Sævíti

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Sævíti


Aldrei má bölva bát né neinum sægögnum, því að það veldur óblessun. Eigi skal þvo fiskslor úr bát né af höndum sínum, því að þá þvær maður af sér fiskisældina. Gott er að láta tindaskötu eða karfa liggja í kjalsoginu, þótt úldin séu, því að þá aflast vel, ef þau hafa áður aflazt á bátinn.
   Eigi má þó annar saur eða óþverri af landi vera í bát, því að þá fiskast aldrei á hann.
   Dæmi: Maður einn í Vestmannaeyjum hafði lengi fiskað ágætlega, þótt enginn annars gerði það. En svo tók fyrir það; en aðrir öfluðu vel. Formaður sá, að það var ekki eiginlegt og lét leita undir þiljum í kjalsoginu. Þar var þá fullt af saur. Hann lér þá verka bátinn vandlega og blessaði svo yfir hann, og fiskaði síðan ágætlega.
   Ellert hét maður, fátækur, í Keflavæik, Steinvarðarson, er fiskað hafði með afbrigðum nokkra daga, en enginn annar. Þetta öfunduðu menn mjög. Einn morgun sem oftar ætlaði hann að róa. En þegar hann kom að bát sínum, var hann barmfullur af fjósahaugnum, bundinn og fjötraður og vandlega lagður við akkeri. Ellert brá í brún. Gekk til þess dagurinn að verka og losa bátinn. En þetta fékk honum svo mikils, að hann missti hug og grét, og aflaði aldrei upp frá því á þennan bát.
   Fleygðu aldrei lús í sjó, því að hún gerir hafrót. Láttu hana heldur í seglið, ef þú vilt byr fá, því þá eykst vindur.
   Nefndu aldrei illhveli réttu nafni eða sameiginlegu á sjó, heldur á að nefna það stórfisk. Þetta gildir og eftir dagsetur um öll rándýr á landi. Sömuleiðis á þetta við óvætti og skrímsli.
   Dæmi: Þá voru ýms víti við út- og inn-róðra, er voru eins konar helgivíti, er ollu óhamingju, ef brotin voru. Eitt var það, er formaður sagði til, hvenær róa skyldi, að hann kallaði hátt: "Róið í Jesú nafni." Einu sinni lagði skip frá Hallgeirsey að Landeyjarsandi í stórbrimi og háum ólögum. Sat þar á stjórnbita stórvaxinn og mikilfenglegur maður, stórskorinn, hátalður og stuttorður, er jón hét, úr Krosshjáleigu. Formaður tók nú lagið og lagið og kallaði: "Róið í Jesú nafni!" Jóhann stóð þá upp á bitanum, bandaði hendi og grenjaði: "Nei, ekki í Jesú nafni!" Þá kom hik á menn og lagið leið hjá. Þá kallar Jón aftur: "Nú lagar!" Reru menn þá knálega í land og lentu vel. Þá mælti Jóhann borginmanlega: "Heyrið, piltar! Hvenig haldið þið hafði farið hefði, ef við hefðum róið núna í Jesú nafni? Veð hefðum auðvitað steindrepið okkur allir saman." Hinir játtu, að lagið myndi eigi hafa tekizt, þegar hann kallaði. Eftir það varð fáum það á þar að "róa í Jesú nafni." Jafnan hefur það þó þótt ólánsboði að brjóta helgar venjur, sem hér sést enn. Því hélzt það lengi við, að lesa berhöðfaður "Faðir vor" og sjóferðabæn, áður en út var róið. Var skipið þá látið snúa þversum yfir útróðrarlínuna.
   Hér kemur nú annað dæmi, sem þykir sýna bezt hve illa gafst að brjóta helgar venjur:
   Það var háttur Vestmanaeyinga og fleiri manna, að kalla útdráttardag þann dag, er vertíð byrjaði og skip voru færð fyrst á flæður, sem kallað er. Var þá siður að lesin var svonefnd útróðrar- eða úttdráttar-bæn. Las formaður hana jafnan sjálfur, ef hann var læs á skrift, annars háseti, er hann nefndi til þess. Andhófsmenn héldu árum og sneru skipum þannig, að skutar vissu þvert út af útróðrarleiðinni, en bentu þó á land, því að þetta var vanalega gert inn á höfnum. Ef það vildi til, að skip sneri rétt eftir róðraleið, meðan bæn var lesin, þótti það illur forboði og víst, að því hlekktist á í ferðinni, að minnsta kosti einhverntíma á vertíðinni.
   Guðmundur er maður nefndur Guðmundsson. Hann var formaður í Vestmannaeyjum, mjög áræðinn, duglegur og ötull, en einþykkur mjög. Hann vildi leggja þessa kreddu niður. En aðrir stóðu á móti og töldu það verða til ills. Guðmundur sótti fast sinn ásetning. Einn útróðrardag lét hann menn sína róa stanzlaust út, þegar aðrir sneru skipum sínum til bænalestur. Stóð hann sjálfur við stýri á meðan. Öllum fannst fátt um, en létu það orðalaust. Guðmundur hafði og áður reynzt svo kapgjarn, að hann reri einn skipi sínu út í ofviðrum. Síra Högni Stefánsson, er þá þjónaði eyjunum, hafði haldið harða hegningarræðu í kirkjunni yfir honum og þeim öðrum bífræfnasta, er Magnús hét, fyrir það, "að freista svo drottins," sem komizt er að orði. Guðmundur hafði þá sett upp hat sinn í kirkjunni, en Magnús brugðið höndum aftur fyrir lendar sér af óvirðingu við prest og gengið út. Eigi létu þeir sér heldur segjast við ræðuna, þótt hörð þætti. En það endaði með því fyrir Guðmund, eigi löngu síðar, að hann fórst í svonefndu Þríhamradjúpi, sama vetur sem hann braut helgivenjuna, með sama skipi og allri áhöfn. Þótti mörgum það hefnd fyrir það, að hann varaðist eigi þetta helgivíti. Hans hét sonur Guðmundar, er þar fórst líka nokkrum árum síðar á sama stað með allri áhöfn. Mörgum árum síðar fórst þar og nærri þeim stað Eiríkur sonur Hans, á bezta skeiði, svo sem faðir hans og afi. Þótti mörgum, sem þessi slysfaraógæfa í ættinni hefði hlotizt af því, að Guðmundur varaðist eigi víti.
   Enhverju sinni gall við háseti úr Grindavík á sjó, er bátsverjar sáu koma að sér hval ljóslitan: "Þarna er hann Mjaldur í sjó!" Formaður greip stýrið og hrópaði: "Róið, róið, piltar, og það hraustlega!" Þar næst sagði formaður við þann, sem gall við: "Þú verður að fara, því að þú ert svo ógætinn!" Annar háseti nefndi stökkul, en eigi stórfisk á sjó. En oft er í því holti heyrandi nær, því stökkullinn vær þegar kominn og lagði óþyrmilega að þeim. Sluppu þeir nauðulega undan og þó með brotinn skutinn af bátnum. Hann heitir öðru nafni vagnhvalur eða líka vagnhundur, og er allra skepna grimmastur, harðfærastur, léttfærastur og sterkastur.