brezki fer til búss þess er átt hefir Hallsteinn kerlingarbani.
   Það er sagt að fimm félli lendir menn aðrir en Hallsteinn.
   Vagn Ákason fór austur til Víkur að ráði Eiríks, og mælti Eiríkur við Vagn áður þeir skildust, að hann skyldi svo breyta um brúðkaup við Ingibjörgu Þorkelsdóttur sem hans væri vili til sjálfs. Og er Vagn kemur austur í Vík, þá gengur hann í sæng hjá Ingibjörgu hinn sama aftan, dóttur Þorkels leiru, og er Vagn þar um veturinn.
   En um vorið eftir fer Vagn í brott og hélt hvern hlut vel þann sem hann hafði heitið Eiríki, og fer Vagn til Danmerkur, heim á Fjón til búa sinna, og réð þar fyrir lengi síðan og þótti vera hinn mesti afreksmaður, og er margt stórmenni frá honum komið.
   Það er sagt að Vagn hafði Ingibjörgu heim með sér, en Björn hinn brezki fer heim til Bretlands og réð þar fyrir meðan hann [5] lifði og þótti vera hinn vaskasti drengurinn. [6]


39. KAPÍTULI

Nú er að segja frá Sigvalda, að þá er hann flýði úr bardaganum nam hann eigi fyrr staðar en hann kom heim í Danmörk, og var Ástríður kona hans þar fyrir, er þeir koma heim, og gjörði hún veizlu í mót honum.
   Þeir segja tíðendin frá bardaganum og frá förinni allri saman, síðan er þeir Jómsvíkingar fóru heiman úr Danmörku, og þótti mönnum það mikil skemmtan að heyra, er þeir sögðu frá þeim tíðendum. Og þess er við getið, að Ástríður vill fagna sem bezt Sigvalda í hvívetna og sýna það að hún er fegin orðin hans heimkvámu. Hún lætur gjöra honum laug; biður hann síðan [1] fara í laugina - "og veit eg," segir Ástríður, "að leið svo langri sem er úr Noregi, þá mun mál að fægja sárin þau er þér fenguð í bardaganum."
   Síðan fer "Sigvaldi í laugina, og hlítir Ástríður ekki öðrum konum að því að þjóna honum í lauginni, og mælti síðan: "Verið get eg hafa nökkura í bardaganum í liði Jómsvíkinga, er þaðan munu hafa borið raufóttara belginn en svo sem þú hefir borið, þvíað mér þykir sjá til þess bezt fallinn að varðveita í hveitimjöl."
   Sigvaldi svarar: "Það mætti verða minnar æfi, að þú ættir eigi slíkum sigri að hrósa," sagði hann, "og hygg þú að því, að þér líki þá betur."
   Og þá er ekki sagt frá þeirra viðurtali lengra að sinni.
   Sigvaldi réð fyrir Sjólöndum nökkura stund síðan og þótti vera hinn vitrasti maður og var eigi þar allur sem hann var sénn, og eru mikil tíðendi frá honum sögð í öðrum sögum. En Hákon jarl réð skamma stund Noregi síðan, og þótti hann verða hinn ágætasti allskostar [2] af þessu öllu saman, og svo synir hans.
   Ekki er hér frá því sagt, hvað Sveinn Búason lagði fyrir sig, hvort hann var með Eiríki eða gjörði hann annað af sér, en Sigurður kápa bróðir Búa fór til Danmerkur og tók við föðurleifð sinni eftir Véseta í Borgundarhólmi og bjó þar langa æfi, og þótti vera hinn bezti drengur, og er margt manna frá honum komið og þeim Tófu, og voru samfarar þeirra góðar síðan.
   Þorkell hinn hávi bróðir Sigvalda þótti hinn vitrasti maður, sem reyndist síðan í mörgum hlutum. En Skjaldmeyjar-Einar fór til Íslands og drukknaði á Breiðafirði, og heita þar af því Skáleyjar, að þar rak skálirnar á land, þær sem jarl gaf honum. En Þórður örvahönd [3] fór heim í Dýrafjörð til Þorkels föður síns í Alviðru, og verður hér svo sagt ‹að› þeir Þorleifur skúma og Þórður örvahönd [3] hafi bræður verið, og bjó Þórður í Alviðru eftir föður sinn, og er margt manna frá honum komið í Fjörðum vestur, og sögðu þeir Einar glöggvast frá þessum tíðendum út til Íslands.
   En það er sögn manna síðan að Búi hafi að ormi orðið og lagizt á gullkistur sínar; en vér hyggjum það til þess haft vera að þar hafi ormurinn sézt á Hjörungavogi, og kann vera að nökkur ill vættur hafi lagizt á féð og sýnzt þar síðan. En eigi kunnum vér að segja hvort heldur er. Má og vera að hvorki sé satt, þvíað marga vega má sýnast.