Sagan af Þorgrími kóngi og köppum hans

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Riddarasögur


Fjórar

Riddarasögur


Útgefnar

af

H. Erlendssyni og E. Þórðarsyni

Reykjavík 1852


____


Formáli

Þar eð þessar eptirfylgjandi sögur eru óvíða til að finna á landi voru, og bráðum undir lok liðnar, ásamt ýmsum fleiri fornsögum, er ætíð hafa verið vel meðteknar af löndum vorum, þá finnst oss ei með öllu óþarft að láta sýnishorn af sögum þessum koma út á prent; og höfum við þá von, að vorir heiðruðu landsmenn virði þetta fyrirtæki okkar ekki síður, en þeir hafa virt sögurnar sjálfar.

Þessar sögur eru prentaðar eptir því fullkomnasta, elzta og bezta handriti, er við gátum feingið.

Verði svo, að sýnishorn þetta fái góðan róm af alþýðu, og svo margir kaupendur bjóðist að þessum söguritum, að við fáum kostnað okkar borgaðan, þá höfum við framvegis í hyggja, að láta fleiri gamlar sögar koma út á prent, sem ekki hafa áður prentaðer verið; svo þær ekki að öllu leyti líði undir lok.


Útgefendurnir.
Sagan af Þorgrími kóngi og köppum hans


1. Kapítuli.

Þorgrímur hèt kóngur, er rèð fyrir Serklandi. Hann var stór og sterkur, hægur og hógvær við vini sína, enn refsíngasamur við óvini; fríðleika bar hann yfir flesta menn í þann tíma: hann hafði fagurgult hár, sem tók honum niður á herðar, hvítar kinnar með roðma í, herðabreiður og miðmjór, harðeygður og snareygður, hann var úngur að aldri, þá saga þessi gjörðist. Fleiri menn verður að nefna til sögunnar: kóngur hèt Helgi, er rèð fyrir Hálogalandi. Hann var hermaður mikill, og illur viðureignar; var hann mjög óvinsæll og illa ræmdur, hafði hann her mikinn um sig. Hann átti dóttur eina er Silfa hèt, fríða og kurteísa, og var það allra manna mál, að hún mundi fríðust kona í þann tíma á norðurlöndum. Komu margir kóngar og kóngasynir að biðja hennar, og veitti Helgi kóngur þeim öllum afsvar. Lèt hann suma af landi reka eða með annari svívirðíngu burtvísa. Fýsti því fáa þess gjaforðs að leita. Liðu so fram tímar, að ekkert bar til tíðinda. Maður er nefndur til sögunnar, er Hallgeir hèt, hann var hniginn á efra aldur, og stýrði ey þeirri, er Orney hèt; hann hafði verið mesti kappi á fyrri aldri, en nú var hann hættur hernaði fyrir elli sakir. Hann átti son einn, sem Albert hèt, hann var hinn mesti hreystimaður, og vissu menn ógjörla afl hans; hann lá í hernaði hvert sumar, og hafði jafnan sigur, og rakaði saman ógrynni fjár, og voru flestir við hann hræddir. Á vetrum sat hann hjá föður sínum. Eitt sinn töluðust þeir feðgar við, þá mælti Albert: mèr er sagt af einun kóngi, er Helgi heitir, hann ræður fyrir Hálogalandi, so er sagt hann eigi eina dóttir svo væna, að hvergi megi finna hennar jafníngja í kvennlegum listum, vil eg því fara að biðja hennar mèr til handa, eða vinna allt Hálogaland; en að öðrum kosti dauður liggja. Þá mælti faðir hans: þessi þín ráðagerð er mèr þvert á móti, og aldrei hef eg orðið hræddur um þig fyrri, og segir mèr so hugur um, að þú munir fá þig fullreyndan, áður en þú hefur framkvæmt þetta; því Helgi kóngur er sá vesti maður viðureignar, og hafa margir kóngar og kóngasynir beðið hennar, og farið í burt með skömm og svívirðíngu, lamdir og barðir, eins og hundar, og hefur einginn þorað að veita honum móttöku, og mun hann ei fara betur með þig, einn bóndason. Þar hjá er hann fullur allra svika og pretta, sem einginn kann við sjá, og vil eg þú farir ei þessa ferð; því annaðhvort verður þú handtekinn og píndur eða drepinn, utan þèr komi einhver óvænt hjálp, og skal eg nú segja þèr draum minn: Eg þóttist sjá þig á Hálogalandi, og þóttist eg sjá óteljandi varga í kríngum þig og rífa í sundur allan þinn her, so einginn lifði eptir, og síðast átti að rífa af þèr öll herklæðin, en þú varðist so vel, að einginn gat náð þèr. Sá eg þig drepe hundruðum niður vargana, en þú varst orðinn ákaflega móður, þá sá eg mörg þúsund ljóna koma af hafi utan, þó mest eitt af öllum, það fór undan sem ör, og brunnu eldar í augum þess, það hjálpaði þèr, og drap alla vargana, og í því vaknaði eg. Veit eg ei hver sú hjálp kann vera, en heyrt hef eg getið um einn ágætan kóng, sem Þorgrímur heitir, og vona eg, hann eigi þessa fylgju, og hygg eg hann muni koma þèr til hjálpar, eða muntu drepinn verða. Albert mælti: hvergi mun eg af ferð minni bregða, og hætta til, hvernig fer. Býr Albert nú her sinn, og safnar að sèr liði, hvar sem hann gat feingið, bæði blámenn og berserki, svo hann hafði alls hundrað þúsund liðs, hèlt Albert nú úr landi með allan sinn her, og lètti ei ferð sinni, fyrri en hann kom að Hálogalandi, og lèt setja herbúðir á land, og þurftu þær mikið pláz. Sendi hann síðan 12 menn heim til borgar, sem skyldu bera kóngi erindin. Sá hèt Arnviður, er fyrir þeim var; hann var 6 álna hár og eptir því digur; hann bar járnkylfu í hendi svo þúnga, að 5 menn lyptu henni varla frá jörðu. Lètti hann ei ferðinni, fyrr en hann kom í höllina fyrir kóng, og kvaddi hann svoleiðis: hèr situr þú Helgi kóngur, svikari og mesta mannfýla; skaltu nú heyra mál mitt, ef þú hefur hug til, eða eg mun drepa þig þeim háðuglegasta dauða. Kóngur mælti: híngað til hef eg ekki fælzt einn umkomulausan merarnið af öðrum löndum, og máttu segja, livað þèr líkar. Þá mælti sendimaður: Herra minn, sem Albert heitir, og er ósigrandi af öllum, biður þig að gefa sèr dóttur þína; en ef þú giörir það eigi, ætlar hann að vinna allt landið, og heingja þig á gálga, og taka svo dóttur þína. Kóngur mælti: aldrei gef eg þeim þræli dóttur mína, og skríð í burt sem fljótast, ellegar eg læt drepa þig. Gekk Arnviður þá á burt, og fann herra sinn, og sagði honum erindislokin, að ei feingist kóngsdóttir. Brást hann þá reiður við, og sagði, að slíkra orða skyldi að morgni hefnt verða. Sváfu menn svo af nóttina.


2. Kapítuli.

Nú er þar til máls að taka, sem fyr var frá hvorfið, að Þorgrímur kóngur sat heima á Serklandi, tok honom nú að leiðast kyrsetan, og safnar að sèr óvægum her, og silgdi með 100 skipa á haf út. Byrjaði honom vel, og átti margar orrustur; kom einginn sá víkíngur, sem honum kynni á móti að standa; gekk svo fram lánga tíma, uns hann kom að Hörðalandi, og sló þar herbúðum sínum á land. Þar rèð fyrir kóngur sá, er Atli hèt, hann átti son þann, er Grani hèt, hann var úngur maður, en þó hinn giörfuglegasti og vel að sèr. Kóngur átti og dóttur, er Signý hèt; hún gekk næst Silfu i öllum listum. Þá kóngur veit, hverjir eru þar við land komnir, sendi hann Grane son sinn til fundar við Þorgrím, að bjóða honum til borger með öllu liði sínu. Grani fór og hitti Þorgrím, og kvaddi hann kurteislega. Kóngur tók vel kveðju hans, og spurði hann að nafni. En hann sagði, sem var, og það með, að faðir hans byði honum til borgar með öllu sínu liði. Kóngur þakkar honum boðið, og sagðist það gjarnan þiggja vilja; fer hann með Grane og allur herinn; en Atli kóngur gekk á móti honom og allur borgarlýður, sláandi allslags hljóðfæri. Leiðir hann síðan í höllina, og setur hið næsta sèr. Rís þar upp hin vænsta veizla með alls kyns gleði. En þá veizlan stóð sem hæst, tók Átli kóngur til orða og mælti: það vildi eg, Þorgrímur kóngur, að þú tækir son minn í fylgd með þèr, því eg vona það muni verða góð stoð í honom, en þèr mun aldrei aflfátt verða sakir hreysti þinnar, og haf þú veturvist hèr, þá þèr líkar; því mèr þykir sá tími styztur, sem þú ert hja mèr, og skal eg fá þèr svo mikið lið, sem þú vilt. Þorgrímur þakkaði kóngi góðar tillögur, en sagðist ekki lið þurfa fleira, en hann sjálfur hefði, en við syni yðar skal eg taka, og hafði eg ásett mèr að bjóða honum fóstbræðralag, þó þèr hefðuð það ei nefnt; því eg hygg hann muni mèr jafnan nálægur standa, þegar mèr mest á liggur, og svo hafa mèr draumar gefizt, að við munum fá okkur fullreynda; og mun hann þá bezt duga. Slíta þeir so talið. Þorgrímur kóngur var þar í hálfan mánuð í góðu yfirlæti; síðan fór hann á stað og Grani með honom, og skildust kóngar með hinni mestu blíðu; lètu síðan í haf og gaf þeim vel byri. Það var á einn kvöldi, að þeir koma að ey einni, er Svansey heitir, þar köstuðu þeir akkerum, en Þorgrímur og Grani tóku bát, og rèru til lands, og geingu á eyuna, þá sjá þeir hinu megin eyarinnar 80 skip og dreka að auki, bæði mikinn og stóran. Þá mælti Þorgrímur: hver hyggur þú að eigi þennan skipaflota? Grani mælti: ekki veit eg það gjörla. En heyrt hef eg, að fyrir Bretlandi ræður kóngur sá, er Fabrín heitir; hann á son einn, sem Gauti heitir, hverjum manni meiri og sterkari, og hefur einginn yfirbugað hann, hversu miklir sem verið hafa. Það var einu sinni, að Gauti var að heimta skatta föður sins á einu skipi, mætti hann fjórum berserkjum, sem allir voru mestu hamhleypur og tröll, og vildu berserkirnir, að hann gæfi upp skipið; en Gauti vildi ei laust láta. Sló þá í bardaga með þeim, og lauk so, að Gauti drap þá alla, tók so skipin og allt, hvað þeir áttu, hèlt síðan heim, og þykir mèr ei ólikt, að hann sè ráðandi þessara skipa; því jafnan liggur hann í hernaði. Þorgrímur mælti: þetta mun satt vera, og eru nú tveir kostir fyrir höndum: annar að við siglum burtu strax í nótt, og látum ekki vart verða við oss, eður að öðrum kosti berjast, og lát mig heyra, hvað þú segir til. Grani mælti: ef við höldum orustu við Gauta, þá fellur allt lið okkar, og eigi uggvænt, að við föllum báðir, þó vil eg heldur deya fyrir sverði en flýa, sem þræll. Þorgrímur mælti: þess var von af þèr, og haf þú þökk fyrir, og vil eg til hætta, hvernig sem fer. Slíta þeir svo talið og geingu til skipa sinna, og urðu allir þeim fegnir. Þorgrímur mælti til manna sinna: nú skal bera grjót á skipin sem mest. Og nær það var búið, búast þeir til orustu, síðan róa þeir öllum skipunum fyrir eyuna, þar til er þeir koma að þeim stóra dreka, sjá þeir, að maður stóð við siglu bæði stór og mikill, og var rjóður í andliti með svart hár, sem tók niður fyrir herðar; allur var hann vel skapaður, og beit á efri vörina, og glotti við tönn. Hann hafði gullroðinn hjálm á höfði, allan gimsteinum settan, hann var í hríngabrynju með spjót í hendi og gyrtur gullbúnu sverði. Þá mælti Þorgrímur: aldrei hef eg um æfi mína sèð þvílíkan mann, og mun ekki ofsögum af honum sagt. Þorgrímur spurði þann mikla manna að heiti. En hann kvaðst Gauti heita, og vera son kóngsins á Bretlandi. Gauti spurði hann, hver sá væri, sem við sig talaði. Þorgrímur sagði sem var. Þá mælti Gauti; heyrt hef eg þín getið, og muntu frægur maður, og hef eg ekki sèð þinn líka fyr, eða hver er sá mikli maður, sem hjá þèr stendur? Þorgrímur sagði: það er fóstbróðir minn, og heitir Grani, sonur kóngsins af Hörðalandi. Þá sagði Gauti við Þorgrím: eg vil bjóða þèr bardaga eða einvígi, og máttu kjósa þèr, hvort sem þú vilt. Þorgrímur mælti: eg vil bjóðast að verða fóstbróðir þinn, en þó em eg búinn til bardaga, ef þú vilt. Gauti mælti: fyrst skulum við reyna með okkur; en eigi skaltu hafa fleiri skip en eg, annars legg eg bleyðiorð á bak þèr. Þorgrímur mælti: það skal so vera, og er eg hvergi hræddur. Nú byrjast hin harðasta orusta, gekk megn grjóthríð þá Þorgrími í fyrstu, so all deyði, er fyrir varð, og missti Gauti 20 skipa í grjóthríðinni. Þá gjörðist Gauti so óður, að hann hafði 8 menn í höggi, og var að sjá, sem ljón í lambaflokki, so hann drap hundruðum saman, og í þessari svipan eyðir hann 10 skip fyrir þeim fóstbræðrum. Gekk nú bardaginn sem ákafast, og fèll margt manna af hvorutveggjum. Nú er að segja frá Þorgrími, að hann drepur mikið lið af Gauta, so ekki varð tölu á komið, og sama gjörði Grani, og stundum hafði Þorgrímur 9, en Grani 7 menn í höggi, þá liðið stóð so þykkt fyrir. Bardaginn gekk allt til kvölds, var þá haldið upp friðskildi, og farið til náða. Hafði Gauti þá eptir 20 skipa, en fjöldi manns sár og ei vígfært. Strax þegar vígljóst var um morguninn, var byrjaður sami bardagi, með mesta grimmleika, fèll þá undvörpum lið af hvorumtveggjum, en blóð mátti vaða í ristarlið á þiljum. Hafði Þorgrímur þá 10 í höggi og Gauti eins, en Grani 8 og stundum 9. Fèll þá beggja lið niður sem hráviði. Þá höfðu þeir fóstbræður hroðið öll skip Gauta nema drekann, en Þorgrímur hafði eptir þrjú skip; er nú mikið mannfall: í þessari svipan hrauð Gauti mesta skip Þorgríms, sem eptir var. Gjörðist hann þá so óður, að hver fèll fyrir honom, sem þar stóð, so þá fóstbræður báða felmtraði. Þá mælti Þorgrímur við Grana: nú hefur Gauti drepið alla menn á skipi því, sem flest var á, og er eingum manni líkur að vopnaviðskiptum, og hygg eg hann muni drepa okkur alla, utan við ráðum til uppgaungu á drekann, og sjá, hvað þá vill skipast; Grani sagði hann skyldi ekki spara honum sína fylgd; í þessari svipan hrauð Gauti annað skipið fyrir þeim. Þeir fóstbræður hlupu þá á drekann og þeirra menn, sem eptir lifðu, drápu þeir undvörpum niður liðið, so ekki var eptir á drekanum nema 50 menn. Í þessu kemur Gauti og vegur með báðum hönðum, og drepur allt hvað fyrir verður; þetta sèr Grani, og eirir því illa, veður að Gauta og reiðir sverðið tveim höndum, kom höggið á hjálminn, og klauf hann. Gauti brá so fljótt við, að ekki mátti auga á festa, og hjó aptur til Grana, höggið kom á skjöldinn og klauf hann að endilaungu, og fèkk Grani sár mikið. Þá hjó Grani aptur til Gauta, en hann brá við skildinum, berjast þeir nú af hinum mesta ákafa, verða þá báðir sárir, en þó Grani miklu meir, og um síðir fèll Grani af sárum og mæði, og lagðist í valinn. En á meðan þeir berjast, drap Þorgrímur alla þá, sem á drekanum voru, svo einginn stóð eptir lifandi. Sá hann nú fall fóstbróður síns, og varð æfa reiður, og lá við að hamast, og snèri þegar í móti Grana, voru þá báðir móðir og sárir; Tóku þeir til að berjast af hinni mestu grimmd, og var sem hvor hefði 3 sverð á lopti í senn, og mátti þar sjá mörg högg og stór, sindraði eldur úr eggjum sverðanna, þegar þau mættust, en drekinn skalf, sem á þræði lèki, en so mikil gufa gekk af þeim, sem þoka væri. Börðust þeir, þar til báðir flöktu sundur af sárum, og lá við þeir mundu sprínga af mæði. Koma þá menn Þorgríms, sem eptir lifðu, og vildu hjálpa honum; en hann bannaði það, og sagði þeir skyldu leita að Grana, og so gjörðu þeir, og fundu hann með lífi, fluttu hann til skipsins, bundu sár hans, og lögðu hann í mjúka sæng. Þorgrímur og Gauti börðust enn í ákafa, og sást ei, hvor sigra mundi. En so lauk, að Gauti fèll óvígur af sárum, en Þorgrímur lagðist strax í rekkju, og var nær dauða kominn. Þar var einn góður læknir, sem gaf honum að drekka af horni, og þá hann hafði drukkið, rètti so af honum, að hann kunni að mæla, bað Þorgrímur þá menn sína að fara og vitja um Gauta, og vita, hvort hann væri lífs, og flytja hann á skip sitt, ef lifandi væri. Þeir fóru, og fundu Gauta með lífi, og fluttu hann á skip Þorgríms, og lèt hann græða hann; lágu þeir 3 í hálfan mánuð í sárum, voru þeir þá allir komnir til heilsu, Þorgrímur, Gauti og Grani.


3. Kapítuli.

Nú er þar til máls að taka, sem þeir voru allir heilir orðnir, þá gekk Gauti til Þorgríms og mælti: þú hefur yfirunnið mig og gefið mèr líf, vil eg nú aptur bjóða þèr fóstbræðralag, og skaltu eiga helmíng af öllu því eg á; þar með skal eg hefna þín, ef þú verður með vopnum veginn, eða með hverju öðru móti, en að öðrum kosti dauður liggja. Þorgrímur stóð upp í móti Gauta, og fèllust þeir í faðma, og mælti: þitt bóð vil eg gjarnan þiggja, því eg hygg, að jörðin beri þèr ekki frægri mann, mun og þitt nafn uppi, meðan heimur byggist, og því heiti eg, að þín skal eg hefna, með hverju helzt móti sem þú unninn verður, ef eg þá er lífs, og vil eg, að við skiljumst ei og höldum allir í hernað 3, og so gjörðu þeir. Og þá þeir höfðu búizt til ferðar og byr gaf, hèldu þeír í haf, og herjuðu víða og varð gott til fjár og frægðar, og höfðu hvervetna sigur. Kom einginn sá berserkur eða aðrir, að þeir dræpi þá ei alla, stóð flestum ótti af þeirra aðgángi, því eigi fundust frægari víkíngar.


4. Kapítuli.

Nú er þar til máls að taka, sem fyr var frá horfið, sem Albert og Helgi kóngur bjuggust til bardaga, fylkti kóngur sjálfur liði sínu, hafði hann 100 þúsund liðs allt hart og illfeingt, en Albert var sjálfur fyrir sínu liði. Arnviður bar merki hans, stóð flestum ótti af honum fyrir stærðar sakir, því hann mændi yfir allan herinn; áhöld var um lið þeirra. Tókst nú með þeim hin grimmasta orusta; gekk Helgi kóngur vel fram, og stóð ekkert fyrir honom. Slíkt hið sama gjörði Albert að liði kóngs. En það var að segja af Helga kóngi, að jafnótt og Albert drap niður lið hans, safnaðist ætíð meira að honum úr öllum áttum, so ekkert mínkaði. Stóð þessi orusta yfir í samfelda 4 daga; stóð þá ei eptir af liði Alberts utan 40 manns, og allir sárir nema Albert og Arnviður. En að morgni þess fimmta dags fylkti kóngur liði sínu og Albert i móti honum með þeim mönnum hans, sem eptir voru. Nú sjá menn, hvar siglir af hafi mikill herskipafloti skrautlegur, og stefnir að landi, og slá herbúðum á landi; furðar alla á þessum mikla her. Víkjum nú sögunni til Helga kóngs; hann hefur drepið niður allt lið Alberts, sló hann nú hríng að þeim Albert og Arnviði, og í þessari svipan drap Helgi kóngur Arnvið, hafði hann þó áður feingið mörg högg og stór sár, í því sama bili stökk Albert út yfir þrefaldan mannhrínginn, og kom hvergi við. Gjörðu þeir þá aptur að honum harðla hríð, en það dugði ei, því hann stökk ætíð út yfir mannhrínginn; var hann þá orðinn ákaflega vígmóður. Víkur nú sögunni frá Albert og til þeirra höfðíngja, sem komu; þeir sjá til stríðsins, og að þar eru ójafnir leikir, að margir sækja að einum. Þa mælti Þorgrímur: hver mun vera sá hinn mikli maður, sem so frækilega verst, að hann stökkur jafnan út yfir þrefaldan mannhrínginn, en mörg hundruð sækja að honum? Gauti mælti: heyrt hef eg um kappa getið, sem Albert heitir, flestum mönnum meiri; er so sagt, að hann hafi beðið Silfu dóttur kóngs, og hafi kóngur ei viljað gefa honum hana; en Helgi kóngur er sá vesti maður og svikafullur. Rètt muntu mæla, segir Þorgrímur, og er það stór nauðsyn að hjálpa dugansis dreing. Skulum við fylkja liði okkar sem fljótast, og ei fara nema með helmíng liðsins, og mun það vel duga; þeir gjörðu so. En er Helgi kóngur sókti sem ákafast að Albert, vissi hann ei fyrr, en hann sá á vígvöllinn ríða mikinn fjölða hermanna, fyrir þeim flokki voru 3 menn; þeir voru svo hvatlegir og harðlegir, að það var sem eldur brynni úr augum þeira. Þeir höfðu svo hvatlega á skeiði, sem svala á flugi. Albert furðaði á þessam mönnum, og þeinkti, að þeir mundu vera af liði Helga kóngs, vildi þó eigi flýa, heldur dauður liggja. Hleyptu nú þessir í bardagann, og snèrust þegar í móti Helga kóngi; snèri þegar mannfallinu á kóng, og hrukku allir undan þessum víkíngum, uns flótti kom í lið kóngs, og þar næst rann hann sjálfur á flótta. En þeir ráka flóttann heim til borgar; komst kóngur með nauðúng í borgina, en Þorgrímur og hans fèlagar geingu so fast að, að ei varð portunum læst. Komust þeir so í borgina, og drápu hvert manns barn, sem mótstöðu veitti, og í þeirri svipan varð kóngur handtekinn, og í fjötur færður; sleit so bardaganum. En þessir kappar ríða so til skipa með lið sitt, en Albert skeiðaði eptir þeim, og spurði þeirra hershöfðíngja að nafni, hann kvaðst Þorgrímur heita, og höfum við leingi 3 fylgzt að; heitir annar Gauti en annar Grani. Albert mælti: skylt er mèr að þakka ykkur góða fylgd. Varla fer að því, segir Þorgrímur, eða hvert er nafn þitt, mikli maður? En Albert sagði af hið ljósasta um ætt, nafn og óðul sín, og hvaðan hann væri, og bardagi þessi hefði staðið yfir í 5 daga. Nú er það minn vilji, að þú Þorgrímur leggir dóm á Helga kóng, segir Albert, þar með vil eg, að þú takir ráð yfir landi þessu, og eigir so kóngsdóttur, því mèr sýnist þú mest hafa til hennar unnið. Þorgrímur þakkar honum sitt tilboð, og sagði hann skyldi sjálfur ráða fyrir lífi kóngs og landi þessu, þar með sýnist mèr rèttast, að þú eigir kóngsdóttur, því þú lagðir þig mest í hættu fyrir hana. En það skil eg á, að við sverjumst allir í fóstbræðralag, og hefni hver annars, ella dauðir liggja. Bundu þeir allir þetta fastmælum, og slitu so talinu.


5. Kapítuli.

Nú er frá því að segja, að þeir gánga allir til borgar, Albert, Þorgrímur, Gauti og Grani, sezt Albert í hásæti og þeir fóstbræðurnir út í frá. Reis þar upp hin virðuglegasta veizla, og þegar hún stóð sem hæst, kom kóngsdóttir í höllina með öllum sínum meyjaskara; var hún so fögur, sem sól, so allir urðu hissa af fegurð hennar. Stóðu þeir þá upp fóstbræður, og heilsuðu henni með allri hæversku, hverju hún tók með mestu siðsemd og kurteisi. Var henni feinginn gullbúinn stóll að sitja á; stóð Albert þá upp og vekur bónorð við hana, studdu allir þar að, en hún játaði því með því móti, að hann gæfi föður sínum líf, og lèti hann halda virðíngu sinni. En þó sau menn, að hún gaf helzt auga Gauta. Var nú sent eptir Helga kóngi, og var hann leiddur í höllina, hafði Albert þá uppi bónorð sitt í öðru sinni við kóng, og það með, að hann skyldi halda makt sinni og ríkisstjórn. Kóngur játaði þessu, og var það með eiðum staðfest, en brúðkaupið skyldi bíða enn eitt ár, var þá drukkið af hinu mesta kappi, og brast einga gleði. Í þessu var hrundið upp hallardyrum; kom þar inn maður hár og herðabreiður, kenndi Grani þennan mann, að hann var hirðmaður föður hans; kom hann með þær frèttir, að systir Grana væri í burtu tekin, höfðu þar við land komið risar 2, Sóti og Sámur að nafni, höfðu þeir gjört þar landgáng mikinn, so kóngur hafði seinast flúið. En Sóti og Sámur æddu í skemmu kóngsdóttur og tóku hana, vissi einginn, hvaðan þeir voru. Og nær þeir voru burtu, skipaði kóngur mèr, að eg skyldi fara og leita að Grana syni sínum, og ei fyr hætta, en eg hefði hann fundið og Þorgrím, fóstbróður hans. Hef eg nú víða um lönd leitað, þar til eg fann ykkur hèr, og hef eg nú mínu erindi aflokið. Urðu nú allir menn hissa af söga þessari. Bjuggust þeir nú af stað allir saman, Þorgrímur, Albert, Gauti og Grani með öllu sínu liði; leituðu þeir víða um lönd og fundu hvergi, og áttu margar orustur og höfðu hvervetna sigur. Einu sinni kom á þá so mikið stormviðri, að allt ætlaði sundur að gánga; þar með fylgdu skruggur og eldíngar, sem allir meintu ei sjálfrátt vera mundi; þá mælti Albert, það er mitt ráð, að við teingjum saman skipin, annars drífa þau viðs vegar sitt frá hverju; var so gjört, sem hann sagði, dreif so flotann fyrir veðri og vindi, uns þeir komu að sjáfarhömrum stórum; hèldu þeir nú með klettunum, þar til þeir sáu einn vog, sem skar sig inn með þeim, þar var logn og blítt veður, lögðu þeir þar skipum í lægi, köstuðu akkerum og tóku á sig náðir. Þá tók Gauti til orða: það er minn vilji, að við Albert gaungum á land, en Þorgrímur og Grani gæti skipa á meðan, og so gjörðu þeir. En Þorgrímur kvaðst bíða þeirra til 3. dags, annars færi hann að leita þeirra; skildu þeir að so mæltu. Síðan geingu þeir á skóga og eyðimerkur, og urðu einkis varir, uns þeir koma að einum stórum skála; hann var so rammbyggilega gjörður; að þeir þóttust aldrei slíkt hús sèð hafa. Þar var hurð hnigin í hálfa gátt. Geingu þeir í skálann, og sjá þar rúm furðulega stórt, lagðust þeir þar báðir í; var það so stórt, að þeir snyrndu saman iljum. Voru þeir þar góðan tíma, heyrðu þeir þá brak og bresti og þúnga dýnki, sem tröll geingi. Þá mælti Gauti: nú mun bezt að standa á fætur og fagna húsbúanda; þeir gjörðu so, og sáu út um dyrnar, hvar maður kemur, hann var so hár, sem fjall, og digur að því skapi; hann hafði stóra kryppu á miðju baki, sem stóru keraldi væri á hann hvolft, hann var með lángt nef með stórum hnút á miðju, augu hans voru sem stöðuvatn, eyru hans sem hellisskúti, en kjapturinn sem gljúfragjá, með úlfgrátt skegg, sem náði allt á bríngu, annar vánginn var sótrauður, en annar svartur sem bik, og gljáði á andlit hans, hendur hans voru sem griðúngskrof, og beygdust allar neglur fyrir góma, og að öllu var hann hinn leiðinlegasti, hann hafði stálhúfu á höfði, og gekk við járnstaf. Þá mælti Gauti: slíkan fjanda hef eg aldrei sèð um mína daga; í þessu kom karlinn til þeirra. Þá mælti Albert: hver er þessa hinn mikli maður, fallegi og kurteisi, og hvert er nafn yðar, náðugi herra? Karlinn varð lèttbrýndur og mælti: aldrei hef eg verið soleiðis kvaddur fyrri, og muntu vera hinn bezti dreingur, og skal það allt til reiðu, sem þú vilt hjá mèr hafa; en eg heiti Margvís. Þá mælti Albert: það vildi eg, að þèr væruð eins vísir, og þèr heitið. Karl mælti: ei muntu að fleiru spyrja, en eg get úr leyst. Tók Albert þá gullhríng, sem stóð mörk, og gaf karli. Hann tók við, og varð innilega glaður og sagði: Seint mun launað verða, og lèt þá báða gánga í skálann og fèkk þeim sæmilegt sæti. Þa tók karlinn til orða: ekki þarf eg ykkur að nafni að spyrja, eg þekki ykkur báða: heitir annar Albert, en annar Gauti, og eruð þið fjórir fóstbræður, og heita hinir Þorgrímur og Grani, og eruð þið allir vaskir menn. Þá mælti Gauti: hvaða land er það, sem við erum aðkomnir? Karl mælti: þið eruð komnir að Asía, og ræður hèr fyrir sá kóngur, er Hróar heitir, hann á dóttur væna og fríða, og finnst hennar varla líki bæði að vísdómi, fríðleika og kurteisi, og heitir Íngibjörg. Hún á skuggsjá þá, sem hún má sjá um allan heiminn, lika á hún fóstru, sem er full galdra og forneskju. Kóngsdóttir bað fóstru sína að koma Þorgrími á sinn fund, og gjörði hún þetta veður, því hún vill Þorgrím eiga, og skuluð þið nú fara að hitta fóstbræður ykkar, og komið þið so allir til mín. Stóðu þeir þá upp, og lèttu ei ferðum, fyr en þeir fundu menn sína, og sögðu allt, sem farið hafði. Fóru þeir þá allir fjórir fóstbræður og fundu karlinn, Margvís. Hann fagnaði þeim vel, og leiddi þá til sætis, og bar fram sæmilegustu rètti, og bað gesti sína taka til matar, og so gjörðu þeir. En að endaðri máltíðinni gaf Þorgrímur karlinum 12 merkur af gulla, Grani 10, Gauti og Albert sínar 9 merkur hvor; varð nú karlinn so kátur, að hann lèk við hvern sinn fingur. Þorgrímur mælti: það vildi eg, að þú gætir sagt okkur, hvar systir Grana er niður komin. Karlinn mælti: það vil eg gjöra, því mèr er þar um alkunnugt. Fyrir Jötunheimum ræður risi sá, er Hörður heitir, hann stýrir 100 flögðum, hann á tvo sonu, heitir annar Sóti, en annar Sámur, og eru þeir og allt það hyski hin vestu tröll, og reisir einginn rönd við þeim. Þeir tóku systur Grana, og ætlar Sóti að eiga hana, en Sámur hefur feingið dóttur kóngsins af Úngaríalandi, er Sólrún heitir, en faðir hennar heitir Uggi, og er hann mjög sorgbitinn eptir dóttur sína. Eru þær báðar píndar og neyddar til að eiga risana; en þær vilja það með eingu móti. Ætla þeir að eiga þær nauðugar. Þá mælti Grani: gef þú oss góð ráð að ná systur minni. Þá mælti karl: til þess hafið þið allir unnið, þó eg hjálpaði, ef eg gæti, og er það mitt fyrste ráð, að þið haldið ykkar skipaflota inn á meginhöfn kóngs, og kastið þar akkerum. Kóngur mun ykkar til borgar bjóða, og það skuluð þið þiggja; þá mun kóngsdóttir koma til hallarinnar, þvi hún mun vilja sjá Þorgrím. Og er mitt ráð, að þú biðjir Íngibjargar kóngsdóttur, og mun það vel gánga, og þú færð henni aungva fremri. Mun hún og fóstra hennar leggja góð ráð til ferðarinnar, og mun ei af veita. Kóngur á dreka, sem er hin mesta gersemi, og er dvergasmíði, og hefur byr hvort sem vill, þú skalt biðja kóng um skip þetta, og ekki skaltu fara með fleiri skip í ferðina, og getur allt ykkar lið verið á drekanum; en eg mun koma, áður en þið farið af landi, því eg ætla að verða stýrimaður hjá ykkur, því þið munuð ekki rata, en ekki gjöri eg annað til gagns. Þeir þökkuðu honum sínar tillögur, skildu síðan við karl með hinni mestu blíðu, fundu menn sína og urðu þeir þeim stórlega fegnir. Síðan hèldu þeir skipum sínum til hafnar kóngs, og þá hann vissi, hverjir þeir vora, bauð hann þeim til borgar með allt sitt lið, og það þáðu þeir. Gekk kóngur út á móti þeim með alls kyns prakt, og leiddi þá í höllina, setur Þorgrím hið næsta sèr, og hina fóstbræður þar út í frá; reis þar opp veizla með alls kyns gleði og glaum. Þá veizlan stóð sem hæst, tók Þorgrímur til orða: það er oss flutt, kóngur, að þèr eigið dóttur þá, er Íngibjörg heitir, og er það erindi mitt híngað, að biðja hennar mèr til konu, sje það eigi yður í móti. Kóngur mælti: heyrt hef eg þín getið og frægðar þinnar, og mun eg þèr ei frá vísa, ef hún sjálf vill. En þegar þeir voru að tala um þetta, kom kóngsdóttir í höllina með allan sinn meyjaskara, og var sem öll höllin ljómaði af þeim gimsteinum, er hún var skrydd með. Stóðu allir upp og heilsuðu henni hæversklega, hún tok því með blíðu; var henni feingin stóll gimsteinum settur að sitja á. Stóð Þorgrímur þá opp og vekur bónorð við hana, og segist hafa heyrt svör föður hennar, og vil eg nú heyra yðar annsvar. Var það auðsótt, svo hann fastnaði hana. Þá mælti Þorgrímur við hana: eg vil fá að tala við yður í nótt, en hún sagði já til, og sagðist skyldi senda honum þernu sína, so hann rataði; þetta mátti einginn heyra. Að endaðri veizlunni um kvöldið, var öllum til sængur fylgt, stóð þá Þorgrímur á fætur, og fór til kastalá kóngsdóttur. Tók hún á móti honum báðum höndum, og var hann hjá henni um nóttina í góðu yfirlæti. Þorgrímur bað hana, að hún vildi leggja ráð á að nú systur Grana. Þá mælti kóngsdóttir: þar til verð eg að fá fulltíngi fóstru minnar, og veit hún á mörgu skil, og skal eg finna hana; en þið munuð verða fullreyndir, áður en þið hafið unnið allt það hyski. Tók hún þá upp skuggsjá, og sýndi honum mörg lönd, einninn Sám og Sóta og allt það hyski, er þar var saman komið, og þótti Þorgrími það yfrið ljótt. Hèr eptir fór Þorgrímur til manna sinna, en kóngsdóttir fór til fóstru sinnar, og sátu þær leingi á tali. Þar eptir fann hún Þorgrím og sagði honum, að fóstra sín mundi honum eitthvert lið veita; skaltu nú biðja föður minn um drekann hinn góða, og getur þú verið á honum með alla þína menn. Síðan kvaddi Þorgrímur jómfrúna, og gekk í höll fyrir kóng. Var kóngur þá undir borð kominn, fagnar hann Þorgrími vel. Þorgrímur mælti: nú vil eg biðja yður að lána mèr skip yðar, drekann góða. Kóngur sagði hann skyldi strax til reiðu. Bjuggu þeir sig síðan til ferðar, kvöddu kóng og dóttur hans og hèldu til skipa. En þá þeir voru á miðja leið komnir, mætti þeim gammur nokkuð stór, og settist niður hjá Þorgrími. Þóktist hann þá vita, að það mundi vera kerling, fóstra kóngsdóttur. Bað hann menn sína gánga á fram, og svo gjörðu þeir, en þá hann var einn eptir, gekk gömul kona úr hamnum, og mælti: þú hefur kosið mig til liðs við þig, sem eg er ófær til, en hèr er posi, sem eg gef þèr, og þá þú kemur í flagðahellir, skaltu hrista úr honum í móti tröllunum, en liggi þèr mikið á, skaltu nefna mig. Kvöddust þau síðan, og fór Þorgrímur til manna sinna, var þar komin karlinn, Margvís, steig Þorgrímur á skip, og lètu í haf. Feingu hinn bezta byr; en karlinn stýrði. Og þá þeir höfðu nokkra stund á fram haldið, kom á þá svo mikið myrkur, að einginn sá annan með ofsaveðri, eldglæðíngum og sjáfargángi. Karl bað þá að þessu aungan gaum gefa. Segir ekki af ferðum þeirra, fyr en þeir komu til Jötunheima, og köstuðu þar akkerum. Var nú strax búizt til orustu, því þeir sáu fjölda trölla koma af landi ofan. Hófst þar hin grimmasta orusta; geingu þeir fóstbræður vel fram, en Sóti og Sámur snèru í móti þeim. Tók Þorgrímur upp posa kerlingar, og sáði í móti tröllaliði, brá þeim svo við, að hver fór að berja annan og drepa sína landa, utan þeir bræður. En karlinn, Margvís, deyfði galdra og fjölkyngi þussa; lauk svo orustuni, að allir fèllu, utan ein flagðkona, og gaf Þorgrímur henni líf. En er karlinn, Margvís, sá hana, vildi hann eiga hana, og varð það að ráðum þeirra fóstbræðra, að hann átti hana. Fóru þeir nú fóstbræður að finna jómfrúrnar, voru þær illa á sig komnar, og varð þar mikill fagnaðar fundur, marga fásèna gripi fundu þeir í flagðahellir, en allt annað góz og land, sem þar var, gáfu þeir karlinum, Margvís. Skildu so við hann með hinni mestu blíðu, hèldu síðan til baka, og fundu Hróar kóng í Asía og dóttur hans, og urðu þau þeim stórlega fegin, var þá búizt við brúðkaupsveizlu. Gekk Þorgrímur að eiga kóngsdóttur, en Gauti bað systur Grana, og skyldu bæði brúðkaupin vera í einu, var til þessarar veizlu boðið öllu stórmenni landsins, var sú veizla hin bezta, og skorti þar aunga gleði; rugguðu borðgestir kolli af ölværð og gleði. Stóð veizlan í heilan mánuð, og að endaðri veizlunni voru allir útleystir með góðum gjöfum. Hèldu þeir fóstbræður þaðan. Fóru þeir Þorgrímur og Gauti með konur sínar, skildu þeir við kóng með hinni mestu blíðu. Albert vildi þá finna festarmeyju sína, hèldu þeir so að Hálogalandi, var kóngur þá nýdauður. Silfa varð Albert stórlega fegin, var þá strax við brúðkaupi búizt, og stórmenni boðið úr landinu. Stóð veizlan í heilan mánuð, gaf Albert öllum góðar gjafir. Þá mælti Grani: nú vil eg sigla að Úngaríalandi með kóngsdóttur. Þá mælti Þorgrímur: Albert hlýtur hèr aptir að vera, og er það mitt ráð, að hann sè til kóngs tekinn, og var so gjört að landslýðsins vilja. Síðan tok hann föður sinn til sín, og gaf honum lèn í ríki sínu. No fóru þeir fóstbræður af stað, og skildu við Albert með blíðu, og báðu hvorir vel fyrir öðrum, og endarnýuðu heit sín að hefna hvor annars. Hèldu þeir fóstbræður nú úr landi og gafst þeim vel byr að Úngaríalandi; lögðu að meginhöfn, og köstuðu akkerum. Kóngur sendi á fund þeirra fóstbræðra að vita, hvort þeir væri fríðmenn. En þeir kvádust þar aungan ófrið sýna mundu. Bauð kóngur þeim þá til veizlu með so miklu liði, sem þeir vildu. Fóru þeir nú heim til hallar, en lètu kóngsdóttur eptir í tjöldum. Kóngur fagnaði þeim með hinni mestu blíðu, og reis þar upp hin dýrðlegasta veizla. Þá spurðu þeir fóstbræður kóng, hvort hann ætti eingin börn; kóngur sagði, að hann hefði átt eína dóttur, sem hefði horfið, og vissi einginn, hvað af hefði orðið, og væri nokkur ár síðan. Þá sögðu þeir: hvers munði sá eiga að vænta, sem færði yður dóttur yðar lifandi. Þá mælti kóngur: væri sá maður nokkur, sem það gæti, skyldi hann fá so mikið gull og silfur, sem hann vildi af mèr þiggja, þar með skyldi hann sèr sjálfum til góðs vinna, og eiga hana, ef hann vildi. Þá senda þeir fóstbræður eptir henni, var hún þá leidd til hallar, þekkti kóngur dóttur sína, og varð þar meiri fagnaðarfundur, en frá megi segja, hóf þá Grani bónorð sitt til hennar; var það óðara já, og var þá búizt við virðuglegri veizlu. Sögðu þeir nú frá öllum herferðum sínum, og hvernig þeir hefðu náð kóngsdætrunum í Jötunheimum; þókti kongi mikið vert um frækleik þeirra og hreysti. Stóð þessi veizla í hálfan mánuð með prís og sóma. Gaf kóngur öllum góðar gjafir; þeir fóstbræður vildu þá vitja eigna sinna. Leysti kóngur út mund dóttur sinnar í gulli og silfri. Þorgrímur sigldi síðan heim í sitt land, og Gauti í sitt land, og varð kóngur þar, eptir föður sinn, og styrði því til dauðadags. Hann átti þann son, er Hámundur hèt, sem varð mesti hreystimaður. Gauti fór og í sitt land, var faðir hans þá dauður, tók Grani þar kóngdóm; hann átti 2 börn, hèt sonur hans Þorgrímur, en Signý dóttir. Þorgrímur átti og son, sem Grani nefndist; stýrði hann ríki sínu til ellidaga. Albert átti og son, sem Arnviður nefndist; lögðust allir þessir úngu menn í hernað, og bundu fóstbræðralag, og gáfu feðrum sínum ekki eptir í hreystiverkum, og var það líkt og þeir væru apturkomnir. Hèldu þessir allir trúskap til dauðadags ásamt feðrum þeirra, sem aldrei slítu tryggð sína. Og lúkum vèr so sögunni.