Skýringar við myndirnar (Annað bindi)

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Fornaldarsögur Norðurlanda


GUÐNI JÓNSSON
og
BJARNI VILHJÁLMSSON
sáu um útgáfuna


Skýringar við myndirnar
Annað bindi


Fremst í bindinu, gegnt, upphafi Hrólfs sögu kraka, er mynd af eftirlíkingum tveggja gullhorna, sem fundust nálægt Gallehus í Suður-Jótlandi, annað árið 1639, en hitt 1734. Það má fullyrða, að drykkjarhorn þessi séu víðfrægustu munir, sem fundizt hafa frá fornöld Norðurlanda. Þau hafa í öndverðu verið eins að lögun, en mikið vantaði á stikil þess, er síðar fannst. Stóra hornið var 87 cm. langt, en litla 55 cm. Þau voru bæði tvöföld, þannig að hornið sjálft var slétt og steypt í einu lagi úr gull­blöndu, en utan um voru felldir margir hólkar úr skíru gulli. Voru þeir skreyttir upphleyptum myndum manna og dýra, en áflötinn milli þeirra voru krotaðar eða stungnar myndir og skraut­verk. Borðarnir ofan við sögurnar í þessu bindi eru gerðir eftir myndunum af þessum hólkum, hverjum um sig. Þessar myndir eru enn óráðnar gátur, og þó hafa skarpskyggnir fræðimenn og jafn­vel skáld brotið um þær heilann jafnt og þétt, síðan hornin fund­ust. En rnenn eru á einu máli urn, að þær séu goðsögulegs efnis og sýni á frumstæðan hátt nokkur meginatriði úr trú og goðsögum norrænna manna á tímum hornanna. Skrautverkið sýnir að þau eru norræn smíð frá 5. öld. Kringum barm litla hornsins var letrað með fornum rúnum: "Ek Hlewagastir Holtijar horna tawiðo," sem merkir: "Ek Hlégestur Hyltir gerði hornið." ((Hyltir: frá Holti eða sonur Holta.)
   Gullhornin frá Gallehus eiga ævintýralega sögu. Ung stúlka fann fyrra hornið. Hun færði það kónginum, Kristjáni 4., en hann gaf syni sínum fyrir drykkjarhorn. Seinna hornið fann fátækur bóndi eða húsmaður. Þegar hann sá hornið glóa í moldinni, fylltist hann slíkum fögnuði, að hann hrópaði til konu sinnar: "Í dag á ég svei mér skilið brennivín!" Seinna komust bæði hornin á listasafnið (Kunstkammeret), og þaðan var þeim stolið árið 1802. Það hafð­ist þó brátt upp á þjófnum, en hann hafði þá þegar brætt hornin upp. Þá gerði skáldið Oehlenschlåger merkilegt kvæði um gull­hornin. Til voru sæmilegar teikningar af hornunum, og eftir þeim voru eftirlíkingarnar gerðar.
   Á bls. 25 er mynd af þremur miklum haugum við Uppsali hina fornu í Svíþjóð. Þeir eru í daglegu tali kallaðir Oðinshaugur, Freys­haugur og Þórshaugur, en það eru nöfn, sem eiga rót sína að rekja til bollalegginga lærðra manna á 17. öld. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að þeir eru allir frá 6. öld, og telja menn líklegt að í þeim séu heygðir Ynglingakonungarnir Aun, Egill og Aðils, sem Þjóð­ólfur kveður um í Ynglingatali.
   Á bls. 48 er mynd af víkingaborg, sem danskir fornfræðingar hafa grafið upp, þar sem heitir Þrælaborg á Vestur-Sjálandi. Borgin hefur verið kringlótt, 136 m. í þvermál. Utan um hana er virkisgarður mikill, 17 m. þykkur. Á honum eru fjögur hlið, sem vita móti höfuðáttunum fjórum, en á milli hliðanna liggja tvær götur þvert yfir borgarflötinn og skipta honum í fjórðungsgeira. Í hverjum geira hafa staðið fjórir skálar í hornréttan ferhyrning, og er þessu öllu niðurskipað með stærðfræðilegri nákvæmni. Utan við virkisvegg­inn hefur verið virkisgröf, og utan við hana hafa verið enn önnur hús og auk þess grafreitur borgarbúa. Skálarnir hafa allir verið eins, aflangir með lítið eitt bogadregnum langhliðum, gerðir úr lóðréttum stöfum eins og norsku stafkirkjurnar. Borgin er vafa­laust frá 10. öld og er óvenju merkilegur vitnisburður um líf víkinganna. Manni verður hugsað til Jómsborgar, sem fræg er í sögum, þótt enginn viti með vissu, hvar hún hefur verið. Þar hefur verið áþekk tilhögun og í Þrælaborg.
   Á bls. 57 er mynd af skipi, sem fannst í mýri einni í Nydam í Suður-Jótandi ásamt fjölmörgum öðrum gripum. Hafa fornmenn haft átrúnað á mýrinni og fært guðum sínum þar fórnir. Skipið er sennilega frá 4. öld og er stórmerkur áfangi í sögu skipasmíðanna á Norðurlöndum. Lengd er 23 m., en breiddin 3.25 m. miðskips. Umförin eru aðeins 5, gerð úr geysimiklum eikarflettingum. Skipið er súðbyrt og nelgt með rónöglum úr járni, en böndin eru aftur ámóti reyrð við umförin með streng eða reipi, sem þrætt er gegnum oka, sem eru höggnir út innan á borðunum. 15 árar eru á borð auk stýrisárarinnar. Það er fróðlegt að bera þetta skip saman við víkinga­skipin frá Ásubergi og Gauksstöðum (sbr. skýringar í I. bindi) og sjá, hve mjög skipasmíðalistinni hefur fleygt fram á þeim 4-5 öldum, sem á milli eru.
   Myndin á bls. 64 er af 10. aldar gangsilfri frá Gotlandi. Allt fannst það í einu lagi og gefur afbragðs góða hugmynd um sjóði þá, sem oft er talað um í fornum sögum auk þess sem það sýnir, hve víðtæk sambönd víkingarnir höfðu við fjarlægar þjóðir. Þarna ægir saman þýzkum engilsaxneskum, býsönzkum og arabískum myntum auk brotasilfurs úr hringum og sylgjum og ómótaðs stangasilfurs. Silfrið var vegið á metaskálum, því að fornmenn kunnu ekki að nota gjaldmynt. Gull var fremur fátítt Norðurlöndum á víkinga­öld, en silfur mjög algengt. Á bls. 93 er mynd af danskri víravirkisnælu úr silfri. Slíkar skraut­nælur voru alltíðar á 10. öld.
   Skrautkringlur eins og sú sem myndin er af á bls. 110, eru oftast kallaðar gullkingur en ef til vill eru það þær, sem kallaðar eru brjóstkringlur í Völundarkviðu, því að þær hafa verið bornar í festi um hálsinn. Venjulega er á þeim álappaleg mannsmynd (sbr. mynd­irnar gegnt upphafi Hrómundar sögu og Göngu-Hrólfs sögu), en stundum eru þær aðeins með norrænu skrautverki, og þá er hand­bragðið allt öruggara. Mannsmyndirnar eru norrænar stælingar á keisaramyndinni á rómverskum gullpeningum. Oft er rúnaletur á hringunum, enda hafa menn vafalaust talið, að heill fylgdi þeim. Kingur þær, sem myndir eru af í þessu bindi, eru allar danskar, frá tímabilinu 500-700.
   Á bls. 112, gegnt upphafi Sögubrots, er mynd af dönskum Þórs­hamri í silfurfesti. Verndargripi eins og þennan báru heiðingjar um hálsinn, eins og kristnir menn krossmarkið.
   Andspænis Hversu Noregr byggðist, bls. 136, er rnynd af dögg­skó með 10. aldar skrautverki. Þessi gripur er norskur, en annars var fátítt að búa slíðrin slíkum döggskóm, og var þá í þess stað stundum vafið skinnreim um þann enda þeirra, er niður vissi.
   Framan við Hrólfs sögu, bls. 158, er dönsk skrautnæla frá flutningatímanum, skreytt í fornum dýrastíl.
   Myndin andspænis upphafi Þorsteins sögu Víkingssonar er af litlum silfurbikari úr öðrum konungshaugnurn í Jalangri á Jótlandi (sbr. skýringuna á myndsteininum III. bindi). Á hann eru grafnar einkennilegar bandlaga dýramyndir, og dregur sá stíll nafn af bik­arnum og kallast Jalangursstíll. Á bls. 221 er mynd af finnskum spjótsoddi frá 10. öld. Spjót voru afar algeng í vopnabúnaði fornmanna, og var ein gerðin með tveim­ur vængjum út úr falnum, eins og myndin sýnir.
   Myndin gegnt upphafi Friðþjófssögu er af stærsta gullhálsmeni, sem til er frá fornöld Norðurlanda. Það fannst á eynni Falstri og er frá 5. eða 6. öld.
   Á bls. 253 er safn af munum, sem allir fundust í sömu gröf á Heið­mörk í Noregi. Hafa þeir verið lagðir í haug með víkingi á 10. öld. Það var venja, að frjálsbornum karli væri til farar gefið alvæpni, sverð, spjót, öxi, örvaroddar og skjöldur, en konum skartgripir. Ríku­legar víkingaaldargrafir á borð við þessa hafa fundizt svo þúsundum skiptir á Norðurlöndum, en eru mjög sjaldgæfar á Íslandi.
   Framan við Hrómundar sögu er mynd af danskri gullkingu, sjá skýringu við bls. 110.
   Gegnt upphafi Ásmundar sögu er sama mynd og á bls. 136, sjá skýringu við hana.
   Gegnt upphafi Sturlaugs sögu er sama mynd og á bls. 158, sjá þá skýringu.
   Á bls. 333 er mynd af gripasamstæðu úr norskri konugröf frá vík­ingaöld. Auk skartgripa sinna hefur hún fengið með sér ýmsa hvers­dagslega nauðsynjahluti. Á víkingaöld voru konur búnar undir lífið hinum megin með engu minni rausn en karlar.
   Myndin andspænis upphafi Göngu-Hrólfs sögu er af danskri gull­kingu, sjá skýringu við bls. 110.
   Myndin á bls. 406 er af frægu skríni frá bænum Cammin á Norður­Þýzkalandi. En samt er það eflaust norrænt að uppruna, því að skraut­verk þess er í Jalangursstíl. Skrínið sjálft er úr tré, en búið gröfn­um elghornsþynnum með bronslistum á milli. Það er mjög merki­legur forngripur, vegna þess að það er eins og hús í lögun, og má óhætt ráða mikið um útlit norrænna víkingaaldarhúsa af því, t. d. Þrælaborgarhúsanna (sjá skýringu við bls. 48). Þá er skrínið ekki síður merkilegt vegna þess, að Snorri talar um það í Heimskringlu (Sigurðar sögu, 32. kap., og Magnúsar sögu blinda, 11. kap.). Sigurð­ur konungur Jórsalafari efldi mjög staðinn í Konungahellu. Þar lét hann gera krosskirkju, sem brátt auðgaðist að dýrgripum, og m. a. sendi Eiríkur eimuni Danakonungur henni skrín eitt vandað. En dýrðin stóð ekki lengi, því að 1135 ræntu Vindur Konungahellu og létu greipar sópa um gersimar kirkjunnar. Herfangið höfðu þeir með sér suður yfir Eystrasalt, og sú er ástæðan til þess, að skrínið góða úr krosskirkju Sigurðar konungs var niður komið í þýzkri dóm­kirkju við mynni Óderfljóts, er það kom aftur í leitirnar.
   Myndin framan við Bósa sögu er af sænskri skrautþynnu úr bronsi með þrýstu verki. Sjá annars skýringu á myndinni framan við Gríms sögu loðinskinna í I. bindi.

KRISTJÁN ELDJÁRN.