Sagan af Valdimar kóngi

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Riddarasögur


Fjórar

Riddarasögur


Útgefnar

af

H. Erlendssyni og E. Þórðarsyni

Reykjavík 1852


Sagan af Valdimar kóngi


1. Kapítuli.

Filippus hefur kóngur heitið, hann rèð fyrir Saxlandi; hann átti ágæta drottníngu, sem Íngibjörg hèt, hún var dóttir Sigurðar kóngs af Pólen. Kóngur hafði verið mesti hermaður og fimur á allar iþróttir; nú var hann hniginn á efra aldur, er saga þessi gjörðist. Kóngur og drottníng áttu 2 börn; sonur hans hèt Valdimar, en Marmaría dóttir. Valdimar var mikill að vexti og sterkur að afli; einginn maður í því landi komst til jafns við hann að iþróttum, og þó víðar væri leitað, og svo fimur við allslags turniment, að einginn fannst hans jafníngi; þar með hafði hann lært flestar túngur að tala og flestar bóklegar listir. Með sama móti var hans systir prýdd öllum kvennlegum listum. Nú uxu þessi systkini upp með sóma og eptirlæti, sem veröldin veita kunni. Þá Valdimar hafði feingið fullan þroska og styrkleika, þá stofnaði hann eitt mikið turniment úr öllum þeim ríkjum, sem faðir hans átti yfir að ráða, til að reyna við sig íþróttir.


2. Kapítuli.

Þann dag, er turnimentið átti að reynast, geingur Marmaría kóngsdóttir út með öllum sínum skemmumeyjum, að sjá á leikinn. Valdimar lèt 2 í senn til jarðar falla og feingu sumir bráðan bana. Marmaría gladdist mjög af síns bróður hreysti og framaverkum. Nú með því öll stundleg gleði líður fljótlega, þá bar það til rauna, að dró upp svartan skýflóka úr útnorðri, og fylgði því mikið myrkur, so byrgði heiðan himin. Eptir lítinn tíma varð so myrkt, að einginn gat neitt sèð; af þessu urðu allir hræddir. Hèr næst heyrðu þeir geisilegan gný, og þeim sýndist, sem allt lèki í loga. Úr þessum loga sáu þeir fljúga ferlegan dreka, snúandi þángað, sem Marmaría situr, grípandi hana með sínum klóm; flýgur hann so með hana og stólinn í lopt upp. Litlu síðar hvarf allur sorti, og skein þá sol í heiði. Við þennan atburð urðu allir borgarmenn sorgandi af burthvarfi kóngsdóttur, einkanlega foreldrar hennar og bróðir. Einn dag þar eptir, er kóngur sat undir borðum, mælti kóngsson: þess streingi eg heit, að eg skal leita eptir systur minni. Við þessa ræðu varð kóngur harla hryggur og allur borgarlýður. Kvað kóngur sig so gott sem misst hafa bæði börn sín. Annan dag eptir var kongsson snemma á fótum, og klæðir sig kurteislega, var þá framleiddur hans góði hestur; tók hann síðan orðlof af föður sínum. Fèll kóngi þúngt skilnaður þeirra, og so öllum í borginni. Nú reið Valdimar kóngsson á merkur og skóga og hafði aungan svein; neytti hann hvorki svefns nè matar í fjóra daga. En að kvöldi þess fimmta dags kemur hann í eitt rjóður, var hann þá bæði svefns og matar þurfi. Settist hann þá undir eina stóra eik; leið þá á hann svefnhöfgi, sýndist honum þá að sèr koma yfirmáta stór kona, og mælti við hann í skimpi: mèr sýnist, sem Valdimar kóngsson af Saxlandi liggi hèr, sem umkomulítill fjárhirðir; eða ætlar þú að sækja systur þína? Hann segir já. Hún mælti þá: það tekst þèr aldrei, þó allur Saxalýður fylgði þèr; sýnist mèr þú heldur vesallegur og lítt á fætur kominn, og seg mèr í stað, hvort þú kýs mig í fylgð með þèr, eða ei. Væri nú meiri dreingskapur að hjálpa þèr, þar þú ert í nauðum staddur. Hann lítur til hennar, og sýnist honum hún heldur stórmannleg, en eigi so óásjáleg, sem hún var stór. Hann mælti þá: sannlega vil eg þínu liði játa. Hún mælti: það er mitt fyrsta ráð, ef nokkur kemur á veg fyrir þig og býður þèr fylgð sína, skaltu því ei neita; en þá er þú vaknar, þá gæt vel að þíngum þessum, er eg legg undir höfuð þèr, sem er einn dúkur og diskur innan í og ein kanna með víni, sem einum kóngssyni sómir vel að eta og drekka. En vara þig á, að ljúka aldrei hvorugu, því þá er jafnmikið eptir, þá þú átt til að taka seinna.


3. Kapítuli.

Nú vaknar Valdimar kóngsson, og sèr dúkinn og könnuna, og sèr, að allt var, eins og honum var sagt. Etur hann nú og drekkur eptir þörfum, og sannast á honum máltækið, að „fullir kunna flest ráð“. Tók hann þá á sig náðir, og eptir það hann hafði leingi sofið, stendur hann upp, stökkur á bak hesti sínum, og ríður fram á mörkina. En þá hann kemur fram af henni, mætir honum maður; hann var lágur vexti, með kollhúfu á höfði, hann heilsar kóngssyni með nafni. Valdimar tekur kveðju hans, og spyr hann að heiti. Hann svarar: nafn mitt segi eg ei, en hins spyr eg: hvort þú vilt mín ráð og þjónustu hafa. Kóngsson svarar: hafa skal eg það ráð, er mèr var kennt, og vil eg þitt fylgi hafa. Þá skaltu þar á eptir fara, er eg fer á undan; því eg mun ráða ferðum, en þú ekki. Kóngsson gjörir nú so. Snúa þeir á skóginn, og fara þann dag allan til kvölds. Eru þeir þá komnir undir eitt bjarg furðu mikið. Kóngsson stígur þá af baki hesti sínum, en Kollur leiðir hann á haga. Valdimar leggst síðan til svefns, og þá hann hefur sofið um hríð, vaknar hann við fagran hörpu slátt, svo hann þóktist aldrei þvílikan heyrt hafa; honum heyrist hljóðið nálgast. Stendur kóngsson þá upp og litast um; sèr hann þá helli stóran og víðan, hann geingur inn um dyrnar og kemur þar að einum stað, sem hurð var greypt í bergið og vel um búið. Þar sá hann sitja eina konu væna og forkunnar vel búna, hún greiðir hárið frá augunum, þá hún sèr manninn, það var svo sítt, að hún mátti nálega hylja sig alla með því. Harpa stóð hjá henni gulli búin. Valdimar spyr hana að nafni. En hún kvaðst Alba heita; en eg veit, hvað þú heitir, og ertu sonur Filippusar, kóngs af Saxlandi, og í þeirri ætlan að efna heitstreingíng þína, og vit fyrir víst, að ef þú ert ekki burt úr helli mínum, áður en faðir minn kemur, þá færð þú ekki sókt systur þína. Kóngsson svarar: þó eg vissi minn bráðan bana, þá skyldi eg ekki forláta þetta herbergi; segir mèr so hugur um, að eg muni af þèr nokkra farsæld hljóta. Síðan settist hann niður hjá henni, og talaði margt við hana allt til nætur. En að degi liðnum heyrði kóngsson bresti mikla, so hellirinn skalf undir, líka heyrði hann ógurleg hljóð. Þessi kona stendur skjótt upp, og heilsar blíðlega föður sínum, so talandi: með því, minn kæri faðir, að yðar vísdómur er so mikill, að allir góðir menn hafa traust á yður, og einginn er sá hlutur, sem yður kemur á óvart, það annað, þá móðir mín var útborin, játuðuð þèr mèr eina bæn, því bið eg yður að reiðast ei mínu tiltæki. Hèr er kommin Valdimar kóngsson af Saxlandi, og er mjög ráðþurfi, vildi eg hann væri hèr um tíma, kynni hann að ná meiri þroska. Risinn tók þá dóttur sína í fáng sèr og mælti: þegar eg veit þína elska til þessa manns, þá má eg þèr einskis neita; þyki mèr vorkun, þó þèr þyki lángt í helli vorum. Far nú og sýn mèr kóngsson; hún gjörir svo, tekur í hönd honum, og leiðir fyrir föðar sinn. Risinn tók Valdimar og setti á knè sèr, og kastaði honum í lopt upp, sem annari völu, og mælti: aldrei sá eg vænna skeggbarn jafnlítið. Risadóttir mælti: ei veit eg, faðir, hvort kóngssyni hentar þessi leikur; tók hún þá í hönd honum, og leiddi í helli sinn; var þar ljos kveikt og borð upptekið, komu þar fram vænir diskar með dýrum rèttum. Sátu þau Valdimar og risadóttir við eitt borð með góðri skemmtan. En sem þau höfðu máltið endað, mælti risadóttir: hvort viltu, kóngsson, liggja einn, eða hjá mèr? Hann mælti: það hef eg einráðið að liggja ei annarstaðar en hjá þèr, meðan eg á þess kost, og aldrei við þig skilja, þar eg skil, að minn frami mun einginn verða, utan eg njóti þinna ráða. Líkaði risadóttur hið bezta svar hans. Það er sagt, að kóngsson hafi verið tvo vetur hjá risadóttur, og hann hafi unað þar bezt hag sínum á æfi sinni. Að þessum tíma liðnum lága þau í sæng sinni. Einn morgun þá mælti hún: hverja fyrirhugsan hefur þú á ráði þínu, eða ætlar þú eingin önnur framaverk að vinna, utan skemmta þèr við mig, eða manstu ei heitstreingíng þína? þennan dag skaltu við mig skilja. Kóngson stendur upp, og gánga síðan til borðs, og þá þau höfða máltið endað, var dyrum upphrundið; gekk þá risinn inn, og tók í hönd kóngssyni, og leiddi hann út. Risadóttir gekk þar eptir, þeir geingu til sjáfarstranda, þar stóð mikið bjarg, settist þá risinn niður og tok til orða: Hver er ætlan þín, dóttir, með þennan mann, er þú hefur að þèr tekið? Og er það mitt ráð, að þú launir honum skemmtan og góðvild þá, er hann hefur þèr lángan tima veitt. Risadóttir mælti: þar eru öll ráðin, sem þú ert faðir; því þú hefur játað að gjöra minn viljá. Bið eg þig nú, minn góði faðir, að þú leggir allan manndóm á að hjálpa þessum manni, að hann megi koma fram heitstreingíng sinni. Risinn mælti: nú skuluð þið hlýða, en eg mun frá segja.


4. Kapítuli.

Fyrir Risalandi ræðar kóngur sá, er Arkistratus heitir, hann átti sèr drottníngu þá, er Kanríta hèt; hún var dóttir Sigurðar kóngs af Tartaría; þau átta tvo börn: son hans hèt Bláus, en Flórída dóttir; þau uxu upp í miklum heiðri, bæði voru þau fríð og að öllum listum búin. Meira brá þeim til móður en föður ættar. Þá hún var 12 ára, en hann 11 ára, tók moður þeirra sótt og andaðist. Harmaði kóngur hana mjög og allur landslýður, höfðu og börn hennar meiri sorg, en frá megi segja. Arkistratus undi síðan illa hag sínum. Það var einn dag, að kóngur reið á skóg til dýraveiða með hirð sina, var þá fagurt veður. Að liðnum degi sló yfir þoku mikilli, so kóngur og menn hans vissu ei, hvar þeir voru. Nú sem náttaði, voru þeir komnir í einn dal. Bað kóngur þá menn sína af baki stíga, voru þar fagrir vellir. Nú sjá þeir, hvar ríður mannflokkur mikill. Þetta folk var líkara tröllum en mönnum, þar var ein kona höfðíngi þeirrar ferðar, menn hennar taka hana af baki, og leiða hana fyrir kóng, og heilsuðust þau kurteislega. Þá mælti hon til kóngs: það er ráð, Arkistratus kóngur, að liggja ekki undir berum himni, sakir margra skæðra villudýra, far heldur til vorra herbergja, þó þau sèu óríkmannleg. Þetta bóð þiggur kongur og öll hirðin, og ríða, þar til þeir koma að einum kastala mjög stórum. Frúin geingur að kóngi, og leiðir hann í fagra höll. Kóngur spyr hana að nafni. En hún kvaðst Lúpa heita, en ætt mína mun eg síðar segja, og gángið til borða. Var nú skipað kóngs mönnum í sæti. Ris þar upp virðugleg veizla. Tala þau margt saman, kóngur og Lúpa; falla honum frúarinnar orð vel í skap, var allt formannlegt hennar athæfi, var síðan geingið til svefns. Annan dag eptir lýkur frúin upp fjárhirzlum sínum, og sýnir kóngi og hirð hans. Sjá þeir, að þar var so mikill auður, að furðu gegndi, og ei hægt frá að skýra eignum hennar. Kóngur hóf nú bónorð sitt til hennar, en hún og hennar taka því vel, og varð það endir þessa máls, að kóngur fastnaði þessa kona. Ríður nú allur þessi skari til höfuðborgarinnar, og lætur kóngur strax búast við veglegu brúðkaupi, og er til boðið öllu stórmenni innan lands. Börn kóngs, Bláus og Flórída, urða mjög hrygg við þessa atburði. Byrjast síðan brúðkaupið með mesta sóma, er verða mátti. Var þar áfeingur drykkur á borðum, og gjörðust borðgestir ölvaðir. Skorti þá ekki glaum nè gleði í höllinni. Veizlan stóð í hálfan mánuð; og að henni endaðri leysti kóngur alla höfiðíngjana út með stórgjöfum. Eptir þetta tekur drottníng við ríkisráðum með kóngi, mátti þá strax sjá, að hún var stjórnsöm og ríklunduð: lèt hún marga handhöggva, fótbrjóta eða drepa, er í móti hennar skapi gjörðu. Kóngs börn undu illa við hag sinn, og byrgðu sig inni í kastala sínum. Einn dag gekk Lúpa drottníng í turn þeirra systkina. En þau stóðu bæði upp í móti henni, og fögnuðu henni meira af ótta en elsku til hennar. Lúpa segir þá, hvort viljið þið nú heldur ýfast víð mig, eða við bindum vináttu okkar saman með ást og alúð? og segið nú í stað, hvorn kostinn þið kjósið. Þau svara bæði af ótta miklum, að þau vilji hana í móður stað hafa. Lúpa mælti: þá vildi eg, að ykkur yrði ekki mein að minni hèrkomu, ef þíð haldið ykkar orð við mig. Kveður hún þau so með blíðu. Stýrði nú Lúpa ríkinu og magnaðist í miklum trölldóm: brást hún í ýmsra kvikinda líki; fór hún so um mörg lönd; hún á einn ham, í honum sókti hún systur þína, og situr hún í túrninum hjá Flórídu og bróður hennar, og sókti Lúpa hana handa Bláusi, og vill Lúpa, að brúðkaup þeirra verði sem fyrst; en Bláus vill það ei, fyr en kóngsdóttir er því samþykk orðin.


5. Kapítuli.

Nú hef eg sagt þèr, hvert þú skalt leita að systur þinni, og vænti eg, að þú sert að aungu nær. Risinn stendur upp, og hleypur að bergina og knýr fast á. Í þessu spratt opp bergið og geingur þar út kona so ljót og leiðinleg, fúl og fjandleg, að undrum gegndi: hún var í skorpnum skinnstakki, hún var höfði hærri en risinn. Hann mælti: hèr er kominn sonur Saxakóngs, Valdimar að nafni, og sækir traust að mèr að vinna heitstreingíng sína, að finna sína systur; en þar er allt mitt traust, sem þú ert. Kerlíng mælti: mikið er það, að kóngabórn sækja traust til þín, eða mun honum það mikið gagna, þó hann einn beri skjöld og sverð. Risadóttir lagði þá hendur um hals henni, og segir so: mín allra kærasta amma og fóstra, minnstu þess, að móður mín fèkk mig þèr í hendur, áður en hún dó, að þú skyldir minn vilja gjöra: nú bið eg þig, mín elsku-fóstra, að þú leggir allan húg á að hjálpa þessum manni, so hann nái heiðri sínum; þykir mèr hèr mikið við liggja. Kerlíng stendur þá upp, og blæs þúngan og mælti: sannast hèr það fornkveðna, að „una mundir þú, ef ættir“, og hefur þú meiri góðkvenzku af móður þinni en mèr. Kerlíng geingur þá inn í bergið, og kemur aptur með eitt horn, og bað kóngsson að drekka af því. Hann tók við og drakk, honum fannst þá, sem afl færðist í búk sinn. Risadóttir hleypur þá á kóngsson og glíma þau heldur sterklega; kerlíng hlær þá og mælti: of snemma fórstu að heiman, ljúfurinn minn, að fast við kvennfólkið, og vera ekki kvennsterkur, og drekk í annað sinn, vesalíngur, því mikið skortir þig á við risa og Lúpu drottníngu. Drakk hann þá í annað sína af horninu; hljóp þá risadóttir á hann, og fèll hún strax á knè. Kerlíng segir þeim þá að hætta. Sjá þau þá, að maður kemur af skóginum; kennir kóngsson félaga sinn, Koll. Verður þar fagnaðarfundur, risinn fagnar syni sínum, en risadóttir bróður sínum.


6. Kapítuli.

Þá segir kerlíng við Koll: farðu til strandar og ýttu fram steinnökkva mínum. Hann kvað so vera skyldi; þar næst mælti kerlíng til kóngasonar: hèr er eitt tafl, er eg vil gefa þèr, þar með vil eg fylgja þèr í öllum þínum þrautum og stríði, því frændkonu minni mun ei vel líka, ef nokkuð er út af brugðið um liðveizluna; en undur þykja mèr það, er hún sparer þann hlut við þig, er hún á beztan í eigu sinni, og hún fèkk á Ormalandi, ef hún ann þèr so mikið, sem hún lætur. Risadóttir heyrði þáð og mælti: þó eg ætti allt það gull, sem til er í Arabia, þá skyldi honum það ei sparað verða; tekur hún þá upp eitt gler og mælti: þetta gef eg þèr. Það var með gulum og grænum lit, og sagði síðan, líti maður í gula lítinn, þá sýnist maður hverjum manni fegri, og getur sýnzt stór og smár; en líti maður í græna litinn, verður maður hverjum manni ljótari og svartari. Kóngsson þakkar þeim báðum gjafirnar méð mörgum fögrum orðum. Nú segir kerlíng til Kolls: hèr er posi, er eg vil fá þèr í hendur, og hlægir mig, að eg hygg það muni sljófga augu Lúpu á þeim hlutum, sem því er yfirdreift. Siðan kvaddi kóngsson og Kollur þau öll með mesta blíðskap, og bað hvað vel fyrir öðru. Geingu þeir Valdimar og Kollur á steinnökkvann, og ýttu frá landi. Þeir voru á sjo í 12 dægur, og höfðu ei segl nè árar, komu síðan að landi, og gánga þar upp, hrindir þá Kollur steinnökkvanum út, biður hann fara til síns lands aptur. Kóngsson stè nú á hest, og reið so á mörkina, en Kollur gekk á undan, voru þeir á þessari ferð í sjö dægur. Þar var skógur næsta fagur, þar reisti Kollur laufskála lítinn í rjóðri einu, tekur síðan punginn og dreifir umhverfis skálann, líka á búk og ásjánu sína, hlær og mælti: so sagði flagðið, föðurmóður mín, að ei væri gott fyrir augu Lúpu drottníngar, ef sáð væri ur þessum pung, og er það sannast, að þar finnur fjandinn móður sína, er þær eigast við. Muntu nú kóngsson hèr eptir verða í þessum laufskála, en eg mun leita fyrir mèr annarstaðar.


7. Kapítuli.

Þar er nú til að taka einn góðan veðurdag sem þær kóngadæturnar, Marmaría og Flórída, sjá út um einn glugga á túrninum, hvar einn smásveinn leikur á hörpu, aldrei höfðu þær heyrt þvílíkan streingleik. Brugðu nú kóngadæturnar við, og geingu ofan úr túrninum í garðinn, og sem þær komu þar, fýsast þær að gánga á hljóðið, en leikurinn líður á undan. Lèttu þær ei, fyr en þær eru komnar í einn skóg, lángt frá borginni. Sjá þær nú hvergi hörpusveininn, dregur nú yfir svarta þoku, so þær rötuðu hvergi; setjast þær nú niður undir einni eik. Þá sjá þær gánga fríða konu, hún var í bláum kyrtli, og hafði möttul rauðan á herðum; þessi kona heilsar þeim með nafni og segir: undarlega og óviturlega farið þið, og gegndi ykkur betur að vera heima, eða viljið þið nú fara með mèr að sinni? Þær kváðust hennar forsjá fylgja mundu. Geingu þær nú þar til, að fyrir þeim verður eitt rjóður, í rjóðrinu stóð einn lundur, þessi kona lyptir upp lundinum, og var þar undir jarðhús eitt, þar geingu þær niður. Þetta herbergi var vel innan búið, með glæsilegum gluggum og nýjum tjöldum, setjast þær þar niður, en konan hverfur þeim. Nú er þar frá að segja; að Kollur kemur heim í laufskálann til kóngssonar, og biður hann með ser gánga. Síðan fara þeir í fyr greint rjóður, og gánga niður í húsið undir lundinum; varð þar mikill fagnaðarfundur með þeim systkinum, frú Flórída spyr, hver að væri sá mikli maður, er ólíkur væri öðrum mönnum. Marmaría sagði það væri sinn kæri bróðir, Valdimar; era þau nú öll saman í laufskálanum, og una sèr vel. Þau Valdimar og Flórída sátu einn dag að tafli, fann hann, að hún blès mæðilega; hann spyr hana að, hvað henni sè að ángri. Hún mælti: það ángrar mig, að Bláus, bróður minn, er hjá Lúpu drottníngu, en eg veit, hann ángrar stórum mitt burthvarf. Kóngsson mælti: eg skal allt til vinna, að yðar vilji verði framkvæmdur til bezta, og mælti við Koll: þú skalt fara til borgar og vita, hvað þar er títt.


8. Kapítuli.

Þar er nú til að taka, að í borginni frèttist burthvarf meyjanna, var þeirra leitað á sjó og landi, og fundust hvergi. Bláus bar sig so lítt, að hann neytti hvorki svefns nè matar. Einn dag geingur Lúpa drottníng á þíng með kóngi og hirðinni, so mælandi: það er nú tíðinda að segja, að Valdimar, kóngsson af Saxlandi, er hèr við land kominn, hann hefur verið tvo vetur hjá Asper risa, og legið hjá dóttur hans, er Alba heitir; hann á moður þá, er Ígra heitir, hverju trölli argari í veröldinni, sonur risa heitir Nekis; allir þessir menn eru komnir hèr í land, og hafa ginnt í burtu frúr vorar. Hef eg farið víða um þetta land; er hèr einn skógur skammt burtu, ser þau byggja í. En so hefur flagðið, Ígra, villt fyrir mèr sjónir, að þá byggð ma eg ekki finna.


9. Kapítuli.

Einn dag riður Bláus kóngsson út á skóg að skemmta sèr, og sem hann hefur riðið um skoginn, heyrir hann hörpuslátt fagran. Ser hann, hvar piltur einn leikur á hörpu, hann ríður þangað, og spyr hann að nafni, eða áttu hljóðfæri þetta? Pilturinn mælti: ekki segi eg þèr nafn mitt, en hörpuna á eg. Viltu þá gefa mèr hana eða leggja hana af með öðra móti, segir kóngsson? Grip þennan legg eg af með eingu móti, segir pilturinn. En kom þú á morgun við mig í burtreið, eða þann eg fæ fyrir mig, segir sveinninn; skaltu þá eiga hörpuna, ef þú vinnur þann, er eg til fæ, og af þessum okkar skilmála skaltu aungan láta vita. Sagði Bláus já við þessu, og skilja að so mæltu. Kollur segir Valdimar, að burtreið sè stofnuð með honum og Bláusi, kóngssyni. Sofa þeir so af um nóttina. En um morguninn býst Valdimar til burtreiðar. Frú Flórída gekk að honum so mælandi: veittu mèr þá bæn, er eg vil biðja þig, að þó þú yfirvinnir broður minn í þessari burtreið, þá þyrm honum, og gef honum líf. Valdimar svarar: skylt er það, frú, fyrir yðar bæn. En gull það, er þèr á hendi hafið, bið eg yður að fá mèr til sanninda, að eg gjöri þetta fyrir yðar skuld. Valdimar ríður nú út, en þær voru eptir mjög hugsjukar, hvernig gánga mundi til fyrir kóngasonum. Nú fer Kollur þangað, sem mótið átti að vera, síðan sjá þeir, hvar maður ríður á mótið; hann var fríður, mikill og sterklegur, og kallar þegar hátt, og mælti: ríð fram þú vondi þorpari, eða sá þú sendir í þinn stað. Valdimar riður nú í móti Bláusi, tókst með þeim hin harðasta útreið, so burtsteingur þeirra brotnuðu, tóku þeir þá aðrar sterkari, og sækjast í ákafa. Bláus mælti: þú ert ágætur riddari, eða ertu so búinn að fleirum íþróttum? Valdimar segir, lítið er að því, eða viltu berjast á fæti? Bláus kvað já við því; þeir brugðu þá sverðum og börðust af mikilli ákefð, berast nú sár á hvorntveggja, þó meiri á Bláus. Í þessu hleypur Kollur í milli þeirra, og mælti: manstu ei herra, hvað þú lofaðir Flórída, systur hans? Grípur gullið af hendi hans, og fær Bláusi hrínginn. Þá mælti Bláus: hvaðan kom þèr þessi koparhríngur? Valdimar segir: systir þín gaf mèr hann til merkis, að hún vill hafa þig til sín, og hún hefur játað mèr sinni trú, ef það væri þinn vilji. Bláus mælti: það veit mín trú, að þú ert ágætur riddari, en fyr vil eg vita ætt þína og kynferði, en þú færð systur mína; so skulum við binda okkar bræðralag, og máttu þá játa mèr trú systur þinnar. Kollur mælti: þessi yðar ráð mega takast, eða Valdimar á aunga von minnar liðsemdar eða styrks minna frænda. Kvaðst Valdimar vilja allt so vera láta, sem Kollur mælti. Síðan sagði han Bláusi ætt sína og óðul; bundu þeir síðan bræðralag að fornum sið, og geingu síðan í laufskálann. Frúrnar taka báðum höndum á móti þeim, og verður þar mikill fagnaðarfundur. Sitja þar síðan öll í gleði og góðum náðum.


10. Kapítuli.

Eitt kvöld kemur Kollur seint heim til þeirra. Þeir spyrja hann að tíðindum. Hann segir, að eptir burthvarf Bláusar fylltist Lúpa drottníng mikillar grímmdar og geisilegra galdra. Skar hún herör upp um allt landið, og ætlar að brenna opp skóg þennan og þá, sem hann byggja, og frelsa so landið. Bláus mælti: hvern umbúníng skulum ver nú hafa? Kollur mælti: nú er amma mín komin á allra trölla þíng, og skal hún vera forstjori þeirra, og munu þan bráðlega híngað koma. Má eg nú fara til liðs við þau, því ei mun Ígra vilja, að eg sitji kyr heima. Býr Kollur nú ferð sína, og er í burtu nokkra daga. Nú er að segja þar frá, að Arkistratus kóngur heldur út af borginni með allan sinn her og fram á skóginn. Var í liði hans allslags óþjóða lýður, blámenn og berserkir, fullir trölldóms og fjölkýngis. Fylkti kóngur sjálfur liði sínu. Sama dag kemur Asper risi neðan fra sjónum, mátti þar sjá mörg tröll og jötna, og allags illþýði. Þurfti þar ekki að sökum að spyrja, slo þegar í hinn harðasta bardaga með hrópi og köllum, gjörðist nú gnýr mikill í samkomu þessara óvætta, so jörðin skalf um kríng, og tók undir í hverjum hamri. Gekk nú aköf orusta, og fèll hver um þveran annan. Asper risi geingur hart fram, og fellir fjölda af landsmönnum, rýfur hann alla fylkínguna fram að merki, höggur síðan merkismann banahögg, fellur þá merkið í gras. Þetta getur að lita Arkistratus kóngur, og eirir honum það illa, fylltist hann nú mikillar grimmdarreiði, og snýr á móti Asper risa, hefja þeir sitt einvígi með stórum höggum og sterkum aðgángi, og mátti ekki á milli sjá, hvor sigra mundi, hrukku nú allir þá þeirra aðgángi. Bárust nú sár á báða, börðust þeir allan þennan dag til kvölds, og þóktust aungvir þvílíkan aðgáng sèð hafa. Snèri nú mannfallinu á landsfólkið. En er leið að miðjum degi, sló yfir þoku, flaug þá úr borginni ógurlegur dreki, og breiddust vængir hans ærið vítt út, spjó hann eitri yfir jötna; so þeir fèllu hrönnum saman. Í þessu bili sjá menn, að frá sjó flýgur einn ferlegur gammur, af hvers munni flugu ei minna en tólf örvar í senn, fèllu nú risar hrönnum fyrir þessum óvætti. Það fylgði og með, að jötnar þeir, sem áður voru dauðir, stóðu upp aptur, og börðust í ákafa. Flugu nú drekinn og gammurinn hvor á móti öðrum, byrjast nú millum þeirra dauðlegt stríð, og varð það ógurlegur aðgángur, er þessir óvættir mættust: reif þar hvor annan sundur með klóm og kjöptum. Flóir allur völlurinn í eitri og blóði, hafði einginn þvilík býsn áður sèð, og fèllust flestum hendur og hættu að berjast, og sáu á þennan aðgáng. Um síðir falla þessir óvættir á jörð niður, og er þá drekinn dauður sundurleystur, lið frá lið. En gammurinn flýgur á skóg til laufskála Kolls. Þau koma bæði, Alba og Kollur, á móti henni, og bjóða henni græðslu. Ígra mælti: nú er so komið, frændkona; að eg hefi lífið á lagt um liðveizluna, og met eg það að aungn, þegar þú hefur feingið þinn vilja. Síðan segir hún til Kolls: far þú að hjálpa föður þínum, þar með skaltu græða Arkistratus kóng, því hann er ágætur maður, og er vel, að hann er frelsaður af vondum flagðahöndum, þar sem drottníng hans, Lúpa, var hið vesta tröll. Síðan kvaddi hún þau og óskaði þeim allra heilla; og hvarf so frá þeim í drekaham sinum. Þau systkin fara nú til valsins. Nú víkur sögunni til Arkistratus kóngs og Aspers risa, að þeir börðust í ákafa, og varð aldrei hlè á sókn þeirra, greiddi þar hvor öðrum stór högg. Tóku nú hlífar þeirra að höggvast, bárust þá á þá mörg sár og stór. Voru þeir orðnir ákaflega móðir, og furðaði alla, sem á sáu, hvað leingi þeir stóðu. Lauk so, að báðir flöktu sundur í sárum, og fèllu þeir þá lokains báðir í valinn, og lágu, sem dauðir væri. Nú leita þau systkin í valnum, og finna föður sinn og Arkístratus kóng, báða að bana komna af sínum sárum. Leggja þau sinn á hvorn vogn, og aka þeim so heim til borgar. Alba tekur þá báða til græðslu; er Kollur fer til laufskálans, og segir kóngssonum tíðindin. Eptir það fara þau öll til borgarinnar, og þykir þeim vel hafa skipast. Arkistratus kóngur og Asper risi lágu leingi í sárum, og vildu þau ærið seint gróa, sat Alba yfir þeim nótt og dag; hún var læknir góður, og hafði smyrsli þau beztu. Urðu þeir um síðir algræddir.


11. Kapítuli.

Nú er að segja frá Ígra kerlíngu. Eptir það hún skildi við þau systkin á skóginum, komst hún heim í helli sinn, var hún þá nær að bana komin. Hafði hún feingið mörg banvæn sár í viðskiptum þeirra Lúpu drottníngar, og lèzt hún degi síðar af þeim sárum. Varð hún mjög harmdauð af tröllum; heygðu þau bana, og véittu henni veglegan umbúnað, og þuldu yfir henni fræði sín. Nú víkur sögunni til Arkistratus kóngs og Aspers risa, að þeir eru grónir sára sinna, sættast þeir heilum sáttum, og gjörðist með þeim mikill vinskapur. Það var einn dag, að þeir kóngur og risi töluðust við: hver er sú kona; segir kóngur, sem mèr hefur græðslu veitt,og mèr dyggilega þjónað? Risinn svarar, það er dóttir min; móður hennar er önduð, hún var dóttir Gallusar kóngs af Smálöndum. Sókti móður mín hana á likan hátt, og Lúpa drottníng sókti Marmaríu kóngsdóttur, skildu þeir svo talið. Fær nú kongur stóran ástarhug til hennar, og gjörist hann nú hljóður. Einn dag, er þau Alba sátu saman, spyr kóngur hana: hverju mundir þú svara, ef eg beiddi þín mèr til drottníngar! Hún mælti: ei þarftu að leita þeirra ráða við föður minn, því Valdimar kóngsson á minni giptíngu að ráða; er því ekki að leyna, að eg geing með barni hans. Arkistratus kóngur stefnir þíng við kóngssyni, hefur kóngur þá aptur bónorð sitt til risadóttur, og var það auðsókt, tók Valdimar því vel, og fastnaði kóngi Albam með hennar vilja og ráði föður hennar. Hof þá Valdimar bónorð sitt til Flórídu, og tók kóngur því vel, og var það að ráði gjört. Bað þá Bláus kóngsson Marmaríu, og var því vel svarað. Skyldu öll þessi brúðkaup haldast í einu, að hálfu ári liðnu. Litlu síðar tók Alba jóðsótt og fæddi eitt sveinbarn mikið og fagurt; var það vatni ausið og nafn gefið, og kallaður Gallus eptir afa sínum; ólst hann upp hjá móður sinni, og varð mikill og sterkur. Lagðist hann í hernað, þá hann fèkk aldur til, og varð mesti frægðarmaður. Um síðir lagði hann að Smálöndum, og braut undir sig ríkið, og varð þar kóngur til ellidaga, og lýkur hèr frá honum að segja. Nú vikur sögunni til Risalands, lot kóngur stofna til veglegrar brúðkaupsveizlu, og bauð þar til öllum landshöfðíngium, og so úr fleirum löndum. Bjó nú Valdimar kóngason skip og menn, og sendi til Saxlands með brèf og boðskap til föður síns, og býður honum til brúðkaups síns með öllum sínum herrum. Þegar kóngur fær þann boðskap frá syni sínum, verður hann glaðari, en frá megi segia, því hann hafði aunga fregn af honum feingið, síðan hann burtu fór, og hafði hann fyrir satt, að börn sín væru bæði dauð. Býst nú kóngur til ferðar með sínum herrum, býr hann 20 skip, og siglir í haf. Fèkk hann goðan byr, og tók höfn nærri höfuðborginni; setur hann sín landtjöld á land. En sem þetta frèttist í borgina, geingur kóngur út á móti honum og báðir kóngasynir, verða þar blíðar kveðjur með þeim öllum. Leiðir kóngur hann til hallar, setur hann í hásæti hjá sèr. Rís nú upp mikil veizla; er nú sent eptir Marmaríu, kóngsdóttur, og þegar Filippus kóngur sèr dóttur sína, stendur hann upp í móti henni og tekur hana í fáng sèr, og er nú gleði í höllinni, meiri en frá megi segja. Er nú þessari veizlu snúið í brúðkaupsveizlu. Var þar ekkert sparað af því eptirlæti, sem veröldin veita kunni; voru nú alls kyns leikar framdir. Var nú drukkið fast, so risar gjörðust ölvaðir, heyrðist þá glaumur mikill í höllinni; veizlan stóð yfir í mánuð. Að henni endaðri voru allir með gjöfum út leystir. Gaf þá Arkistratus kóngur Bláusi syni sínum helmíng af ríkjum sínum; settist Bláus þar að völdum, og tók allt ríkið eptir föður sinn. Hann átti einn son með drottníngu sinni, sem hèt Arkistratus eptir afa sínum, varð hann mikill afreksmaður, og tók ríkisstjórn eptir föður sinn, og var þar leingi kóngur, og segir hèr ei meira um hann.

Filippus kóngur og Valdimar, son hans, vildu nú heim halda, kvöddu þeir kónga og drottníngar með mestu blíðu. Leysti Arkistratus kóngur út mund dóttur sinnar í gulli og silfri og mörgum fásènum gripum. Sigldu peir síðan á haf, og gekk þeim vel ferðin, þar til þeir komu til Saxlands, og fagnaði landslýður þeim blíðlega. Litlu síður tók Filippus kongur sótt, sem leiddi hann til bana, varð hann mjög harmdauði; því hann hafði verið stjórnsamur og vitur kóngur; var drottníng hans áður látin. Tók nú Valdimar kóngdóm i Saxlandi. Hann átti 2 syni og eina dóttur með drottníngu sinni; sá eldri sonur hans hèt Filippus, og tók hann síðan við ríkisstjórn eptir föður sinn. Yngri sonur hans hèt Albert; lagðist hann í hernað, þegar hann hafði þroska til, og varð kappi mikill. Dóttir hans hèt Rósamunda, og var hún afbragð annara meyja. Hún gíptist síðar Arkistratusi, syni Bláusar kóngs, og varð hún drottníng á Risalandi. Valdimar kóngur varð gamall, og stjórnaði ríki sínu til dauðadags. Ekki er þess getið, að Arkistratus kóngur og Alba drottníng ættu börn saman. Hèldu þessir vinskap saman til dauða síns. Og lýkur so þessari sögu.