Formáli (Fyrsta bindi)
Velg språk | Norrønt | Islandsk | Norsk | Dansk | Svensk | Færøysk |
---|---|---|---|---|---|---|
Denne teksten finnes på følgende språk ► |
GUÐNI JÓNSSON
og
BJARNI VILHJÁLMSSON
sáu um útgáfuna
Fyrsta bindi
SÖGUR þær, er hér birtast í nýrri útgáfu, eru nú á dögum almennt nefndar sameiginlegu heiti Fornaldarsögur Norðurlanda. En eigi er það nafn gamalt. Það stafar frá útgáfu Rafns, er gaf þessar sögur fyrst út í heild á árunum 1829-30 og valdi þeim þá þetta heiti. Á það vel við um tímann, því að þær gerast allar í fornöld, alllöngu áður en Ísland fannst og byggðist, á öndverðri víkingaöld eða fyrr, en miður að því leiti, að þær gerast sumar utan Norðurlanda. Höfundar þessara sagna og samtímamenn þeirra nefndu þær hins vegar fornsögur, fornar sögur eða fornar frásagnir, og koma þau heiti oftsinnis fyrir í sögunum sjálfum. En þau eru valin til þess að aðgreina þessa tegund sagna frá sögum, er síðar gerðust, konungasögum og Íslendingasögum, sem mynduðust og þróuðust samtímis hinum, en voru fyrr í letur færðar og lengstum í meiri hávegum hafðar af lærðum mönnum.
I.
Hið fyrsta sinn, sem þess er getið, að sögur væru um hönd hafðar til skemmtunar í mannfagnaði hér á landi, voru það þó hvorki konungasögur eða Íslendingasögur, sem sagðar voru, heldur einmitt fornaldarsögur. Atburður þessi gerðist í upphafi ritaldar, - áður en Ari hinn fróði samdi Íslendingabók og löngu áður en nokkur Íslendingasaga var skráð. Árið 1119 var haldin brúðkaupsveizla mikil og vegleg á Reykjahólum, og segir Þorgils saga ok Hafliða í Sturlungu svo frá skemmtun þar: "Þar var nú glaumr ok gleði mikil ok skemmtan góð ok margs konar leikar, bæði dansleikar, glímur ok sagnaskemmtan.... Hrólfr frá Skálmarnesi sagði sögu frá Hröngviði víkingi ok frá Óláfi liðsmannakonungia ok haugbroti Þráins ok Hrómundi Gripssyni ok margar vísur með. En þessari sögu var skemmt Sverri konungi, ok kallaði hann slíkar lygisögur skemmtiligstar, ok þó kunna menn að telja ættir sínar til Hrómundar Gripssonar. Þessa sögu hafði Hrólfr sjálfr saman setta. Ingimundr prestr sagði sögu Orms Barreyjarskálds ok vísur margar ok flokk góðan við enda sögunnar, er Ingimundr hafði ortan, ok hafa þá margir fróðir menn þessa sögu fyrir satt."
Þessi frásögn Sturlungu er einkar fróðleg og merkileg um uppruna fornaldarsagnanna. Þær hafa verið settar saman til skemmtunar af ákveðnum höfundum, ýmist af eldra efniviði eða sem skáldskapur. Skemmtunin var aðalatriðið. Vísur og kvæði hafa snemma verið ort inn í þær til viðhafnar og smekkbætis, eins og þær bera ljóst vitni um enn í dag. Örlög þessara tveggja fornaldarsagna, sem hér er getið fyrst allra, urðu þau, að saga Orms Barreyjarskálds glataðist með öllu, en Hrómundar saga Grípssonar var skrásett löngu síðar. Voru þá ortar af henni rímur, sem eru enn til og nefnast Griplur. Síðan glataðist sagan, en var þá rituð á ný eftir rímunum, og er það sú Hrómundar saga, sem vér höfum nú. Eftir frásögn Sturlungu að dæma hefir efni gömlu sögunnar verið mjög hið sama sem í þeirri, sem nú er til, að minnsta kosti eru aðalpersónur hinar sömu.
Höfundur Þorgils sögu ok Hafliða getur þess, að með Hrómundar sögu hafi verið skemmt Sverri konungi og hafi hann kallað slíkar lygisögur skemmtilegastar. Með því að nefna sögurnar þessu nafni lætur höfundur í ljós lítilsvirðingu sína og eflaust ýmissa samtíðarmanna sinna á þessari bókmenntagrein í samanburði við hinar aðrar sögur, er skýrðu að jafnaði frá sögulegum persónum og sönnum viðburðum. Hann skýrir og frá því, að ýmsir hafi haft þessar fyrir satt. Virðist af þessu mega ráða, að menn hafi þegar í öndverðu skipzt nokkuð í flokka um fornaldarsögurnar, sumir með og aðrir í móti eftir eðli manna og bókmenntasmekk. Um hitt verður eigi efazt, að þær hafa snemma orðið mjög vinsælar hjá öllum þorra alþýðu.
Auk þessarar merku heimildar um fornaldarsögur, sem nú var getið, skal aðeins getið tveggja staða í íslenzkum fornritum, þar sem vikið er að þeim. Í Viðauka Skarðsbókar af Landnámu er þess getið, að kaupmaður einn í Noregi sagði sögu Vatnars konungs, er hann sigldi með landi fram, og tvo af mönnum Haralds konungs harðráða dreymdi þá Snjall og Hjaldur, sonu Vatnars konungs, er þeir lágu á Hallandi nálægt haugi þeirra bræðra. Þessara fornkonunga er getið í Hálfs sögu ok Hálfsrekka, en að öðru leyti er Vatnars saga glötuð. Hinn staðurinn er alkunnur, en það er frásögn Sturlungu af því, er Sturla Þórðarson sagnaritari kom til Noregs árið 1263 og fór á fund Magnúsar konungs lagabætis. Konungur tók Sturlu með á skipi sínu í leiðangur suður með landi. Þá sagði Sturla Huldar sögu "betr ok fróðligar en nokkurr þeira hafði fyrr heyrt, er þar váru." Sagan var frá tröllkonu mikilli. Kvöldið eftir sendi drottning eftir Sturlu og bað hann koma til sín "ok hafa með sér tröllkonusöguna". Frásögn Sturlungu ber það hvorttveggja með sér, að áheyrendur hafa heyrt söguna áður, svo að Sturla hefir ekki verið höfundur hennar í venjulegum skilningi, og annað hitt, að Huldar saga hefir verið skemmtisaga í stíl fornaldarsagna, og er þetta þá í fyrsta sinn, sem vér vitum til, að slíkar sögur séu til skráðar á bók.
II.
Merkileg heimild á öðrum vettvangi um fornaldarsögurnar á stígi munnlegrar frásagnar er hin mikla Danasaga Saxa, er rituð er á latínu um aldamótin 1200. Níu fyrstu bækur ritsins fjalla um fornsögu Danmerkur, og hefir Saxi tekið þar upp mikið fornaldarsöguefni til þess að fylla upp í eyðurnar í hinum sannsögulegu heimildum frá þessum tímum. Að sögn Saxa sjálfs voru Íslendingar langbeztu heimildarmenn hans, og hælir hann þeim fyrir sagnafróðleik þeirra. Frá þeim hefir Saxi áreiðanlega að mestu fengið fornaldarsöguefni sitt, og er það því merkilegur vitnisburður um hinn fjölbreytta efnivið þessara sagna á Íslandi um þær mundir. Sumar af sögum þeim, er Saxi tekur upp að meira eða minna leyti og hafa verið kunnar hér á landi á hans dögum, eru nú ekki til annars staðar en í riti hans. Þær hafa gleymzt á Íslandi, er stundir liðu, og hafa ef til vill aldrei komizt þar á bókfellið. Má þar telja Haddings sögu, Fróða sögu, Haðar sögu, Eiríks sögu málspaka, Friðleifs sögu, Ála sögu frækna og Þorkels sögu aðalfara, er menn hafa þótzt geta aðgreint í frásögn Saxa. Til marks um það, að sögur þessar, flestar eða allar, hafi verið kunnar hér á landi, má nefna það, að Haddings saga hefir haft áhrif á eina gerð Örvar-Odds sögu söguhetjanna er gjarna getið í íslenzkum heimildum, þótt saga þeirra sé týnd. Þannig er Eiríkr inn málspaki nefndur í þættinum Hversu Noregr byggðist og Áli inn frækni í Sögubroti af fornkonungum. Höðr hjá Saxa er Höðr inn blindi í Gylfaginningu hjá Snorra, en frásagnirnar hjá þeim eru gerólíkar.
Hins vegar eru einnig hjá Saxa fornaldarsögur, sem varðveitzt hafa hér á landi, og er þá næsta fróðlegt að bera frásagnirnar saman. Svo er til dæmis einkum um Hrólfs sögu kraka og Ragnars sögu loðbrókar. Margt í frásögn Saxa af þessum fornkonungum er náskylt hinum íslenzku fornaldarsögum um þá. Auk þess nefnir Saxi margar persónur úr öðrum fornaldarsögum. Meðal þeirra eru t.d. Án bogsveigir, Gjafa-Refr, Gusir Finnakonungur, Oddr af Jaðri (Örvar-Oddr), Snjallr og Hjaldr, synir Vatnars konungs, Starkaðr inn gamli og ýmsir fleiri. Hið mikla fornaldarsöguefni hjá Saxa sýnir því gerla, með hve miklum blóma þessi sagnagrein hefir staðið á Íslandi um aldamótin 1200, þótt enn liðu langar stundir, unz ritun þeirra hæfist. Þar sátu konungasögur og Íslendingasögur lengi vel í fyrirrúmi.
III.
Eigi eru neinar beinar heimildir fyrir hendi um það, hvenær tekið var að rita fornaldarsögur hér á landi. handrit þeirra flestra eru ung að tiltölu, frá því um 1400 eða yngri. En vafalaust hófst ritun þeirra löngu fyrr. Er ekki ósennilegt, að sama máli gegni um fornaldarsögurnar sem um Íslendingasögurnar, að handrit þeirra, þau er varðveitzt hafa, séu a. m. k. 50-100 árum yngri en frumrit þeirra. Um tvær sögur gegnir sérstöku máli í þessu sambandi, og má álykta nokkuð af þeim. Handrit það, er geymir elztu gerð Örvar-Odds sögu, Sth. 7, 4to, er með vissu ekki yngra en frá því um 1325-50, og í Árnasafni er til eitt blað úr Hrólfs sögu Gautrekssonar, sem handritafræðingar telja ekki yngra en frá því um 1300. Huldar saga var til skrifuð þegar árið 1263, eins og áður er getið. Þegar alls er gætt, mun mega segja með nokkurri vissu, að engin fornaldarsaga hafi verið rituð fyrir miðja 13. öld, hinar elztu á síðara helmingi þeirrar aldar, en flestar á 14. öld og þó heldur fyrr en seinna á öldunni. Fáar einar munu síðar ritaðar, og má meðal annars marka það á aldri hinna elztu rímna, þar sem fornaldarsögur eru tíðum yrkisefni.
Líklegt er, að sögur þær, sem geyma forn sagnminni, séu fyrr í letur færðar en hinar, sem eru hreinn skáldskapur. Olli því aðhald af hálfu hinnar vísindalegu sagnaritunar, aðhald, sem fór þó smám saman þverrandi, unz það missti tökin til fulls.
IV.
Ýmsar af fornaldarsögunum hafa að geyma æfagamlan sögulegan kjarna eða endurminningar sögulegra viðburða, sem hægt er að festa hendur á, og hetjurnar, sem þær segja frá, hafa margar hverjar verið til endur fyrir löngu. Hygg ég, að mörgum þyki fróðlegt að heyra eitthvað um það efni, og skal ég því fara um það fáeinum orðum.
Völsunga saga er samin upp úr hetjukvæðum Eddu, en efni þeirra er forn samarfur germanskra þjóða, eins og Niflungaljóð hin þýzku bera meðal annars vitni um. Ýmsar af hetjum Eddukvæðanna (og Völsunga sögu) eru sögulegar persónur frá þjóðflutningatímunum á 4.-5. öld eftir Krists fæðingu. Elztur þeirra er Jörmunrekur konungur. Hann er sami maður sem Ermanaricus, er var konungur yfir Austgotaríki við Svartahaf á 4. öld. þegar Húnar réðust inn í Evrópu, réð hann sér sjálfur bana um 375. Gotneski sagnaritarinn Jordanes (á 6. öld) segir frá þessum atburðum á aðra leið. Hann segir, að bræður tveir, Sarus og Ammius (Sörli og Hamðir), hafi veitt hinum aldraða konungi banatilræði og sært hann miklu síðusári til hefnda fyrir það, að konungur hafði látið drepa systur þeirra, er Sunilda (Svanhildr) hét, með því að binda hana við ótemjur. Nálgast þessi saga mjög frásögn Eddukvæða (og Völsunga sögu). Gjúki er Búrgundakonungurinn Gibica, og Gunnar er Gundaharius konungur yfir Búrgundum, sem var drepinn af Húnum árið 437, en Atli, maður Guðrúnar, er hinn nafnkunni Attila Húnakonungur, er lézt árið 453. Örlög þessara persóna og fleiri, er við söguna koma, eru á ýmsan hátt ofin saman í skáldskap næstu kynslóða, þótt mjög skeiki frá sögulegum staðreyndum. Ekki hefir tekizt með vissu að finna fyrirmynd Siguðar Fáfnisbana. Til fyrstu 8 kap. Völsunga sögu svarar ekki neitt Eddukvæði, sem nú er til. En heimild þeirrar frásagnar er gömul, líklega glatað kvæði, því að í hinu fornenska kvæði Bjólfskviðu (frá byrjun 8. aldar) eru nefndir þeir Sigemund Wælsing (Sigmundr Völsungr) og systursonur hans, Fitela (Sin-fjötli). Um þá hafa því verið til mjög fornar sagnir. Eins og kunnugt er, er Völsunga saga meðal annars merkileg fyrir það, að hún hefir varðveitt efni kvæða þeirra, sem staðið hafa í núverandi eyðu Edduhandritsins (Sigurðarkviðu innar meiri og ef til vill fleiri kvæða).
Hervarar saga ok Heiðreks er merkileg bæði vegna ágætra kvæða, sem þar hafa geymzt, og mjög forns söguefnis. Frásögnin af hinni miklu orustu milli bræðranna, Angantýs af einni hálfu og Hlöðs með styrk Húna af annarri, er endurminning um fólkorustuna miklu á Katalánsvöllum árið 451, er gotneskar þjóðir bárust á banaspjót, Vestgotar og Frankar með Rómverjum og Austgotar með Húnum. Frásögn sögunnar styðst við mjög gamalt kvæði Hlöðskviðu, sem varðveitt er að nokkuru í sögunni og stendur jafnfætis hetjukvæðum Eddu. Einstakar í sinni röð eru Heiðreksgátur, elzta gátnasafn með germönskum þjóðum. Enn eru tvö merk kvæði í sögunni, Hervararkviða og hinn undurfagri Dánaróður Hjálmars. Öll eru kvæði þessi eldri en sagan og sum, svo að stóru ber.
Við Hrólfs sögu kraka koma ýmsir þeir kappar, er víða hafa farið sögur af snemma á öldum. Áður er minnzt á frásagnir Saxa um Hrólf. Snorri Sturluson segir margt frá Hrólfi konungi bæði í Skáldskaparmálum í Eddu sinni og í Ynglinga sögu í Heimskringlu, þar á meðal frá viðskiptum hans við Aðils konung að Uppsölum, og er það að líkindum mest eftir Skjöldunga sögu, sem Snorri vitnar til. Hið fræga kvæði Bjarkamál ("Dagr er upp kominn, dynja hana fjaðrar"), sem Þormóður Kolbrúnarskáld kvað fyrir liði Ólafs konungs helga um morguninn fyrir Stiklastaðaorustu 1030, er ort fyrir munn Böðvars bjarka, kappa Hrólfs konungs. Enn lengra benda sagnir um þessar fornhetjur aftur í tímann, þar sem þeirra er getið í fornenskum kvæðum (m. a. í Bjólfskviðu og Víðförul) snemma á 8. öld. Eftir konungaröð Ynglinga og öðrum líkum að dæma hefir Hrólfur kraki verið uppi um eða eftir 500.
Söguefni Sörla þáttar er bæði fornt og útbreitt. Helztu persónur þáttarins eru nefndar í enskum fornkvæðum (Deor og víðar), Bragi hinn gamli yrkir af því efni í Ragnarsdrápu á fyrra hluta 9. aldar, og Snorri hefir ágrip af sögunni um Hjarðingavíg í Skáldskaparmálum. Til þessara sagna má og telja Ásmundar sögu kappabana, sem hefir að geyma ýmsar fornar þýzk-danskar sagnminjar.
Þessir fáu drættir sýna glöggt, að stofninn í sumum fornaldarsögunum er firna gamall og á stundum sameign allra germanskra þjóða. Það var vel, að Íslendingar reyndust haldsamir á þennan arf, eigi síður en önnur fræði kynstofns síns.
V.
Í íslenzkum söguheimildum eru ættir landnámsmanna taldar til allmargra söguhetja fornaldarsagnanna. Skiptar skoðanir eru um það, hvort eða að hve miklu leyti slíkum ættfærslum megi treysta. Ég hallast að því fyrir mitt leyti að taka þær gildar að öllum jafni. Mega menn ekki láta það villa sér sýn, þótt fornaldarsagan um ættföðurinn sé einber skáldskapur, eins og venjulega sér stað. Hann er söguleg persóna, sem hefir dregið að sér ýmiss konar sagnir, er tímar liðu, eða þá hitt, sem algengara er, að sett er saman um hann saga til þess að halda nafni hans á lofti.
Af slíkum mönnum skal fyrst frægan telja Ragnar loðbrók. Eigi verður efazt um tilveru Ragnars. Hann er sami maður sem víkingur sá með því nafni, sem getið er á herferð í Frakklandi árið 845 að tali frankneskra annála. Um Ragnar og um sonu hans hafa snemma myndazt sagnir. Snorri telur í Skáldskaparmálum, að Bragi hinn gamli, sem hefir verið samtímamaður Ragnars loðbrókar, hafi ort Ragnarsdrápu til hans. Ragnars og sona hans er getið í Háttalykli Rögnvalds jarls um 1145, Saxi kann margt frá þeim að segja, og sérstakt kvæði, Krákumál, var ort á 12. old um afrek Ragnars og lagt honum í munn deyjanda. Það þótti mikill vegur að vera kominn af ætt Ragnars. Því sagði Bjarni Brodd-Helgason, er hann taldi fyrir Eyjólfi Bölverkssyni, hvað honum væri mest til gildis: "Þat er fyrst, at þú ert ættaðr svá vel sem allir þeir menn, er komnir eru frá Ragnari loðbrók." Tveir merkir landnámsmenn eru taldir komnir frá Ragnari, þeir Höfða-Þórður og Auðunn skökull, sem urðu báðir mjög kynsælir. Frá Þórði voru m. a. Sturlungar komnir, en Haukdælir frá Auðuni.
Margir Íslendingar töldu ættir sínar til Hrafnistumanna. Ketill hængur í Hrafnistu er talinn móðurfaðir Ketils hængs landnámsmanns í Rangárþingi, og voru Mýramenn þeim náskyldir. Frá Grími loðinkinna er rakin ætt Auðar, konu Gísla Súrssonar, og Guðríðar, konu Þorgeirs Ljósvetningagoða. Frá Áni bogsveigi er m. a. Ingimundur hinn gamli talinn kominn. Eftir ættliðunum að dæma hafa þessir menn verið uppi fyrir og um aldamótin 8oo. Frá Hrómundi Gripssyni er rakin ætt Ingólfs Arnarsonar í beinan karllegg, en frá Hálfi konungi, er réð fyrir Hálfsrekkum, voru komnir þeir bræður Geirmundur og Hámundur heljarskinn. Þess má geta, að í Hálfs sögu er fornt efni og merkilegt. Í Ynglingatali Þjóðólfs úr Hvini (um 900) er eldur nefndur bani Hálfs, og sýnir að þá þegar hafa verið til alkunnar sagnir urn dauðdaga Hálfs konungs. Annars hefðu samtíðarmenn Þjóðólfs ekki skilið þessa kenningu á eldinum.
Vera má, að fleiri fornaldarsögur séu um sögulegar persónur, þótt ekki verði neitt fullyrt um það. Líklegt er, að Örvar-Oddur hafi til verið, og sagnir um hann eru allgamlar, sbr. Saxa og Ævidrápu Odds, sem að stofninum til mun vera eldri en sagan. Mikið er og af fornu söguefni í Gjafa-Refs sögu ok Gautreks konungs, en erfitt er að segja, hvað af því efni er af sögulegum rótum runnið. Líku máli gegnir um Þorsteins sögu Víkingssonar og Friðþjófs sögu frækna, sem er með elztu fornaldarsögum og stendur þeim flestum framar að persónulýsingum. Hins vegar eru margar af sögunum skáldsögur frá rótum, þar sem persónur jafnt sem viðburðir eru höfundarsmið. Meðal þeirra má nefna Hrólfs sögu Gautrekssonar, Göngu-Hrólfs sögu, Bósa sögu, Egils sögu ok Ásmundar, Hjálmþés sögu ok Ölvés, Hálfdanar sögu Eysteinssonar, Hálfdanar sögu Brönufóstra, Sturlaugs sögu starfsama og Illuga sögu Gríðarfóstra.
VI.
Eins og sjá má af því, sem að framan greinir, eru fornaldarsögurnar mismunandi að uppruna. Sumar eru settar saman eftir fornum kvæðum, aðrar byggja á gömlum sögnum eða hvorutveggja þessu, og enn aðrar eru hreinn skáldskapur. En þrátt fyrir þennan sundurleita uppruna hafa sögurnar allar svo mikil sameiginleg einkenni, að þær mynda nokkurn veginn skýrt afmarkaðan sagnaflokk út af fyrir sig. Að vísu nálgast ýmsir þættir í hinum yngri Íslendingasögum allmikið frásagnaranda fornaldarsagnanna, og er eigi undarlegt, þar sem báðar þessar tegundir sagna þróuðust lengi samtímis með þjóðinni.
En ef vér berum þessa sagnaflokka saman í heild, kemur í ljós ærinn munur á anda þeirra og stefnu. Frásögn Íslendingasagna er sannfærin og hófsamleg. Hún fer sjaldan út fyrir takmörk hins sennilega og líklega. Hún ber vott um raunsæi og skarpa athugun á mannlegu lífi. Persónurnar eru skýrt mótaðar af reynslu lífsins, fjölbreytilegar og með glöggum séreinkennum. Þær lýsa sér alla jafna sjálfar með sínum eigin orðum og athöfnum, en höfundurinn stendur álengdar þagall og hugall og stýrir örlagatafli þeirra. Fornaldarsögurnar eru um flest andstæður við þetta. Frásögn þeirra er ýkjukennd úr hófi fram, svo að engum kemur í hug, að verið sé að segja frá raunverulegum viðburðurn eða að reynt sé að halda sögunni innan takmarka þess sennilega eða þess, sem hefði getað átt sér stað, eins og krafizt er af skáldsögum nútímans. Menn hafa hamskipti og bregðast í líki ýmissa dýra, smjúga í jörð niður, berast milli landa á sjávaröldum, skjóta örvum af hverjum fingri, hafa byr í logni. þola eitur utan sem innan, skilja fuglamál. Sumir verða 300 ára gamlir, tólf álnir á hæð og ómennskir að afli. Aldrei missa þeir marks í skoti, og í bardögum vaða þeir í gegnum fylkingar. Ýmiss konar furðudýr verða á leið manna, ógurleg blótneyti, finngálkn og flugdrekar. Tröll og bergbúar, dvergar, risar og rýgjar, koma mjög við sögu, og Óðinn sjálfur birtist bæði vinum og óvinum á örlagastundum. Völur segja fyrir örlög manna, vopn og verjur eru gædd ómótstæðilegu töframagni, og óminnisdrykkur veldur gleymsku þess, sem er liðið. Í þessum æfintýraheimi verða söguhetjurnar oft og tíðum hver annarri líkar. Vér hittum sama víkinginn aftur og aftur, aðeins með öðru nafni og á öðrum stað. Svipaðir atburðir endurtaka sig einnig hvað eftir annað, víkingaferðir, orustur á sjó og landi, haugbrot, einvígi og því um líkt. En allt er stórt og stækkað. Þar er "eldasveinninn tröll og bjarndýr rakkinn" Í bókstaflegum skilningi. Alls staðar er gnótt gulls og gersema, skrautlegra klæða og ágætra vopna. Söguhetjan vinnur lönd og ríki, gengur að eiga konungsdóttur og stýrir síðan ríki sínu til ellidaga. En innan um allt þetta er fléttað óteljandi atvikum og atriðum, ýmist alvarlegum og örlagaríkum eða kátlegum og kímilegum, svo þrátt fyrir endurtekningar af ýmsu tagi skortir frasögnina sjaldnast á fjölbreytni og skemmtun.
Í fornaldarsögunum skyggnumst vér inn í draumheim þjóðar vorrar á löngu liðnum tímum, þegar hún skóp sér "skrípitröll, skjaldmeyjar og skóga hugmynda" og "byggði sér þar hlátraheim, þá heimur grætti". Í þeim speglast draumar krosslýðsins um meiri og vitrari menn, fegurri og stórbrotnari konur, meiri auð og velmegun, frægð og frama. Það er lokkandi seiðmagn í hinu frjálsa hugarflugi þessara sagna, þar sem nálega einskis er örvænt, engin hætta svo mikil, að eigi verði sigrazt á henni, engin þraut svo þung, að hún sé mannlegum mætti ofvaxin, þar sem bóndasonurinn fer á brott með víkingum og kemur heim með frægð og seim og jafnvel kolbíturinn í öskustónni verður konungur í ríkinu.
Fornaldarsögurnar hafa átt mjög almennum vinsældum að fagna með þjóðinni bæði fyrr og síðar, og er það að vonum. Óræk sönnun þess eru rímurnar. Varla er til nokkur fornaldarsaga, sem rímur hafi eigi verið ortar af, stundum tvennar eða fleiri, og teljast til þeirra margar hinar elztu rímur, er ortar voru á 14.-16. öld. Er margan fróðleik um efni að finna í riti dr. Björns K. Þórólfssonar, Rímum fyrir 1600. Með öðrum þjóðum hafa fornaldarsögur orðið undirstaða frægra skáldverka bæði í ljóðum og tónlist, svo sem Völsunga saga og Friðþjófs saga. Er það og hverju orði sannara, að í fornaldarsögunum eru mjög skemmtileg viðfangsefni fyrir skáld og myndlistarmenn. Það hefir staðið fyrir kynnum hinnar yngri kynslóðar at sögum þessum, að þær hafa verið ófáanlegar um langt skeið. En er úr því hefir verið bætt með útgáfu þessari, efa ég ekki, að þær eigi enn eftir að veita mörgum lesanda óblandna ánægjustund, ekki sízt ungum lesendum, sem öðrum fremur eiga hæfileikann til þess að lifa í heimi sagna og æfintýra. Hina, sem láta sér fátt um finnast, má minna á orð þau, er standa í inngangi handrits eins af Göngu-Hrólfs sögu: "Nú verður hvorki þetta né annað gert eftir allra hugþokka, því að enginn þarf trúnað á slíkt að leggja meir en fallið þykir. Er það og bezt og fróðlegast að hlýða, meðan frá er sagt, og gera sér heldur gleði að en angur, því að jafnan er það, að menn hugsa eigi aðra syndsamlega hluti, á meðan hann gleðjist af skemmtaninni. Stendur það og eigi vel þeim, er hjá eru, að lasta, þó að ófróðlega eða ómjúklega sé orðum um farið, því að fátt verður fullvandlega gert, það er eigi liggr meir við en um slíka hluti." Þessi hógværu orð hins gamla þular eru til athugunar enn í dag.
VII.
Fornaldarsögur Norðurlanda hafa tvisvar áður verið gefnar út í heild, fyrst af C. C. Rafn í Khöfn 1829-30, eins og fyrr var getið, en síðan af Valdimar ritstjóra Ásmundssyni í Rvík 1885-89 (I. bindi endurprentað 1891). Nefni ég þessar útgáfur hér eftir aldri Fas I og Fas 2. Báðar eru útgáfurnar í þremur bindum og röð sagnanna hin sama. Fas I er gefin út eftir handritum og textinn vandaður eftir kröfu þeirra tíma. Síðasta bindi fylgja skrár nafna og atriðsorða. Fas 2 er að mestu endurprentun hinnar fyrri, en þó tekið tillit til sérútgáfuna, sem þá voru til af fáeinum sögum, einkum Norröne Skrifter af sagnhistorisk Indhold eftir S. Bugge, Kria 1864-73, og af einstaka sögu hafa pappirshandrit verið höfð til hliðsjónar. Við útgáfuna eru hvorki skrár né skýringar. Eftir þann tíma hafa margar einstakar fornaldarsögur verið gefnar út í nákvæmum vísindalegum útgáfum, og verður þeirra getið við einstakar sögur hér síðar. Enn fremur hafa handrit, sem fornaldarsögur eru í, verið gefin út í heild (Hauksbók, Khöfn 1892-96) eða ljósprentuð (Flateyjarbók, Khöfn 1930). Kvæði og vísur úr fornaldarsögunum hafa verið gefin út tvívegis, í Eddica Minora af Heusler og Ranisch, Dortmund 1903, og í Den norsk-isl. Skjaldedigtning af Finni Jónssyni, Khöfn 1912-15. Textinn hefir því í mörgum greinum verið betur í hendur okkur búinn en fyrri útgefendum, og höfum við reynt að láta þessa útgáfu njóta þess eftir föngum. Skal nú stuttlega gerð grein fyrir texta einstakra sagna í þessu bindi.
Völsunga saga og Ragnars saga loðbrókar ok sona hans eru báðar varðveittar í einu og sama skinnhandriti, Ny kgl. saml. 1824 b, 4to (rituðu um 1400). Þessar sögur virðast jafnan hafa fylgzt að, enda náið samband þeirra á milli. Þær eru gefnar út saman af Magnúsi Olsen, Khöfn 1906-08, í vandaðri og nákvæmri útgáfu, og er henni fylgt hér og einnig í því, að frásögnin um Heimi og Áslaugu í hörpunni (Ragnars s., I. kap. í þessari útgáfu) er látin fylgja Ragnars sögu, en ekki Völsunga sögu. Sú skipting styðst við handritið sjálft og er vafalaust eðlilegri.
Þáttr af Ragnars sonum er í Hauksbók, ritaður með eiginhendi Hauks lögmanns (d. 1334), og prentaður hér eftir útgáfunni Khöfn 1892-96. Þátturinn virðist vera útdráttur úr glataðri gerð Ragnars sögu.
Norna-Gests þáttr virðist vera saminn upp úr Völsunga sögu. Hann er í þremur skinnhandritum, Flateyjarbók (frá því um 1390). Gl. kgl. saml. 4to (um 1400) og AM 62, fol. (frá 15. öld). Hér er þátturinn prentaður eftir Flateyjarbók, ljósprentuðu útgáfunni 1930.
Hervarar saga ok Heiðreks er varðveitt í þremur talsvert mismunandi gerðum. Aðalhandrit hverrar gerðar um sig eru Gl. kgl. saml. 2845, 4to (frá því um 1400), Hauksbók og R: 715 í Háskólabókasafninu í Uppsölum (pappírshandrit frá miðri 17. öld). Hið fyrst nefnda handrit hefir án efa varðveitt söguna í elztri og upphaflegastri mynd, og er texta þess því fylgt í þessari útgáfu, svo langt sem hann nær. Í honum er eyða nokkur í 4.-5. kap. (bls. 202-04 hér í útgáfunni), og er hún fyllt eftir Hauksbók; enn fremur vantar niðurlag sögunnar í handritið (frá lokum 11. kap. og út), og er það tekið eftir Uppsalahandritinu, enda ekki öðrum aðalhandritum til að dreifa, því að í Hauksbók lýkur sögunni með Heiðreksgátum. Af mismun handritanna má geta þess, að upphaf sögunnar er talsvert fyllra í Hauksbók og Uppsalahandritinu, án þess að þau séu þó samhljóða, og Hauksbók sleppir frásögninni af bardaganum í Sámsey og Dánaróði Hjálmars, en vísar þar til Örvar-Odds sögu. Hins vegar hefir Hauksbók nokkurar gátur fram yfir hin handritin. Hervarar saga ok Heiðreks er gefin út í nákvæmri, vísindalegri útgáfu af Jóni Helgasyni, Khöfn 1924, þar sem allir fyrrnefndir textar eru prentaðir hver í sínu lagi, og er hún lögð til grundvallar hér með þeim hætti, sem áður er sagt.
Ketils saga hængs og Gríms saga loðinkinna eru báðar saman til í tveim skinnbókum frá 15. öld, AM 343, 4to, og AM 471, 4to. Af sögum þessum eru ekki til neinar sérútgáfur, og er því hér farið eftir útgáfunni í Fas I, en þar er handrit er fyrr var talið, lagt til grundvallar.
Örvar-Odds saga er varðveitt í tveim aðalgerðum, styttri gerð og lengri. Aðalhandrit styttri gerðarinnar er Sth. 7, 4to, sem er elzta handrit sögunnar (frá fyrra hluta 14. aldar) og hefir hana í upphaflegastri mynd. Þessi gerð er fjórum sinnum prentuð: Í Sýnishorni af fornum og nýjum norrænum ritum o. s. frv. eftir Rask, í Fas I (II, 504-59, eftir útg. Rasks) og í báðum útgáfum Boers, Leiden 1888 og Halle 1892. Lengri gerðin er hins vegar til í ýmsum handritum, og greinist hún að minnsta kosti í tvo flokka. Helzta handrit annars flokksins er AM 344 a, 4to (frá því um 1400), og er prentað í eldri útgáfu Boers. Miðað við styttri gerðina er þar ýmsu vikið við, bætt inn vísum o. fl. Aðalhandrit hins flokksins eru AM 343, 4to og AM 471, 4to (bæði frá 15. öld), og hafa þau að geyma söguna í sinni lengstu mynd. Þar er enn aukið við söguna löngum frásögnum (18.-24. kap. (upphaf) og 30. kap. hér í útgáfunni) og auk þess Ævidrápu Odds. Eftir þessum handritum er sagan prentuð í Fas I (II, 159-322) og Fas 2 eftir henni. Vegna hess að Íslendingar þekkja söguna eingöngu í þessari mynd, varð úr þrátt fyrir allmikil samvizkunnar mótmæli, að hún varð hér fyrir valinu, með því að við þóttumst vita, að þeir, sem kunnugir eru sögunni, mundu sakna mikils úr henni, ef styttri gerðin væri valin. Ákjósanlegast væri að prenta báðar gerðirnar eða að öðrum kosti styttri gerðina eina ásamt viðaukum hinnar lengri sér í stað. Hér er sagan prentuð eftir Fas I og borin saman við eldri útgáfu Boers, svo sem hún vannst til. Handrit Örvar-Odds sögu gefa mjög fróðlega hugmynd um fornaldarsögu á sköpunarstigi.
Áns saga bogsveigis er varðveitt í AM 343 a, 4to (frá 15. öld). Sagan hefir ekki verið gefin út sérstök og er því prentuð hér eftir Fas I.
Um útgáfu þessa er að öðru leyti fátt, sem þarf að taka hér fram. Við höfum eigi hirt um að samræma ætíð orðmyndir og færa þær þann veg til fornara máls. Koma því t. d. oft fyrir nútímamyndir í sagnbeygingum, eins og er margvíða í handritunum sjálfum. Við ritum æ og ö alltaf á einn veg og st í miðmynd. Stafsetning vísna og kvæða er höfð sem líkust því, sem tíðkast í meginmálinu. Yfirleitt höfum við reynt að láta málið á sögunum bera svip og yfirbragð síns tíma og forðazt að fyrna það að nauðsynjalausu. Tilgangur okkar hefir verið sá að gera útgáfuna þannig úr garði að hún sé tiltölulega áreiðanleg um texta og aðgengileg til lestrar allri alþýðu manna. Myndirnar eru flestar af hlutum og atburðum frá víkingaöld, og hefir Kristján Eldjárn stud. mag. Valið þær og gert grein fyrir því hér á eftir, hvaðan þær eru teknar.
Ætlazt er til, að í útgáfu þessar birtist allar sögurnar, sem prentaðar eru í Fas I (og Fas 2), og auk þess að minnsta kosti Yngvars saga víðförla, Helga þáttr Þórissonar, Tóka þáttr og Þorsteins þáttr bæjarmagns. Með síðasta bindinu er ráðgert, að komi skýringar og skrá um nöfn.
Reykjavík, 30. nov. 1943.
GUÐNI JÓNSSON.