Skýringar við myndirnar (Fyrsta bindi)
Velg språk | Norrønt | Islandsk | Norsk | Dansk | Svensk | Færøysk |
---|---|---|---|---|---|---|
Denne teksten finnes på følgende språk ► |
GUÐNI JÓNSSON
og
BJARNI VILHJÁLMSSON
sáu um útgáfuna
Fyrsta bindi
Í þessari bók eru tvenns konar myndir. Í fyrsta lagi myndir af forngripum og skrautverki, er einkennir þær aldir, sem fornaldarsögurnar gerast á, og í öðru lagi miðaldamyndir af atburðum úr lífi fornkappanna. Fátt er þó til slíkra mynda, og eru flestar þeirra um efni Völsunga sögu.
Myndin á hlífðarblaði bókarinnar er af stefni Ásubergs-skipsins, áður en það var tekið úr haugnum. Er nánar getið um það í skýringum við mynd á móti bls. 32.
Litmyndin fremst í bókinni er af víkingaflota á siglingu. Er þetta vatnslitamynd eftir sænska málarann G. Gottorp, og hefir hann haft norsku víkingaskipin frá Ásubergi og Gauksstöðum til fyrirmyndar. Á móti upphafi Völsunga sögu, bls. 2, er mynd af ríðandi manni í bardaga við orm eða dreka. Maðurinn hefir spjót að vopni, og fylgja honum fuglar tveir. Þetta er Óðinn á hesti sínum, Sleipni. Spjótið er Gungnir, vopn Óðins, en fuglarnir hrafnar hans, Huginn og Muninn. Óðinn var kallaður ættfaðir Völsunga, eftir því sem segir í upphafi sögunnar. Mynd þessi er á fornum hjálmi, er fannst í konungsgröf á Vendli í Upplandi í Svíþjóð. Mun hjálmurinn vera frá 7. öld ofanverðri.
Skrautborðarnir ofan við sögurnar eru einnig gerðir eftir ýmsu skrautverki úr konungagröfunum á Vendli og eru frá sama tima og Óðinshjálmurinn. Er sumt af hjálmum, en annað eru bronslengjur með fornnorrænu verki, sem hafa verið til skrauts á skjöldum, sverðsfötlum og reiðtygjum. Gefa þessir skrautborðar afbragðs góða hugmynd um skreytistíl þessara alda.
Á móti bls. 32 er mynd af skipi því hinu fræga, er grafið var upp úr fornkonuhaugi á Ásubergi á Vestfold í Noregi. Skip þetta er 21 m. að lengd, 5 m. breitt og hefir haft 15 árar á borð. Sennilega hefir því ekki verið siglt milli landa, heldur aðeins með ströndum fram. Mun það hafa verið skemmtisnekkja drottningar, ömmu Haralds hárfagra. Hún mun hafa verið heygð í skipi sínu um miðja 9. öld.
Fyrir framan bls. 33 er mynd af vagni úr búslóð Ásu drottningar. Var hann í skipinu ásamt mörgum öðrum gripum. Líklegt þykir, að vagn þessi sé helgivagn, sem notaður hafi verið til að aka goðalíkneskjum í.
Ævi Sigurðar Fáfnisbana var vinsælt efni í myndlist fornaldar og miðalda, ekki síður en í kvæðum og sögum. Ein hin frægasta mynd þessa efnis er Sigurðarrista sú, sem hér er á móti bls. 48. Er hún klöppuð á svonefnt Ramsundsberg í Suðurmannalandi í Svíþjóð og mun vera frá öndverðri 11. öld. Rúnaletrunin er á þessa leið: "Sigríður gerði brú þessa, móðir Alreks, dóttir Orms, fyrir sál Hólmgeirs, föður Sigröðar, bónda síns." Myndin sýnir Sigurð, þar sem hann leggur orminn með sverði sínu. Þá sést einnig á myndinni, talið frá vinstri: Reginn og höfuð hans afhöggvið, smíðatól hans, Sigurður, þar sem hann steikir hjarta Fáfnis og drepur fingri á tungu sér, og loks Grani bundinn við tré, en igðurnar sitja í limi trésins.
Framan við bls. 49 er mynd at gotlenzkum myndsteini. Er mikill aragrúi slíkra steina í Svíþjóð, en þó einkum á Gotlandi. Flestir eru þeir frá 10. og 11. öld.
Á bls. 83 eru tvær tréskurðarmyndir frá miðöldum. Myndin til vinstri sýnir þjón Atla, þar sem hann sker hjartað úr Högna kvikum, en til hægri sést Gunnar í ormagarðinum. Hendur hans eru bundnar, en hörpuna slær hann með tánum. Myndir þessar eru úr Ostad-kirkju í Noregi.
Á bls. 91, undir Völsunga sögu, er skrautnæla úr silfri. Fannst hún í Þrændalögum í Noregi og er skreytt í fornnorrænum ormastíl. Slíkar nælur voru mjög í tízku meðal germanskra þjóða á þjóðflutningatímunum. Gátu þær verið geysistórar, t. a. m. er þessi rúmir 23 cm. að lengd. Hún er frá 6. öld.
Gegnt upphafi Ragnars sögu loðbrókar er mynd af tveimur norskum hálsmenjum frá víkingaöldinni. Hið stærra er úr gulli og vegur 1105 gr., en hið minna úr silfri og vegur 563 gr.
Myndin á bls. 134 er af enskum myndsteini frá eynni Lindesfarne við austurströnd Skotlands. Þar var fyrsta klaustrið, sern norrænir víkingar ræntu vestan hafs, svo að vitað sé. Það var árið 793. Myndin sýnir víkingana, er þeir ganga á land og hafa á lofti axir og sverð. Ragnar loðbrók og synir hans koma mjög við sögu víkingaferðanna til Englands.
Gegnt upphafi Þáttar af Ragnars sonum er mynd af hermönnum tveimur. Hún er af hjálmi frá Vendli, sama stað og tíma og fyrr getur.
Framan við titilblað Norna-Gests þáttar er mynd af hjálmi úr konungagröfunum á Vendli frá seinni hluta 7. aldar. Myndin aftan á titilblaðinu er tekin af hjálmi þessum og sýnir einvígi milli tveggja manna með sverð og skjöldu.
Framan við titilblaðið Hervarar sögu ok Heiðreks er mynd af sænsku gullhálsmeni. Er hin mesta dvergasmíð, sett saman úr fimm hringum og alsett smágerðu víravirkisskrauti. Menið fannst á eynni Eylandi í Eystrasalti og er að öllum líkindum frá 7. öld. Aftan á titilblaðinu eru sverðshjölt frá konungagröfunum á Vendli. Klótið vantar, en sjá má, að hringur hefir verið í eftra hjaltinu. Í Helga kviðu Hjörvarðssonar hefir geymzt minning um slík sverð: "Hringr's í hjalti, hugr's í miðju, ógn's í oddi." Sverð þessi eru frá 7. öld ofanverðri.
Á bls. 240 er mynd af norskum fornmannshaug. Eru slíkir haugar í þúsunatali um öll Norðurlönd frá ýmsum skeiðum fornaldarinnar.
Undir Hervarar sögu ok Heiðreks, bls. 242, er lítil silfurmynd af konu sem ber fram drykkjarhorn. Myndin er sænsk og er frá víkingaöldinni.
Myndirnar framan við Ketils sögu hængs og Gríms sögu loðinkinna eru báðar í sama stil, báðar sænskar, gerðar úr bronsþynnum með þrýstu verki. Þær eru að öllum líkindum frá 7. eða 8. öld. Það er ekki auðvelt að skýra, af hverju þessar myndir eru. Dýrin eru einna líkust björnum, en þó geta myndirnar eins vel verið af einhverri viðureign við óvættir, sem gerzt hefir í forneskju.
Undir Gríms sögu loðinkinna, bls. 280, er mynd af vopnuðum manni. Hún er á rúnasteini í Austur-Gautlandi og sýnir vel búning karla á víkingaöld, eins og myndin á bls. 242 sýnir kvenbúninginn.
Hjálmurinn á bls. 282, framan við Örvar-Odds sögu er úr konungagröfunum á Vendli. Hann er skreyttur Óðins myndum. Hjálmur þessi er úr járni nema skrautfletirnir, sem eru úr bronsi.
Myndin gegnt bls. 320 er af skipi, er gert var eftir víkingaskipi, sem grafið var upp úr fornkonungshaug á Gauksstöðum á Vestfold í Noregi. Er það 24 m. langt og 5 m. breitt miðskips. Þetta er réttnefnt langskip með 16 árar á borð, sextánsessa. Skipið er frá 9. öld. Var heygður í því konungur, sennilega Ólafur Geirstaðaálfur, nálægt aldamótunum 900.
Gegnt bls. 321 er mynd af einum sleða Ásu drottningar, en hún hafði fengið fjóra sleða með sér í hauginn. Auk bess hafði hún með sér skip og vagn og 14 hesta, svo að fótgangandi hefir hún ekki átt að fara för þá, er hún átti fyrir höndum.
Drekahöfuðið gegnt bls. 336 er einnig frá Ásubergi. Voru fleiri slík í hauginum. Á öllum þessum munum frá Ásubergi má sjá, hve frábærlega hagir skurðlistarmenn Norðurlandabúar voru á víkingaöld. Má rekja þróun stílsins stig af stigi í listaverkum þessum.
Á bls. 399, undir Örvar-Odds sögu, er mynd af bronskringlu eða hnappi ofan af skjaldarbólu. Er gripur þessi úr margnefndum konungagröfum á Vendli. Hann erer skreyttur í sama stíl og margir skrautborðarnir. Er stíll þessi oft kenndur við Vendil og kallaður yngri Vendil-still.
Gegnt upphafi Áns sögu bogsveigis er mynd af norskum sverðshjöltum frá víkingaöld. Er þetta fremur fágæt tegund, enda íburðarmikil.
Loks er aftast í bókinni, undir Áns sögu mynd af bogmanni, sem sveigir boga sinn. Myndin er norsk, líklega frá miðöldum.
KRISTJÁN ELDJÁRN.