Þiðreks saga af Bern - Endalok Viðga og Þiðreks konungs
Velg språk | Norrønt | Islandsk | Norsk | Dansk | Fornsvensk | Færøysk |
---|---|---|---|---|---|---|
Denne teksten finnes på følgende språk ► | ![]() |
![]() |
||||
![]() |
GUÐNI JÓNSSON
bjó til prentunarEndalok Viðga og Þiðreks konungs
Eftir Þiðrekskroníku hinni sænsku
439. Viðga settist að á Sjálandi.
(445) Svo sem fyrr var frá sagt, flýði Viðga Velentsson fyrir Þiðreki af Bern og sökk í sjóinn við Gransport. Þá kom til hans sækona, föðurföðurmóðir hans, tók hann og flutti hann til Sjálands, og þar var hann langa stund. Þá er hann spurði, að Þiðrekur af Bern var orðinn keisari í Róm og réð yfir voldugu konungsríki, þá settist hann að á ey einni, er Fimber heitir, gerði sér þar bæ, en reisti turn lítinn við sundið og setti þar við ferjumann. Hann lét gera líkneski eitt í mynd Þiðreks af Bern og bannaði ferjumanni að flytja nokkurn þann mann yfir sundið, sem slíkan skapnað hefði.
440. Fundur Þiðreks ok Viðga.
(446) Þiðrekur af Bern fór að leita Viðga með leynd og fýsti mjög að hefna bróður síns. Hann hafði með sér sveina tvo og ekki annað föruneyti. Loks kom hann að sundinu, er fyrr var nefnt, og var þegar ferjaður yfir það. Þá sá ferjumaður, að hvorttveggja hafði hinn sama skapnað, líkneskið og hann, og mælti til hans:
"Eg verð að flytja þig héðan aftur. Þér er bannað að koma í þessa ey."
Síðan flutti ferjumaður hann aftur til Rygjar. Skildi Þiðrekur þá gerla, hvað í efni var, en heldur vildi hann deyja en hefna eigi bróður síns. Því næst gekk hann til kaupstaðar nokkurs og lét lækni einn stinga úr sér annað augað. Þá er hann var heill orðinn, fór hann til sundsins aftur. Var hann samstundis fluttur yfir á eyna, og leyfði ferjumaður honum að fara hvert er hann vildi.
Þá gekk hann til bæjar Viðga og kom með leynd inn í hús hans, þar er hann stóð við rekkju sína og klæddist. Engi var þar inni nema Viðga einn. Þá er Þiðrekur kom inn úr dyrunum, sá hann, hvar sverð Viðga, Mímungur, lá á kistu einni. Hann tók sverðið, dró það úr slíðrum og skaut því upp í ræfrið, svo að það stóð þar fast.
Þá er Viðga sá herra Þiðrek og þekkti hann, fagnaði hann honum vel og féll á kné fyrir honum og bauð sig og allt sitt góz í hans vald.
Herra Þiðrekur svaraði: "Síðan er við skildumst við Gransport, þá er þú hafðir drepíð bróður minn og mína jungherra, sonu Attila konungs, þá hefi eg fest þá hugsun mér í brjósti, að þú skyldir aldrei fá frið af mér, hvar sem eg fyndi þig. Því vopna þig skjótt og far í brynju þína og ver þig, sem þú mátt."
Viðga svaraði: "Fá mér sverð mitt Mímung."
Herra Þiðrekur kvað þess engan kost. "Tak annað gott sverð, það er þú hefir bezt."
Þá vopnaðist Viðga, og eftir það gengu þeir saman og börðust langa hríð, unz Viðga féll dauður fyrir framan rekkju sína.
441. Dauði Þiðreks konungs af sárum.
(447) Herra Þiðrekur hafði mörg sár og stór. Þá tók hann niður sverðið Mímung og hélt því næst yfir Holstein og yfir Saxland. Sár hans sullu og kom skjótt drep í þau. Þá er hann kom í Svava, fann hann, að hann gat eigi lifað lengur. Hann gekk þá fram með á einni eða vatni. Þá dró hann sverðið Mímung úr slíðrum og kastaði því svo langt út í vatnið sem hann mátti, og kom það aldrei síðan í nokkurs manns hendur. Síðan gekk hann inn í borg eina, sem Hofferð nefnist, og lá þar um nóttina. Þá er hann fann, að dauðinn nálgaðist óðum, þá fyrirbauð hann sveinunum tveimur, er fylgdu honum, að segja nokkurum manni, hver hann var. Litlu síðar andaðist hann af sárum þeim, er Viðga Velentsson hafði veitt honum, og var jarðaður sem kaupmaður í sömu borg.
Sveinar hans héldu heim til Rómar og þorðu fátt að segja af ferðum sínum vegna síns volduga herra. En það vissu allir í Danmörk, að Viðga var drepinn í sínu eigin húsi og engum var kunnugt um banamann hans. Það vissu og þýðverskir menn, að Þiðrekur konungur kom aldrei framar í sitt ríki, síðan er hann reið frá baði því, er enn kallast Þiðreksbað. Því hafa allir Rómverjar það fyrir satt, að Þiðrekur hafi látið líf sitt með þeim hætti, er nú var sagt.
442. Sögusagnir um burtför Þiðreks.
(448) Keisari einn var í Róm, sein Heinrekur hét. Faðir hans hét Fippoldi hertogi af Borgundia. Hann sagði svo, að Þiðrekur léti ala upp hest einn í myrku jarðhúsi, þar til er hann var sjö vetra gamall. Og þá er hann var í baði, lét hann sleppa honum, en annan hest, sem Alibrandr gaf honum, lét hann standa bundinn þar nálægt, og annan hest með sama lit lét hann í sitt eigið hesthús. Þeim hestum riðu sveinarnir eftir honum, og var þetta gert leynilega ef tir ráðum herra Þiðreks, er hann fór þann veg úr ríki sínu, því að hefði hann gert kunnugt um burtför sína, þá hefðu þar meiri sögusagnir af farið og hefði hann þá eigi fundið Viðga Velentsson deo gratias.