Loftvitni

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Loftvitni


Ýmis vitni þykir loftið bera viðburðum og forlögum viðkomandi. Þannig er það, eða var, trú, "að svo gæfi hverjum sem hann er góður til". Hefur það jafnan verið meint til veðursins, að góðir menn yrðu heppnir með ferðaveður og sömuleiðins ýms fyrirtæki. Einna ljósast kemur þó þessi trú fram, þegar persónur bindast hjónaböndum. Ef slæmt veður er giftingardaginn, þótti sýnt, að hjónabandið yrði líka illt, sorglegt, ef votviðri er (og þó frjósamt); gott og gleðiríkt, ef sólbjart, hlýtt og kyrrt er. Allra ljósast kemur trúin fram um veðurfarið, þegar einhver deyr. Segja menn oft, að þá viðri - og að meðan einn og annar stendur uppi - sem allra líkast því, sem ævikjör hans voru. Sumir segja því, sem hann lifði. Tíðast þykja þó vera illviðri, meðan lík standa uppi, enda hafa lífskjör flestra verið meira og minna erfið. Þegar stórmenni, ribbaldar og róstumenn falla frá, koma stórviðri og stormbyljir.
   Dæmi: Þegar Ólöf hin ríka á Skarði féll frá, kom sá nafnkunni Ólafarbylur. Hafði hún og beðið Guð þess að sýna dauða sinn eitthvert tákn, er væri eftirmynd af lífi hennar. En það var afkastamikið og svipótt.
   Þegar útför Bólu-Hjálmars var ger í beitarhúsunum, sem hann dó í, og önnur dætra hans hafði fengið Jakob Benediktsson til að gera húskveðju þar eftir hann, þó að hann hefði áður beðið þess, að enginn prestur mælti eftir sig, var veður kyrrt, er byrjað var, en snögglega gerði hvassviðri, sem mörgum varð minnistætt, því að þá sópuðust töður af túnum manna. Sagði þá sú systirin, sem eigi vildi bregða af boði föður síns, að farið hefði að getu sinni, að rangt hefði verið að bregða að boði karls. Því trúðu margir, að sama veðurkyrrð hefði haldizt út alla athöfnina, ef engin hefði verið haldin ræðan. Þessi aðferð náttúrunnar þótti benda til þess, að hin ófriðsama ævi Hjálmars hefði verið meira öðrum en honum að kenna. (Þessa sögn heyrði ég í Gunnhildargerði í Tungu, hafði eftir síra Jakobi sjálfum af kunningjum hans).