Formáli (Annað bindi)

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Fornaldarsögur Norðurlanda


GUÐNI JÓNSSON
og
BJARNI VILHJÁLMSSON
sáu um útgáfuna


Formáli
Annað bindi


Sögur þær, sem birtast í þessu bindi, munu allar nema þrjár hinar síðustu teljast til þeirra fornaldarsagna, sem hafa einhvern sögulegan kjarna að geyma. Eru sumar þeirra harla merkilegar í sagnheimi norðurþjóða. Meðal þeirra má einkum nefna Hrólfs sögu kraka, Sörla þátt, Sögubrot af fornkonungum, Hálfs sögu og Ásmundar sögu kappabana. Nafnkunnar og ágætar á ýmsan hátt eru og Þorsteins saga Víkingssonar og Friðþjófs saga hins frækna, sonar hans, sem er, eins og kunnugt er, uppistaðan í hinum frægu söguljóðum með sama nafni eftir sænska skáldið Esaias Tegnér. Þá er hér Hrómundar saga Gripssonar, sem skemmt var með í brúðkaupsveizlunni á Reykjahólum árið 1119 og er fyrsta fornsagan, sem vér heyrum getið um hér á landi. Þrjár síðustu sögurnar í bindinu eru skáldsögur. Sturlaugs saga starfsama og Göngu-Hrólfs saga eiga saman, því að þessir kappar eru taldir feðgar. Gerast í þeim sögum margir atburðir stókostlegir og furðulegir, þar sem slíkir eigast við sem Sturlaugur og Kolur krappi, Göngu-Hrólfur og Grímur ægir. Bósa saga rekur lestina og munu þeir fáir vera, sem ekki hafa heyrt hennar getið. Allar eru sögur þessar ritaðar til skemmtunar og gamans mönnum, hvert sem efni þeirra er, og verður að meta þær í samræmi við það. En að öðru leyti verður að vísa til þess, sem um fornaldarsögurnar segir bæði almennt og í einstökum atriðum í formála I. bindis, þótt þar sé að vísu nokkuð fljótt yfir farið. Hér skal aðeins gera grein fyrir texta sagnanna í bindi þessu í aðalatriðum.
   Hrólfs sögu kraka og kappa hans er eingöngu til í pappírshandritum. Hið bezta þeirra er AM 9, fol., sem er ritað nálægt miðri 17. öld af hinum ágæta og vandvirka skrifara, síra Jóni Erlendssyni í Villingaholti. Mun síra Jón hafa ritað söguna eftir skinnbók, sem síðar hefir glatazt. Eftir þessu handriti er sagan prentuð bæði í Fas I og í útgáfu Finns Jónssonar, Khöfn 1904, og er þeim texta einnig fylgt í þessari útgáfu.
   Sörla þáttr eða Heðins saga og Högna er í Flateyjarbók, og er textinn hér borinn saman við hina ljósprentuðu útgáfu Flateyjarbókar, Khöfn 1930.
   Sögubrot af nokkurum fornkonungum í Dana- og Svíaveldi er varðveitt í einu skinnhandriti, AM 1 EB I fol., og er sagan alls staðar prentuð eftir því. Hér er fylgt útgáfunni í Anti­quités Russes I, bls. 66-86, er virðist vönduð og nákvæm. Því miður vantar í þessa merkilegu sögu bæði upphaf hennar og endi og einnig kafla úr henni miðri. Í brotum þeim, sem varðveitzt hafa, er m. a. lýst Brávallabardaga, sem mjög er frægur í fornum sögum.
   Frá Fornjóti og hans ættmönnum er samheiti á tveim stutt­um þáttum, sem hafa mestmegnis ættartölur inni að halda og nefnast Hversu Noregr byggðist og Fundinn Noregr. Báðir þessir þættir eru í Flateyjarbók, og er texti þeirra að sjálfsögðu borinn saman við ljósprentuðu útgáfuna, Khöfn 1930. Með sameiginlegu titilblaði er hér prentaður þátturinn Af Upplendinga konungum. Hann er varðveittur í Hauksbók og prent­aður hér eftir Hauksbókarútgáfunni, Khöfn 1892-1896.
   Hálfs saga og Hálfsrekka er til í einu skinnhandriti, Gl. kgl. saml. 2845, 4to, og eru útgáfur sögunnar byggðar á því. Hér er farið eftir útgáfu A. Le Roy Andrews, Halle 1909 (Alt­nordische Saga-Bibliothek, nr. 14).
   Þorsteins saga Víkingssonar er varðveitt í ýmsum skinnhand­ritum frá 15. old, og er AM 152, fol., einna merkast þeirra. Eftir því handriti er sagan gefin út í Fas I, og er þeirri útgáfu fylgt hér.
   Friðþjófs saga ins frækna er varðveitt í tveimur gerðum. Eldri og styttri gerðin er í skinnbókinni AM 510, 4to, frá 15. öld. Handrit þetta er prentað í vandaðri, stafréttri útgáfu í Sagan och rimorna om Friðþjófr hinn frækni eftir Ludvig Larsson, Khöfn 1893. Þenna texta höfum við lagt til grund­vallar þessari útgáfu okkar. Því miður er handritið hvergi nærri svo gott sem skyldi, og verður því ekki komizt hjá að lagfæra texta þess á ýmsum stöðum. Höfum við í því efni einkum stuðzt við útgáfur þeirra Ludv. Larssons, Halle 1901, og Gustafs Wenz, Halle 1914 (Altnordische Saga-Bibliothek), auk fyrrnefndrar útgáfu Larssons. Meðal annars eru vísurnar sumar hverjar allmjög úr lagi færðar. Sem sýnishorn að vísu af lakara taginu höfum við prentað vísuna efst á bls. 256 óbreytta eftir handritinu. - Í Fas I eru báðar gerðir Friðþjófs sögu prentaðar, en í Fas 2 styttri gerðin eftir pappírshandriti frá 17. öld, JS 27. fol. í Landsbókasafni.
   Hrómundar saga Gripssonar er aðeins til í pappírshandrit­um. Er hér fylgt textanum í Fas I, sem er prentaður eftir AM 587, 4to.
   Ásmundar saga kappabana er varðveitt í heilu líki aðeins í einu skinnhandriti Sth. 7, 4to, frá miðri 11. öld, en brot er einnig til af henni í AM 586, 4to, frá 15. öld. Eftir hinu fyrr­nefnda handriti hefir Sagan verið gefin út. Er hér fylgt útgáfu F. Detters í Zwei FornaldarsOgur, Halle 1891.
   Sturlaugs saga starfsama er til á tveim skinnbókum frá því um eða eftir 1400, AM 335, 4to, og AM 589F, 4to. Hið fyrrnefnda mun vera best af handritum Sturlaugs sögu, en það er svo máð á köflum, að vart eða ekki verður lesið, en hið síðarnefnda vantar í. Í Fas I er því hvorugt þessara handrita lagt til grundvallar útgáfunni, heldur AM 173, fol., sem er Pappírshandrit frá því um 1700 með hendi Ásgeirs Jónssonar, en hliðsjón höfð af skinnbókunum og nokkurar leiðréttingar gerðar eftir þeim. Hér er sagan prentuð eftir þeim texta, þar eð annars var ekki kostur.
   Göngu-Hrólfs saga er varðveitt í þremur skinnbókum frá 15. öld, AM 152, fol, Gl. kgl. saml. 2845, 4to, og AM 589F, 4to. Hér er sagan prentuð eftir útgáfunni í Fas I, en þar er hið fyrstnefnda handrit lagt til grundvallar. Formálinn fram­an við söguna er tekinn úr síðastnefnda handritinu. Er hann svo merkilegur, að honum vildum við ekki sleppa, enda þótt efni hans komi að nokkuru leyti fram í niðurlagi sögunnar í handriti því, sem fylgt er í útgáfunni.
   Bósa saga ok Herrauðs er til í tveim gerðum líkt og Friðþjófs saga. Eldri sagan er varðveitt heil eða í brotum í fjórum skinnbókum frá 15. öld, AM 586, 4to, AM 343A, 4to, AM 510, 4to, og AM 577, 4to. Yngri sagan er aðeins til í pappírshandritum frá 17. öld, enda er talið, að sú gerð sögunnar sé ekki eldri en frá þeim tíma. Hér er að sjálfsögðu valin eldri og upphaflegri gerð sögunnar, og er engu úr henni sleppt, þótt svo sé gert í Fas I og Fas 2, efalaust af feimnisástæðum. Hér er fylgt óbreyttum textanum í hinni vísindalegu útgáfu O. L. Jiriczeks, Strassburg 1893, en þar er lagt til grundvallar handrit er fyrst var talið.

Reykjavík, 29. sept. 1944.

GUÐNI JÓNSSON.