Baulutjörn

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Baulutjörn


Ef þú lógar stórgrip og þarft að ganga frá, áður en þú hefur felið hann, þá skaltu stinga hníf í skrokkinn og láta hann standa þar, meðan þú ert burtu. Þetta hefur oft þótt reynast vel, því annars gengur gripurinn aftur. Því fór nú sem fór í Holtum á Mýrum austur, er menn höfðu lógað þar belju og voru búnir að flá hana aftur á malirnar, en þurftu að ganga frá til að meðtaka hressing, og gleymdu að skilja hníf eftir í skrokknum. Meðan þeir voru inni, sá þá aðrir, er úti voru skammt frá, lítinn fugl fljúga til kussu og að strjúpanum. Reis hún þá á fætur og fór, dragandi húðirnar á eftir sér, í tjörn þá, er síðan er kölluð Baulutjörn, og varð þar að sögn að nykri, er löngum hefur heyrzt öskra þar fyrir veðrabrigðum. Litli fuglinn þótti sem verið hefði illur andi, er fór í kúna.