Illvitar

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Illvitar


Illsvitar eru ærið margir, sem eðlilegt er, þar sem mönnum gengur jafnaðarlega svo margt á móti, og þá órar oft áður fyrir því.
   Hlustarkláði boðar fregn nokkra, sumir segja andlátsfregn. Því varð kerlingunni á að segja bögumælið: "Nú hlustar mig í boruna; ætli ég heyri mannslát? Skyldi það vera mitt?" Fyrir fjársköðum hafa þessir fyrirboðar þótt ske, er hér koma:
   Ef maður missi fjárhrút eða forrustusauð, má maður vænta þess að missa 1-2 kúagildi á eftir. Þessu til sönnunar segir Eiríkur Hallsson (Svarta-Hallssonar) þessi dæmi: Sigurbjörn Björnsson, bóni að Breiðavaði, missti forrustusauð í tjörn. En eigi leið langt um, áður hann hafði misst 18 kindur. Sigfús Oddson, bóndi að Staffelli, einnig myndar-maður, sonur Odds að Hreiðarstöðum, segist hafa misst hrút um haust. En snemma vetrar hafði hann misst rúmlega kúgildið. Ólafur bóndi að Urriðavatni missti einnig hrút að hausti og margt fé um veturinn. Oddur Jónsson að Hreiðarstöðum, faðir Sigfúsar, missti og hrút um haust og eigi færri en 3 kúgildi um veturinn. - Þessi dæmi nægja.
   Þegar kind jarmar iðulega, er fé er gefið í húsi, er önnur þar feig, eða hún sjálf. Þetta kvaðst Bergvin Þorláksson að Miðhúsum hafa sannreynt.
   Þegar sækir mjög í trýni hunda, verður fjárskaði á því heimili, einkum ef það ber til með sama hund oft. Þetta segjast Staffelsmenn hafa reynt.
   Ef nýkeyptur hrútur eða önnur kind verður meinaður, hefur kaupandin keypt mein í fé sitt. Að þessu segir Gunnar Jónsson frá Hlíðarenda sé hafa orðið, er hann keypti meina-rollu frá Ásgrími á Grund!
   Þá verða eigi fáir fyrirboðar á undan fráfalli manna, og teljast þeir hér til. Þá mætti nefna aldurtilavita. Voteygir menn er sagt að eigi að deyja í vatni, og kallast slík augu vatnsaugu. Því sagði skipherra einn í Reyðarfirði við svo-nefndan Peninga-Snjólf frá Urriðavatni, að hann kæmi þar með sín vatnsaugu, og kvaðst eigi vita, hvað hann ætlaði, nema að drukkna í Íslandshafi. Snjólfur var skipstimburmeistari og fórst í þessari ferð í svonefndum Friðriksbyl, sem segir í þætti Sterka-Odds. Þetta bar árið 1726.
   Það orðtak er eignað álfkonu, að "sjaldan sjóði feigs manns matur á gólfi, nema feigur hjá standi."
   Vígahnettir og vígabrandar boða höfðingjalát í þeirri átt, er þeir falla úr. Vígabrandar sjást helzt á undan stríði og blóðsúthellingum og sömuleiðis vígahnettir.
   Stúlku æi Fnjóskadal heyrðist sunginn niðri í Fnjóská sálmurinn "Allt eins og blómstrið eina" o.s.frv. Hún sneri frá snjóbrú, er hún hafði ætlað að fara á yfir um ána.
   Ef skipi verður eigi hrundið á flot við tvær tilraunir, skal eigi reyna oftar, því að þá veit það ófarnað sinn. Oft segist Sigurður ættfræðingur hafa vitað hætt við, þegar svo stóð á. En þá fórust önnur skip, sem reru. Þegar mest var sjósókn á Eyrarbakka, gekk eigi skip fram við venjulegan mannafla um nótt við tvær atrennur. Hrópuðu þá sumir: "Ekki oftar en tvisvar". Formaður grenjaði: "Höldum áfram!" Þá rann skipið á flot fyrir sömu höndum sem sjálfkrafa færi fram. Það skip fórst með öllu um daginn. Hafði formaður sagt við 3. atrennu: "Illt er að trúa á mistök". En honum varð að öðru.