Með hausinn í hendinni

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi


Með hausinn í hendinni

Úr sögu Elliðarárdals


Önnur saga tengist einnig ofanverðum Elliðaárdalnum og er sömuleiðins frá síðari hluta 19. aldar. Maður hét Guðmundur og bjó í Kópavogi. Var hann forn í skapi og hafði jafnvel í heitingum við menn um að leggja á þá eins og það var kallað. Eftir að hann dó urðu menn óþyrmilega varir við það. Reyndist hann mjög skæður, meðal annars Stefáni bónda í Hvammskoti sem var mesti sómamaður.
   Það var á góðviðrisdegi haustið eftir að Guðmundur í Kópavogi andaðist að Stefán gekk upp að Vatnsenda og dvaldist hann þar fram undir sólsetur. Var honum síðan fylgt áleiðis til baka vestur að svonefndu Vatnsendahvarfi. Þá er fylgdarmaðurinn var nýskilin við Stefán sá hann man við hlið sér og þekkti hann strax, að þar var Guðmundur úr Kópavogi. Stefáni varð ekki um sel, en hann hélt þó áfram og alltaf var draugurinn á hlið við hann uns hann kom niður á móts við Breiðholt. Þá nam draugurinn allt í einu staðar, tók ofan hausinn og marghneigði sig fyrir Stefáni með hausinn í hendinni, og hvarf draugurinn eftir það. Skömmu síðar tók Stefán sótt og andaðist.
   Guðmundur í Kópavogi sótti einnig að bóndanum í Breiðholti en hann stóð af sér allar skráveifur hans.