Dánarvíti

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Dánarvíti


Svo kallast hér þau víti, er eitt og annað miða við dauða menn. Ef ólétt kona stígur yfir pott eða sýpur á potti, getur barn það, er hún gengur með, eigi dáið, nema hvolft sé sams konar potti yfir það á banasænginni. Sumir segja, að konan komist eigi frá afkvæmi sínu.
   Gangi ólétt kona inn í hálfreft hús, getur eigi afkvæmi hennar dáið, nema reistar séu sperrur, þ.e. krossspýtur, yfir því.
   Snúist snælda í höfuð óléttrar konu, deyr eigi afkvæmi hennar, nema snúin sé snælda í höfuð þess. En þetta vildi oft til, meðan menn höfðu þann sið að tvinna eða spinna á snældu yfir uppgöngum. Þar sem maður deyr inni skal muna eftir að hafa dyrnar opnar eða taka úr skjáinn eða gluggann eða úr strompinum, og helzt yfir þeim dána, svo að sálin komist út, því annars þótti hætt við, að annaðhvort færi hún aftur í líkamann eða settist að utan hans og yrði draugur. Í óyndisúrræðum var þekjan rofinn yfir sjúklingnum. Ef þetta eigi dugði, þá var sjúklingurinn borinn þrisvar rangsælis kringum bæinn og var það jafnan talið duga. Þessu var trúað til skamms tíma. Það sannar sagan af honum Jóni gamla og henni móður hans. Hann sagði mér hana í Skógargerði í Fellum. Jón gamli var ættaður úr Austur-Skaftafellssýslu; hann var myndarlegur og laglegur karl, en hjátrúarfullur. Hann sagði mér skemmtilega frá og var greinilegur í orðum. Hann sagði mér að þegar hún móðir sín hefði lagzt síðast, þá hefði svo sýnzt sem hún gætti alls eigi dáið. Hugðu menn víti valda því, jafnvel frá móður henar. "Því var ýmsra bragða leitað," sagði karl. Einhver gat til um snælduna, að hún hefði snúizt í höfuð móður hennar. Var snúin snælda í höfuð hennar, en var það til einskis. Þá var hvolft potti yfir höfuð hennar. En auðvitað hafði móðir hennar eigi orðið sek við þessi víti, og hreif engin tilraunin. Þá hugðu menn, að sálin vildi eigi fara út um svo auðvirðilegar dyr sem skjáinn, strompinn, dyrnar eða gluggann. Var þá rofin þekjan yfir kerlingu. En eigi dofnaði hún við það. Var hún þá borin þrisvar réttsælis kringum allan bæinn. Þá fór kerling að hressast svo mönnum þótti sýnt, að hún ætlaði að vista sig enn heima. Lifði kerling svo nokkurn tíma, unz menn hafa líklega hitt rétta aðferð, því kerlingin dó, og varð það á sjálfan páskadaginn.
   Sesselía hét kona, Sigurðardóttir. Hún var 4. eða 6. liður frá Hamra-Settu. Hún giftist eigi, en átti þó eina dóttur, sem einnig hét Sesselía. Héldu sumir séra Hjörleif sterka að Hjaltastað föður hennar. Hún átti Stefán Ísleifsson, bróðir Egils bónda í Rauðholti. Sesselía eldri hafði þann sið að drekka úr potti. Þegar hún var hátt á áttræðisaldri, lagðist hún fársjúk og átti hart dauðastríð. Hélt dóttir hennar og fleiri, að það orskaðist af þessum sið hennar, er áður var nefndur, að drekka af pottbarmi. Lét því dóttir hennar hvolfa yfir hana potti, og dó hún þá þegar.
   Sigurbjörg, dóttir Skinna-Péturs (er kemur mjög við Hafnarbræðrasögu) og Kristínar, ekkju Galdra-Vilhjáms, hafði átt Hálfdán Einarsson á Hóli, sem segir í þætti Eyjasels-Móra. Hún þótti mörgu slegin. Hún lá banalegu sína að Sleðabrjót í Jökulsárhlíð. Hún þótti óeðlilega lífseig, jafnreynd sem hún var. Eiríkur sonur Svarta-Halls réð þar þá búi. Honum og fleirum hugkvæmdist, að víti mundi valda. Sá, sem segir frá þessu, segir, að ráðslagað hafi þá verið um vítavarnir, svo sem með pottinn, sperrurnar, snældurnar og annað fleira. Telur hann víst, að þeim ráðagerðum hafi verið fullnægt með framkvæmdinni, hvert ráðið, sem tekið var, því að skömmu síðar dó hún, södd lífdaga. Eftir hana þótti vera til bókuð forneskja úr eign Galdra-Vilhjálms, hins síðasta galdramanns á Austurlandi.
   Eigi heppnaðist ætíð að hitta þær réttu vítavarnir, sem hér greinir: Guðmundur er maður nefndur í Höskuldsstaðaseli á Skagaströnd. Hann lagðist veikur, og sat Guðný kona hans yfir honum. Hann varð þungt haldinn, og hugði hún hann eigi geta dáið sökum víta. Hvolfdi hún síðast potti yfir höfuð honum, og fór síðan til næsta bæjar með 2 börn ung, sem þau áttu. Síðla næsta dag kom hún aftur og hugði að veita líki hans síðustu þjónustu. Hafði hún menn með sér. Þegar þau komu í baðstofuna, heyrðu þau sagt undir pottinum: "Guðný mín! Ég er ekki dauður enn!" Hann lifði lengi síðan.
   Þorkell hét maður nokkur á Tjörnesi, góður og guðhræddur. Hann veiktist og lá þungt haldinn. Áður en hann dó sagði hann við stúlkur, sem voru að syngja: "Skemmtilegt er að heyra sönginn á himnum." Viku seinna, þegar hann lá banaleguna, kom þar Jón nokkur, kallaður "fastandi". Hann þóttist sjá, að Þorkell gæti eigi dáið, og hugði víti valda, og snaraðist ofan af loftinu, þar sem Þorkell lá. Sögukona mín gekk þá einnig ofan og önnur stúlka með henni. Mættu þær þá þeim "fastandi" í stiganum með 90 marka pott í fanginu, til að hvolfa yfir sjúklinginn. Mjög litlu síðar dó hann.