Dýrvitar

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Dýrvitar


Þegar ýmsir reikufuglar og farfuglar, svo sem spóar, lóur og snípufuglar, stelkar, sendlingar, sandlóur og fleirri, þyrpast heim að bæjahúsum, þykir það boða hregg, vætu eða illviðri. Væla þeir og stundum vesaldarlega og ýfa fiðrið, eru æðislegir á flugi og órólegir í setu. Það þykir og boða hið sama, er spörfuglar þyrpast heim að bæjum; er þá harðinda von. Dómi: Í juní 1901 hnöppuðust spóar og lóur víða heim á tún, með vængjabaði og vælulátum. Sögðu menn það vita hregg, enda hafði kisa staðfest þetta með því að rífa í þilin og fetta sig. Næstu daga var kuldi og krapahríð í byggð og snjóveður á fjöllum. Slík dæmi eru óteljandi.
   Þegar brúsi flýgur um loftið með háum gólum, er sagt, að hann taki í löppina, og viti það á vind, en vætu, ef hann gólar í vatni. Líkt er sagt um lóminn. Þegar kjói vælir, veit á regn, og hefur hann fengið þar af nafn sitt. Þegar rjúpukarri ropar mjög að morgni, veit á gott. Þegar veiðibjöllur setjast inn á strendur fyrir fjarðarbotnum, veit á afla. En þegar sjófuglar fljúga mjög til lands veit á illt. Þegar mikið heyrist til veggjatítlu, kemur veður úr þeirri sömu átt, sem hún er í, eða það veit á mannslát. Dæmi: Guðrún Runúlfsdóttir frá Máríubakka heyrði til hennar að Urriðavatni í Fellum milli þils og veggja í baðstofu jafnaðarlega. En ævinlega kom þá illviðri úr þeirri átt. Guðrún sagði, að einu sinni hefði veggjatítla fest sig í tjöruíláti og drepist þar. Hún var að sögn Guðrúnar á stærð við kindarvölu, ljósgrá á lit. Hljóð títlu er sem hringlkennt urg, ef óveður er á leiðinni. Hún þyki bezti veðurviti, þar sem hún er að staðaldri. En þar er og jafnan einhver skammlífur, og svo reyndist að Urriðavatni.
   Þegar vissar flugnategundir eru mikið á ferð, er von óveðurs, og heita þær óveðraflugur.
   Baggabítur er lítið og óverulegt dýr. Þegar hann rennir sér á sigþræði sínum niður úr mænum íveruhúsa, niður að gólfi, er illviðra að vænta, en vefi hann upp á sig og velti sér upp í rjáfrinn, veit á gott. Hafa menn því oft dúað hendi undir hann með þessum formála: Upp, upp baggabítur, ef þú veizt á gott, niður, ef þú veizt á illt! Eigi skal slíta siglínu hans, því að það er sama synd sem að gera öðrum varnarlausum smákvikindum illt. Mjög mikið mý veit á úrfelli, vind eða líka harðan vetur. Haftyrðlar inni við land og sendlingar snemma við sjó vita í sig vetur. Ef farfuglar hverfa snemma á haustin, veit á harðan vetur; en aftur á móti gott sumar, er þeir koma snemma. Sama regla gildir um reikifuglana, för þeirra og komu. Margir fuglar þykja jafnan vita vind í stél, er þeir fljúga langt, svo sem svanir, brúsar, mávar og gæsir. Mikill völsku- og músa-gangur á bæjum á haustin boðar harðan vetur og illviðri. Kvikindin finna þetta á sér og leita matar og skjóls. Þegar kvíær hósta mjög, ern þær renna út úr kvíum, er von á stormi og jafnel óveðri líka. Þegar fénaður hristir sig og er þurr og óhrakinn, má vænta rigningar. En hristi hann sig blautur, einkum af jökulvatni, þótti fyrr meir sem hann væri feigur. Því helltu sumir yfir hann jökulvatni til að vita, hvort honum væri eigi lífs von yfir veturinn. Mjög mikil danssýki og giftingafýsn á haustum með veilzuþrá þykir vita á harða vetra eða algert harðæði. Sömuleiðis það að ala marga kálfa.
   Ef hestar leggjast í sköflum, komnir skammt frá heimili, er réttast að snúa aftur með þá, því að þá er von ills farnaðs. Ef þeir frýsa mikið, er eithvað óhreint nærri þeim.
   Þegar sauðfé, t.d. forustusauðis, vilja eigi ganga út úr húsi, er bezt að lofa þeim að vera kyrrum, því að þá er von á ófæru veðri. Ef maður eða skepna dettur á ferð að heimili.1 Ef sækir í trýni hunda, sem kallað er, þá er von hins verra, því það boðar fjárskaða á því heimili. Þetta sannprófuðu menn að Staffelli í Fellum, enda sótti þar í trýni sama hunds hvað eftir annað. Ef kind jarmar hvað ofan í annað í húsi, þegar fé er gefið, er hún eða önnur kind feig í því húsi. Þetta sannreyndi Bergvin Þorláksson í Miðhúsum, að því er hann fullyrti sjálfur.
   á er einni sem menn hafi hugsað sér, að loft. láð og lögur gæfi einnig sína fyrirboða um veðurfar og árstíðir.


1) Sbr. máltækið "fall er farar heill, frá bæ, en ekki að".