Mýrardraugurinn

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi


Mýrardraugurinn

Úr sögu Elliðarárdals


Við efri mörk Elliðaársdal er bærinn Elliðavatn. Á seinni hluta 19. aldar bjó þar Benedikt Sveinsson, alþingismaður og faðir Einars skálds. Dag einn snemma á góu (þ.e. í febrúar) tylltu tveir vinnumenn hans sér niður í beitarhúsum með brennivínskút. Hétu þeir Guðmundur og Erlendur. Hafði sá fynefndi komið með kútinn fyrr um daginn en ætlaði að staldra stutt við því hann var á leið til vers. Í hópinn slóst maður er nefndist Magnús Jónsson og var frá Lækjarbotnum. Magnús hafði á yngri árum fengist nokkuð við nám, meðal annars í frakkneskri tungu. Var hann allmikið fyrir sopann, enda talaði hann um að hollvættir hefðu stefnt sér á staðinn þegar honum var boðið að taka þá í drykkjunni. Kúturinn gekk nú á milli mannanna í mesta bróðerni, en eftir um tveggja stunda útisetu ákváðu þeir að halda á brott. Allmikið var þá eftir af víni í kútnum og gaf Guðmundur það Erlendi. Síðan skildu leiðir. Erlendur gett frá kútnum í beitarhúsunum og brá sér sóðan að bænum Vatnsenda sem var þar skammt frá. Síðar um daginn ætlaði hann að vitja kútsins enn fann hann ekki. Þegar farið var að svipast nánar eftir kútnum fannst hann spölkorn frá beitarhúsunum og hafði þá verið tæmdur. Ekki var fengist frekar um það, enda rökkvað og veðurútlit tekið mjög að ljókka. Nokkrum dögum seinna fannst Magnús frá Lækjarbotnum helfrosinn í mýri um hundrað faðma frá beitarhúsunum og voru hrafnar lagstir á náinn. Líkið var flutt til Reykjavíkur og krufið. En lögreglurannsókn fór ekki fram því að víst þótti að Magnús hefði orðið úti vegna drykkjunnar. Hefði kúturinn freistað hans svo mjög eftir að leiðir þremenninganna skildu að hann hefði snúið aftur og tæmt úr honum. Magnús var nú jarðsettur í gamla kirkjugarðinum við Aðalstræti. En þá þegar var hann byrjaður að ganga aftur bæði á Elliðavatnsbænum og við beitarhúsin. Hélst draugagangurinn veturinn út og færðist heldur í aukana. Hafði fólk stundum ekki svefnfrið eina einustu nótt vikum saman fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Einnig gerði hann ýmsan annan óskunda og sligaði meðal annars tvö hross sem haldið höfðu til við beitarhúsin. Margir urðu varir við hann en af heimilismönnum sótti hann mest að Erlendi, öðrum vinnumannanna sem drukkið hafði með honum. Erlendur var fjármaður og hafði ekki þótt kjarklítill en draugurinn stríddi honum svo mjög að hann neitaði nú að gefa á fjárhúsin nema meðan sól var hæst á lofti. Um vorið hrökklaðist hann endanlega burt.
   Draugurinn var fyrst nefndur Mangi. Eftir að Erlendur fór sást hann mest við beitarhúsin og í mýrinni þar sem hann varð úti. Var þá farið að nefna hann Mýrardraug.