Vatnsvitni

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Þjóðsögur og ævintýri frá Íslandi

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, hefti VII.
Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon.
Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945.


Vatnsvitni


Ýmis hjátrú loðir við sjóinn og vötnin, framar áður er talin, eins og við jörðina, og leyfi ég mér að nefna hana, svo sem hér er gert. Hefur sú trú meir myndazt fyrir eftirtekt en skyn og skilning, því mönnum hefur fundizt sér verða sumt eftir trú sinni og hafa svo "slegið föstu". Ýmislegt hafa menn þótzt sannprófa.
   Gamalt orðtak segir, að "sætur sé sjódauði, en vesall vatnsdauði". Eru bornir fyrir þessu menn, sem hafa komizt mjög hætt í hvorutveggja. Enginn ófróður maður getur þó dæmt um slíkt vitanlega. Helga, dóttir Hákonar Espólín, segist hafa talað við mann, er hafði verið á bát, sem fórst nærri landi og allir drukknuðu af, en alda kastaði honum einum á land, svo á sig komnum, að eigi sást líf með honum. Þó hjarnaði hann við og komst til manna, eftir að hafa legið lengi í dái. Helga segir hann hafa sagt, að það væri sú sælasta stund, sem hann hefði lifað, er hann lá í dáinu og volkaðist í sjónum. Hefði honum engum þolað vel að svipta þeirri sælu. Margar sagnir eru og til um menn, sem borgið hefur verið úr sjó, að þeir gátu eigi litið lífgjafa sinn, og er sögnin um síra Jón Stefánsson yngra þar glöggt dæmi. (Sjá þátt hans). Sumir segja, að þeir hati lífgjafa sína. Annað er víst að tala um þá, er bjargað er úr vötnum.
   Einkennilegt er sú trú, að vötn kjósi sér menn. Og flestir hafa þá forlagatrú, að eigi verði feigum forðað, né ófeigum í hel komið. Þó trúðu einstaka menn því, að hægt væri að komast fyrir forlögin og lifa fram yfir sína ákveðnu dauðastund.
   Gamli-Jón, sem sagði söguna af móður sinni, er sögð var hér áður í vítunum, var þá spurður: "Skrökvarðu nú ekki þessu, Jón minn?" "Ó, sei-sei, nei-nei," svaraði hann. "Það hefur komið eins ótrúlegt fyrir mig, heillin góð. Það er svo margt ótrúlegt sem er þó satt, elskurnar mínar." Sagði hann þá frá því, að hann varð fársjúkur; dróst þá ofan í flórinn til þarfinda sinna undir baðastofulofti, en valt í flórinn, og kvaðst hafa tekið tvö andvörpin og átt því aðeins eitt eftir, en það hefði hann ekki tekið, af því að honum varð borgið frá dauða í það sinn. Hann kvaðst því eigi myndi taka nema eitt andvarp, þegar hann dæi, því hann væri búinn að ljúka sér af með tvö. Menn hlógu að þessu" en karl var harður á sinni meiningu. Jón gamli svaf undir baðstofulofti á sama bæ, sem hann sagði söguna, og dó þar, en að engum viðveranda, svo að enginn vissi, hvort forsögn hans rættist.
   Þetta er náskylt því, sem sagt er um það, þegar síra Þorlákur lagðist banalegu sínu á Fossvöllum í Jökulsárhlíð. Hann kvaðst eigi geta dáið fyrr en hann fengi að smakka vatn úr Jökulsá, því að sér hefði verið ákveðið að drukkna í henni, en hestar sínir hefðu forðað sér frá því. Dó hann, þegar hann hafði bragðað vatnið úr ánni.
   Náskylt þessari trú hlýtur það að vera, er menn segja, að opin sé jafnan feigs vök, og að þar,sem menn drekkja sér, verði aldrei traustur ís, og sjáist þar jafnan blár blettur yfir, er maður, sem hefi drekkt sér, hafi fundizt þar undir. En þegar ís er ótraustari í einum en öðrum stað, án sýnilegra orsaka, bendir það á forlögin. Dæmi: Tjörn var nærri Bústöðum í Seltjarnaneshreppi, er maður grandaði sér í. Þar var einnat síðan óheill ís og blár blettur, er maðurinn fanst undir. Sýndist bláminn hafa lögun sem maður og var hann tóm ísfroða, og drap þar mörg skepna sig síðan í vökinni. (Sögn Maríu Jóhansdóttur, er þar var upptalin.)